Vegan samlokur með snitseli og hrásalati

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að djúsí samlokum með vegan snitseli og hrásalati með eplum og parmesanosti. Samlokur sem hitta beint í mark og er auðvelt að útbúa. Þær eru mettandi og henta því fullkomlega í hádegismat eða kvöldmat.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði snitselið frá þeim í samlokurnar. Ég elska að eiga snitsel til í frystinum og geta skellt því á pönnu, í ofninn eða airfryerinn og bera fram með góðu meðlæti. Í þetta sinn var ég í stuði fyrir góða samloku. Ég keypti nýbökuð chiabattabrauð og útbjó dásamlegt hrásalat með skemmtilegum snúning þar sem ég setti í það epli og rifinn parmesanost. Virkilega gott!

Ég steikti snitselið á pönnu upp úr miklu vegan smjöri. Eins og ég sagði hér að ofan er ekkert mál að setja það í ofninn eða air fryer.

Ég vissi að ég vildi gera hrásalat en mig langaði að bæta einhverju skemmtilegu við. Ég ákvað að setja epli fyrir ferskleikann og vegan parmesanost. Það varð virkilega gott. Ég geri alltaf frekar stóran skammt af hrásalati til að eiga afgang því mér finnst hrásalat gott með nánast öllu.

Ég notaði chiabattabrauð fyrir samlokurnar í þetta sinn en það er líka gott að nota annað brauð t.d. baguettebrauð eða hamborgarabrauð. Ég get líka ímyndað mér að það sé gott að setja smá buffalosósu á snitselið fyrir ykkur sem ekki eruð viðkvæm fyrir sterkum mat.

Ég mæli mikið með því að prófa að gera þessa gómsætu snitsel samloku. Okkur þykir alltaf jafn hentugt að gera samlokur og erum með nokkrar súper góðar hérna á blogginu, t.d. þessar:

Samloka með pestó, vegan kjötbollum og ostasósu

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú, piparmajónesi og bjórsteiktum lauk

Grillaðar samlokur með vegan kjúkligasalati

Takk fyrir að lesa og ég vona að þú njótir!

Helga María <3

Samlokur fyrir 2-4 (fer eftir því hversu svöng þið eruð)

Samlokur fyrir 2-4 (fer eftir því hversu svöng þið eruð)
Fyrir: 2-4
Höfundur: Helga María
Hér er uppskrift að djúsí samlokum með vegan snitseli og hrásalati með eplum og parmesanosti. Samlokur sem hitta beint í mark og er auðvelt að útbúa. Þær eru mettandi og henta því fullkomlega í hádegismat eða kvöldmat.

Hráefni:

  • Brauð sem ykkur þykir gott
  • 1 pakki snitsel frá Anamma (í honum eru 4 stykki)
  • Salat
  • 1 dl Vegan majónes
  • 1/2-1 dl vegan sýrður rjómi
  • 250 gr þunnt skorið hvítkál
  • 1 meðalstór rifin gulrót (ég keypti poka sem var að renna út af hvítkáli og rifnum gulrótum til að gera hrásalat. Pokinn var sirka 270 gr)
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 lítið epli
  • 1 dl rifinn vegan parmesanostur
  • 1/2 tsk dijonsinnep
  • salt og smá sykur
  • svartur pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að útbúa hrásalat með því að blanda saman í skál þunnt skornu hvítkáli, rifnum gulrótum, þunnt skornum rauðlauk, þunnt skornu epli, majónesi, sýrðum rjóma, rifnum parmesanosti, dijonsinnepi, salti, sykri og svörtum pipar.
  2. Hitið vegan smjör eða olíu á pönnu og steikið snitselin þar til þau hafa fengið góðan lit og eru elduð í gegn. Vegan snitsel þarf ekki að þíða áður en það er steikt heldur er það tekið beint úr frystinum og steikt.
  3. Ristið brauðið á pönnu, eða í ofni.
  4. Smyrjið smá vegan majónesi á botninn, bætið káli eða salati yfir, þar næst snitselinu og toppið svo með hrásalati og ferskum jurtum ef þið eigið til. Ath að á myndunum er ég með tvö snitsel á hverri samloku. Það var mest fyrir "lúkkið" á myndunum en ég myndi frekar hafa eitt á hverri samloku.
  5. Njótið í botn!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Spæsí buffaló vöfflur með nöggum

Næsta laugardag, 25.mars er alþjóðlegi vöffludagurinn og því deilum við með ykkur í dag gómsætri útfærslu af vöfflum með spæsí buffaló nöggum, “ranch” sósu og fersku grænmeti.

Við erum í samstarfi með Hagkaup og því ákvað ég að fara og þangað og athuga úrvalið af vöfflujárnum. Þar sá ég að þau eru að selja vöfflujárnið sem ég var búin að dreyma um lengi en það er járn frá merkinu Wilfa, en það gerir fullkomnar, stórar vöfflur sem henta einstaklega vel í svona “matar”vöfflur.

Ég gerði hefðbundnu uppskriftina okkar af vöfflum sem klikkar aldrei og úr henni komu um það bil 6 stórar vöfflur. Ég ákvað að gera “ranch” dressingu sem er mild og bragðgóð með alls konar kryddjurtum en hún passar fullkomlega á móti buffaló sósunni sem ég notaði á naggana.

Ég ákvað að kaupa naggana frá merkinu peas of heaven en þeir eru soja lausir sem hentar einstaklega vel þar sem dóttir mín er með soja óþol. Það er hins vegar mjög mikið úrval af góðum vegan nöggum í Hagkaup og þessi uppskrift passar með flestum þeirra.

Uppskriftina af vöfflunum sjálfum má finna hér.

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum
Fyrir: 3 stórar vöfflur
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 HourEldunartími: 16 Hour: 26 Hour
Einstaklega góðar "matar" vöfflur með spæsi buffaló nöggum, "ranch" sósu og grænmeti.

Hráefni:

Spæsí buffaló vöfflur
  • 3 vöfflur
  • 1 pakki Peas of heaven naggar
  • sirka 1 dl Frank RedHot wings buffaló sósa
  • "Ranch" sósa
  • Fersk salat
  • 1 avócadó
  • 1/2 rauðlaukur
  • Ferskur kóríander
  • Lime
Ranch sósa
  • 2 dl vegan majónes
  • 2 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 msk hvítlauksduft
  • 1 msk laukduft
  • 1 msk niðursaxaður graslaukur
  • 1 tsk dill
  • 1 tsk þurrkuð steinselja eða kóríander
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Gerið vöffludeigið tilbúið
  2. Setjið naggana í ofninn við 200°C og bakið í 16 mínútur
  3. Útbúið "ranch" sósuna eftir uppskrift hér að neðan á meðan að naggarnir bakast
  4. Hitið vöfflujárnið vel og bakið síðan vöfflurnar
  5. Þegar naggarnir eru tilbúnir setjið þá í skál, hellið buffalósósunni yfir og veltið þeim vel upp úr henni.
  6. Skerið rauðlaukinn og avócadóið í þunnar sneiðar
  7. Setjið Ranch sósu, salat, rauðlauk, avócadó, nagga, ferskan kórander og lime sósu á hverja vöfflu.
Ranch sósa
  1. Saxið graslaukinn
  2. Hrærið öllu saman í skál og smakkið til salti og pipar
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Uppskriftin er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Vegan pítur með grísku ívafi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að geggjuðum pítum með grísku ívafi, stútfullar af grænmeti, maríneruðu Oumphi og bragðmikilli tzatzikisósu. Hinn FULLKOMNI kvöldmatur að okkar mati.

Færsla dagsins er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin í uppskriftina þar. Hagkaup stendur sig virkilega vel þegar kemur að úrvali af vegan vörum og það er okkur mikill heiður að fá að vinna með þeim.

Í píturnar notaði ég Oumph sem ég lét þiðna og setti svo í maríneringu. Ég vildi hafa kryddið í gyros stíl þar sem það passar virkilega vel með tzatzikisósunni. Það kom að sjáfsögðu virkilega vel út!

Tzatzikisósa í skál

Tzatzikisósa er jógúrtsósa með rifinni gúrku, hvítlauk, ólífuolíu og annaðhvort rauðvínsediki eða sítrónusafa, salti og pipar. Það er gott að bæta út í hana ferskum jurtum og yfirleitt er notað dill eða minta en ég átti til kóríander svo ég notaði það. Það passaði mjög vel fannst mér.

bakki með oumph gyros, pítubrauði og meðlæti

Ég velti því lengi fyrir mér hvort ég vildi gera pítur, gómsætar vefjur úr liba brauði eða baka heimagert pönnubrauð með Oumphinu og tzatzikisósunni en ákvað á endanum að gera pítur því það er svo fljótlegt og gott. Ég notaði frosna pítubrauðið frá Hatting sem er mitt uppáhalds.

Steikt gyros oumph í skál

Lyktin sem fyllti eldhúsið á meðan ég steikti Oumphið var dásamleg og bragðið af því alls ekki síðra. Ég mæli mjög mikið með því að prófa þessa kryddblöndu!

Ég gerði stóra uppskrift af tzatzikisósu því ég vildi eiga afgang í ísskápnum til að bera fram með matnum mínum næstu daga. Mér finnst sósan passa með nánast öllu, svo fersk og góð.

Við elskum Oumph og notum það mikið í okkar matargerð. Ef ykkur langar að elda aðra góða uppskrift með Oumphi þá mælum við mikið með þessu gómsæta tikka masala!

Takk fyrir að lesa og ég vona að þið njótið! <3

-Helga María

Vegan pítur með grísku ívafi

Vegan pítur með grísku ívafi
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • Olía að steikja upp úr
  • Einn pakki Oumph the original chunk (280 gr)
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk timían
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1/2 tsk chiliduft
  • 1 tsk broddkúmen
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1/2 tsk salt
  • pipar eftir smekk
  • 1/4 tsk sykur
  • 2 hvítlauksgeirar pressaðir eða rifnir
  • Tzatzikisósa (uppskrift hér að neðan)
  • 3-4 pítubrauð
  • Grænmeti í píturnar. Ég notaði kál, tómata og rauðlauk
Tzatzikisósa
  • 1 dolla tyrknesk jógúrt frá Oatly (400 gr)
  • 1 gúrka
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk ferskt dill, minta eða kóríander (oftast er notað dill eða minta en ég notaði kóríander í þetta skipti)
  • Sítrónusafi, salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

Oumph í marineringu
  1. Takið Oumph úr frysti og leyfið að þiðna.
  2. Setjið það í skál og bætið restinni af hráefnunum út í.
  3. Látið marinerast í minnst einn klukkutíma (gott að gera tzatzikisósuna á meðan).
  4. Hitið olíu á pönnu og steikið oumphið í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til það fær á sig lit.
  5. Hitið pítubrauð í ofninum og fyllið með grænmeti, Oumphi og sósu. Njótið!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Grillaðar samlokur með vegan kjúklingasalati

Góðan daginn kæru vinir.

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af djúsí grilluðum samlokum með vegan kjúklingasalati og osti. Svo gott að ég gæti grátið!

DSCF1646.jpg

Uppskriftin er í samstarfi við Hellman’s. Vegan majónesið þeirra er eitt það allra besta á markaðnum og er fullkomið í góð sallöt og sósur. Mér finnst gott að eiga alltaf til krukku af majónesinu þeirra svo ég geti skellt í góða pítu- eða hamborgarasósu hvenær sem er. Já, eða þetta gómsæta vegan kjúkligasalat

DSCF1666.jpg

Ég er mikið fyrir majónessalöt og þetta tiltekna salat hefur oft slegið í gegn í mínum veislum og partýum. Ég hef borið það fram með góðu kexi og einn skammtur hverfur yfirleitt á nokkrum mínútum. Salatið er líka frábært í allskonar samlokur og langlokur og ég hef líka gert litlar vefjur sem ég sker niður í munnbita. Allt saman jafn gott!

Hugmyndin um að útbúa grillaðar samlokur með salatinu kom til mín í dag. Ég hafði fyrst hugsað mér að bera það öðruvísi fram fyrir færsluna, en lá svo í rúminu í morgun og fékk þessa hugmynd. Ég vissi ekki hvernig það kæmi út og dreif mig að prófa. Guð minn góður hvað ég er glöð að ég gerði það, ég hef ekki borðað jafn góða samloku lengi.

DSCF1682-2.jpg

Já ég get líka sagt ykkur það að ég gerði mér sérstaka ferð til Luleå, sirka klukkutíma frá mér, bara til þess að kaupa nýtt samlokugrill því ég vildi gera gómsætar samlokur sem minntu svolítið á grillað panini. Ég vildi fá þessar fínu rendur sem koma í þessum ákveðnu grillum. Ég veit að það er kannski svolítið galið, en ég sé svo sannarlega ekki eftir þessum kaupum.

DSCF1703.jpg

Ég hlakka til að heyra hvort þið prófið að gera þessar sjúlluðu samlokur og hvað ykkur finnst!

Hráefni:

Vegan kjúklingasalat með karrý

  • 1 pakki vegan kjúklingabitar

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka vegan Hellman’s majónes

  • 1/2 dl vegan hrein jógúrt eða grísk vegan jógúrt

  • 1-2 dl saxaður vorlaukur. Ég setti um 1,5 dl

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk karrýduft

  • salt og pipar eftir smekk

Hráefni í 3-4 samlokur

  • 6-8 brauðsneiðar

  • 1 skammtur kjúklingasalat

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk

  • Vegan smjör til að smyrja samlokurnar að utanverðu (má sleppa)

Gott að bera fram með:

  • Kóríander

  • Pikluðum rauðlauk

  • Frönskum

Aðferð:

  1. Takið bitana úr frysti og steikið aðeins á pönnu uppúr smá olíu og salti. Bitarnir þurfa í raun ekkert að eldast mikið, bara í nokkrar mínútur þannig þeir séu orðnir mjúkir.

  2. Hellið þeim á stórt skurðarbretti og rífið í sundur með tveimur göfflum. Mér finnst þetta skipta miklu máli uppá áferðina á salatinu. Ég ríf þá ekkert alveg niður en ríf þá í sundur í þá stærð sem ég vil hafa bitana í stað þess að skera þá niður.

  3. Setjið bitana í stóra skál og bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund. Þetta gerir það að verkum að salatið verður bragðmeira og betra. Eins og ég sagði hér að ofan er mjög gott að gera þetta snemma sama dag og þið ætlið að bera salatið fram eða jafnvel kvöldið áður.

  5. Smyrjið brauðsneiðar með smjöri að utanverðu

  6. Smyrjið salati á og dreifið rifnum osti yfir

  7. Grillið samlokurnar í samlokugrilli eða á pönnu þar til osturinn hefur bráðnað og brauðið fengið örlítið gylltan lit.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið!

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Hellman’s á Íslandi-

 
Hellmann’s-Logo-2015.jpeg
 

Quesadilla með brúnum linsum og nýrnabaunum

IMG_9550.jpg

Í þessari viku deilum við með ykkur frábærri uppskrift af quesadilla sem tekur sirka 10 mínútur að útbúa. Við fengum í hendurnar nýlega baunir frá nýju merki sem heitir Oddpods sem ég notaði í uppskriftina en þær eru virkilega góðar. Baunirnar koma ólíkt flestum forsoðnum baunum ekki í niðursuðu krukku heldur í fallegum pokum og þær eru tilbúnar til matar beint úr pokanum. Þar af leiðandi eru þær ekki geymdar í vökva og halda því næringarefnum betur og innihalda engin aukaefni.

IMG_9553.jpg

Þessi réttur er alveg lygilega góður miðað við hvað hann er einfaldur og fljótlegur. Það tók mig um 10 mínútur frá því ég byrjaði þar til þetta var komið á borðið. Ég notaði brúnu linsurnar og nýrnabaunirnar í réttin en það má í rauninni nota hvaða baunir sem er en OddPods bíður einnig upp á kjúklingabuanir, gular linsur og “chana dal” baunir. Baunirnar frá OddPods má nálgast í Nettó.

Hráefni

  • 1 pakki brúnar linsur frá OddPods

  • 1 pakki nýrnabaunir frá OddPods

  • 1/2 rauðlaukur

  • 1/2 krukka salsasósa

  • 1/4 rauð paprika

  • mexíkósk kryddblanda eða kryddin hér að neðan

    • 1/2 tsk cumin

    • 1/2 tsk paprika

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1 tsk blandaðar jurtir

    • salt

  • safi úr 1/2 lime

  • Vegan ostur

  • 1 pakki tortilla pönnukökur

Aðferð:

  1. Setjið baunirnar í skál og stappið þær aðeins með gaffli.

  2. Saxið grænmetið smátt niður og blandið saman við baunirnar ásamt salsasósunni og kryddunum saman við.

  3. Setjið smá ost á hverja pönnuköku of smyrjið fyllingu á helmingin. Brjótið pönnukökurnar saman og grillið í panini grillið eða steikið á hvorri hlið í nokkrar mínútur á pönnu.

Berið fram með sýrðum rjóma og avocado salati.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi hjá Danól heildsölu -

1592222828650.jpg

Vegan snitsel á tvo vegu

IMG_0755.jpg

Þessi færsla er sú þriðja í samstarfi okkar með Anamma, og í þetta sinn ákvað ég að útbúa snitselið frá þeim, sem mér þykir gríðarlega gott. Ég gat þó með engu móti ákveðið hvernig ég vildi matreiða snitselið fyrir færsluna, og eftir miklar vangaveltur fram og til baka ákvað ég að útbúa tvo mismunandi rétti úr því. Mér fannst nauðsynlegt að gera eina hefðbundna snitsel máltíð, og útbjó ég með því gómsæta sveppasósu, steiktan aspas og einar þær bestu ofnbökuðu kartöflur sem ég hef gert. Auk þess ákvað ég að gera aðeins öðruvísi máltíð og bjó til snitsel grillsamloku með grænmeti og tarragon-kapers mæjónessósu. Ég er fegin að hafa ákveðið að gera bæði því ég get ekki gert upp á milli. 

Snitselið er eina varan frá Anamma sem ekki er glúteinlaus, en nýlega breyttu þau öllum uppskriftunum sínum og snitselið, sem var glúteinlaust, er það ekki lengur. Að mínu mati eru allar vörunar mun betri eftir breytingarnar og mér finnst snitselið alveg ótrúlega gott, bæði í áferð og bragði. 

IMG_0698.jpg

Kartöflurnar sem ég gerði með voru virkilega góðar, en galdurinn var að sjóða þær fyrst og setja þær svo í ofninn. Við það urðu þær mjúkar og góðar að innan, en dásamlega stökkar að utan. Þær voru fullkomnar með báðum réttunum sem ég gerði. 

IMG_0758.jpg

Þar sem það tekur enga stund að elda snitselið langaði mig að gera með því flott meðlæti sem tekur kannski aðeins meiri tíma, en er samt virkilega einfalt og þægilegt að búa til. Ef tíminn er naumur, eða maður nennir ekki mikilli eldamennsku er auðvitað hægt að skella frönskum í ofninn og útbúa einhverja góða vegan pakkasósu, en ég mæli auðvitað mjög mikið með að búa til eigið meðlæti ef tök eru á.
Eins með samlokuna hér að neðan. Það er ekkert mál að kaupa vegan mæjónes og blanda því saman við hvítlauk og góðar jurtir, en mér fannst heimatilbúna mæjónessósan passa ótrúlega vel með samlokunni. 

IMG_0715-2.jpg
IMG_0780-3.jpg

Snitsel frá Anamma fyrir 4

  • 2 pakkar Anamma snitsel (hver pakki inniheldur 4 stk svo það er fínt að gera ráð fyrir a.m.k 2 á mann)

1. Eldið snitselið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Ég steikti það á pönnu upp úr vegan smjöri þar til það var gyllt á báðum hliðum.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 500 ml vegan matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur 

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg)

  • Vatn og hveiti til að þykkja (ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið).

  1. Sneiðið niður sveppina og setjið í pott. 

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta við örlitlu vatni og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð. 

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni þar til hún hefur náð þeirri þykkt sem þið kjósið. 

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið til. 

Ristaðar kartöflur í ofni

  • 2 kg kartöflur

  • 6 msk olía til steikingar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk paprikuduft

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Byrjið á því að skræla kartöflurnar

  2. Hitið ofninn í 200 gráður

  3. Skerið kartöflurnar í meðalstóra bita og leggið í bleyti í kalt vatn í sirka korter

  4. Sjóðið vatn í stórum potti á meðan

  5. Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru svona nálægt því að verða tilbúnar. Þær eiga ekki að vera orðnar alveg mjúkar í gegn (mínar voru samt mjög nálægt því)

  6. Á meðan kartöflurnar sjóða hitiði olíuna á pönnu og pressið hvítlauksgeirana útí. Þegar þeir eru orðnir brúnir helliði olíunni í skál, sigtið hvítlaukinn úr og leggið til hliðar. Passið að hvítlaukurinn brenni ekki því hann verður notaður seinna 

  7. Takið kartöflurnar úr pottinum og hellið þeim í stóra skál og veltið þeim upp úr olíunni sem þið hituðuð, ásamt paprikudufti, salti og pipar. Passið að þekja kartöflurnar vel. Á þessum tímapunkti líta þær út fyrir að vera svolítið maukaðar og þannig eiga þær að vera

  8. Hellið kartöflunum á hreina ofnplötu og dreifið úr þeim svo þær séu sem minnst klestar saman

  9. Ristið þær í ofninum í 20 mínútur, takið plötuna svo út, snúið kartöflunum og ristið í aðrar 20 mínútur

  10. Þegar þær eru tilbúnar er gott að velta þeim upp úr hvítlauknum sem þið hituðuð í olíunni. Ástæðan fyrir því að ég geri það ekki áður en kartöflurnar fara í ofninn er sú að hann gæti brunnið og þá gefur hann frá sér beiskt bragð sem skemmir svolítið fyrir. 

  11. Bætið við grófu salti ef ykkur finnst þurfa

Með þessu steikti ég svo frosinn aspas á pönnu upp úr sítrónupipar, hvítlauk og salti

 

Grill samloka með snitseli og tarragon- kapersmæjó:

  • Anamma snitsel

  • Gott brauð (mæli með að kaupa heilt brauð og skera í frekar þykkar sneiðar)

  • Grænmeti eftir smekk (ég notaði romain kál, tómata og rauðlauk)

  • 1,5 dl vegan mæjónes (uppskrift okkar af vegan mæjónesi má finna HÉR)

  • 3 tsk kapers

  • 1 tsk tarragon

  • 1/2 tsk rifinn sítrónubörkur

  • Örlítil ólífuolía

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Steikið snitselið á pönnu upp úr olíu eða vegan smjöri þar til það er gyllt báðum megin

  2. Ristið brauðið á pönnu upp úr örlitlu vegan smjöri 

  3. Saxið niður kapers og bætið út í mæjónesið ásamt tarragon, rifnum sítrónuberki, ólífuolíu, salti og pipar

  4. Smyrjið báðar brauðsneiðarnar með mæjónessósunni og setjið snitselið á ásamt því grænmeti sem ykkur þykir best 

  5. Berið fram með gómsætu kartöflunum hér að ofan eða ofnbökuðum frönskum

Vonum að þið njótið!+
- Veganistur

 

anamma.png

- Þessi færlsa er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Betra en túnfisksalat

Hverjum hefði geta dottið í hug að kjúklingabaunir gætu líkst túnfiski? Ekki okkur að minnsta kosti. Við vorum mjög skeptískar þegar við heyrðum af því fyrst, að hægt væri að útbúa mæjónessalat með kjúklingabaunum sem minnti á túnfisksalat. Það tók okkur langan tíma að langa að prufa því við höfðum ekki háar væntingar. Við urðum því hissa þegar við loksins létum til skara skríða. Salatið svipar vissulega til túnfisksalats en er að okkar mati mun betra á bragðið og hefur ekki sterka lykt. Við getum því notið þess að borða salatið án þess að hafa áhyggjur af fólkinu í kring. 

Nýverið hóf Krónan að selja vegan mæjónes. Það eru nú þegar nokkrar tegundir á markaðnum en fyrst núna er hægt að kaupa vegan mæjó í íslenskri framleiðslu. Við ákváðum að nýta tækifærið og búa til gómsætar samlokur með kjúklingabaunasalati. Uppskriftin af salatinu er einföld, fljótleg og virkilega bragðgóð. Það kom mjög vel út að nota mæjónesið og við erum spenntar að prufa það í fleiri rétti.

Salatið er tilvalið á ritz kex og á samlokur. Það er líka gott útá grænt salat með allskonar grænmeti og graskersfræjum. Í þetta sinn ákváðum við að útbúa "djúsí" samlokur með káli, avókadó, tómötum, rauðlauk og kjúklingabaunasalatinu. Samlokan fékk að sjálfsögðu toppeinkunn hjá okkur. 

Hráefni:

  • 1 dós kjúklingabaunir

  • 1/2 lítill rauðlaukur

  • 1/2 bolli frosnar maísbaunir (leyfið þeim að þiðna áður en þið setjið þær í salatið samt)

  • 4 sneiðar jalapeno

  • 2 kúfullar msk vegan Krónumæjónes

  • 1/2 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 1/2 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 tsk paprikuduft

  • salt og pipar eftir smekk

  1. Stappið kjúklingabaunirnar gróflega með kartöflustöppu eða gaffli.

  2. Saxið rauðlaukinn og jalapeno-sneiðarnar niður og blandið saman við kjúklingabaunirnar ásamt restinni af hráefnunum.

Berið fram eftir því sem ykkur þykir best.

 

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

BBQ samloka með grilluðu tófú og hrásalati

Sumarið er yndislegur tími. Ég hef alltaf haldið mikið upp á grillmat og fyrst þegar ég hætti að borða kjöt hélt ég að nú væri minn grilltími liðinn. Ég var því himilifandi að uppgvöta hversu frábærir möguleikar eru af grilluðum mat fyrir grænkera. Mér finnst æðislegt að grilla grænmetisspjót, vegan pylsur og borgara, kartöflur, portobello sveppi, maísstöngla, soyakjötið frá Oumph! og seitan steikur. Nýlega hef ég þó fengið algjört æði fyrir því að grilla tófú. Það er gjörsamlega æðislegt og hentar vel bæði með vegan rjómasósu og meðlæti, með kaldri jógúrtssósu eða í hamborgara og samlokur. 

Til þess að njóta þess að borða tófú þarf aðeins að læra inn á það. Ég man alveg þegar ég smakkaði það fyrst hvað mér þótti það bragðlaust og óspennandi. Ég þurfti þó ekki annað en að lesa mér aðeins til og fljótlega sá ég að með einföldum leiðum er hægt að gera tófú alveg ótrúlega gott. Ég prófaði mig áfram og fann aðferð sem mér fannst best. Það var ekki fyrr en fyrir nokkrum vikum sem ég prófaði að grilla tófú og vá, útkoman er gjörsamlega æðisleg. Í þetta sinn ætla ég að deila með ykkur uppskrift af æðislegri BBQ tófú samloku með vegan hrásalati.

Grillað tófú

  • 1 tófústykki

  • 1 bolli tamari- eða soyasósa

  • 1/2 tsk agave síróp

  • 1 msk sriracha sósa

  • 1 tsk hvítlauksduft

Aðferð

  1. Skerið tófúið niður í 1-2 cm þykkar sneiðar. 

  2. Pressið tófúsneiðarnar í að minnsta kosti klukkustund. Mér finnst gott að pressa það í sirka þrjár klukkustundir. 

  3. Blandið saman tamarísósu, sírópi, sriracha sósú og hvítlauksdufti. 

  4. Marinerið tófúið í að minnsta kosti klukkustund. Því lengur, því betra. Ég reyni að byrja tímanlega svo ég nái að hafa tófúið í marineringunni í nokkrar klukkustundir. Mér finnst líka gott að undirbúa mig kvöldið áður og leyfa því að liggja í henni yfir nótt. Mér finnst mjög gott að leggja tófúið í maríneringu í renndum plastpoka, þeir fást meðal annars í Ikea. Ef þið eigið ekki svoleiðis er fínt að nota bara box. 

  5. Smyrjið tófúið með smá olíu og leggið á grillið. Ég leyfi því að grillast frekar vel á báðum hliðum. Ef þið eigið ekki grill eða eruð ekki í stuði til að grilla hef ég líka eldað tófúsneiðarnar í ofni og á pönnu og bæði er svakalega gott. 

Vegan hrásalat

  • 1 dl vegan mæjónes

  • 1/4 hvítkálshaus

  • 2-3 gulrætur, fer alfarið eftir stærð. Þegar magnið af gulrótum er orðið svipað og af hvítkálinu passar það fínt.

  • 1/4 agave síróp

  • salt eftir smekk

  1. Byrjið á því að útbúa mæjó. Ef þið eruð í engu stuði fyrir svoleiðis fæst vegan mæjónes frá merkinu "Just mayo" í Hagkaup. Hinsvegar lofa ég því að það er algjörlega þess virði að vippa þessu upp heima hjá sér. Uppáhalds uppskriftin mín inniheldur:

  • 1 bolla ósæta sojamjólk - helst við stofuhita. Sojamjólkin frá Provamel í rauðu fernunni þykir mér frábær í þetta. 

  • 2 tsk eplaedik

  • Olíu eftir þörfum

  • 1/4 tsk dijon sinnep

  • salt og pipar eftir smekk

    Blandið saman sojamjólk og eplaediki vel með töfrasprota (blandar og rafmagnsþeytari virkar líka). Hellið olíu útí í mjórri bunu og leyfið sprotanum að vinna á meðan. Hellið olíunni út í þar til blandan er orðin þykk eins og mæjónes. blandið svo sinnepinu og saltinu út í. Ég tek það fram að þessi uppskrift gerir svolítið stórt magn af mæjónesi svo að það fer líklega ekki allt í hrásalatið. Hægt er að geyma það í boxi/krukku inni í ísskáp í viku.

2. Skerið niður hvítkálið og gulræturnar mjööög þunnt. Ef þið eigið mandólín eða julienne skera er frábært að nota svoleiðis. 

3. Setið grænmetið í skál og blandið mæjónesi útí þar til ykkur finnst nóg komið. Smakkið til og bætið salti og pipar út í eftir þörfum.

Samloka með grilluðu tófú og hrásalati

  • 2 ristaðar brauðsneiðar

  • 2 grillaðar tófúsneiðar

  • Grænmeti að vild. Ég notaði kálblað, tómatsneiðar og rauðlauk

  • BBQ sósa

  • Hrásalat

  1. Ristið tvær brauðsneiðar og smyrjið aðra þeirra vel með BBQ sósu

  2. Raðið á brauðsneiðina því grænmeti sem þið viljið

  3. Leggið tófúsneiðarnar ofan á

  4. Bætið ofan á eins miklu hrásalati og ykkur lystir

  5. Lokið samlokunni og njótið.

Það er rosalega mismunandi hvaða meðlæti ég útbý en að þessu sinni bakaði ég kartöflur og sætar kartöflur í ofninum og raðaði sveppum og rauðlauk á grillspjót, smurði með BBQ sósu og grillaði í sirka 20 mínútur. Þessi djúsí samloka er æðisleg og ég er viss um að þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.

Helga María