Vegan osta og brokkolí ofnréttur með hrísgrjónum

Við systur ætlum að vera duglegri þetta árið að deila með ykkur auðveldum og sniðugum hversdagsmat þar sem við fáum alltaf margar fyrirspurnir um það þegar við skoðum hvað þið vilja sjá meira af. Það er svo ótrúlega auðvelt að festast í því að elda alltaf það sama og svo er oft mjög yfirþyrmandi að ákveða hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Mér kvöldmaturinn oft hanga yfir mér allan daginn þegar ég veit ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég eigi að hafa í matinn. Ég mæli því alveg 100% með því að gefa sér nokkrar mínútur á sunnudögum í að gera matseðil fyrir vikuna en það hjálpar mér ekkert smá mikið. Þá finnst mér oft mjög þægilegt að geta kíkt á netið og fundið hugmyndir af réttum.

Síðustu vikur hef ég verið að prófa mig mjög mikið áfram með rétti sem ekki þarf að standa yfir eða svokallað “one-pot” rétti. Ég er alveg að dýrka þessa eldunar aðferð en þetta eru sem sagt réttir þar sem öllu er skellt í eldfast mót eða pott og síðan látið eldast án þess að það þurfi að hræra í eða gera nokkuð. Það er svo mikil snilld fyrir þá daga sem ég nenni ekki að elda, að geta skellt öllu í eldfast mót og inní ofn og síðan bara gert hvað sem er í klukkutíma á meðan rétturinn eldast. Rétturinn sem ég deili með ykkur í dag er ótrúlega góður og það þarf ekkert að hafa fyrir honum, en ég mun klárlega deila fullt af svona uppskriftum með ykkur í framtíðinni!

Ofnrétturinn samanstendur af hrísgrjónum í botninum, brokkolí og vegan soyjakjöti yfir og er hann síðan ofnbakaður upp úr vegan cheddar rjómaostasósu. Þetta er hinn fullkomni heimilismatur, tekur enga stund og dugar fyrir 4 til 5 fullorðna ef það er meðlæti með. Hann er ótrúlega bragðgóður og hægt er að bera hann fram einan og sér eða með góðu meðlæti. Ég ber réttinn oftast fram með góðu fersku salati en þá er algjört lykilatriði að hafa nýja vegan fetaostinn frá Sheese með en það er nýr ostur sem kemur í teningum. Fetaostur var uppáhalds osturinn minn þegar ég var yngri og hef ég verið með þennan vegan ost með öllu sem ég borða síðan ég keypti hann fyrst. Mér finnst einnig passa mjög vel að hafa vegan hvítlauksbrauð með en það er hægt að gera sjálfur eða kaupa brauðið frá Hatting sem er tilbúið vegan hvítlauksbrauð og má að sjálfsögðu finna í Krónunni.

Mér finnst ótrúlega gott að búa til kryddlög fyrir fetaostinn líkt og venjan er hérna heima en það er ótrúlega einfalt og smakkast hann alveg eins og venjulegi fetaosturinn sem hægt er að kaupa í krukku út í búð. Í kryddlögin set ég eftirfarandi:

  • Vel af góðri ólífuolíu, ég hef verið að nota D.O.P olíuna frá Olifa

  • Timían

  • Rósmarín

  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum

  • Grófmalaður pipar

  • Örlítið salt

Ég set mjög lítið af hveju kryddi fyrir sig og hræri þessu síðan aðeins saman.

Hráefni (réttur fyrir 4):

  • 2 dl hrísgrjón

  • 3 dl vatn + 2 grænmetisteningar

  • 1 cheddar rjómaostur frá Sheese

  • 250 ml vegan hafrarjómi

  • 2 msk ítalskt pastakrydd frá pottagöldrum

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1-2 tsk salt

  • 1 haus brokkolí

  • 4 litlir vorlaukar

  • 1 pakki vegan kjúklingur (t.d. oumph)

  • sirka 1/2 poki rifin epic mature cheddar frá Violife (eða það magn sem passar yfir réttinn)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Hellið hrísgrjónum í stórt eldfast mót

  3. Leysið tvo grænmetisteninga upp í heitu vatni og hellið yfir hrísgrjónin

  4. Hrærið saman í skál rjómaostinum, vegan hafrarjóma, hvítlauksgeirum og kryddunum

  5. Hellið yfir hrísgrjónin og blandið aðeins saman við hrísgrjónin og vatnið.

  6. Skerið niður vorlauk og brokkolí og dreyfið yfir ásamt soyja kjötinu. Ýtið aðeins ofan í vökvan.

  7. Stráið rifna ostinum yfir réttinn

  8. Setjið álpappír yfir eldfasta mótið og eldið í ofninum í 50 mínútur. Takið þá álpappírinn af og leyfið réttinum að vera í 15 mínútur í viðbót í ofninum.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar -

 
 

Vegan brauðréttur með vegan beikoni og osti

Ef það er eitthvað sem mér finnst nauðsynlegt í allar veislur og um hátíðir þá er það svo sannarlega heitur brauðréttur! Það er hægt að gera svo ótrúlega margar og skemmtilegar útfærslur af þessum æðislega rétti en við höfum til dæmis deilt með ykkur hefðbundnum heitum brauðrétti sem og heitu rúllubrauði hérna á blogginu áður.

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er síðan þriðja útfærslan á heitum brauðrétti en það er fyllt “baguette” brauð. Það má að sjálfsögðu gera hinar uppskriftirnar líka í þessari útfærslu eða öfugt.

Þessi uppskrift er ólík öðrum heitum brauðréttum sem við höfum deilt með ykkur áður en í þetta skipti erum við með fyllingu sem er stútfull af gómsætum vegan osti, reyktum vegan “beikon” bitum og vorlauk. Hann er því fullkomin til að breyta aðeins út af vananum og lofum við ykkur að þið sláið í gegn í boðum ef þið komið með þetta brauð.

Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að í undirbúningi. Brauðið er fullkomið til að taka með sér þar sem það er mjög auðvelt að pakka því inn í álpappír eða annað slíkt og helst það þá vel heitt í góðan tíma.

Það er einnig fullkomið að gera þennan gómsæta rétt til dæmis á milli jóla og nýárs en við áttum alls ekki í vandræðum með að klára eitt stykki með kaffinu þó við værum ekki nema þrjú saman.

Hráefni:

  • 1 súrdeigsbaguette

  • 2 msk góð steikingarolía

  • 1 tsk salt

  • 2 dl smokey bites

  • 2 vorlaukar

  • 1/2 Smokey mature ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 1/2 Chilli and garlic ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 220 gr vegan rjómaostur

  • 1 dl hafrarjómi

  • Ofan á brauðið fer:

    • Restin af ostunum tveimur, eða eins mikið magn og hver og einn vill

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1/2 tsk paprikuduft

    • 1 msk þurrkuð steinselja

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja reyktu bitana (smokey bites) ásamt niðurskornum vorlauk upp úr olíu og salti í nokkrar mínútur.

  2. Rífið niður ostinn og hrærið saman í skál rifnum ostinum, rjómaosti, hafrarjóma, reyktu bitana og vorlaukinn.

  3. Skerið ofan í brauðið tvær langar rifur (athugið að skera alls ekki alveg í gegnum brauðið) og takið ofan af og aðeins innan úr brauðinu eins og sést á myndunum.

  4. Fyllið brauðið með rjómaostafyllingunni.

  5. Rífið vel af báðunum ostunum yfir fyllinguna og stráið hvítlauksdufti, paprikudufti og steinselju yfir.

  6. Bakið við 210°C í 12-15 mínútur eða þar til osturinn verður fallega gylltur að ofan.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -

 
 

Grillaðar samlokur með vegan kjúklingasalati

Góðan daginn kæru vinir.

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af djúsí grilluðum samlokum með vegan kjúklingasalati og osti. Svo gott að ég gæti grátið!

DSCF1646.jpg

Uppskriftin er í samstarfi við Hellman’s. Vegan majónesið þeirra er eitt það allra besta á markaðnum og er fullkomið í góð sallöt og sósur. Mér finnst gott að eiga alltaf til krukku af majónesinu þeirra svo ég geti skellt í góða pítu- eða hamborgarasósu hvenær sem er. Já, eða þetta gómsæta vegan kjúkligasalat

DSCF1666.jpg

Ég er mikið fyrir majónessalöt og þetta tiltekna salat hefur oft slegið í gegn í mínum veislum og partýum. Ég hef borið það fram með góðu kexi og einn skammtur hverfur yfirleitt á nokkrum mínútum. Salatið er líka frábært í allskonar samlokur og langlokur og ég hef líka gert litlar vefjur sem ég sker niður í munnbita. Allt saman jafn gott!

Hugmyndin um að útbúa grillaðar samlokur með salatinu kom til mín í dag. Ég hafði fyrst hugsað mér að bera það öðruvísi fram fyrir færsluna, en lá svo í rúminu í morgun og fékk þessa hugmynd. Ég vissi ekki hvernig það kæmi út og dreif mig að prófa. Guð minn góður hvað ég er glöð að ég gerði það, ég hef ekki borðað jafn góða samloku lengi.

DSCF1682-2.jpg

Já ég get líka sagt ykkur það að ég gerði mér sérstaka ferð til Luleå, sirka klukkutíma frá mér, bara til þess að kaupa nýtt samlokugrill því ég vildi gera gómsætar samlokur sem minntu svolítið á grillað panini. Ég vildi fá þessar fínu rendur sem koma í þessum ákveðnu grillum. Ég veit að það er kannski svolítið galið, en ég sé svo sannarlega ekki eftir þessum kaupum.

DSCF1703.jpg

Ég hlakka til að heyra hvort þið prófið að gera þessar sjúlluðu samlokur og hvað ykkur finnst!

Hráefni:

Vegan kjúklingasalat með karrý

  • 1 pakki vegan kjúklingabitar

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka vegan Hellman’s majónes

  • 1/2 dl vegan hrein jógúrt eða grísk vegan jógúrt

  • 1-2 dl saxaður vorlaukur. Ég setti um 1,5 dl

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk karrýduft

  • salt og pipar eftir smekk

Hráefni í 3-4 samlokur

  • 6-8 brauðsneiðar

  • 1 skammtur kjúklingasalat

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk

  • Vegan smjör til að smyrja samlokurnar að utanverðu (má sleppa)

Gott að bera fram með:

  • Kóríander

  • Pikluðum rauðlauk

  • Frönskum

Aðferð:

  1. Takið bitana úr frysti og steikið aðeins á pönnu uppúr smá olíu og salti. Bitarnir þurfa í raun ekkert að eldast mikið, bara í nokkrar mínútur þannig þeir séu orðnir mjúkir.

  2. Hellið þeim á stórt skurðarbretti og rífið í sundur með tveimur göfflum. Mér finnst þetta skipta miklu máli uppá áferðina á salatinu. Ég ríf þá ekkert alveg niður en ríf þá í sundur í þá stærð sem ég vil hafa bitana í stað þess að skera þá niður.

  3. Setjið bitana í stóra skál og bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund. Þetta gerir það að verkum að salatið verður bragðmeira og betra. Eins og ég sagði hér að ofan er mjög gott að gera þetta snemma sama dag og þið ætlið að bera salatið fram eða jafnvel kvöldið áður.

  5. Smyrjið brauðsneiðar með smjöri að utanverðu

  6. Smyrjið salati á og dreifið rifnum osti yfir

  7. Grillið samlokurnar í samlokugrilli eða á pönnu þar til osturinn hefur bráðnað og brauðið fengið örlítið gylltan lit.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið!

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Hellman’s á Íslandi-

 
Hellmann’s-Logo-2015.jpeg