Betra en túnfisksalat

Hverjum hefði geta dottið í hug að kjúklingabaunir gætu líkst túnfiski? Ekki okkur að minnsta kosti. Við vorum mjög skeptískar þegar við heyrðum af því fyrst, að hægt væri að útbúa mæjónessalat með kjúklingabaunum sem minnti á túnfisksalat. Það tók okkur langan tíma að langa að prufa því við höfðum ekki háar væntingar. Við urðum því hissa þegar við loksins létum til skara skríða. Salatið svipar vissulega til túnfisksalats en er að okkar mati mun betra á bragðið og hefur ekki sterka lykt. Við getum því notið þess að borða salatið án þess að hafa áhyggjur af fólkinu í kring. 

Nýverið hóf Krónan að selja vegan mæjónes. Það eru nú þegar nokkrar tegundir á markaðnum en fyrst núna er hægt að kaupa vegan mæjó í íslenskri framleiðslu. Við ákváðum að nýta tækifærið og búa til gómsætar samlokur með kjúklingabaunasalati. Uppskriftin af salatinu er einföld, fljótleg og virkilega bragðgóð. Það kom mjög vel út að nota mæjónesið og við erum spenntar að prufa það í fleiri rétti.

Salatið er tilvalið á ritz kex og á samlokur. Það er líka gott útá grænt salat með allskonar grænmeti og graskersfræjum. Í þetta sinn ákváðum við að útbúa "djúsí" samlokur með káli, avókadó, tómötum, rauðlauk og kjúklingabaunasalatinu. Samlokan fékk að sjálfsögðu toppeinkunn hjá okkur. 

Hráefni:

  • 1 dós kjúklingabaunir

  • 1/2 lítill rauðlaukur

  • 1/2 bolli frosnar maísbaunir (leyfið þeim að þiðna áður en þið setjið þær í salatið samt)

  • 4 sneiðar jalapeno

  • 2 kúfullar msk vegan Krónumæjónes

  • 1/2 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 1/2 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 tsk paprikuduft

  • salt og pipar eftir smekk

  1. Stappið kjúklingabaunirnar gróflega með kartöflustöppu eða gaffli.

  2. Saxið rauðlaukinn og jalapeno-sneiðarnar niður og blandið saman við kjúklingabaunirnar ásamt restinni af hráefnunum.

Berið fram eftir því sem ykkur þykir best.

 

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar