SaltOumph! og baunir

IMG_2853.jpg

Mér finnst svolítið skrítið að viðurkenna það en saltkjöt var uppáhalds maturinn minn, reyndar ásamt hangikjöti, áður en ég varð vegan. Það er fáránlegt að hugsa út í það núna og ég sakna þessa kjöts alls ekki neitt. Hins vegar, eins og gefur til kynna, hef ég alltaf verið hrifin af reyktum mat. Mér til mikillar ánægju er ágætt úrval af reyktu gervikjöti og það virðist auðvelt að ná fram þessu góða reykta bragði í plöntufæði. 

IMG_2754.jpg
IMG_2733.jpg
IMG_2777.jpg

Ég hef smakkað alls kyns reykt gervikjöt, aðallega þó álegg eins og skinkur sem mér finnst virkilega góðar. Þær henta þó ekki alveg í alla matargerð, heldur frekar ofan á brauð og í pastarétti og þess háttar. Í fyrra kom hins vegar á markaðin reykt og saltað Oumph!. Ég var strax mjög spennt fyrir þessu þar sem reykt og saltað hefur jú alltaf verið í miklu uppáhaldi...

IMG_2826.jpg

Sprengidagurinn var liðinn í fyrra þegar þetta Oumph! kom á markaðinn en ég ákvað samt sem áður að gera baunasúpu til að smakka og vá! þetta var svo ótrúlega gott, og passaði svo fullkomlega saman. Ég ákváð þá að þetta yrði að koma á bloggið fyrir næsta sprengidag og hér kemur einmitt uppskrift. Þó svo að hún hefði mögulega mátt koma nokkrum dögum fyrr...

IMG_2857.jpg

Uppskriftin er virkilega einföld þar sem það þarf í raun bara að skipta út kjötinu frá hinni hefðbundnu uppskrif en venjuleg baunasúpa er lang oftast vegan. Þessi súpa er æðislega góð og eins og hægt er að segja "kjötætuvæn".

IMG_2900.jpg

Baunasúpa fyrir 4 til 5

 • 1 poki gular súpubaunir (500gr)
 • 2-2 1/2 lítri vatn
 • vel af salti

Aðferð:

 1. Skolið baunirnar vel og leggið síðan í bleyti yfir nótt. Hafið vel af vatni yfir baununum. Gott er einnig að skipta um vatn morguninn eftir eða svo, en það er ekki nauðsynlegt.
 2. Sjóðið baunirnar í tvo til þrjá klukkutíma. Ég byrja á því að setja tvo lítra og vatni með baununum og læt suðuna koma upp. Setjið vel af salti með í pottinn. Fleytið froðunni sem að myndast í vatninu af og bætið við vatni ef það. Hrærið í súpunni af og til og leyfið henni að malla á meðalhita.
 3. Smakkið súpuna til þegar hún hefur fengið að sjóða í góðan tíma og athugið hvort þurfi meira salt.

Meðlætið

 • kartöflur (ég notaði hálft kíló)
 • meðalstór rófa
 • saltOumph! (ég notaði 2 poka)

Aðferð:

 1. Mér finnst best að skera kartöflurnar og rófuna niður í bita og gufusjóða sér. Þá losnamaður við það að þetta maukist í súpunni.
 2. Steikið Oumphið upp úr olíu á meðalháum hita. Gott að leyfa því aðeins að þiðna fyrst en það er ekki nauðsynlegt

-Njótið vel

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

Vegan Mexíkósúpa

Mér finnst alveg ótrúlega gaman að halda veislur og bara yfir höfum að bjóða fólki í mat. Súpur eru alltaf fullkomin kostur þegar halda á matarboð, maður einfaldlega hendir einhverju í pott og lætur það malla þar til gestina ber að garði. Gæti ekki verið einfaldara.

Mexíkóskar súpur með maísflögum og öllu tilheyrandi hafa lengi verið mjög vinsælar í veislum hér á landi. En það finnst mér ekki skrítið miðað við hversu góðar þær eru og hversu skemmtilegt er að bera þess háttar súpu fram. Ég fékk tengdaaforeldra mína í mat í vetur og ákvað þá loksins að láta verða að því að gera mína eigin vegan mexíkósúpu.

Ég ákvað að nota í hana Oumph! þar sem það virðist alltaf slá í gegn, ásamt því að mynda áhugaverðar umræður við matarborðið þegar einhver kveikir allt í einu á perunni að þetta sé ekki kjúklingur. Einnig hafði ég svartar baunir og maís í súpunni þar sem mér finnst hvoru tveggja algjör nauðsyn í alla mexíkóska rétti. Súpan sló algjörlega í gegn og síðan þá er ég oft búin að bera hana fram við alls konar tilefni, en hún er tilvalin í allt frá litlum matarboðum til fermingarveisla.

Hráefni (fyrir 5-6 manns)

 • 1 poki pure Oumph!

 • 3 msk kókosolía

 • 3 hvítlauksgeirar

 • 1 rautt chilli (takið fræin úr fyrir mildari súpu)

 • cumin, paprikuduft, oregano, 1 msk af hverju

 • 1/2 tsk cayenne pipar

 • salt og pipar eftir smekk

 • 1-1 1/2 paprika (ég nota gula, græna og rauða í bland)

 • u.þ.b. 10 cm af blaðlauk

 • 2-3 gulrætur

 • 2 dósir gestus niðursoðnir tómatar

 • 1 krukka af salsasósu (230 gr)

 • 2 1/2 Kallo grænmetisteningar

 • 1600 ml vatn

 • 1 dós gestus svartar baunir

 • 100-150 gr af maísbaunum

 • 150 gr Sheese hreinn rjómaostur

Aðferð:

 1. Hitið kókosolíuna í stórum potti. Setjið Oumph!, hvítlauk, chilli og kryddin út í og steikið í góða stund.

 2. Skerið grænmetið í litla bita og bætið út í. Steikið í góðan tíma upp úr kryddunum eða þar til grænmetið er orðið vel mjúkt.

 3. Setjið út í tómatana, salsasósuna, grænmetiskraftinn og vatnið og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið súpuna við meðalhita í góðan tíma, eða minnst 30 mínútur. Mér finnst best að leyfa súpunni að malla í allavega klukkutíma við lágan hita. Smakkið súpuna til og bætið út í kryddum eða krafti eftir smekk.

 4. Skolið baunirnar og bætið þeim út í þegar súpan hefur fengið að sjóða vel ásamt maísnum og rjómaostinum. Hrærið rjómaostinn við svo hann bráðni alveg og leyfið suðunni að koma aftur upp.

 5. Ég ber súpuna fram ýmist með maísflögum, Oatly sýrðum rjóma, rifnum osti (ég mæli með Follow your heart), avocado og súrdeigsbrauði. En mér finnst einnig alveg nauðsynlegt að saxa smá ferskt kóríander og strá yfir.

Njótið vel
Júlía Sif

 

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

Uppáhalds linsubaunasúpan

Linsubaunir eru æðislegt hráefni sem hægt er að nýta í allskonar gómsæta rétti. Þær eru stútfullar af næringu og það tekur enga stund að elda þær. Þegar ég gerðist vegan var linsubaunasúpa eitt af því fyrsta sem ég lærði að elda. Súpan var þó langt frá því að vera jafn góð hjá mér og hún er í dag, enda eru rúmleg fimm ár síðan og ég hef prufað allskonar útgáfur sem hafa heppnast misvel. Ég get sagt að nú sé ég komin með súpu sem ég er virkilega ánægð með og myndi stolt bjóða uppá til dæmis í matarboðum. 

Það er mjög mismunandi hvaða grænmeti ég hef í súpunni. Ég myndi segja að linsubaunasúpa sé einmitt tilvalinn matur til að útbúa þegar maður á fullt af grænmeti í ísskápnum sem er hálfklárað og jafnvel orðið lúið. Það er rosalega gott að setja í súpuna t.d sellerí, papriku, gulrætur, sætar kartöflur eða rifið hvítkál. Ég ákvað þó að hafa þetta súper einfalt í dag og notaði tvær tegundir af lauk og spínat. 

Einn stærsti kosturinn við súpugerð er hversu lítið þarf að hafa fyrir eldamennskunni. Það er að sjálfsögðu mismunandi eftir uppskriftum en þær súpur sem ég geri eru yfirleitt virkilega þægilegar og einfaldar. Mér þykir bara eitthvað svo heillandi að geta skellt hráefni í pott og leyft því að malla án þess að þurfa mikið að skipta mér af. 

Hráefni:

 • 1 bolli saxaður laukur
 • 1 bolli niðurskorinn blaðlaukur
 • 2-3 pressaðir hvítlauksgeirar - ég notaði 2 stóra
 • Olía til steikingar
 • 2 tsk túrmerik
 • 1 tsk cumin
 • 1 tsk garam masala
 • 1 bolli ósoðnar rauðar linsubaunir
 • 1 dós kókosmjólk
 • 1 dós niðursoðnir tómatar
 • 4 bollar vatn
 • 1 grænmetisteningur
 • Safi úr 1/2 lime
 • 150 g spínat
 • salt og pipar eftir smekk

 

Aðferð:

 1. Byrjið á því að steikja laukinn, blaðlaukinn og hvítlaukinn uppúr olíu í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýkst aðeins. 
 2. Bætið túrmerik, cumin og garam masala útí, hrærið saman við laukinn í sirka mínútu
 3. Setjið restina af hráefnunum (fyrir utan spínatið og lime safann) og leyfið súpunni að malla í sirka 20 mínútur á miðlungs hita
 4. Slökkvið á hellunni og bætið spínati, lime safa, salti og pipar útí pottinn. Hrærið aðeins og leyfið spínatinu að mýkjast. 
 5. Berið súpuna fram eina og sér eða með því sem ykkur lystir. Mér finnst súpan passa mjög vel með góðu súrdeigsbrauði. 

Vona að þið njótið
Helga María

Rjómalöguð sveppasúpa í brauðskál

IMG_6705.jpg

Á veturna eru súpur og kássur algjörir bjargvættir. Það er fátt meira kósí en ylvolg súpa eftir langan og kaldan dag. Við ætlum að vera duglegar að deila með ykkur góðum súpuuppskriftum í vetur, en í dag ætlum við að sýna ykkur sveppasúpu uppskriftina okkar sem er ein af okkar eftirlætis súpum. 

Súpur eru ekki einungis þægilegar vegna þess að þær ylja manni á köldum dögum, heldur einnig vegna þess að við eldamennskuna þarf yfirleitt bara einn pott og eitthvað til að hæra með. Oftar en ekki er gott að skella hráefnunum í pottinn og leyfa þeim að malla í svolítinn tíma á lágum hita án þess að þurfa mikið að skipta sér af. Eins og okkur þykir gaman að eyða tíma í eldhúsinu er oft rosalega fínt að geta gert fljótlegan, bragðgóðan og næringarríkan mat án mikillar fyrirhafnar. Það skemmtilegasta við þessa súpu er það að hún hentar fullkomlega sem kvöldmatur á venjulegu miðvikudagskvöldi en hentar einnig einkar vel sem forréttur við hvaða tilefni, eins og til dæmis sem forréttur á aðfangadagskvöld. 

Við erum duglegar að gera sveppasúpu við allskonar tilefni.  Við höfum mikið borðað hana á hátíðum og Júlía bar hana til dæmis fram í útskriftarveislunni sinni. Hún er klassísk og það finnst flestum hún góð svo hún hentar til dæmis vel fyrir tilefni þar sem ekki eru allir vegan, því fæstir finna nokkurn bragðmun. Eini munurinn er sá að jurtarjóminn er alls ekki jafn þungur í magann og hinn hefðbundni og við getum lofað ykkur að fólk mun ekki kvarta yfir því. 

Við ákváðum að prufa að bera súpuna fram í brauðsskál. Við keyptum súrdeigsbrauð í Passion bakaríi og einfaldlega skárum ofan af brauðinu, tókum það mesta innan úr og stungum í ofnin á 200°C í sirka 10 mínútur svo skálin yrði ekki blaut í gegn.

Þar sem brauðið var heldur stórt komst nóg af súpu í það fyrir okkur tvær. Næst ætlum við að reyna að finna aðeins minni brauð svo maður geti fengið sína eigin brauðskál. Við þurfum þó varla að taka það fram að brauðskálin er engin nauðsyn, hún var gerð einungis uppá gamanið en kom virkilega vel út. Við mælum þó sterklega með súrdeigsbrauðunum úr Passion bakarí, hvort sem þið viljið nota þau sem skálar eða einfaldlega njóta þess að borða það með súpunni. 

Hráefni:

 • 100 gr vegan smjör
 • 1/2 til 1 laukur (við notuðum hálfan stóran)
 • 200 gr frosin villisveppablanda
 • 250 (1 pakki) sveppir
 • hveitiblanda (2 kúfullar msk hveiti + 1 dl vatn hrisst saman)
 • 1 til 2 greinar ferskt timian
 • 1 tsk þurrkað timian
 • salt og pipar
 • 1 sveppateningur
 • 1 til 2 tsk grænmetiskraftur
 • 250 ml vatn
 • 750 ml Oatly haframjólk
 • 500 ml (tvær fernur) Oatly hafrarjómi

Aðferð:

 1. Leyfið frosnu sveppunum að þiðna í nokkrar mínútur. Skerið þá svo niður ásamt fersku sveppunum og saxið laukinn.
 2. Bræðið smjörið í potti og bætið sveppunum og lauknum saman við. Steikið við lágan hita í dágóðan tíma eða u.þ.b. 15 mínútur. 
 3. Nýtið tímann á meðan í að sjóða vatn í katli eða öðrum potti. Þetta er ekki nauðsynlegt en okkur þykir gott að búa til grænmetissoð með því að sjóða vatn, hella því í skál og leyfa kraftinum að leysast almennilega upp í því áður en við hellum því út í pottinn með sveppunum. 
 4. Hristið saman hveitiblönduna þar til engir kekkir eru eftir. Okkur þykir fínt að nota sultukrukku í verkið því þá er engin hætta á að þetta hristist uppúr. Hellið blöndunni hægt útí og hrærið vel í á meðan.
 5. Hellið grænmetissoðinu útí 50 ml í einu og hrærið vel í á meðan svo ekki myndist kekkir í súpuna. Leyfið suðunni svo að koma upp og hellið síðan mjólkinni útí. 
 6. Látið súpuna malla í 15-20 mínútur áður en rjóminn fer útí.  Á þessu stigi er fínt að smakka súpuna og sjá hvort vantar meira af kryddum. 
 7. Hellið hafrarjómanum útí, leyfið suðunni að koma upp, slökkvið undir og berið fram. 
 8. Ef gera á súpuna daginn áður, líkt og við gerum t.d. oft á jólunum, er fínt að geyma það að setja rjómann útí þar til hún er hituð upp rétt áður en það á að borða hana.
 9. Það má auðvitað mauka súpuna með töfrasprota ef þess er kosið en við kjósum að gera það ekki.

Vonandi njótið þið vel! 
-Veganistur

Sætkartöflusúpa

Súpa og salat er mjög gott combó! Það gera sér líklega flestir grein fyrir því að við erum óðar í súpur því margar af síðustu færslum okkar eru súpu uppskriftir. 
Í kvöld varð sætkartöflusúpa fyrir valinu og hún veldur aldrei vonbrigðum. 

Hráefni: 
1 stór sæt kartafla eða 2 litlar skornar í bita
1 gulur laukur
2 bollar grænmetissoð
1 400ml dós kókosmjólk
1/2 tsk ferskt engifer
Salt&pipar eftir þörfum. 

Aðferð: 
Ég skar niður sætu kartöfluna, saxaði laukinn og reif niður engifer. Ég setti það í pott ásamt grænmetissoðinu og leyfði suðunni að koma upp.
Þegar suðan var komin upp lét ég þetta malla í sirka 15-20 mín. 
Næst hellti ég kókosmjólkinni útí og leyfði súpunni að malla í 5 mínútur í viðbót. 
Þegar mér fannst sætu kartöflurnar orðnar vel mjúkar maukaði ég súpuna með töfrasprota og saltaði og pipraði eftir smekk. Að lokum stráði ég ristuðum graskersfræum út á. 

Með súpunni borðaði ég stórt salat sem samanstóð af öllu því besta sem ég átti í ísskápnum. Mér finnst ótrúlega gott að blanda saman í glas tahini, sítrónusafa, örlitlu vatni og salti og hella yfir salatið sem dressingu. 

Helga María

 

Súpa úr grænum linsubaunum

Þessi súpa er æðisleg. Hún er úr grænum linsubaunum og bragðast ekkert smá vel út. 

-Ég byrjaði á því að skera niður einn gulan lauk og setti í pott ásamt ólífuolíu.
-Eftir sirka fimm mínútur bætti ég útí 1 tsk kóríander, 1 tsk cumin, 1 tsk cayenne pipar, 1 tsk paprikudufti, 2 söxuðum hvítlauksgeirum og smá bút af söxuðu engifer. Ég hrærði því vel saman og passaði að kryddin dreifðu sér vel. 
-Næst bætti ég útí 4 niðurskornum kartöflum (frekar litlum), 2 niðurskornum gulrótum, 1/2 rauðri papriku, lófafylli af grænkáli, 2 bollum af vatni og einum grænmetistening . 
-Ég notaði eina dós af lífrænum grænum linsubaunum frá Biona sem ég keypti í Nettó. Ég hellti þeim í sigti og skolaði vel undir köldu vatni þangað til hætti að freyða. 
-Ég setti baunirnar útí og leyfði þessu að sjóða í rúman hálftíma. Ég smakkaði til og saltaði súpuna eftir því hvað mér fannst þurfa. 

Með þessu borðaði ég stórt salat með tómötum, avókadó og baunaspírum. 

Frábær kvöldmatur, stútfullur af næringu og ótrúlega góður á bragðið!

Helga María