Vegan bananapönnukökur

Þessar pönnukökurnar eru algjört æði og í miklu uppáhaldi hjá okkur þar sem það er ótrúlega einfalt að baka þær og eru þær hveiti og sykurlausar. Pönnukökurnar er einnig auðvelt að gera glútenlausar með því að skipta út venjulegu haframjöli fyrir glútenlaust haframjöl. Þær eru mjög næringarríkar og henta líka fullkomlega fyrir lítil börn. Þær tekur enga stund að útbúa og henta fullkomlega í morgunmat eða sem næringarríkt millimál. Það má bera þær fram á alls konar vegu og er til dæmis hægt að sleppa sírópinu í þeim og bera þær fram með vegan smjöri og vegan osti eða banana.

Hollar bananapönnukökur

  • 2 dl fínmalað haframjöl

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 stór banani eða 1 og hálfur lítill

  • 2 msk síróp (t.d. agave eða það síróp sem hver og einn kýs, því má líka alveg sleppa)

  • 2 dl haframjólk eða önnur plöntumjólk

Aðferð:

  1. Malið haframjölið í blandara eða matvinnsluvél þar til það verður að alveg fínu mjöli.

  2. Stappið banana vel niður.

  3. Hrærið öllum hráefnum vel saman í skál.

  4. Steikið upp úr góðri olíu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða þar til pönnukökurnar verða fallega gylltar.

-Njótið vel

Hollar hafrakökur með trönuberjum

IMG_9855.jpg

Ég held að það sé svo sannarlega komið haust hérna á litla skerinu okkar en síðustu daga höfum við fengið allan skalan af veðri sitt á hvað. Þegar það fór að snjóa í morgun fannst mér allt í einu ótrúlega raunverulegt að sumarið væri búið. Mér finnst það þó alls ekki vera svo slæmt þar sem oftast finnst mér fylgja haustinu mikil ró, rútína og kósýheit. Við Íslendingar erum kannski svolítið æst á sumrin og alltaf svo hrædd um að vera að missa af sumrinu, og þar er ég svo sannarlega ekki saklaus, svo mér finnst alltaf bara fínt þegar skólarnir fara af stað og meiri rútína kemst á lífið.

Ég er í fyrsta skipti í yfir 3 ár ekki í skóla þetta haustið og verð ég að segja að það er mjög skrítið en á sama tíma auðvitað mjög þægilegt. Ég er þó mest spennt fyrir því að vera ekki í prófatíð rétt fyrir jól og geta loksins undirbúið jólin að heilum hug mörgum vikum fyrir aðfangadag eins og ég vil helst gera.

IMG_9838.jpg

Haustinu fylgir alltaf mikil matarrútína á mínu heimili en mér finnst ég eiga mjög auðvelt með að detta úr rútínu hvað varðar eldamennsku og matarræði á sumrin. Alls ekki að ég sé á einhverju sérstöku matarræði eða neitt slítk, heldur á ég það til að elda lítið heima og vera lítið með undirbúin mat yfir sumartíman. Á haustinn verð ég alltaf ósjálfrátt duglegri að elda heima, skipuleggja matarinnkaup og nesti til að taka með í vinnu eða út í daginn.

Ég er alveg rosalega mikið fyrir sætindi og því finnst mér skipta virkilega miklu máli að kunna að gera alls konar sætindi sem eru holl og er auðvelt að nýta sem millimál yfir daginn eða til að grípa í þegar mig langar í eitthvað. Mér finnst einnig mjög gaman að eiga eitthvað til að bjóða uppá með kaffinu þegar ég fæ fólk óvænt í heimsókn. Hafrasmákökur eru þar í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær má nefnilega nýta sem morgunmat eða millimál og eru einnig fullkomnar til að grípa með sér á ferðinni.

IMG_9851-2.jpg

Ég elska að baka úr höfrum þar sem þeir eru stútfullir af trefjum og gefa svo ótrúlega gott bragð. Í þessar kökur nota ég einnig kókosmjöl og með þessi tvö innihaldsefni þarf lítið annað til þess að kökurnar verði ótrúlega bragðgóðar en á sama tíma nokkuð hollar. Ég elska að nota þurrkaða ávexti líkt og rúsínur eða tr0nuber í smákökurnar en það má að sjálfsögðu skipta því út fyrir súkkulaði eða bara sleppa því alveg.

IMG_9856.jpg

Hráefni:

  • 4 dl malaðir hafrar frá Til hamingju (hafrar settir í matvinnsluvél eða blandara og blandað þar til mjög fínt)

  • 1 dl heilir hafrar frá Til hamingju

  • 1 dl kókosmjöl frá Til hamingju

  • 4 msk möluð hörfræ frá Til hamingju

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk lyftiduft

  • 150 gr mjúkt smjörlíki eða vegan smjör

  • 1 1/4 dl hlynsíróp

  • 1/2 dl haframjólk eða önnur plöntumjólk

  • 1 pakki þurrkuð trönuber frá Til hamingju

Aðferð:

  1. Hrærið saman haframjólkina og hörfræin í litla skál og setjið til hliðar

  2. Blandið restinni af þurrefnunum saman í skál og hrærið aðeins saman.

  3. Skerið smjörlíkið í litla kubba og bætið út í hörfræ blönduna ásamt sírópinu. Setjið saman við þurrefnin og hrærið þar til allt smjörlíkið hefur blandast vel saman og deigið orðið þykkt slétt deig.

  4. Leyfið deiginu að standa í 10 mínútur. Hitið ofnin í 180°C á meðan.

  5. Mótið kúlur í þeirri stærð sem hver og einn vill, ég notaði kúfulla matskeið af deigi fyrir hverja köku. Sléttið aðeins úr þeim. Bakið í miðjum ofni í 12-14 mínútur eða þar til þær verða fallega gylltar á könntunum.

-Njótið vel og ekki gleyma að tagga okkur á instagram þegar þið eruð að baka og elda réttina okkar :D

Júlía Sif

- Færslan er unnin í samstarfi við Til hamingju -

Sumarlegt salat

Þar sem ég er vegan þarf ég yfirleitt alltaf að taka með mér nesti í vinnuna. Ég elda stórar máltíðir svo það sé nóg fyrir bæði mig og kærastann minn í hádegismat daginn eftir. Stundum henntar það þó ekki alveg, t.d. þegar að við förum út að borða eða höfum einfaldlega ekki tíma til að elda stóra góða máltíð, en þá er hægt að redda sér á alls konar vegu.

Ég á alltaf til grænmetisbuff eða bollur í frystinum til að grípa í og svo er úrvalið af fljótlegum vegan mat alltaf að aukast. Snemma í vetur kom á markaðinn skyndiréttur frá Allos. Þegar ég sá þetta ákvað ég að grípa nokkra pakka með og prófa. Við prófuðum að taka réttina með okkur í nesti en urðum ósátt hvað þeir eru lítið mettandi. Við hefðum örugglega þurft að taka þrjá hvort til þess að verða södd, en réttirnir voru aftur á móti virkilega bragðgóðir.

Um daginn ákvað ég að prufa mig áfram með réttina. Ég átti ennþá tvo pakka og þar sem við vorum ekkert rosalega spennt fyrir réttunum, ákvað ég að gá hvort ég gæti ekki kryddað örlítið uppá þá. Útkoman var æðislegt sumarsalat sem kom okkur báðum mikið á óvart. Við höfum verið dugleg að úbúa samskonar salöt og taka með okkur í nesti. Þau verða þó aldrei alveg eins því við nýtum það sem við eigum í ísskápnum hverju sinni. Salötin eru mettandi en þó frekar létt og henta því einnig vel sem hádegismatur á sólríkum degi. 

Ég skiptist á að nota grjón, bygg, kínóa eða kúskús. Svo set ég grænmeti, ávexti og fræ. Það er hægt að leika sér endalaust með þetta og finna hvað manni þykir best. Réttirnir eru bragðmiklir svo það er óþarfi að krydda salötin aukalega. 

Hráefni:

  • 1 pakki Allos vegan skyndiréttur

  • 1 bolli einhvers konar grunnur (Í þessu salati var ég með kúskús og kínóa í bland)

  • spínat

  • kirsuberjatómatar

  • epli

  • graskersfræ

Aðferð:

  1. Eldið skyndiréttinn eftir leiðbeiningum á pakkanum og sjóðið þann grunn sem þið hyggist nota. Mér finnst gott að sjóða kínóa og kúskús upp úr smá grænmetiskrafti.

  2. Leyfið skyndiréttinum og grunninum að kólna en á meðan er hægt að undirbúa restina af salatinu og blanda þessu svo saman þegar allt hefur kólnað vel.

  3. Ég sker spínatið, tómatana og eplin í litla bita svo auðvelt sé að borða salatið. Fræin set ég heil saman við.

Júlía Sif