Vegan osta og brokkolí ofnréttur með hrísgrjónum

Við systur ætlum að vera duglegri þetta árið að deila með ykkur auðveldum og sniðugum hversdagsmat þar sem við fáum alltaf margar fyrirspurnir um það þegar við skoðum hvað þið vilja sjá meira af. Það er svo ótrúlega auðvelt að festast í því að elda alltaf það sama og svo er oft mjög yfirþyrmandi að ákveða hvað á að vera í matinn á hverjum degi. Mér kvöldmaturinn oft hanga yfir mér allan daginn þegar ég veit ekki búin að ákveða fyrirfram hvað ég eigi að hafa í matinn. Ég mæli því alveg 100% með því að gefa sér nokkrar mínútur á sunnudögum í að gera matseðil fyrir vikuna en það hjálpar mér ekkert smá mikið. Þá finnst mér oft mjög þægilegt að geta kíkt á netið og fundið hugmyndir af réttum.

Síðustu vikur hef ég verið að prófa mig mjög mikið áfram með rétti sem ekki þarf að standa yfir eða svokallað “one-pot” rétti. Ég er alveg að dýrka þessa eldunar aðferð en þetta eru sem sagt réttir þar sem öllu er skellt í eldfast mót eða pott og síðan látið eldast án þess að það þurfi að hræra í eða gera nokkuð. Það er svo mikil snilld fyrir þá daga sem ég nenni ekki að elda, að geta skellt öllu í eldfast mót og inní ofn og síðan bara gert hvað sem er í klukkutíma á meðan rétturinn eldast. Rétturinn sem ég deili með ykkur í dag er ótrúlega góður og það þarf ekkert að hafa fyrir honum, en ég mun klárlega deila fullt af svona uppskriftum með ykkur í framtíðinni!

Ofnrétturinn samanstendur af hrísgrjónum í botninum, brokkolí og vegan soyjakjöti yfir og er hann síðan ofnbakaður upp úr vegan cheddar rjómaostasósu. Þetta er hinn fullkomni heimilismatur, tekur enga stund og dugar fyrir 4 til 5 fullorðna ef það er meðlæti með. Hann er ótrúlega bragðgóður og hægt er að bera hann fram einan og sér eða með góðu meðlæti. Ég ber réttinn oftast fram með góðu fersku salati en þá er algjört lykilatriði að hafa nýja vegan fetaostinn frá Sheese með en það er nýr ostur sem kemur í teningum. Fetaostur var uppáhalds osturinn minn þegar ég var yngri og hef ég verið með þennan vegan ost með öllu sem ég borða síðan ég keypti hann fyrst. Mér finnst einnig passa mjög vel að hafa vegan hvítlauksbrauð með en það er hægt að gera sjálfur eða kaupa brauðið frá Hatting sem er tilbúið vegan hvítlauksbrauð og má að sjálfsögðu finna í Krónunni.

Mér finnst ótrúlega gott að búa til kryddlög fyrir fetaostinn líkt og venjan er hérna heima en það er ótrúlega einfalt og smakkast hann alveg eins og venjulegi fetaosturinn sem hægt er að kaupa í krukku út í búð. Í kryddlögin set ég eftirfarandi:

  • Vel af góðri ólífuolíu, ég hef verið að nota D.O.P olíuna frá Olifa

  • Timían

  • Rósmarín

  • Ítölsk hvítlauksblanda frá pottagöldrum

  • Grófmalaður pipar

  • Örlítið salt

Ég set mjög lítið af hveju kryddi fyrir sig og hræri þessu síðan aðeins saman.

Hráefni (réttur fyrir 4):

  • 2 dl hrísgrjón

  • 3 dl vatn + 2 grænmetisteningar

  • 1 cheddar rjómaostur frá Sheese

  • 250 ml vegan hafrarjómi

  • 2 msk ítalskt pastakrydd frá pottagöldrum

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1-2 tsk salt

  • 1 haus brokkolí

  • 4 litlir vorlaukar

  • 1 pakki vegan kjúklingur (t.d. oumph)

  • sirka 1/2 poki rifin epic mature cheddar frá Violife (eða það magn sem passar yfir réttinn)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Hellið hrísgrjónum í stórt eldfast mót

  3. Leysið tvo grænmetisteninga upp í heitu vatni og hellið yfir hrísgrjónin

  4. Hrærið saman í skál rjómaostinum, vegan hafrarjóma, hvítlauksgeirum og kryddunum

  5. Hellið yfir hrísgrjónin og blandið aðeins saman við hrísgrjónin og vatnið.

  6. Skerið niður vorlauk og brokkolí og dreyfið yfir ásamt soyja kjötinu. Ýtið aðeins ofan í vökvan.

  7. Stráið rifna ostinum yfir réttinn

  8. Setjið álpappír yfir eldfasta mótið og eldið í ofninum í 50 mínútur. Takið þá álpappírinn af og leyfið réttinum að vera í 15 mínútur í viðbót í ofninum.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í réttinn þar -

 
 

Falafel úr chana dal baunum

Síðan ég varð ólétt hef ég verið mikið að prófa mig áfram með fleiri baunarétti og svona aðeins “hollari” fæðu. Ég myndi segja að mataræðið mitt sé nú alveg frekar hollt yfir höfuð en ég á það til að elda mikið af soyakjöti og plana flestar máltíðir í kringum slík hráefni. Ég hugsa að partur af því sé til komið vegna þess að fyrst þegar við systur urðum vegan var lítið til að slíkum vörum og samanstóð mataræðið okkar eingöngu af grænmeti, ávöxtum, baunum, hnetum og fræjum. Þar af leiðandi opnaðist alveg nýr heimur fyir mér þegar vegan kjöt fór að vera í boði.

En eftir að ég varð ólétt hef ég aðeins verið að reyna að fara til baka og gera fleiri rétti úr minna unnum vörum og hef því verið að koma baunum meira og meira inn í mataræðið mitt aftur þar sem þær eru alveg stútfullar af góðri næringu, próteini, trefjum og alls kona góðu. Ég er þó alls ekki að segja að vegan “kjöt” sé óhollt og borða ég það yfirleitt eitthvað á hverjum degi líka.

Mér hefur fundist mjög gaman að leika mér með allskonar baunir síðustu mánuði og þá sérstaklega baunirnar frá Oddpods en við erum búnar að vera í samstarfi með þeim síðan í sumar. Baunirnar eru svo frábærar þar sem þær er hægt að nota á svo marga vegu og er hægt að leika sér með nánast hvaða baunir sem er í alls konar mismunandi réttum. Það sem mér finnst vera mikill plús við þetta merki er að það er hægt að fá baunir líkt og brúnar linsur og chana dal baunirnar sem ég nota í þessari uppskrift forsoðnar, en það hefur ekki verið auðvelt að nálgast slíkt hérna heima. Þessar baunir þarf yfirleitt að leggja í bleyti og sjóða sjálfur. Oddpods baunirnar koma hins vegar tilbúnar til neyslu beint úr pokanum og eru þær soðnar upp úr vatni og grænmetiskrafti sem gerir þær einstaklega bragðgóðar.

Nú er ég í vaktavinnu og er því oft heima í hádeginu hina og þessa daga og því finnst mér nauðsynlegt að kunna að gera góða, fljótlega rétti í hádeginu þegar ég á t.d. ekki afganga frá því kvöldinu áður eða eitthvað slíkt. Auðveldar grænmetisbollur sem taka enga stund eru alveg fullkomnar í svona fljótlega rétti og er þessi uppskrift alveg einstaklega góð þar sem hún er SVO auðveld og tekur innan við 15 mínútur að græja. Þær má einnig nota á svo marga vegu, t.d. með góðu salati, í pítubrauði eða í vefjur. Það er líka svo frábært að það er hægt að nota hvaða baunir sem er í hana og því alltaf hægt að grípa í þessa uppskrift sama hvaða baunir eru til. Í þetta skipti ætla ég að deila með ykkur uppskrift með Chana dal baununum frá Oddpods en það eru gular “split peas” líkt og notað er í baunasúpu.

Hráefni:

  • 1 poki Chana dal baunir frá Oddpods

  • 1 hvítlauksrif

  • 1 msk ferskt kóríander

  • 1 msk ferksur graslaukur

  • 1 tsk malaður kóríander

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk kúminduft

  • 2-3 msk ferskur sítrónusafi

  • salt

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í blandara eða matvinnsluvél og maukið þar til fínt duft. Tekur einungis um 2-3 mínútur í góðum blandara.

  2. Mótið í bollur, buff eða það sem hentar hverju sinni.

  3. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni í 12-15 mínútur við 200°C.

  4. Berið fram með tzaziki sósu og salati eða í pítúbrauði, vefju eða sem borgari.

Tzatziki sósa

  • 1 bolli hreint jógúrt (mín uppáhalds eru Oatly Turkisk havregurt eða hreina sojade)

  • 2 msk rifin gúrka

  • 1/2 hvítlauksrif

  • salt

  • 1 msk ferskur sítrónusafi

  • 1 msk niðursaxað ferskt dill

Aðferð:

  1. Rífið gúrkuna niður og pressið hvítlaukinn eða saxið bæði mjög smátt. Saxið dillið.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál og smakkið til með salti.

-Njótið vel og endilega kíkið á instagram hjá okkur en þar er stutt myndband af því hvernig ég geri bollurnar.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi -

 
 

Sumarlegt salat

Þar sem ég er vegan þarf ég yfirleitt alltaf að taka með mér nesti í vinnuna. Ég elda stórar máltíðir svo það sé nóg fyrir bæði mig og kærastann minn í hádegismat daginn eftir. Stundum henntar það þó ekki alveg, t.d. þegar að við förum út að borða eða höfum einfaldlega ekki tíma til að elda stóra góða máltíð, en þá er hægt að redda sér á alls konar vegu.

Ég á alltaf til grænmetisbuff eða bollur í frystinum til að grípa í og svo er úrvalið af fljótlegum vegan mat alltaf að aukast. Snemma í vetur kom á markaðinn skyndiréttur frá Allos. Þegar ég sá þetta ákvað ég að grípa nokkra pakka með og prófa. Við prófuðum að taka réttina með okkur í nesti en urðum ósátt hvað þeir eru lítið mettandi. Við hefðum örugglega þurft að taka þrjá hvort til þess að verða södd, en réttirnir voru aftur á móti virkilega bragðgóðir.

Um daginn ákvað ég að prufa mig áfram með réttina. Ég átti ennþá tvo pakka og þar sem við vorum ekkert rosalega spennt fyrir réttunum, ákvað ég að gá hvort ég gæti ekki kryddað örlítið uppá þá. Útkoman var æðislegt sumarsalat sem kom okkur báðum mikið á óvart. Við höfum verið dugleg að úbúa samskonar salöt og taka með okkur í nesti. Þau verða þó aldrei alveg eins því við nýtum það sem við eigum í ísskápnum hverju sinni. Salötin eru mettandi en þó frekar létt og henta því einnig vel sem hádegismatur á sólríkum degi. 

Ég skiptist á að nota grjón, bygg, kínóa eða kúskús. Svo set ég grænmeti, ávexti og fræ. Það er hægt að leika sér endalaust með þetta og finna hvað manni þykir best. Réttirnir eru bragðmiklir svo það er óþarfi að krydda salötin aukalega. 

Hráefni:

  • 1 pakki Allos vegan skyndiréttur

  • 1 bolli einhvers konar grunnur (Í þessu salati var ég með kúskús og kínóa í bland)

  • spínat

  • kirsuberjatómatar

  • epli

  • graskersfræ

Aðferð:

  1. Eldið skyndiréttinn eftir leiðbeiningum á pakkanum og sjóðið þann grunn sem þið hyggist nota. Mér finnst gott að sjóða kínóa og kúskús upp úr smá grænmetiskrafti.

  2. Leyfið skyndiréttinum og grunninum að kólna en á meðan er hægt að undirbúa restina af salatinu og blanda þessu svo saman þegar allt hefur kólnað vel.

  3. Ég sker spínatið, tómatana og eplin í litla bita svo auðvelt sé að borða salatið. Fræin set ég heil saman við.

Júlía Sif