Sticky teryaki tófú með brokkólí og sesamfræjum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að guðdómlega góðu sticky teryaki tófú með brokkólí, vorlauk og sesamfræjum. Dásamlega braðgóður, einfaldur og saðsamur réttur sem tekur aðeins 20 mínútur að útbúa og inniheldur örfá hráefni.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Kikkoman á Íslandi og hvítlauks teryakisósan þeirra gegnir lykilhlutverki í réttinum. Það er mikill heiður að fá að vinna með Kikkoman því við systur höfum notað vörurnar frá þeim í mörg ár.

Þessi réttur er einn af þeim sem tekur bókstaflega enga stund að skella í, en smakkast alls ekki svoleiðis. Tófúið er einfaldlega steikt á pönnu ásamt engiferinu, brokkólíið gufusoðið og svo er sósan sett á ásamt maísmjöli. Tófúið er svo borið fram með grjónum, vorlauk, sesamfræjum og kóríander. Einfaldara gerist það ekki!

Við erum spennar að nota Kikkoman teryakisósuna í fleiri rétti. Það er til dæmis hægt að leika sér með þennan rétt og bæta við meira grænmeti. Þunnt skornar gulrætur og paprika myndi til dæmis passa virkilega vel að okkar mati.

Sticky teryaki tófú með brokkolí og sesam fræjum

Sticky teryaki tófú með brokkolí og sesam fræjum
Fyrir: 4
Höfundur: Veganistur

Hráefni:

  • 400 gr tófú
  • 4 msk hitaþolin ólífuolía
  • 1 cm engifer (sirka 1 tsk þegar búið er að saxa það mjög smátt)
  • 1/2 haus brokkolí
  • 1 flaska TERIYAKI sauce with roasted garlic frá Kikkoman
  • 1 kúfull msk maísmjöl
  • sesam fræ, ferskt kóríander og niðursneiddur vorlaukur til að bera fram með réttinum
  • U.þ.b. 200 gr hrísgrjón

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða hrísgrjónin eftir leiðbeiningum á pakkningunum.
  2. Saxið engifer niður mjög smátt og skerið tófúið í kubba. Skerið brokkolí"blómin" frá stilknum.
  3. Setjið vatn í pott og leyfið suðunni að koma upp, setjið brokkolíið út í og sjóðið í 7 mínútur.
  4. Hitið olíuna á pönnu og bætið síðan út á engiferinu og tófúinu ásamt örlítið af salti. Steikið saman þar til tófúið verður fallega gyllt að utan.
  5. Bætið teriyaki sósunni út á pönnuna ásamt borkkolíinu og leyfið suðunni að koma upp. Stillið helluna á lágan hita og stráið maísmjölinu yfir og hrærið strax vel saman við.
  6. Berið fram með soðnum hrísgrjónum, sesamfræjum, vorlauk og ferskum kóríander.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Takk fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin!

-Veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Kikkoman á Íslandi-

 
 

Vegan samlokur með snitseli og hrásalati

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að djúsí samlokum með vegan snitseli og hrásalati með eplum og parmesanosti. Samlokur sem hitta beint í mark og er auðvelt að útbúa. Þær eru mettandi og henta því fullkomlega í hádegismat eða kvöldmat.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði snitselið frá þeim í samlokurnar. Ég elska að eiga snitsel til í frystinum og geta skellt því á pönnu, í ofninn eða airfryerinn og bera fram með góðu meðlæti. Í þetta sinn var ég í stuði fyrir góða samloku. Ég keypti nýbökuð chiabattabrauð og útbjó dásamlegt hrásalat með skemmtilegum snúning þar sem ég setti í það epli og rifinn parmesanost. Virkilega gott!

Ég steikti snitselið á pönnu upp úr miklu vegan smjöri. Eins og ég sagði hér að ofan er ekkert mál að setja það í ofninn eða air fryer.

Ég vissi að ég vildi gera hrásalat en mig langaði að bæta einhverju skemmtilegu við. Ég ákvað að setja epli fyrir ferskleikann og vegan parmesanost. Það varð virkilega gott. Ég geri alltaf frekar stóran skammt af hrásalati til að eiga afgang því mér finnst hrásalat gott með nánast öllu.

Ég notaði chiabattabrauð fyrir samlokurnar í þetta sinn en það er líka gott að nota annað brauð t.d. baguettebrauð eða hamborgarabrauð. Ég get líka ímyndað mér að það sé gott að setja smá buffalosósu á snitselið fyrir ykkur sem ekki eruð viðkvæm fyrir sterkum mat.

Ég mæli mikið með því að prófa að gera þessa gómsætu snitsel samloku. Okkur þykir alltaf jafn hentugt að gera samlokur og erum með nokkrar súper góðar hérna á blogginu, t.d. þessar:

Samloka með pestó, vegan kjötbollum og ostasósu

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú, piparmajónesi og bjórsteiktum lauk

Grillaðar samlokur með vegan kjúkligasalati

Takk fyrir að lesa og ég vona að þú njótir!

Helga María <3

Samlokur fyrir 2-4 (fer eftir því hversu svöng þið eruð)

Samlokur fyrir 2-4 (fer eftir því hversu svöng þið eruð)
Fyrir: 2-4
Höfundur: Helga María
Hér er uppskrift að djúsí samlokum með vegan snitseli og hrásalati með eplum og parmesanosti. Samlokur sem hitta beint í mark og er auðvelt að útbúa. Þær eru mettandi og henta því fullkomlega í hádegismat eða kvöldmat.

Hráefni:

  • Brauð sem ykkur þykir gott
  • 1 pakki snitsel frá Anamma (í honum eru 4 stykki)
  • Salat
  • 1 dl Vegan majónes
  • 1/2-1 dl vegan sýrður rjómi
  • 250 gr þunnt skorið hvítkál
  • 1 meðalstór rifin gulrót (ég keypti poka sem var að renna út af hvítkáli og rifnum gulrótum til að gera hrásalat. Pokinn var sirka 270 gr)
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 lítið epli
  • 1 dl rifinn vegan parmesanostur
  • 1/2 tsk dijonsinnep
  • salt og smá sykur
  • svartur pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa hrásalat með því að blanda saman í skál þunnt skornu hvítkáli, rifnum gulrótum, þunnt skornum rauðlauk, þunnt skornu epli, majónesi, sýrðum rjóma, rifnum parmesanosti, dijonsinnepi, salti, sykri og svörtum pipar.
  2. Hitið vegan smjör eða olíu á pönnu og steikið snitselin þar til þau hafa fengið góðan lit og eru elduð í gegn. Vegan snitsel þarf ekki að þíða áður en það er steikt heldur er það tekið beint úr frystinum og steikt.
  3. Ristið brauðið á pönnu, eða í ofni.
  4. Smyrjið smá vegan majónesi á botninn, bætið káli eða salati yfir, þar næst snitselinu og toppið svo með hrásalati og ferskum jurtum ef þið eigið til. Ath að á myndunum er ég með tvö snitsel á hverri samloku. Það var mest fyrir "lúkkið" á myndunum en ég myndi frekar hafa eitt á hverri samloku.
  5. Njótið í botn!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Vegan pítur með grísku ívafi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að geggjuðum pítum með grísku ívafi, stútfullar af grænmeti, maríneruðu Oumphi og bragðmikilli tzatzikisósu. Hinn FULLKOMNI kvöldmatur að okkar mati.

Færsla dagsins er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin í uppskriftina þar. Hagkaup stendur sig virkilega vel þegar kemur að úrvali af vegan vörum og það er okkur mikill heiður að fá að vinna með þeim.

Í píturnar notaði ég Oumph sem ég lét þiðna og setti svo í maríneringu. Ég vildi hafa kryddið í gyros stíl þar sem það passar virkilega vel með tzatzikisósunni. Það kom að sjáfsögðu virkilega vel út!

Tzatzikisósa í skál

Tzatzikisósa er jógúrtsósa með rifinni gúrku, hvítlauk, ólífuolíu og annaðhvort rauðvínsediki eða sítrónusafa, salti og pipar. Það er gott að bæta út í hana ferskum jurtum og yfirleitt er notað dill eða minta en ég átti til kóríander svo ég notaði það. Það passaði mjög vel fannst mér.

bakki með oumph gyros, pítubrauði og meðlæti

Ég velti því lengi fyrir mér hvort ég vildi gera pítur, gómsætar vefjur úr liba brauði eða baka heimagert pönnubrauð með Oumphinu og tzatzikisósunni en ákvað á endanum að gera pítur því það er svo fljótlegt og gott. Ég notaði frosna pítubrauðið frá Hatting sem er mitt uppáhalds.

Steikt gyros oumph í skál

Lyktin sem fyllti eldhúsið á meðan ég steikti Oumphið var dásamleg og bragðið af því alls ekki síðra. Ég mæli mjög mikið með því að prófa þessa kryddblöndu!

Ég gerði stóra uppskrift af tzatzikisósu því ég vildi eiga afgang í ísskápnum til að bera fram með matnum mínum næstu daga. Mér finnst sósan passa með nánast öllu, svo fersk og góð.

Við elskum Oumph og notum það mikið í okkar matargerð. Ef ykkur langar að elda aðra góða uppskrift með Oumphi þá mælum við mikið með þessu gómsæta tikka masala!

Takk fyrir að lesa og ég vona að þið njótið! <3

-Helga María

Vegan pítur með grísku ívafi

Vegan pítur með grísku ívafi
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • Olía að steikja upp úr
  • Einn pakki Oumph the original chunk (280 gr)
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk timían
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1/2 tsk chiliduft
  • 1 tsk broddkúmen
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1/2 tsk salt
  • pipar eftir smekk
  • 1/4 tsk sykur
  • 2 hvítlauksgeirar pressaðir eða rifnir
  • Tzatzikisósa (uppskrift hér að neðan)
  • 3-4 pítubrauð
  • Grænmeti í píturnar. Ég notaði kál, tómata og rauðlauk
Tzatzikisósa
  • 1 dolla tyrknesk jógúrt frá Oatly (400 gr)
  • 1 gúrka
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk ferskt dill, minta eða kóríander (oftast er notað dill eða minta en ég notaði kóríander í þetta skipti)
  • Sítrónusafi, salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

Oumph í marineringu
  1. Takið Oumph úr frysti og leyfið að þiðna.
  2. Setjið það í skál og bætið restinni af hráefnunum út í.
  3. Látið marinerast í minnst einn klukkutíma (gott að gera tzatzikisósuna á meðan).
  4. Hitið olíu á pönnu og steikið oumphið í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til það fær á sig lit.
  5. Hitið pítubrauð í ofninum og fyllið með grænmeti, Oumphi og sósu. Njótið!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Þeyttur vegan fetaostur með fíkjusultu og ristuðum pekanhnetum

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af hátíðlegum þeyttum vegan fetaosti toppuðum með fíkjusultu (eða marmelaði), ristuðum pekanhnetum og rósmarín. Þetta er hinn FULLKOMNI forréttur yfir hátíðirnar og passar einnig dásamlega í jólaboðið eða áramótapartýið. Það tekur enga stund að útbúa þessa dásemd og enn styttri tíma að úða henni í sig.

Ég geri reglulega þeyttan fetaost og yfirleitt hef ég þeytt hann með sýrðum rjóma og notað sem meðlæti með mat. Í þetta sinn vildi ég gera hann aðeins hátíðlegri og jólalegri. Ég þeytti hann því með rjómaosti og eftir að hafa smakkað gómsætt fíkjumarmelaði um daginn vissi ég að það myndi passa fullkomlega með fetaostinum. Pekanhneturnar ofan á gerði ég með því að rista þær á pönnu upp úr ólífuolíu, hlynsírópi, sjávarsalti og fersku rósmarín. Lyktin sem fyllti eldhúsið á meðan ég ristaði hneturnar var ólýsanleg.

Toppurinn yfir i-ið var svo dill og graslaukssnakkið frá Finn crisp, en færsla dagsins er í samstarfi við Finn crisp á Íslandi. Ég er bókstaflega háð þessu snakki og samsetningin af þeytta fetaostinum og snakkinu er dásamleg. Ég á alltaf til poka af snakkinu uppi í skáp vegna þess að það slær alltaf jafn mikið í gegn þegar ég býð vinum uppá það með góðum ostum og sultu.

Ef þú vissir það ekki nú þegar er síðan okkar full af gómsætum uppskriftum að hátíðaruppskriftum fyrir jólin, hvort sem það er fyrir jólabaksturinn, jólaboðið, aðfangadagskvöld eða gamlárspartíið. Ef það er eitthvað sem þér finnst vanta geturðu sent okkur skilaboð og við sjáum hvort við getum ekki reddað því!

Ýttu hér til að finna geggjaðar jólauppskriftir!

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona innilega að þér líki uppskriftin. Ekki hika við að hafa samband við okkur ef það er eitthvað.

-Helga María

Þeyttur vegan fetaostur með fíkjusultu og pekanhnetum

Þeyttur vegan fetaostur með fíkjusultu og pekanhnetum
Höfundur: Helga María
Þeyttur vegan fetaostur toppaður með fíkjusultu (eða marmelaði), ristuðum pekanhnetum og rósmarín. Þetta er hinn fullkomni forréttur yfir hátíðirnar og passar einnig dásamlega í jólaboðið eða áramótapartýið. Það tekur enga stund að útbúa þessa dásemd og enn styttri tíma að úða henni í sig.

Hráefni:

  • 1 stykki vegan fetaostur (ca 200 gr)
  • 1 dolla vegan rjómaostur (ca 150-250 gr)
  • Smá vegan mjólk ef þarf til að mýkja ostinn
  • 1 dl pekanhnetur
  • 1 msk ólífuolía
  • 1 msk hlynsíróp
  • 2 tsk ferskt rósmarín
  • Gróft sjávarsalt
  • fíkjumarmelaði eða fíkjusulta
  • 1/2-1 tsk balsamikedik (má sleppa)
  • 1-2 pokar dill og graslaukssnakk frá Finn Crisp

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja fetaostinn og rjómaostinn í matvinnsluvél og blanda. Hellið örlítilli mjólk út í ef blandan er of þykk.
  2. Færið fetaostablönduna í skál eða fat sem þið berið fram í.
  3. Skerið niður pekanhnetur og rósmarín og ristið á pönnu upp úr ólífuolíu, hlynsírópi og smá salti í nokkrar mínútur. Takið af hellunni þegar sírópið hefur þykknað og hneturnar orðnar svolítið ristaðar. Það á ekki að taka langan tíma.
  4. Toppið fetaostinn með fíkjumarmelaðinu og bætið svo pekanhnetunum yfir. Setjið balsamikedik yfir og svo nokkra dropa af ólífuolíu og sírópi. Ég bætti svo við smá rósmarín og grófu salti til að skreyta.
  5. Berið fram með dill og graslaukssnakkinu frá Finn Crisp.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er í samstarfi við Finn Crisp á Íslandi-

 
 

Einföld og fljótleg kúrbítsbuff með kaldri sósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og fljótlegum kúrbítsbuffum með indverskum kryddum bornum fram með kaldri sósu. Buffin eru hinn fullkomni hversdagsmatur þar sem það tekur enga stund að útbúa þau. Aðal uppistaðan er zucchini og kjúklingabaunahveiti sem geriri þau stútfull af góðri næringu!

Ég hef verið í miklu kúrbítsstuði síðustu mánuði og finnst gott að nota þau í allskonar matargerð og bakstur. Margir fatta ekki hversu mikið hægt er að gera við zucchini en ég nota það í súpur, pottrétti, buff, ríf það út í hafragraut og kökudeig og elska að skera það niður þunnt og nota sem álegg á pizzu. Möguleikarnir eru virkilega endalausir!

Mér finnst virkilega gott að útbúa allskonar buff heima, hvort sem það eru grænmetisbuff, vegan hakkabuff eða baunabuff. Ég hef gert þessi buff á allskonar hátt. Stundum bæti ég við rifnum gulrótum, kartöflum eða hvítkáli. Ég nota í raun það sem ég á til heima að hverju sinni. Í þetta sinn vildi ég hafa þau frekar einföld en var í stuði til að setja þau í indverskan búning. Ég notaði engifer, túrmerík, garam masala, kóríanderkrydd, kúmmín, frosið kóríander og chili. Útkoman varð dásamleg.

Buffin steiki ég á pönnu upp úr smá olíu en það er auðvitað hægt að baka þau í ofni eða air fryer líka. Ef þið bakið þau mæli ég með því að bæta örlítilli ólífuolíu út í deigið. Ég bar buffin fram með gómsætri kaldri sósu sem ég gerði úr meðal annars vegan sýrðum rjóma, hvítlauk, frosnu kóríander og sítrónusafa. Sósan passar fullkomlega með buffunum að mínu mati. Ég bar einnig fram mangó chutney með en steingleymdi að hafa það með á myndunum því miður, en það kom virkilega vel út með buffunum líka.

Einföld kúrbítsbuff með kaldri sósu

Einföld kúrbítsbuff með kaldri sósu
Fyrir: 2-3
Höfundur: Helga María
Í dag deilum við með ykkur uppskrift að einföldum og fljótlegum kúrbítsbuffum með indverskum kryddum bornum fram með kaldri sósu. Buffin eru hinn fullkomni hversdagsmatur þar sem það tekur enga stund að útbúa þau. Aðal uppistaðan er zucchini og kjúklingabaunahveiti sem geriri þau stútfull af góðri næringu!

Hráefni:

Kúrbítsbuff
  • 100 gr kjúklingabaunahveiti
  • 20 gr hrísgrjónahveiti
  • 400 gr rifinn kúrbítur
  • 2 vorlaukar
  • 1 msk rifið engifer
  • 2 tsk garam masala
  • 1 tsk túrmerík
  • 1 tsk kúmmín
  • 1 tsk kóríanderkrydd
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1 msk frosið kóríander
  • chiliflögur
  • salt og pipar
Sósan:
  • 2 dl vegan sýrður rjómi
  • 2 rifnir eða pressaðir hvítlauksgeirar
  • 2 tsk frosið kóríander
  • 1 tsk laukduft
  • 2 tsk sítrónusafi
  • 2 tsk ólífuolía
  • Salt og pipar

Aðferð:

Kúrbítsbuff:
  1. Blandið kjúklingabaunahveiti, hrísgrjónahveiti, kryddum, lyftidufti, salti og pipar í skál.
  2. Rífið niður kúrbít, saxið vorlauk, rífið engifer og bætið út í skálina ásamt frystu kóríander og hrærið saman svo úr verði deig. Ég nota hendurnar við að hræra þessu saman.
  3. Hitið olíu á pönnu, búið til buff og steikið þar til þau fá gylltan lit.
Sósan:
  1. Blandið öllu saman í skál og berið fram með buffunum. Það er mjög gott að gera sósuna snemma svo hún geti fengið að standa aðeins í ísskápnum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar þér uppskriftin!

-Helga María <3

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum

Í deilum við með ykkur uppskrift að kúskússalati bornu fram með gómsætum hummus og ristuðum kjúklingabaunum. Fullkomið að bera fram með góðu brauði eins og heimapökuðu pönnubrauði, vefjum eða pítubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Til hamingju og ég notaði kúskús og ristuð graskersfræ frá þeim í salatið. Við elskum vörurnar frá Til hamingju og notum þær mikið í matargerð og bakstur hérna heima.

Kúskús er virkilega þægilegt að nota í matargerð þar sem það krefst lítillar sem engrar fyrirhafnar. Mér finnst best að hella því í skál og hella sjóðandi vatni ásamt ólífuolíu og salti og leggja lok eða disk yfir. Ég leyfi því að standa í 10-15 mínútur og hræri aðeins í því þegar tíminn er hálfnaður. Kúskús er svo hægt að nota á allskonar vegu, t.d. í allskonar salöt, pottrétti og sem meðlæti.

Salatið sem ég gerði í þetta skipti inniheldur kúskús, tómata, papriku, gúrku, rauðlauk, grænar ólífur, ristuð graskersfræ, steinselju, vegan fetaost, ólífuolíu, sítrónusafa, salt og chiliflögur. Einstaklega gott og ferkst hvort sem það er borðað eitt og sér eða með hummus, ristuðum kjúkligabaunum og brauði eins og ég gerði.

Ég einfaldlega smurði hummusnum á stórt fat og toppaði með ristuðu kjúklingabaununum og kúskússalatinu. Svo toppaði ég með chiliolíu, ólífuolíu, reyktri papriku, kúmmin, salti, pipar og aðeins meiri steinselju. Ég bar þetta svo fram með Liba brauði sem ég steikti á pönnu. Dásamlega gott!

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka vel! <3

-Helga María

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum

Kúskússalat með hummus og ristuðum kjúklingabaunum
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Kúskússalat
  • 3 dl kúskús frá Til hamingju
  • 4 dl vatn
  • 1 msk ólífuolía + meira til að hella yfir salatið seinna
  • sjávarsalt
  • 1,5 dl ristuð graskersfræ frá Til hamigju
  • 1,5 dl niðurskornir kirsuberjatómatar (ath að grænmetið og magnið sem ég nefni er einungis hugmynd um hvað er hægt að setja í salatið, það má velja bara það sem til er heima eða skipta út hverju sem er)
  • 1,5 dl niðurskorin gúrka
  • 1,5 dl niðurskorin paprika
  • 1,5 dl niðurskornar grænar ólífur
  • 1 dl niðurskorinn rauðlaukur
  • 1,5 dl niðurskorin steinselja
  • 1,5 dl vegan fetaostur
  • Salt og chiliflögur
Hummus
  • 3 dósir kjúklingabaunir skolaðar
  • 2 dl tahini (ég mæli með að kaupa ekta tahini frá t.d. Instanbul market. það er langbest að mínu mati)
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Safi úr enni sítrónu
  • 1/2-1 tsk kúmmín (má sleppa)
  • Salt eftir smekk. Mér finnst gott að salta hummusinn vel
  • 2 klakar
  • ískalt vatn eftir þörfum. Mér finnst gott að hafa vatn með klökum og bæta við 1 msk í einu ef hummusinn er of þykkur. Það fer mikið eftir bæði tahini og merki á baununum hversu þykkur hann er.
  • Hlutir sem gott er að toppa hummusinn með: chiliolía, ólífuolía, meira kúmmín, reykt papríkuduft.
Ristaðar kjúklingabaunir
  • 1 dós kjúklingabaunir
  • 1 msk harissamauk
  • 1/2 tsk hvítlauksduft
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1 tsk reykt papríka
  • salt og pipar
  • Olía

Aðferð:

Kúskússalat
  1. Hellið kúskús í stóra skál og hellið sjóðandi vatni yfir ásamt ólífulolíu og salti og leggið lok eða disk yfir. Hrærið í eftir sirka 5 mínútur og svo aftur þegar þið ætlið að bæta restinni af hráefnunum út í.
  2. Leyfið að kólna, bætið svo restinni af hráefnunum saman við og smakkið til með salti og pipar.
Hummus
  1. Skolið kjúklingabaunirnar og setjið í matvinnsluvél ásamt restinni af hráefnunum. Bætið vatni við eftir þörfum á meðan matvinnsluvélin vinnur.
  2. Bætið við salti og kryddum eftir smekk.
  3. Smyrjið á fat og toppið með kúskússalatinu og ristuðu kjúklingabaununum.
Ristaðar kjúklingabaunir
  1. Skolið kjúklingabaunirnar í sigti og setjið í skál. Ég reyni að þurrka þær aðeins með viskastykki.
  2. Bætið harissamaukinu og kryddunum saman við.
  3. Steikið upp úr olíu í 10 mínútur eða þar til baunirnar eru orðnar stökkar að utan.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Uppskriftin er í samstarfi við Til hamingju-

 
 

Vegan osta og brokkolí ofnréttur með hrísgrjónum

Við systur ætlum að vera duglegri þetta árið að deila með ykkur auðveldum og sniðugum hversdagsmat þar sem við fáum alltaf margar fyrirspurnir um það þegar við skoðum hvað þið vilja sjá meira af. Það er svo ótrúlega auðvelt að festast í því að elda alltaf það sama og svo er oft mjög yfirþyrmandi að ákveða hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Mér kvöldmaturinn oft hanga yfir mér allan daginn þegar ég veit ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég eigi að hafa í matinn. Ég mæli því alveg 100% með því að gefa sér nokkrar mínútur á sunnudögum í að gera matseðil fyrir vikuna en það hjálpar mér ekkert smá mikið. Þá finnst mér oft mjög þægilegt að geta kíkt á netið og fundið hugmyndir af réttum.

Síðustu vikur hef ég verið að prófa mig mjög mikið áfram með rétti sem ekki þarf að standa yfir eða svokallað “one-pot” rétti. Ég er alveg að dýrka þessa eldunar aðferð en þetta eru sem sagt réttir þar sem öllu er skellt í eldfast mót eða pott og síðan látið eldast án þess að það þurfi að hræra í eða gera nokkuð. Það er svo mikil snilld fyrir þá daga sem ég nenni ekki að elda, að geta skellt öllu í eldfast mót og inní ofn og síðan bara gert hvað sem er í klukkutíma á meðan rétturinn eldast. Rétturinn sem ég deili með ykkur í dag er ótrúlega góður og það þarf ekkert að hafa fyrir honum, en ég mun klárlega deila fullt af svona uppskriftum með ykkur í framtíðinni!

Ofnrétturinn samanstendur af hrísgrjónum í botninum, brokkolí og vegan soyjakjöti yfir og er hann síðan ofnbakaður upp úr vegan cheddar rjómaostasósu. Þetta er hinn fullkomni heimilismatur, tekur enga stund og dugar fyrir 4 til 5 fullorðna ef það er meðlæti með. Hann er ótrúlega bragðgóður og hægt er að bera hann fram einan og sér eða með góðu meðlæti. Ég ber réttinn oftast fram með góðu fersku salati en þá er algjört lykilatriði að hafa nýja vegan fetaostinn frá Sheese með en það er nýr ostur sem kemur í teningum. Fetaostur var uppáhalds osturinn minn þegar ég var yngri og hef ég verið með þennan vegan ost með öllu sem ég borða síðan ég keypti hann fyrst. Mér finnst einnig passa mjög vel að hafa vegan hvítlauksbrauð með en það er hægt að gera sjálfur eða kaupa brauðið frá Hatting sem er tilbúið vegan hvítlauksbrauð og má að sjálfsögðu finna í Krónunni.

Mér finnst ótrúlega gott að búa til kryddlög fyrir fetaostinn líkt og venjan er hérna heima en það er ótrúlega einfalt og smakkast hann alveg eins og venjulegi fetaosturinn sem hægt er að kaupa í krukku út í búð. Í kryddlögin set ég eftirfarandi:

  • Vel af góðri ólífuolíu, ég hef verið að nota D.O.P olíuna frá Olifa

  • Timían

  • Rósmarín

  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum

  • Grófmalaður pipar

  • Örlítið salt

Ég set mjög lítið af hveju kryddi fyrir sig og hræri þessu síðan aðeins saman.

Hráefni (réttur fyrir 4):

  • 2 dl hrísgrjón

  • 3 dl vatn + 2 grænmetisteningar

  • 1 cheddar rjómaostur frá Sheese

  • 250 ml vegan hafrarjómi

  • 2 msk ítalskt pastakrydd frá pottagöldrum

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1-2 tsk salt

  • 1 haus brokkolí

  • 4 litlir vorlaukar

  • 1 pakki vegan kjúklingur (t.d. oumph)

  • sirka 1/2 poki rifin epic mature cheddar frá Violife (eða það magn sem passar yfir réttinn)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Hellið hrísgrjónum í stórt eldfast mót

  3. Leysið tvo grænmetisteninga upp í heitu vatni og hellið yfir hrísgrjónin

  4. Hrærið saman í skál rjómaostinum, vegan hafrarjóma, hvítlauksgeirum og kryddunum

  5. Hellið yfir hrísgrjónin og blandið aðeins saman við hrísgrjónin og vatnið.

  6. Skerið niður vorlauk og brokkolí og dreyfið yfir ásamt soyja kjötinu. Ýtið aðeins ofan í vökvan.

  7. Stráið rifna ostinum yfir réttinn

  8. Setjið álpappír yfir eldfasta mótið og eldið í ofninum í 50 mínútur. Takið þá álpappírinn af og leyfið réttinum að vera í 15 mínútur í viðbót í ofninum.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar -

 
 

Þeyttur vegan fetaostur með sólþurrkuðum tómötum, basilíku og möndlum

Í dag deilum við með ykkur fljótlegum og gómsætum rétti sem er fullkominn sem forréttur, smáréttur, millimál eða partýréttur. Þeyttur vegan fetaostur toppaður með allskonar góðgæti. Að okkar mati bestur borinn fram með nýbökuðu brauði eða góðu kexi.

Færsla dagsins er unnin i samsarfi við Violife á Íslandi og í uppskriftina notum við greek white ostinn þeirra sem minnir a fetaost og rjómaostinn. Ég passa að eiga þessa tvo osta alltaf til í ísskápnum því þeir eru svo hentugir. Rjómaostinn nota ég mikið á brauð, í súpur, sósur og í krem. Fetaostinn myl ég ofan á allskonar matrétti og sallöt. Að þeyta þá saman gerir kraftarverk og er svo dásamlega gott og hægt að toppa með þvi sem mann lystir.

Það tekur innan við 10 mínútur að setja saman þennan rétt. Ég elska allt sem er einfalt og fljótlegt og þetta er svo sannarlega bæði. Á sama tíma er rétturinn bragðgóður og skemmtilegur. Þetta er akkúrat eitthvað sem ég myndi bjóða uppá sem forrétt í matarboðinu eða skella þessu saman þegar ég fæ óvænta gesti og bera fram með góðu brauði og jafnvel víni.

Það er hægt að toppa ostinn með því sem mann lystir og ég hef prófað allskonar útgáfur. Það sem ég hafði í þetta sinn var:

  • Sólþurrkaðir tómatar

  • Basilíka

  • Ristaðar og saltaðar möndlur

  • Ólífuolía

  • Sítrónubörkur

  • Hlynsíróp

  • Chiliflögur

  • Salt og pipar

Ég vona að þið njótið og endilega látið okkur vita ef þið prófið að gera þeytta fetaostinn, hvort sem þið toppið hann eins og við eða prófið að gera hann öðruvisi. Við ELSKUM að heyra frá ykkur!

Þeyttur vegan fetaostur (miðaður sem forréttur fyrir 2-4)

Hráefni:

  • 1 pakki (200gr) greek white fetaosturinn frá Violife

  • 100 gr rjómaosturinn frá Violife (creamy original flavor)

  • 2-4 msk ósæt sojamjólk eða haframjólk - byrjið á 2 msk og sjáið hvort það þarf að bæta meiru við

  • 1 msk sítrónusafi

Aðferð:

  1. Setjið allt í matvinnsluvél og blandið þar til áferðin er mjúk

  2. Setjið i skál og toppið með því sem ykkur þykir gott.

Ég toppaði með:

  • Söxuðum sólþurrkuðum tómötum

  • Söxuðum ristuðum og söltuðum möndlum

  • Saxaðri basilíku

  • Ólífuolíu og olíu frá sólþurrkuðu tómötunum

  • Sítrónuberki

  • Hlynsírópi

  • Chiliflögum

  • Salti og pipar

Magnið af hverju setti ég eftir smekk. Myndi fara varlega í sítrónubörkinn og sírópið og setja frekar minna fyrst og bæta svo við. Mér finnst líka gott að setja út á ofnbakaðan lauk og hvítlauk og ólífur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel! <3

-Veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
 

Linsubauna "Shepert's pie"

IMG_9897.jpg

Mér finnst ég alltaf byrja þessar færslur á að tala um veðrið en það hefur snjóað af og til á landinu síðustu daga og hef ég þurft að skafa nánast alla morgna síðustu vikuna svo það er eiginlega bara ekki annað hægt. Matarvenjur mínar fara líka bara svo rosalega eftir veðri einhvernveginn, en það er akkúrat þess vegna sem ég ákvað að deila með ykkur þessari tilteknu uppskrift núna.

IMG_9874.jpg
IMG_9875.jpg

Uppskriftin er af svokallari “Sherpert’s pie” en ég held að það sé ekki mikil hefð fyrir því að fólk eldi þennan rétt hérna á Íslandi. Ég kynntist honum allavega ekki fyr en eftir að ég varð vegan þar sem það er mjög auðvelt að gera vegan útgáfu af alls konar svona bökum. Þessi útgáfu er mín uppáhalds en fyllingin er svo góð að það væri eiginlega hægt að borða hana á jólunum að mínu mat. Ég set rauðvín í sósuna sem gerir hana eitthvað svo hátíðlega og svo er kartöflumús líka í svo miklu uppáhaldi hjá mér.

Mér finnst þessi rétturinn vera fullkomin þegar það er kalt úti og tikkar í öll boxin yfir þennan svokallaða “comfort food”. Mér finnst líka einhvern veginn aldrei jafn skemmtilegt að kaupa gænmeti og á haustin þegar það er svo extra ferskt og mikið úrval í búðum, og því ákvað ég að hafa réttin stútfullan af fallegu grænmeti. Það má að sjálfsögðu nýta nánast hvaða grænmeti sem er í hann, sleppa einhverju eða skipta út eftir smekk hvers og eins. Ég set oft sveppi eða brokkolí út í ef ég á það til en mér finnst mikilvægast að það séu laukur, gulrætur og baunir í honum.

Uppistaðan í bökunni eru síðan linsubaunirnar en þær eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær draga svo vel í sig bragð og finnst mér áferðin á þeim einhvern veginn betri en á flestum öðrum baunum. Ég notaði baunirnar frá Oddpods þar sem það er svo einfalt að geta bara hent þeim út á pönnuna beint úr pakkningunni. Einnig eru baunirnar frá Oddpods soðnar upp úr grænmetiskrafti en það finnst mér gera þær bragðbetri en aðrar baunir og hentar það sérstaklega vel í rétti eins og þennan.

IMG_9917.jpg

Ég mæli með að elda stóra böku, en þessi uppskrift dugar fyrir 4-5 fullorðna, þar sem hún er eiginlega bara ennþá betri daginn eftir.

Linsubaunafylling:

  • 2 pakkar brúnar linsur frá Oddpods

  • 2-3 msk ólífuolía

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 3 gulrætur

  • 3 stilkar sellerí

  • 1 dl frosnar grænar baunir

  • 250 ml vatn + 1 msk hveiti hrist saman

  • 250 ml hafrarjómi

  • 1 sveppateningur

  • 1 msk dijon sinnep

  • 3 msk eða ein lítil dós tómatpúrra

  • 1-2 msk soyasósa

  • 1/2 dl rauðvín

  • 2 lárviðarlauf

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera niður allt grænmeti í litla kubba.

  2. Steikið upp úr ólífuolíu þar til grænmetið fer að mýkjast

  3. Bætið baununum út í ásamt smá salti og pipar og steikið í nokkrar mínútur í viðbót á meðalhita.

  4. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman. Leyfið suðunni að koma upp og sjóðið í u.þ.b. 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar

  5. Setjið í eldfast mót, útbúið kartfölumúsina og dreyfið henni jafnt yfir. Bakið við 200°C í 15 mínútur eða þar til kartöflumúsin verður fallega gyllt að ofan.

  6. Passið að taka lárviðarlaufin úr þegar bakan er borðuð.

Kartöflumús

  • 1 kg kartöflur

  • 150 gr smjörlíki eða vegan smjör

  • 1-2 dl haframjólk

  • vel af salti (eftir smekk)

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn þegar stungið er gaffli í þær.

  2. Afhýðið kartöflurnar og stappið saman með kartöflustappara eða setjið í gegnum kartöflupressu.

  3. Setjið kartöflurnar, smjörlíki og 1 dl af mjólk saman í pott og hrærið vel í á lágum hita. Bætið við salti og haframjólk eftir þörfum.

-Við mælum með að bera réttinn fram með fersku salati og hvítlauksbrauði en það má líka bera hann fram einan og sér.

- Þessi færsla er í samstarfi við OddPods á Íslandi -

 
Oddpods-logo---edited.png
 

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý

IMG_9725.jpg

Eftir að hafa eytt þremur mánuðum í asíu fyrir nokkrum árum hefur asískur matur og þá sérstaklega tælenskur matur verið í mjög miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hugsa að ég gæti borðað núðlur, hrísgrjón og karrý á hverjum einasta degi án þess að fá leið á því. Í ferðinni áttaði ég mig á því hversu miklu betri asískar þjóðir eru í að nota krydd og grænmeti heldur en við og fann ég hvergi fyrir því að erfitt væri að vera vegan eða að borða ekki kjöt. Allir réttir eru stútfullir af góðu grænmeti, hrísgrjónum, núðlum og geggjuðum kryddum.

Ég gerði þau mistök að kaupa mér ekki krydd og kryddblöndur til að taka með heim, en ég fór hins vegar mikið að prófa alls konar kryddmauk í matargerð eftir að ferðinni lauk. Það er til fjöldin allur af góðum karrý og kryddmaukum hérna heima sem gera tælensku og asísku matargerðina einfalaldari en hægt er að hugsa sér. Það þarf þó að passa sig á því að oft má finna innihaldsefni í slíkum maukum sem ekki eru vegan eins og t.d. fiskisósur og fiskikraft.

IMG_9712.jpg

Í krónunni er einstaklega gott úrval af svona kryddmaukum og finnst mér ég finna eitthvað nýtt í nánast hverri einustu búðarferð. Ég get eitt góðum tíma í þessari deild búðarinnar að skoða allar þessar spennandi vörur. Maukinn og vörurnar frá Taste of Asia gripu strax athygli mína þegar ég sá þau fyrst snemma á þessu ári en tók ég eftir að flest maukin frá þeim innihalda 100% vegan innihaldsefni og henta mér því einstaklega vel.

Ég hef prófað mikið af þessum vörum en hefur rauða karrýmaukið alltaf verið til í skápunum hjá mér síðan ég smakkaði það fyrst. Það er ótrúlega bragðgott, og hentar fullkomlega í súpur, kássur eða bara á tófú og núðlur. Ég elska einnig hvað er gott úrval af góðum núðlum frá þessu merki, en lengi vel var nánast einungis hægt að fá “skyndinúðlur” og hrísgrjónanúðlur í felstum matvöruverslunum.

Í þessari færslu ætla ég að deila með ykkur einum af mínum uppáhalds réttum. Það er kókoskarrýsúpa með tófúi og Somen núðlum.

IMG_9743.jpg

Hráefni

  • 4 msk ólífuolía

  • 1 stór gulrót

  • 4-5 cm af blaðlauk

  • 1 rauð papríka

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 cm ferskt engifer

  • 1 pakki tófú

  • Tófú marinering

    • 1/2 dl soyasósa

    • 4 msk ólífuolía

    • 1 tsk hlynsíróp

    • 1 tsk chilli mauk (sambal oelek frá Taste of Asia)

    • 1/2 tsk pressaður hvítlaukur

  • 1 krukka rautt karrýmauk frá Taste of Asia

  • 1 tsk chillimauk (sambal oelek frá Taste of Asia) má sleppa

  • 2 msk hlynsíróp

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 dósir kókosmjólk

  • 2 lítrar vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1/2 pakki somen núðlur frá Taste of Asia

  • Límóna og ferskur kóríander til að bera fram með súpunni

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þerra og skera niður tófúið. Blandið öllum hráefnum fyrir marineringuna saman í skál og setjið teningana út í. Veltið vel upp úr marineringunni og setjið til hliðar

  2. Skerið niður allt grænmeti, rífið engifer og pressið hvítlaukinn.

  3. Steikið grænmetið upp úr ólífuolíunni í stórum potti þar til það mýkist vel.

  4. Bætið rauða karrýmaukinu út í pottinn ásamt 1/2 dl af vatni og steikið áfram í nokkrar mínútur.

  5. Bætið kókosmjólkinni út í pottinn ásamt vatninu, grænmetiskraftinum, hlynsírópi og chillimaukinu.

  6. Leyfið suðunni að koma upp við vægan meðalhita og hrærið í af og til á meðan.

  7. Á meðan súpan sýður er gott að nota tíman til að steikja tófúið. Hitið pönnu, hellið tófúinu ásamt mareneringunni út á pönnuna og steikið á háum hita þar til það verður fallega gyllt á öllum hliðum.

  8. Þegar suðan er komin upp á súpunni er gott að smakka hana til og bæta við salti, pipar og grænmetiskraft ef ykkur finnst þurfa. Leyfið súpunni að sjóða í 15 mínútur.

  9. Bætið núðlunum út í og leyfið súpunni að sjóða í 3 mínútur í viðbót. Slökkvið undir og bætið tófúinu út í pottinn.

  10. Berið fram með límónusneið og ferskum kóríander fyrir þá sem vilja. Einnig er gott að hafa með baunaspírur og muldar salthnetur en það þarf ekki.

-Njótið vel!

- Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna -

 
KRONAN-merki.png
 

Hollt og gott Enchilada úr korter í 4 kælinum í Krónunni │ Veganistur x Krónan │ AD

Hráefni:

  • 1 pakki kjúklingabaunasalat úr korter í 4 kælinum

  • 1 pakki fajitas grænmeti úr korter í 4 kælinum

  • 1 pakki hrísgrjón með sveppum úr korter í 4 kælinum

  • 1 krukka tómat og ólífusalsa úr korter í 4 kælinum eða venjuleg salsasósa

  • safi úr hálfu lime

  • 6-8 maís tortilla pönnukökur (má líka nota venjulegar tortillakökur)

  • 100-150 ml vegan rjómaostur

  • Avókadósalat

    • 2-3 avókadó

    • 2 stórir tómatar eða um 6 litlir

    • safi úr hálfu lime

    • salt og pipar

    • ferskt kóríander

Aðferð:

  1. Hitið ofninn við 200°C

  2. Blandið kjúklingabaunasalati, fajitas grænmeti og hrísgjrónum saman í skál ásamt salsanum, geymið 2-3 msk af salsa til að smyrja yfir réttinn í lokin.

  3. Smyrjið hverja tortilla köku með smá vegan rjómaosti, setjið fyllingu inn í, rúllið upp og raðið í eldfast mót.

  4. Smyrjið smá rjómaosti og salsa yfir hverja rúllu fyrir sig.

  5. Bakið í ofninum í 20 mínútur.

  6. Útbúið avókadó salatið með því að skera niður avókadó og tómata og hræra það saman með lime safanum, salti og pipar og sökuðu fersku kóríander.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna

KRONAN-merki.png

Vegan gnocchi með aspas og spínati

IMG_3109-9.jpg

Uppskrift dagsins er af heimagerðu gnocchi með aspas, hvítlauk, hvítvíni og spínati. Þetta er dásamlega gott og sjálft gnocchiið inniheldur bara þrjú hráefni, kartöflur, hveiti og salt. Það er að sjálfsögðu hægt að nota það í allskonar uppskriftir, bara eins og pasta, en þessi útgáfa er svakalega góð og mér finnst svolítill veitingahúsafílingur í réttinum.

IMG_3081.jpg

Eins og þið kannski sum vitið höfum við Júlía haldið úti veganistur.is í þrjú ár í sumar, en fyrir það vorum við í rúmt ár einungis með Facebook síðu og Instagram. Veganistur áttu fyrst að vera hversdagsleg Facebook síða þar sem við skelltum inn símamyndum af kvöldmatnum okkar án þess að hugsa mikið um það, og sýndum fólki einfaldlega hvað það er auðvelt að vera vegan. Facebook síðan óx mun hraðar en við hefðum haldið og við fórum að fá allskonar fyrirspurnir um hvort við gætum gert uppskriftir af þessu og hinu og smám saman breyttust Veganistur í uppskriftarsíðu.

IMG_3085-3.jpg

Við fórum fljótt að finna fyrir því að fólk væri að fylgjast með og í kjölfarið vildum við leggja meiri vinnu og metnað í bæði uppskriftirnar og myndirnar. Það var svo vorið 2016 að við ákváðum að útbúa alvörunni vefsíðu og þá má segja að boltinn hafi farið að rúlla. Það sem fyrst átti bara að vera lítið áhugamál hefur orðið að risastórum hluta af lífinu okkar. Í dag eru Veganistur það sem við leggjum hvað mesta vinnu í og höfum mikla ástríðu fyrir. Það eruð þið, lesendur okkar, sem gefið okkur endalausan innblástur og styrk til að gera eins vel og við getum. Ykkur erum við gríðarlega þakklátar.

IMG_3088-3.jpg

Við Júlía stöndum tvær í þessu og sjáum um allt sem viðkemur blogginu samhliða fullu námi og öðrum verkefnum. Það getur verið gríðarlega kostnaðarsamt að útbúa nýtt efni fyrir bloggið, bæði í peningum og tíma talið. Kostnaðurinn er misjafn, en við vöndum valið okkar á samstörfum við önnur fyrirtæki virkilega vel og tókum snemma ákvörðun um að hafa engar auglýsingar að öðru tagi á blogginu. Allur peningur og tími sem við leggjum í bloggið okkar og uppskriftir er fyllilega þess virði og við munum aldrei sjá eftir einni einustu krónu.

IMG_3089-2.jpg

Okkur hafa borist margar fyrirspurnir um hvernig sé hægt að styrkja okkur og hingað til hefur það einungis verið hægt með því að lesa og deila blogginu okkar, og þið hafið svo sannarlega gert það. Við erum virkilega hrærðar yfir því hvað þið eruð mörg sem heimsækið síðuna okkar daglega og látið orðið berast til þeirra sem þið þekkið. Þið eruð æði!

IMG_3091-2.jpg

Við höfum þó ákveðið eftir mikla umhugsun að opna Patreon aðgang fyrir þá sem hafa áhuga á að styrkja okkur. Það er einfaldlega svo við höfum meira frelsi varðandi uppskriftir og þurfum ekki að skipuleggja bloggfærslur einungis útfrá því hvað við eigum mikinn pening hverju sinni. Með því að styrkja okkur hjálpar þú semsagt til við að auka svigrúm og afkastagetu okkar. Eins höfum við lengi verið með uppskriftarbók í maganum og við iðum í skinninu við að koma henni út og deila með ykkur ennþá fleiri ótrúlega spennandi og gómsætum uppskriftum.

Á Patreon síðunni okkar sérðu hvað við bjóðum ykkur í staðinn og eitt af því er aðgangur að lokaðri Facebook grúppu þar sem við Júlía munum elda með ykkur live í hverri viku. Við erum ekkert smá spenntar fyrir því og fyrsta uppskriftin sem ég ætla að gera með ykkur er akkúrat þessi. Ég hlakka ekkert smá til og mun svo deila með ykkur nákvæmri tímasetningu þegar nær dregur.

IMG_3093-2.jpg

Við viljum enn og aftur þakka ykkur fyrir. Þegar við stofnuðum Veganistur höfðum við ekki hugmynd um hvað við myndum fá mikinn stuðning frá ykkur öllum. Án ykkar værum við ekki á þeim stað sem við erum í dag.

IMG_3106-5.jpg

Gnocchi

  • 2 bollar stappaðar kartöflur

  • 1,5- 2 bollar hveiti

  • 1,5 tsk salt

Það sem fer með á pönnuna

  • Vegan smjör til að steikja uppúr. Ég setti alveg vænan bita.

  • 200 gr aspas. Ég notaði frosinn í þetta sinn

  • Tvær lúkur babyspínat

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 dl hvítvín (má sleppa)

  • Ristaðar furuhnetur til að strá yfir

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflur og afhýðið. Stappið þær vel með kartöflustappara eða gaffi og setjið í stóra skál.

  2. Bætið hveitinu og saltinu saman við. Ég byrjaði á því að setja 1,5 bolla hveiti og bætti svo aðeins við eftir þörf. Hrærið saman við og hafið í huga að þetta verður mjög mjölkennt til að byrja með. Hrærið eins vel og þið getið með sleif og færið svo yfir á borð og notið hendurnar til að hnoða þetta saman í deig.

  3. Skiptið deiginu niður í fjóra hluta, rúllið þá út og skerið sirka 2 cm bita úr þeim.

  4. Það má sleppa þessu skrefi og elda bitana einfaldlega eins og þeir eru þegar búið er að skera þá niður, en ég vildi útbúa smá gnocchi munstur og notaði til þess gaffal. Margir eiga sérstakt bretti sem gerir það mun auðveldara, en ég læt gaffalinn duga. Ég tók bita og flatti hann létt út á gaffalinn og rúllaði svo upp. Ég hefði kannski getað sýnt aðeins skýrari mynd af því hvernig þetta er gert, en það er fullt af myndböndum á youtube sem sýna það mun betur en mér hefði tekist. Passið að strá smá hveiti yfir bitana og láta þá ekki liggja saman á meðan þið gerið þetta því þeir munu festast saman og verða að einni klessu.

  5. Steikið á pönnu hvítlauk, aspas, og spínat uppúr smjörinu. hækkið hitann og hellið hvítvíninu út í og lækkið hitann svo aftur eftir nokkrar mínútur.

  6. Sjóðið vatn í stórum potti og saltið smá. Þegar suðan er vel komin upp skuluði hella gnocchiinu í. Ég myndi ekki setja þá alla í einu þar sem þetta eru svolítið margir bitar. Veiðið bitana upp þegar þeir hafa flotið upp á yfirborðið sem tekur um 90 sekúndur.

  7. Sigtið allt vatn af bitunum og skellið þeim á pönnuna og steikið þá í nokkrar mínútur. Saltið og piprið eftir smekk.

  8. Berið fram með því sem ykkur lystir, en mér finnst alltaf gott að útbúa gómsætt hvítlauksbrauð með.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

Veganistur <3

Gómsætar fylltar paprikur

IMG_2481.jpg

Ég fattaði það um daginn að ég hef ekki póstað neinni “hversdagslegri” uppskrift frá því fyrir jólin. Ég ákvað að bæta úr því í dag og gera gómsæta uppskrift af fylltum paprikum, sem eru fullkomnar sem kvöldmatur á venjulegum virkum degi, en á sama tíma svo ótrúlega bragðgóðar að þær passa vel fyrir fínni tilefni eins og matarboð.

IMG_2443.jpg

Ég hef verið svolítið föst í að elda alltaf það sama síðustu mánuði og ákvað um daginn að breyta því. Mér hafa alltaf þótt fylltar paprikur góðar en mér dettur einhvernveginn aldrei í hug að útbúa þær þegar ég er að ákveða hvað ég ætla að hafa í matinn. Þessi uppskrift er svo ótrúlega góð og auðvelt að útbúa hana og ég skil ekkert í mér að elda hana ekki oftar. Ég ætla að reyna að vera dugleg að pósta góðum uppskriftum af mat sem ég elda mér hversdagslega. Það gefur mér sjálfri innblástur til að vera hugmyndarík og breyta reglulega til.

IMG_2445.jpg

Ég eyddi síðustu helgi í Edinborg með Júlíu, mömmu okkar og Katrínu litlu systur. Við Júlía vorum auðvitað búnar að finna alla veitingastaði sem okkur langaði að prufa og Katrín hafði orð á því að við tölum varla um annað en mat. Matur var hefur alltaf verið stórt áhugamál hjá Júlíu, en hjá mér gerðist það ekki fyrr en ég varð vegan og byrjaði að blogga. Í dag eigum við það sameiginlegt að hugsa mikið og tala mikið um mat. Við urðum alls ekki fyrir vonbrigðum með vegan matinn í Edinborg og borgin þótti okkur alveg æðisleg. Það er þó alltaf jafn áhugavert að sama hvað það er gott að borða á veitingastöðum, þá er oftast langbest að elda mat heima. Ég verð því alltaf jafn fegin þegar ég kem heim úr svona ferðum og get farið að elda sjálf. Ég tek þó oft með mér hugmyndir og innblástur frá veitingastöðunum sem ég borða á.

IMG_2457.jpg

Ég bar paprikurnar fram með góðu salati og hvítlauksbrauði. Við erum með einfalda og þægilega uppskrift af fljótlegu hvítlausbrauði HÉR. Það þarf enga sósu með paprikunum. Þær eru virkilega bragðmiklar og fyllingin er safarík og góð. Það er þó örugglega gott að strá smá vegan osti yfir áður en þær fara í ofninn, en mér finnst það persónulega óþarfi. Ég nota vegan hakk í réttinn og mæli með hakkinu frá Anamma. Fyrir þá sem ekki vilja sojahakk mæli ég með að nota soðnar brúnar linsubaunir. Mér finnst uppskriftin þó fullkomin með hakkinu.

IMG_2466.jpg

Fylltar paprikur (fyrir fjóra)

  • 4 paprikur

  • Olía til steikingar og til að pennsla paprikurnar

  • 30 g furuhnetur

  • 1 lítill laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 225 g vegan hakk - mæli með því frá Anamma

  • 1 tsk chilliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 msk balsamik edik

  • 250 g ferskir tómatar - skornir niður í grófa bita

  • 2 msk sítrónusafi

  • 2 dl soðin hrísgrjón - Ég notaði brún grjón

  • 40 g tómatpúrra

  • 1,5 msk tapenade úr sólþurrkuðum tómötum. Ég keypti það í Svíþjóð og vona innilega að svoleiðis fáist á Íslandi. Ef ekki, þá er rauða pestóið frá Himneskt mjög gott, en eins er hægt að mauka niður sólþurrkaða tómata.

  • 4 lárviðarlauf

  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Skerið toppana af paprikunum og leggið til hliðar.

  3. Pennslið paprikurnar að innan með smá olíu og saltið aðeins. Látið þær standa á meðan þið gerið fyllinguna.

  4. Ristið furuhneturnar á pönnu án olíu í 1-2 mínútur. Leggið til hliðar þegar þær eru orðnar svolítið gylltar.

  5. Hitið olíu í stórum potti. Saxið laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið í pottinum þar til þeir hafa mýkst. Passið að brenna þá ekki.

  6. Bætið hakkinu og kryddunum út í pottinn og hrærið vel í nokkrar mínútur.

  7. Bætið tómötunum í pottinn ásamt 100 ml vatni og latið malla i sirka 10-15 minutur.

  8. Hellið grjónunum (ath að þau eiga að vera soðin þegar þau fara í fyllinguna), edikinu, furuhnetunum og sítrónusafanum saman við og saltið og piprið eftir smekk.

  9. Hrærið saman tómatpúrru, tapande/pestó og 200 ml heitu vatni í skál.

  10. Hellið helmingnum af blöndunni út í pottinn og hrærið saman við fyllinguna.

  11. Fyllið paprikurnar og raðið þeim í eldfast mót. Leggið toppinn á og pennslið tómatpúrrublöndu yfir. Hellið restinni af blöndunni svo ofan í eldfasta mótið og leggið lárviðarlauf i botninn.

  12. Setjið i ofninn i sirka 35 mínútur eða þar til paprikurnar eru orðnar svolítið dökkar að ofan.

  13. Berið fram með salati, hvítlauksbrauði eða því sem ykkur lystir.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur
-Veganistur

Hafra- og speltbrauð með fræjum

IMG_1511-7.jpg

Við fengum skilaboð um daginn þar sem við vorum beðnar að gera fleiri uppskriftir af góðu brauði. Við elskum gott brauð og þess vegna er kannski svolítið skrítið að á blogginu finnist bara tvær brauðuppskriftir, en það eru heimagerðar tortillur og svo ernubrauð. Ernubrauðið er alveg ótrúlega gott, en maður þarf að plana svolítið fram í tímann þar sem deigið þarf að hefast yfir nótt, eða í allavega 8 klst. Stundum fæ ég skyndilega löngun í að baka gómsætt brauð, en nenni ekki að bíða í margar klukkustundir, og þá geri ég þetta gómsæta hafra- og speltbrauð sem ég ætla að deila með ykkur í dag. Þessi uppskrift er ekkert smá einföld og góð og tekur enga stund að gera. 

IMG_1355-2.jpg

Ég vann um stund á veitingastað í Gautaborg og bakaði svipað brauð, sem var virkilega vinsælt. Brauðið innihélt nokkurskonar súrmjólk, sem ég hef skipt út fyrir vegan jógúrt, og svo voru allskonar hnetur í því en ég ákvað að hafa fræ í staðinn því kærastinn minn er með ofnæmi fyrir flestum hnetum. Ég get ekki borið brauðið saman við það sem ég bakaði á veitingastaðnum, þar sem það var ekki vegan og ég smakkaði það aldrei, en ég er viss um að þetta er alveg jafn gott. Uppskriftin er alls ekki sú sama, en hitt brauðið var innblástur við gerð þessa brauðs. 

Ef ég fengi að ráða myndi ég útbúa hlaðborð af mat á hverjum morgni. Ég elska að hafa allskonar að velja úr og þetta brauð er einmitt fullkomið fyrir helgarbrönsinn. Nýbakað brauð, allskonar álegg, nýlagað kaffi, góður appelsínusafi, grautur og ávextir... er hægt að biðja um eitthvað betra?? 

IMG_1490-3.jpg
IMG_1504-2.jpg

Í dag er úrvalið af góðu vegan áleggi orðið endalaust. Hægt er að fá allskonar vegan smjör, osta, skinkur, ótrúlega margar tegundir af hummus, smurosta.. og lengi mætti telja. Ég átti svolítið erfitt með að ákveða hvað ég vildi hafa á brauðinu fyrir færsluna og ákvað á endanum að gera tvær útgáfur. Á sneiðina til vinstri setti ég vegan rjómaostinn frá Oatly, avókadó, sultaðan rauðlauk sem ég keypti úti í búð (Ica fyrir ykkur sem eruð í Svíþjóð), sítronusafa, chilli explosion, gróft salt og svartan pipar. Á hægri sneiðina setti ég svo hummus, kirsuberjatómat, frosinn graslauk og gróft salt. Grauturinn sem er í bakgrunni er svo "overnight oats" með túrmerik og fl. Þið megið endilega láta mig vita ef þið viljið fá uppskrift af grautnum, en ég geri hann daglega og fæ bara ekki nóg. 

IMG_1519-7.jpg

Hafra- og speltbrauð með fræjum

  • 3,5 dl gróft spelt

  • 1,5 dl fínt spelt

  • 2 dl grófir hafrar

  • 1 dl graskersfræ

  • 1/2 dl sólblómafræ

  • 1,5 tsk salt

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 msk olía

  • 3 dl hrein vegan jógúrt

  • 2 dl heitt vatn (bætið við hálfum dl ef þetta verður of þykkt. Deigið á samt að vera þykkt, svolítið eins og slímugur hafragrautur hehe)

  • Gróft salt og fræ til að strá yfir brauðið

  1. Stillið ofninn á 180°c.

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hrærið saman við öllu nema vatninu.

  4. Bætið vatninu við og sjáið hvernig deigið er eftir 2 dl. Ef ykkur finnst það of þykkt, bætið við 1/2-1 dl í viðbót.

  5. Smyrjið brauðform og hellið deiginu í

  6. Bakið í 45-60 mínútur. Það fer rosalega eftir ofnum hversu lengi brauðið þarf að baka. Ofninn minn er frekar lélegur og býður ekki upp á blástur og það tekur alveg rúmlega klukkustund að baka brauðið í honum. Hinsvegar tók það mig 45 mínútur í öðrum ofni um daginn. Brauðið á að vera aðeins gyllt að ofan, en brauðið mitt á myndunum er ekki gyllt, því ég var óþolinmóð og tók það aðeins of snemma út í þetta skiptið.

  7. Ég leyfi brauðinu að kólna aðeins áður en ég sker það, en mér finnst samt gott að hafa það volgt. 

Njótið!! 

Helga María <3

Vegan snitsel á tvo vegu

IMG_0755.jpg

Þessi færsla er sú þriðja í samstarfi okkar með Anamma, og í þetta sinn ákvað ég að útbúa snitselið frá þeim, sem mér þykir gríðarlega gott. Ég gat þó með engu móti ákveðið hvernig ég vildi matreiða snitselið fyrir færsluna, og eftir miklar vangaveltur fram og til baka ákvað ég að útbúa tvo mismunandi rétti úr því. Mér fannst nauðsynlegt að gera eina hefðbundna snitsel máltíð, og útbjó ég með því gómsæta sveppasósu, steiktan aspas og einar þær bestu ofnbökuðu kartöflur sem ég hef gert. Auk þess ákvað ég að gera aðeins öðruvísi máltíð og bjó til snitsel grillsamloku með grænmeti og tarragon-kapers mæjónessósu. Ég er fegin að hafa ákveðið að gera bæði því ég get ekki gert upp á milli. 

Snitselið er eina varan frá Anamma sem ekki er glúteinlaus, en nýlega breyttu þau öllum uppskriftunum sínum og snitselið, sem var glúteinlaust, er það ekki lengur. Að mínu mati eru allar vörunar mun betri eftir breytingarnar og mér finnst snitselið alveg ótrúlega gott, bæði í áferð og bragði. 

IMG_0698.jpg

Kartöflurnar sem ég gerði með voru virkilega góðar, en galdurinn var að sjóða þær fyrst og setja þær svo í ofninn. Við það urðu þær mjúkar og góðar að innan, en dásamlega stökkar að utan. Þær voru fullkomnar með báðum réttunum sem ég gerði. 

IMG_0758.jpg

Þar sem það tekur enga stund að elda snitselið langaði mig að gera með því flott meðlæti sem tekur kannski aðeins meiri tíma, en er samt virkilega einfalt og þægilegt að búa til. Ef tíminn er naumur, eða maður nennir ekki mikilli eldamennsku er auðvitað hægt að skella frönskum í ofninn og útbúa einhverja góða vegan pakkasósu, en ég mæli auðvitað mjög mikið með að búa til eigið meðlæti ef tök eru á.
Eins með samlokuna hér að neðan. Það er ekkert mál að kaupa vegan mæjónes og blanda því saman við hvítlauk og góðar jurtir, en mér fannst heimatilbúna mæjónessósan passa ótrúlega vel með samlokunni. 

IMG_0715-2.jpg
IMG_0780-3.jpg

Snitsel frá Anamma fyrir 4

  • 2 pakkar Anamma snitsel (hver pakki inniheldur 4 stk svo það er fínt að gera ráð fyrir a.m.k 2 á mann)

1. Eldið snitselið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Ég steikti það á pönnu upp úr vegan smjöri þar til það var gyllt á báðum hliðum.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 500 ml vegan matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur 

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg)

  • Vatn og hveiti til að þykkja (ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið).

  1. Sneiðið niður sveppina og setjið í pott. 

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta við örlitlu vatni og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð. 

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni þar til hún hefur náð þeirri þykkt sem þið kjósið. 

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið til. 

Ristaðar kartöflur í ofni

  • 2 kg kartöflur

  • 6 msk olía til steikingar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk paprikuduft

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Byrjið á því að skræla kartöflurnar

  2. Hitið ofninn í 200 gráður

  3. Skerið kartöflurnar í meðalstóra bita og leggið í bleyti í kalt vatn í sirka korter

  4. Sjóðið vatn í stórum potti á meðan

  5. Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru svona nálægt því að verða tilbúnar. Þær eiga ekki að vera orðnar alveg mjúkar í gegn (mínar voru samt mjög nálægt því)

  6. Á meðan kartöflurnar sjóða hitiði olíuna á pönnu og pressið hvítlauksgeirana útí. Þegar þeir eru orðnir brúnir helliði olíunni í skál, sigtið hvítlaukinn úr og leggið til hliðar. Passið að hvítlaukurinn brenni ekki því hann verður notaður seinna 

  7. Takið kartöflurnar úr pottinum og hellið þeim í stóra skál og veltið þeim upp úr olíunni sem þið hituðuð, ásamt paprikudufti, salti og pipar. Passið að þekja kartöflurnar vel. Á þessum tímapunkti líta þær út fyrir að vera svolítið maukaðar og þannig eiga þær að vera

  8. Hellið kartöflunum á hreina ofnplötu og dreifið úr þeim svo þær séu sem minnst klestar saman

  9. Ristið þær í ofninum í 20 mínútur, takið plötuna svo út, snúið kartöflunum og ristið í aðrar 20 mínútur

  10. Þegar þær eru tilbúnar er gott að velta þeim upp úr hvítlauknum sem þið hituðuð í olíunni. Ástæðan fyrir því að ég geri það ekki áður en kartöflurnar fara í ofninn er sú að hann gæti brunnið og þá gefur hann frá sér beiskt bragð sem skemmir svolítið fyrir. 

  11. Bætið við grófu salti ef ykkur finnst þurfa

Með þessu steikti ég svo frosinn aspas á pönnu upp úr sítrónupipar, hvítlauk og salti

 

Grill samloka með snitseli og tarragon- kapersmæjó:

  • Anamma snitsel

  • Gott brauð (mæli með að kaupa heilt brauð og skera í frekar þykkar sneiðar)

  • Grænmeti eftir smekk (ég notaði romain kál, tómata og rauðlauk)

  • 1,5 dl vegan mæjónes (uppskrift okkar af vegan mæjónesi má finna HÉR)

  • 3 tsk kapers

  • 1 tsk tarragon

  • 1/2 tsk rifinn sítrónubörkur

  • Örlítil ólífuolía

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Steikið snitselið á pönnu upp úr olíu eða vegan smjöri þar til það er gyllt báðum megin

  2. Ristið brauðið á pönnu upp úr örlitlu vegan smjöri 

  3. Saxið niður kapers og bætið út í mæjónesið ásamt tarragon, rifnum sítrónuberki, ólífuolíu, salti og pipar

  4. Smyrjið báðar brauðsneiðarnar með mæjónessósunni og setjið snitselið á ásamt því grænmeti sem ykkur þykir best 

  5. Berið fram með gómsætu kartöflunum hér að ofan eða ofnbökuðum frönskum

Vonum að þið njótið!+
- Veganistur

 

anamma.png

- Þessi færlsa er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Gómsæt eplabaka

IMG_3649-3.jpg

Það er ekkert betra eftir góða máltíð en góður eftirréttur. Eða það finnst mér allavega. Uppáhalds eftirréttirnir mínir eru einfaldir eftirréttir, eitthvað sem þarf ekki að hafa mikið fyrir, líkt og góður vegan ís eða einföld kaka. Við erum mjög heppin með það að það er ótrúlega mikið af góðum vegan ís komin á markaðin hér á landi og er þar ísinn frá Oatly einn af mínum uppáhalds. 

IMG_3520-2.jpg
IMG_3531 (3).jpg

Þessi eplabaka er einn af mínum uppáhalds eftirrétti en það er eindfaldlega vegna þess hversu auðvelt er að útbúa hana og hversu góð hún er. Það sem mér finnst líka vera mikill kostur er að það má undirbúa hana snemma um daginn og skella henni síðan bara í ofninn eftir matinn. 

IMG_3624-4.jpg

Kakan samanstendur af grænum eplum, möndlusmjörs-karamellu (sem passar fullkomlega með eplunu) og hafradeigi sem gerir "krönsí" áferð. Bakan passar fullkomlega með vanilluísnum frá Oatly.

IMG_3643-2.jpg

Eplabaka:

Aðferð:

  1. Afhýðið eplin og skerið niður í litla bita. Setjið í eldfast mót og hellið möndlusmjörs-karamellunni yfir.

  2. Útbúið deigið með því að blanda restinni af hráefnunum saman í skál og dreifið yfir eplin. 

  3. Bakið kökuna í 30 til 35 mínútur við 180°C 

Möndlusmjörs-karamella

Aðferð:

  1. Setjið allt saman í pott og leyfið suðunni að koma upp.

  2. Sjóðið í 2 til 3 mínútur og hrærið í á meðan.

Vonum að þið njótið
-Veganistur

innnes2.jpg

-Færslan er unnin í samstarfi við Rapunzel og Innnes-

Vegan stroganoff - Veganoff

IMG_9530.jpg

Hvað er stroganoff? 

Stroganoff er upprunalega rússneskur réttur og inniheldur nautakjötsbita sem látnir eru malla í brúnni sósu úr sýrðum rjóma og bornir fram með pasta eða hrísgrjónum. Rétturinn hefur breyst mikið í gegnum tíðina en í dag eru yfirleitt sveppir og laukur í sósunni ásamt dijon sinnepi og einhverskonar súpukrafti. Mig hefur lengi langað að gera vegan útgáfu af þessum rétti en ég smakkaði hann fyrir mörgum árum í Lettlandi og þótti ekkert smá góður. Ég lét loksins verða að því um daginn og útkoman varð æðisleg. 

IMG_9451.jpg

Ég átti til poka af Oumph! í frystinum og afgangs rauðvín svo ég sló til og sé sko ekki eftir því. Ég bið ykkur að taka því ekki illa þótt uppskriftin sé að einhverju leyti ólík hefðbundinni stroganoff uppskrift, en þrátt fyrir að hún sé ekki alveg eins þá er bragðið ekkert síðra. 

IMG_9465.jpg

Ég ætlaði að hafa kóríander í uppskriftinni en þar sem kærastinn minn getur ekki fyrir sitt litla líf borðað ferskt kóríander ákvað ég að setja það frekar út á diskinn og það kom gríðarlega vel út. Ég held það sé sniðugt að gera það bara nema maður sé viss um að allir sem eru í mat borði kóríander. 

Ég ákvað að bera réttinn fram með hrísgrjónum og útbjó túrmerík-grjón. Þau eru einfaldlega gerð með því að hella örlitlu túrmeríkkryddi út í pottinn meðan grjónin eru að sjóða. Bæði verða þau falleg á litinn og kryddið gefur gott bragð. Þó er mikilvægt að setja ekki of mikið heldur strá örlitlu þannig grjónin verði fallega gul. 

IMG_9515.jpg

Hráefni:

  • 1 poki Oumph! the chunk (Ég notaði filet sem er nákvæmlega eins nema bara stærra, því ég fann ekki the chunk úti í búð)

  • 1 askja sveppir (250g)

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 msk dijon sinnep

  • 2 tsk tómatpúrra

  • 2,5 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 dl vatn

  • 1/2 dl vegan rauðvín

  • 1 sveppateningur

  • 1/2 msk dökk sojasósa

  • safi úr ca 1/4 sítrónu

  • salt og pipar

  • Kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið Oumphið úr frystinum og leyfið því að þiðna í svona 20 mínútur áður en það er matreitt

  2. Saxið niður laukinn og hvítlaukinn og skerið sveppina niður. Ég hef sveppina í svolítið stærri bitum fyrir þennan rétt. Steikið á pönnu upp úr olíu þar til laukurinn fær gylltan lit og sveppirnir hafa mýkst vel.

  3. Skerið Oumphið niður í munnbita. Mér finnst gott að gera það svo ég fái aðeins meira úr pakkanum því sumir bitarnir geta verið svolítið stórir. Þið sjáið á myndunum að ofan hversu stórir bitarnir voru hjá mér. Bætið Oumphinu út á pönnuna ásamt tómatpúrrunni og dijon sinnepinu og steikið í nokkrar mínútur

  4. Hellið rauðvíninu út á pönnuna og hækkið hitann á sama tíma í nokkrar mínútur á meðan

  5. Lækkið hitann aftur niður í miðlungs og bætið rjómanum, sýrða rjómanum, vatninu, sveppakraftinum og sojasósunni út á pönnuna. Leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur

  6. Smakkið til með salti og pipar og kreistið sítrónusafann yfir áður en þið berið matinn fram.

Berið fram með grjónum eða pasta. Hérna er uppskrift af fljótlegu hvítlauksbrauði sem er einstaklega gott að bera fram með. 

Veganistur

Vefjur með falafel, hummus og chili-mæjó

IMG_9277-2.jpg
IMG_9227-2.jpg

Nú er janúar að líða undir lok sem þýðir að Veganúar fer að klárast. Okkur hefur þótt virkilega gaman að sjá hversu margir eru að taka þátt í ár og við hvetjum að sjálfsögðu alla til að halda áfram. Eins þætti okkur gaman að heyra hvernig ykkur hefur gengið í Veganúar og hvaða matur ykkur hefur þótt standa fram úr. 

IMG_9252-2.jpg
IMG_9260.jpg

Þessi færsla er sú síðasta í samstarfi okkar við Krónuna í Veganúar en okkur fannst tilvalið að enda á falafel vefjum sem eru í miklu uppáhaldi hjá okkur. Falafel eru bollur gerðar úr kjúlingabaunum og allskyns kryddum. Bollurnar eiga uppruna sinn að rekja til Egyptalands og eru yfirleitt borðaðar í pítubrauði eða vefjum. Okkur þykir best að borða falafel í vefju, með hummus, grænmeti og sterkri sósu. 

IMG_9275-3.jpg
IMG_9287.jpg

Hér er listinn yfir hráefnin. Það er svolítið erfitt að lista niður hlutföll því það er misjafnt hvað fólk vill setja mikið í vefjurnar sínar og hvort fólk borðar fleiri en eina vefju. 

  • Vefjur - Við mælum með þeim frá Planet Deli og Banderos

  • Falafelbollur frá Hälsans Kök - Pakkinn er 300g og miðast við þrjá fullorðna

  • Hummus frá Tribe 

  • Salat að eigin vali

  • Rauðlaukur (má sleppa)

  • Kirsuberjatómatar (má sleppa)

  • Sriracha mæjó frá Flying goose

  1.  Eldið falafelbollurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Það er bæði hægt að steikja þær á pönnu eða í bakaraofni og við mælum með því síðarnefnda. 

  2. Hitið vefjurnar í nokkrar sekúndur í ofninum eða í örbylgjuofni

  3. Smyrjið vefjuna með hummus, raðið falafelbollunum og því grænmeti sem ykkur lystir ofan á og endið svo á sriracha mæjóinu. Það er virkilega bragðgott en heldur sterkt svo við mælum með að setja ekki of mikið til að byrja með. 

  4. Rúllið vefjurnar upp og njótið!

Veganistur

 

krónan.png

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Pönnubrauð

IMG_1978.jpg
IMG_1985.jpg

Heimabakað brauð getur sett punktinn yfir i-ið þegar kemur að ýmsum máltíðum. Það er því virkilega hentugt að kunna að gera einfalt og fljótlegt brauð til að hafa með matnum. Ég komst fyrir nokkru upp á lagið með að gera pönnubrauð en það er einstaklega þægilegt þar sem þarf hvorki að hefa það né baka í ofni.  Hráefnunum er einfaldlega skellt saman og brauðið steikt í nokkrar mínútur á pönnu. Þetta brauð passar fullkomlega með alls konar pottréttum og súpum.

IMG_2011.jpg

Hráefni:

  • 4 dl spelt hveiti

  • 2 dl vatn

  • örlítið salt

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum saman og bætið við meiru hveiti ef deigið er blautt.

  2. Skiptið deiginu í 6 litlar kúlur.

  3. Fletjið kúlurnar út og steikið í nokkrar mínútur á heitri þurri pönnu.

  4. Gott er að pensla brauðið með vegan hvítlaukssmjöri um leið og það kemur af pönnunni en það er alls ekki nauðsynlegt.

-Veganistur

 

Vikumatseðill 22.-26. janúar

IMG_5558.jpg

Vikumatseðill 22.janúar til 26.janúar

Mánudagur:
Rjómapasta og hvítlauksbrauð

Þriðjudagur:
Grænmetisbuff, soðið bygg, litríkt salat og heimagerð pítusósa - gerð úr vegan mæjónesi, herbs de provence kryddi (frönskum jurtum) og smá salti.

Miðvikudagur:
Linsubaunasúpa

Fimmtudagur:
Fljótlegt kjúklingabaunakarrý (uppskrift kemur á morgun)

Föstudagur:
Taco Fredag, eins og Svíarnir segja: Vefjur með vegan hakki, salsasósu, Oatly sýrðum rjóma, grænmeti og guacomole

veganisturundirskrift.jpg