Vegan pítur með grísku ívafi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að geggjuðum pítum með grísku ívafi, stútfullar af grænmeti, maríneruðu Oumphi og bragðmikilli tzatzikisósu. Hinn FULLKOMNI kvöldmatur að okkar mati.

Færsla dagsins er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin í uppskriftina þar. Hagkaup stendur sig virkilega vel þegar kemur að úrvali af vegan vörum og það er okkur mikill heiður að fá að vinna með þeim.

Í píturnar notaði ég Oumph sem ég lét þiðna og setti svo í maríneringu. Ég vildi hafa kryddið í gyros stíl þar sem það passar virkilega vel með tzatzikisósunni. Það kom að sjáfsögðu virkilega vel út!

Tzatzikisósa í skál

Tzatzikisósa er jógúrtsósa með rifinni gúrku, hvítlauk, ólífuolíu og annaðhvort rauðvínsediki eða sítrónusafa, salti og pipar. Það er gott að bæta út í hana ferskum jurtum og yfirleitt er notað dill eða minta en ég átti til kóríander svo ég notaði það. Það passaði mjög vel fannst mér.

bakki með oumph gyros, pítubrauði og meðlæti

Ég velti því lengi fyrir mér hvort ég vildi gera pítur, gómsætar vefjur úr liba brauði eða baka heimagert pönnubrauð með Oumphinu og tzatzikisósunni en ákvað á endanum að gera pítur því það er svo fljótlegt og gott. Ég notaði frosna pítubrauðið frá Hatting sem er mitt uppáhalds.

Steikt gyros oumph í skál

Lyktin sem fyllti eldhúsið á meðan ég steikti Oumphið var dásamleg og bragðið af því alls ekki síðra. Ég mæli mjög mikið með því að prófa þessa kryddblöndu!

Ég gerði stóra uppskrift af tzatzikisósu því ég vildi eiga afgang í ísskápnum til að bera fram með matnum mínum næstu daga. Mér finnst sósan passa með nánast öllu, svo fersk og góð.

Við elskum Oumph og notum það mikið í okkar matargerð. Ef ykkur langar að elda aðra góða uppskrift með Oumphi þá mælum við mikið með þessu gómsæta tikka masala!

Takk fyrir að lesa og ég vona að þið njótið! <3

-Helga María

Vegan pítur með grísku ívafi

Vegan pítur með grísku ívafi
Höfundur: Helga María

Hráefni:

  • Olía að steikja upp úr
  • Einn pakki Oumph the original chunk (280 gr)
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk timían
  • 1 tsk paprikuduft
  • 1/2 tsk chiliduft
  • 1 tsk broddkúmen
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1/2 tsk salt
  • pipar eftir smekk
  • 1/4 tsk sykur
  • 2 hvítlauksgeirar pressaðir eða rifnir
  • Tzatzikisósa (uppskrift hér að neðan)
  • 3-4 pítubrauð
  • Grænmeti í píturnar. Ég notaði kál, tómata og rauðlauk
Tzatzikisósa
  • 1 dolla tyrknesk jógúrt frá Oatly (400 gr)
  • 1 gúrka
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk ferskt dill, minta eða kóríander (oftast er notað dill eða minta en ég notaði kóríander í þetta skipti)
  • Sítrónusafi, salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

Oumph í marineringu
  1. Takið Oumph úr frysti og leyfið að þiðna.
  2. Setjið það í skál og bætið restinni af hráefnunum út í.
  3. Látið marinerast í minnst einn klukkutíma (gott að gera tzatzikisósuna á meðan).
  4. Hitið olíu á pönnu og steikið oumphið í nokkrar mínútur á hvorri hlið þar til það fær á sig lit.
  5. Hitið pítubrauð í ofninum og fyllið með grænmeti, Oumphi og sósu. Njótið!
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup-

 
 

Gómsæt vegan linsubaunasúpa

Uppskrift dagsins er að ómóstæðilega gómsætri vegan linsubaunasúpu sem yljar bæði líkama og sál á köldum vetrardegi. Súpan er ekki einungis dásamlega bragðgóð heldur er hún líka stútfull af næringu. Linsubaunasúpa er að mínu mati hinn FULLKOMNI kvöldmatur eða hádegismatur á þessum tíma árs og ég mæli mikið með því að bera hana fram með góðu brauði.

Við erum nú þegar með uppskrift af linsubaunasúpu hérna á blogginu sem við birtum fyrir mörgum árum og sú uppskrift er með þeim vinsælustu á sðunni í hverjum mánuði. Uppskriftin sem ég deili með ykkur í dag er í raun endurbætt útgáfa af gömlu súpunni og er því nokkuð svipuð. Mig hefur þó lengi langað að bæði mynda hana upp á nýtt og betrumbæta sjálfa uppskriftina og ákvað að gera nýja færslu í stað þess að fara að hræra í þeirri gömlu.

Þessi súpa er innblásin af indverskri matargerð og hún inniheldur gómsæt indversk krydd, þar á meðal garam masala sem mér þykir alltaf jafn gott í súpur og pottrétti. Ég vil helst hafa súpu matarmikla og mettandi og þessi súpa er einmitt það. Ég íhugaði þess vegna að kalla þetta linsubaunapottrétt en mér finnst þetta þó frekar vera súpa. En ef þið viljið heldur hafa súpunar ykkar léttari er annað hvort hægt að bæta við örlítið meira af vatni eða sleppa kartöflunum. Ég mæli þó með því að hafa kartöflurnar í því mér persónulega finnst það svakalega gott.

Rauðar linsubaunir finnst mér eiga skilið aðeins meiri kærleika. Þær eru hrikalega næringarríkar og virkilega góðar í allskonar rétti á sama tíma og þær eru mjög ódýrar. Fólk talar oft um að vegan matur sé dýr en í raun er það alls ekki satt. Vegan sérvörur eru oft í dýrara lagi en baunir, korn og grænmeti eru mjög ódýr matur. Mér finnst fátt betra en að geta skellt í pott allskonar gómsætum hráefninum eins og baunum og grænmeti og gert súpur, kássur eða pastarétti og oftar en ekki eru hráefnin hræódýr og maturinn endist lengi og er einfalt að bæði hafa með sér í nesti eða frysta til að hita upp seinna.

Grænmetið sem ég notaði í súpuna var:

  • Hvítlaukur

  • Laukur

  • Púrrulaukur

  • Gulrætur

  • Kartöflur

  • Svartkál (sem ég held að fáist því miður ekki á Íslandi) en grænkál eða spínat virkar jafn vel

Ekkert af þessu er heilagt. Mér finnst linsubaunasúpa einmitt vera réttur sem er tilvalið að elda þegar maður vill nota grænmetið sem maður á í ískápnum. Sætar kartöflur, grasker, paprika, rauðlaukur, blómkál, brokkólí.. Það er virkilega hægt að nota það sem maður á til.

Hráefni:

  • 1 meðalstór laukur

  • Sirka 10 cm púrrulaukur

  • 3-4 hvítlauksgeirar

  • 250 gr kartöflur

  • 200 gr rauðar linsubaunir

  • 150 gr gulrætur

  • 1 tsk túrmerík

  • 1 tsk cumin

  • 2 tsk garam masala

  • Smá chiliflögur fyrir þá sem vilja

  • 1 dós (sirka 400 gr) niðursoðnir tómatar

  • 1 líter vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1/2-1 tsk púðursykur

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi (það er ekkert mál að skipta honum út fyrir eina 400 ml dós af kókosmjólk)

  • 100 g grænkál eða spínat

  • Safi úr einni límónu

  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið olíu í potti.

  2. Skerið niður lauk, púrrulauk, gulrætur og kartöflur og steikið í sirka 10 mínútur eða þar til grænmetið hefur mýkst og fengið á sig örlítinn lit. Ef grænmetið byrjar að festast við botninn mæli ég með því að bæta annhvort við smá olíu eða örlitlu vatni.

  3. Pressið hvítlauk og bætið út í pottinn ásamt linsubaununum (mæli með því að skola þær aðeins í sigti fyrst) og kryddunum og steikið í sirka 5 mínútur.

  4. Bætið út í pottinn niðursoðnum tómötum, vatni, grænmetisteningum, púðursykri og salti og leyfið þessu að sjóða í 20-30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn.

  5. Bætið grænkálinu útí þegar sirka 5 mínútur eru eftir af suðutímanum.

  6. Hellið rjómanum út í og hitið upp að suðu og slökkvið þá undir pottinum.

  7. Hrærið límónusafanum út í og bætið við salti og pipar eftir smekk.

Það sem ég mæli með að bera fram með súpunni:

  • Ferskt kóríander

  • Vegan sýrður rjómi

  • Gott brauð eins og t.d. heimagert pönnubrauð - Uppskrift HÉR

Takk fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin. Ekki gleyma að tagga okkur á Instagram ef þú eldar eitthvað af blogginu, það gerir okkur alltaf svo ótrúlega glaðar! <3

-Helga María

Amerískar vegan pönnukökur með sítrónu og birkifræjum

Í dag deili ég með ykkur fyrstu uppskrift ársins en það eru þessar gómsætu amerísku pönnukökur með sítrónu og birkifræjum. Þykkar, dúnmjúkar og einstaklega braðgóðar. Pönnukökurnar eru hinn FULLKOMNI helgarmorgunmatur og passa vel með dögurði. Þær eru líka geggjaðar með kaffinu. Það tekur enga stund að skella í pönnsurnar og það er virkilega auðvelt að útbúa þær.

Sítrónur og birkifræ eru skemmtileg blanda. Við erum nú þegar með uppskrift af gómsætri sítrónuköku með birkifræjum og rjómaostakremi hérna á blogginu. Mér hefur alltaf þótt birkifræ góð en það er ekki langt síðan ég smakkaði þau í fyrsta sinn í sætum bakstri. Áður hafði ég einungis borðað þau í allskonar brauði, rúnstykkjum, beyglum og fl. En þau eru svo sannarlega ekki síður góð í sætum kökum og bakstri.

Í gær listaði ég niður 10 vinsælustu uppskrftirnar á blogginu árið 2021. Uppskriftin okkar af amerískum pönnukökum var ein af þeim vinsælustu og ég skil það vel. Pönnukökur slá einhvernveginn alltaf í gegn. Ég er mikið fyrir þessar þunnu íslensku en finnst amerískar líka mjög góðar. Eitt af því besta við þær síðarnefndu er að það er mun auðveldara að baka þær. Pönnukökudeigið er þykkt og það er létt að flippa þeim. Þær eru þessvegna skotheldar og fljótlegar.

Sjáið þessi fallegu birkifræ. Í deiginu er bæði sítrónusafi og sítrónubörkur sem gefur pönnukökunum dásamlegt bragð.

Ég toppaði pönnsurnar með því sem mér þykir best, þeyttum hafrarjóma, sultu og auðvitað fullt af hlynsírópi!

Ég neyddist að sjálfsögðu til að taka eina svona klassíska pönnukökumynd þar sem ég skar í gegnum allan pönnukökustaflann. Ég hló upphátt á meðan ég tók þessa mynd því ég myndi aldrei borða pönnukökur svona. Ég vil toppa hverja einustu pönnsu með allskonar góðgæti.

Amerískar vegan pönnukökur með sítrónu og birkifræjum

Hráefni:

  • 5 dl hveiti (ca 300 gr). Smá tips: þegar ég nota dl mál til að mæla hveiti legg ég það á borðið og nota matskeið til að moka hveitinu yfir í málið. Með því kemst ég hjá því að pressa of miklu hveiti í dl málið og fæ alltaf sama magn.

  • 2 msk sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 1 tsk matarsódi

  • 1/2 dl birkifræ

  • Pínulítið salt

  • 3 dl haframjólk eða önnur vegan mjólk

  • 2,5 dl sojajógúrt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2 msk bráðið smjörlíki sem hefur fengið að kólna aðeins (plús meira til að steikja upp úr)

  • Safi og rifinn börkur úr einni sítrónu

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í skál. Ég bæti yfirleitt birkifræjunum seinast út í þegar ég hef blandað hinum þurrefnunum saman.

  2. Hrærið saman í aðra skál restinni af hráefnunum.

  3. Hellið blautu hráefnunum saman við þau þurru og hrærið saman með písk.

  4. Hitið smjörlíki á pönnu við meðalhita.

  5. Steikið hverja pönnuköku þangað til bubblur myndast á yfirborðinu og botninn hefur fengið fallegan gylltan lit, flippið þá pönnukökunni og steikið þar til hin hliðin hefur einnig fengið fallegan lit.

  6. Berið fram með því sem ykkur dettur í hug. Þeyttum vegan rjóma, sultu, hlynsírópi, vegan “nutella”, ávöxtum.. listinn er endalaus.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin. Munið að tagga okkur á instagram ef þið gerið pönnsurnar eða einhverjar aðrar uppskriftir af blogginu okkar. Það gerir okkur alltaf jafn ótrúlega glaðar!

-Helga María

10 vinsælustu uppskriftirnar okkar árið 2021!

Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!

Í dag langar okkur að taka saman okkar 10 vinsælustu uppskriftir árið 2021. Við erum orðlausar yfir því hversu mörg þið eruð sem lesið bloggið okkar í hverjum mánuði og hversu mikinn kærleika þið sýnið okkur allan ársins hring. Það gefur okkur svo gríðarlega mikið að heyra hvað ykkur finnst uppskriftirnar góðar. Öll skilaboð og athugasemdir sem við fáum frá ykkur hlýa virkilega um hjartarætur. Við gætum ekki verið heppnari með lesendur og fylgjendur. TAKK!

En á morgun birtum við fyrstu uppskrift ársins en í dag lítum við yfir liðið ár og sjáum hvað sló mest í gegn á blogginu! Við birtum þær ekki í neinni sérstakri röð heldur listum bara þær 10 vinsælustu!

Klassíska súkkulaðitertan okkar!

Þessi uppskrift er ein af okkar allra fyrstu hérna á blogginu og er á hverju ári á listanum yfir þær 10 vinsælustu. Við getum sagt að þessi kaka er sú allra mest bakaða á blogginu. Við skiljum vel af hverju. Hún er einföld, skotheld en á sama tíma gríðarlega bragðgóð og mjúk. Júlía tók sig til og myndaði kökuna aftur. Eins og ég sagði var þetta ein af okkar allra fyrstu uppskriftum og ljósmyndahæfileikar okkar hafa sem betur fer skánað töluvert síðan 2016 svo okkur fannst kominn tími til að fríska aðeins upp á færsluna. Uppskriftin er þó að sjálfsögðu ennþá sú sama, fyrir utan það að Júlía bætti inn í færsluna uppskrift af gómsætu súkkulaðiganache. Uppskrift af kökunni finniði HÉR!

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum!

Önnur uppskrift sem lendir alltaf á top 10 listanum á blogginu er heita aspas rúllubrauðið okkar. Þessi uppskrift er einnig ein af okkar fyrstu uppskriftum og ég man að ég var uppi í sumarbústað þegar ég ákvað skyndilega að prófa að skella í aspasbrauðrétt. Ég hafði ekki prófað að gera svoleiðis í mörg ár en hugsaði að það gæti ekki verið svo erfitt. Brauðrétturinn kom heldur betur vel út og smakkaðist alveg eins og mig hafði minnt. Ég brunaði á Selfoss með réttinn heim til ömmu og lét hana og Júlíu smakka og þeim fannst hann æðislega góður. Meira að segja ömmu sem er oft frekar skeptísk á vegan mat, allavega á þeim tíma. Daginn eftir gerði ég hann svo aftur og myndaði. Athugið að myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftin á blogginu er gömul og myndirnar líka. Þetta er ein af þessum uppskriftum sem mig dauðlangar að mynda aftur. Júlía verður eiginlega að taka það að sér þar sem ég fæ ekki rúllubrauðið hérna í Svíþjóð. Uppskriftina af brauðréttinum finniði HÉR!

Döðlukaka með karamellusósu og ís!

Þessi kaka er í miklu uppáhaldi hjá mér og það kom mér eiginlega á óvart hversu vinsæl hún varð. Við höfðum aldrei verið beðnar um uppskrift af svona köku að ég held. Ég man eftir því að hafa séð marga baka svona fyrir einhverjum árum síðan en finnst ég aldrei vera vör við það lengur. Döðlukakan er virkilega gómsæt og mjúk og með karamellusósunni og vanilluís er þetta fullkominn eftirréttur. Ég mæli virkilega með því að prófa ef þið hafið aldrei gert það. Ég held ég verði að skella í hana bráðum. Ég gerði þessa færslu snemma árið 2019. Ég fæ mikla nostalgíu þegar ég sé þessa mynd því ég man að á þessum tíma 2018-2019 elskaði ég að prófa nýjar og spennandi uppskrift. Ég veganæsaði allar kökur sem mér datt í hug og var svo forvitin í eldhúsinu. Mér líður stundum eins og ég sakni þess tíma svolítið. Ég er enn forvitin og elska að gera uppskriftir en á þessum tíma lærði ég svo mikið af því sem ég kann núna í eldhúsinu og var svo gríðarlega stolt eftir hverja einustu færslu. En jæja nóg um það. Kakan er æði! Uppskriftina finniði HÉR!

Ofnbakað pasta með rauðu pestói!

Þessi fáránlega einfaldi og gómsæti pastaréttur sló í gegn á blogginu okkar á þessu ári. Eitt af því sem við systur höfum mikið rætt um að bæta okkur í er að pósta meira af hefðbundnum heimilislegum kvöldmat. Við elskum að veganæsa allskonar kökur og hátíðarrétti, eins og þið hafið líklega flest tekið eftir, en gleymum oft að birta “venjulegan mat”. Það sem við sjálfar eldum okkur í kvöldmat. Við tókum okkur svolítið á með það á síðastliðnu ári og það er svo sannarlega eitt af okkar markmiðum 2022 að gera ennþá meira af. Þessi pastaréttur er einmitt fullkominn kvöldmatur. Öllu hráefni er skellt í eldfast mót eða pott og eldað saman. Útkoman er dásamleg. Uppskriftina finniði HÉR!

Súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum!

Möffins sem smakkast eins og á kaffihúsi. Hvað get ég sagt? Þetta eru þær allra bestu möffinskökur sem ég hef bakað. Það er kjánalegt að segja það en ég er virkilega stolt af þessari uppskrift. Ég man að það fór mikill tími og mikil orka í að búa uppskriftina til. Ég prófaði hana nokkrum sinnum og vildi alls ekki að þær væru þurrar. Eftir nokkrar tilraunir urðu þær alveg eins og ég vildi hafa þær. En það voru ekki bara kökurnar sem tóku nokkrar tilraunir heldur tók ég heilan dag í að mynda þær og myndirnar komu hræðilega út. Ég man að ég tók þær á brúnum bakgrunni og brúnu litirnir runnu saman í eitt. Daginn eftir tók ég mig saman og myndaði þær aftur og varð mun ánægðari með útkomuna. Uppskriftina finniði HÉR!

Mexíkósúpa!

Næst á dagskrá er ein önnur uppskrift sem lendir alltaf með þeim 10 vinsælustu á hverju ári. Mexíkósúpan sem Júlía birti árið 2017. Þessa súpu höfum við systur eldað svo oft og fáum aldrei leið á henni. Þetta er hin fullkomna súpa til að elda fyrir matarboð, afmæli eða aðrar samkomur þar sem sniðugt er að bera fram súpu. Hún er matarmikil, gómsæt og hægt að toppa hana með allskonar góðu. Við fengum fyrir einhverjum árum síðan skilaboð frá konu sem sagðist hafa eldað súpuna fyrir landbúnaðaráðherra Noregs og að hann hafi orðið yfir sig hrifinn. Það voru ein skemmtilegustu skilaboð sem við höfum fengið. Uppskriftina finniði HÉR!

Amerískar pönnukökur!

Við erum ekki hissar á því að amerískar pönnukökur séu á top 10 listanum yfir vinsælustu uppskriftirnar okkar. Við systur elskum að baka pönnukökur og gerum pönnsur óspart í morgunmat um helgar. Uppskriftina birtum við í byrjun 2017 og hana er einnig að finna í bókinni okkar. Psst. Það gæti mögulega verið ný pönnukökuuppskrift á leiðinni á bloggið ekki seinna en á morgun!! Myndin hér að ofan er úr bókinni okkar. Uppskriftina finniði HÉR!

Hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu!

Djúsí og gómsætur hamborgari. Eitthvað sem allir elska. Við gerðum þessa uppskrift saman sumarið 2019. Ég var komin til Íslands til að dvelja þar yfir sumarið og við vorum að hefjast handa við að mynda uppskriftirnar fyrir bókina okkar. Við byrjuðum á því að mynda nokkrar uppskriftir fyrir bloggið og þessi gómsæti borgari var einn af þeim. Þetta var byrjun á dásamlegu sumri. Við mynduðum bókina og þroskuðumst mikið í okkar vinnu við það. Við byrjuðum líka að þróa uppskriftina af veganistuborgaranum sem er seldur á Hamborgarafabrikkunni. Mér hlýnar um hjartað við að sjá þessa færslu og við að sjá að ykkur líki hún svona vel. Uppskriftina finniði HÉR!

Frosin Amaretto ostakaka með ristuðum möndlum!

Árið 2021 var árið sem ég byrjaði að nota áfengi meira í matargerð og bakstur. Ég geri mér grein fyrir því að það er riskí að birta of mikið af svoleiðis uppskriftum því mörgum líkar það verr að gera uppskriftir sem innihalda áfengi og svo er flest áfengi mjög dýrt og fáir sem eiga lager af því og eru ekki spennt fyrir því að kaupa flösku af amaretto til að nota smávegis af því í eina ostakökuuppskrift. Á sama tíma hefur mér þótt gaman að fá að þroskast og læra meira um eldamennsku og ég er glöð þegar ég birti það sem mér þykir gott og skemmtilegt. Ég hef því leyft sjálfri mér að pósta uppskriftum sem innihalda líkjör, hvítvín og fleira í þeim dúr en passað að halda þeim uppskriftum undir takmörkum. Jafnvægið er best. Þessi kaka er sú sem ég kannski naut þess mest að gera á þessu ári. Að sjá hvernig bragðið og útlitið kom út akkúrat eins og ég hafði óskað mér gerði mig ótrúlega glaða og ég er mjög ánægð að sjá þegar þið útbúið hana! Uppskriftina finniði HÉR!

Tælensk núðlusúpa með rauðu karrý!

Síðasta uppskriftin á listanum er þessi gríðarlega fallega og gómsæta núðlusúpa með rauðu karrý og tófú sem Júlía birti á árinu. Súpan er annað dæmi um virkilega góðan kvöldmat. Júlía eyddi þremur mánuðum í Asíu fyrir nokkrum árum og varð mjög hugtekin af tælenskri matargerð. Þessi súpa er innblásin af öllum þeim gómsæta mat sem hún borðaði þar. Einstaklega falleg súpa sem er fullkomin fyrir vetrarmánuðina. Uppskriftina finniði HÉR!

Takk innilega fyrir að lesa og takk enn og aftur fyrir að þið eldið og bakið uppskriftirnar okkar, sendið okkur svo falleg skilaboð og sýnið okkur þennan gríðarlega stuðning. Við erum svo þakklátar fyrir ykkur öll að við erum að springa! <3

-Veganistur