myndafokkkkur.jpg

Hæ!

Við erum systurnar Helga María og Júlía Sif. Við eigum ýmislegt sameiginlegt og ekki síst það að við erum báðar vegan og elskum að elda góðan mat (og deilum líka verulega aulalegum húmor sem enginn annar skilur).

Við stofnuðum Facebooksíðuna Veganistur árið 2014 og var hugmyndin sú að deila með fólki myndum af matnum okkar, uppáhalds vegan vörum og hugleiðingum. Ári seinna vorum við komnar með bæði Instagramsíðu og Snapchat og má þá segja að boltinn hafi farið að rúlla. Nú höfum við loksins opnað vefsíðu og eins og er vinnum við í því að skrifa okkar fyrstu matreiðslubók. 

Við höfum verið vegan í nokkur ár og á þeim tíma lært mikið um lífsstílinn. Við viljum gera okkar besta til þess að veita öðrum hugmyndir og innblástur þegar kemur að vegan matargerð. Við erum þó ekki næringafræðingar og engir sérfræðingar í heilsu, við einfaldlega höfum lært á það hvað lætur okkur líða best ásamt því að hafa lesið okkur heilmikið til.  

Það er okkur einnig mikilvægt að útrýma þeirri hugsun að vegan fólk geti ekki notið þess að borða góðan sælkeramat. Það er stór misskilningur því vegan fæði þarf alls ekki alltaf að vera hollustufæði. Maður getur vel borðað djúsí borgara, pizzur og gómsætar kökur án þess að nota dýraafurðir, og í sjálfu sér eru þær algjörlega óþarfar þegar kemur að matargerð. Við viljum því sýna ykkur hvað það er auðvelt að borða mat sem er bæði hollur, bragðgóður og stútfullur af næringu og hinsvegar mat sem telst síður til heilsufæðis en er bragðgóður, fljótlegur og skemmtilegur. 

Við vonum að þið njótið þess að skoða síðuna okkar og fáið mögulega einhverjar hugmyndir. Eins getið þið alltaf sent okkur spurningar hvort sem það er á Facebook, í gegnum Gmail eða Snapchat. Okkur þykir yndislegt að heyra frá ykkur.