Hollar hafrakökur með trönuberjum

IMG_9855.jpg

Ég held að það sé svo sannarlega komið haust hérna á litla skerinu okkar en síðustu daga höfum við fengið allan skalan af veðri sitt á hvað. Þegar það fór að snjóa í morgun fannst mér allt í einu ótrúlega raunverulegt að sumarið væri búið. Mér finnst það þó alls ekki vera svo slæmt þar sem oftast finnst mér fylgja haustinu mikil ró, rútína og kósýheit. Við Íslendingar erum kannski svolítið æst á sumrin og alltaf svo hrædd um að vera að missa af sumrinu, og þar er ég svo sannarlega ekki saklaus, svo mér finnst alltaf bara fínt þegar skólarnir fara af stað og meiri rútína kemst á lífið.

Ég er í fyrsta skipti í yfir 3 ár ekki í skóla þetta haustið og verð ég að segja að það er mjög skrítið en á sama tíma auðvitað mjög þægilegt. Ég er þó mest spennt fyrir því að vera ekki í prófatíð rétt fyrir jól og geta loksins undirbúið jólin að heilum hug mörgum vikum fyrir aðfangadag eins og ég vil helst gera.

IMG_9838.jpg

Haustinu fylgir alltaf mikil matarrútína á mínu heimili en mér finnst ég eiga mjög auðvelt með að detta úr rútínu hvað varðar eldamennsku og matarræði á sumrin. Alls ekki að ég sé á einhverju sérstöku matarræði eða neitt slítk, heldur á ég það til að elda lítið heima og vera lítið með undirbúin mat yfir sumartíman. Á haustinn verð ég alltaf ósjálfrátt duglegri að elda heima, skipuleggja matarinnkaup og nesti til að taka með í vinnu eða út í daginn.

Ég er alveg rosalega mikið fyrir sætindi og því finnst mér skipta virkilega miklu máli að kunna að gera alls konar sætindi sem eru holl og er auðvelt að nýta sem millimál yfir daginn eða til að grípa í þegar mig langar í eitthvað. Mér finnst einnig mjög gaman að eiga eitthvað til að bjóða uppá með kaffinu þegar ég fæ fólk óvænt í heimsókn. Hafrasmákökur eru þar í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær má nefnilega nýta sem morgunmat eða millimál og eru einnig fullkomnar til að grípa með sér á ferðinni.

IMG_9851-2.jpg

Ég elska að baka úr höfrum þar sem þeir eru stútfullir af trefjum og gefa svo ótrúlega gott bragð. Í þessar kökur nota ég einnig kókosmjöl og með þessi tvö innihaldsefni þarf lítið annað til þess að kökurnar verði ótrúlega bragðgóðar en á sama tíma nokkuð hollar. Ég elska að nota þurrkaða ávexti líkt og rúsínur eða tr0nuber í smákökurnar en það má að sjálfsögðu skipta því út fyrir súkkulaði eða bara sleppa því alveg.

IMG_9856.jpg

Hráefni:

  • 4 dl malaðir hafrar frá Til hamingju (hafrar settir í matvinnsluvél eða blandara og blandað þar til mjög fínt)

  • 1 dl heilir hafrar frá Til hamingju

  • 1 dl kókosmjöl frá Til hamingju

  • 4 msk möluð hörfræ frá Til hamingju

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk lyftiduft

  • 150 gr mjúkt smjörlíki eða vegan smjör

  • 1 1/4 dl hlynsíróp

  • 1/2 dl haframjólk eða önnur plöntumjólk

  • 1 pakki þurrkuð trönuber frá Til hamingju

Aðferð:

  1. Hrærið saman haframjólkina og hörfræin í litla skál og setjið til hliðar

  2. Blandið restinni af þurrefnunum saman í skál og hrærið aðeins saman.

  3. Skerið smjörlíkið í litla kubba og bætið út í hörfræ blönduna ásamt sírópinu. Setjið saman við þurrefnin og hrærið þar til allt smjörlíkið hefur blandast vel saman og deigið orðið þykkt slétt deig.

  4. Leyfið deiginu að standa í 10 mínútur. Hitið ofnin í 180°C á meðan.

  5. Mótið kúlur í þeirri stærð sem hver og einn vill, ég notaði kúfulla matskeið af deigi fyrir hverja köku. Sléttið aðeins úr þeim. Bakið í miðjum ofni í 12-14 mínútur eða þar til þær verða fallega gylltar á könntunum.

-Njótið vel og ekki gleyma að tagga okkur á instagram þegar þið eruð að baka og elda réttina okkar :D

Júlía Sif

- Færslan er unnin í samstarfi við Til hamingju -