Sítrónuostakaka

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af ótrúlega gómsætri og sumarlegri sítrónuostaköku sem slær svo sannarlega í gegn. Kakan hefur virkilega gott sítrónubragð en er á sama tíma mátulega sæt og ekkert smá loftkennd og mjúk. Þessa ostaköku er hinn fullkomni eftirréttur, til dæmis eftir grillmat en hún hentar einnig fullkomlega á veisluborðið eða bara með kaffinu.

Það sem er best við þessa uppskrift er að það þarf ekki að frysta kökuna og best er að útbúa hana í fati eða öðru fallegu móti sem hægt er að bera hana fram í. Það er virkilega einfalt að útbúa kökuna og hana má bera fram samdægurs.

Kakan er svo fallega gul og því er auðvelt að skreyta hana smá til að hún verði mjög falleg á borði og gerir liturinn hana ekkert smá sumarlega. Ég notaði einungis sítrónu sneiðar og smá mynntu til að skreyta mína og kom það mjög fallega út.

Sumarleg sítrónuostakaka

Sumarleg sítrónuostakaka
Höfundur: Veganistur
Sumarleg sítrónuostakaka sem er virkilega gómsæt. Þessi kaka er fullkomin eftirréttur eftir grillmatinn eða bara með kaffinu hvenær sem er. Kökuna er hægt að útbúa sama dag og á að bera hana fram

Hráefni:

Kexbotn
  • 200 gr digestive hafrakex
  • 70 gr bráðið vegan smjör eða smjörlíki
Ostakökufylling
  • 250 ml (1 ferna) oatly þeytirjómi
  • 2 öskjur oatly rjómaostur
  • 1 dl flórsykur
  • börkur af 1 sítrónu
  • safi úr 1/2 sítrónu
Sítrónugljái
  • 1 dl mjólk
  • safi úr 3 sítrónum
  • börkur af 1 sítrónu
  • 1 dl flórsykur
  • 2 msk hveiti

Aðferð:

Kexbotn
  1. Setjið kexið í matvinnsluvél eða blandara og myljið niður
  2. Bræðið smjörið og hellið út í og blandið aðeins saman
  3. Setjið í botnin á fati eða kökuformi og þrýstið niður í botninn
  4. Geymið í kæli á meðan þið útbúið fyllinguna
Ostakökufylling
  1. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til hann verður stífþeyttur
  2. Bætið rjómaostinum, flórsykrinum, sítrónusafanum og sítrónuberkinum út í og þeytið aðeins lengur
  3. Hellið yfir kexbotnin of dreifið jafnt yfir formið
  4. Setjið í kæli á meðan þið útbúið sítrónugljáan
  1. Hristið saman mjólkina og hveitið þannig það verði ekki kekkjótt.
  2. Setjið öll hráefnin saman í pott og hitið að suðu
  3. Sjóðið í nokkrar mínútur eða þar til það þykknar örlítið
  4. Setjið í breiða, grunna skál og leyfið gljáanum að kólna í 30 mínútur áður en þið hellið honum varlega yfir kökuna.
  5. Kælið kökuna í að minnsta kosti 2 klst áður en þið berið hana fram
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Salt-oumph og baunir

Nú styttist óðfluga í sprengidaginn og því deilum við með ykkur í dag umfærðri uppskrift af hini fullkomnu sprengidagssúpu. Þessi súpa er í mjög miklu uppáhaldi hjá okkur en í hana setjum við að sjálfsögðu kartöflur, gulrætur og rófur.

Okkur finnst líka nauðsynlegt að hafa eitthvað matarmikið í súpunni í staðin fyrir saltkjötið og ákváðum við því að kíkja í frystin í hagkaup. Þar fundum við þetta dásamlega saltaða og smóký oumph sem passaði savo ótrúlega vel út í. Það er mjög bragðmikið og fullkomin staðgengill fyrir saltkjötið. Einn pakki passar fyrir sirka 4 skammta af súpu.

Súpan er svo ótrúlega einföld og mælum við með því að fólk geri stóra uppskrift því hún er jafnvel betri daginn eftir. Við steikjum oumphið sér á pönnu og setjum út í hvern og einn disk svo það haldi bragðinu sem best og soðni ekki í súpunni.

Baunasúpa

Baunasúpa
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 12 HourEldunartími: 2 Hour: 14 Hour
Sprengidagssúpa sem má að okkar mati njóta allan ársins hring líka

Hráefni:

  • 500 gr gular hálfbaunir (sprengidagsbaunir)
  • 2 - 2 1/2 lítri vatn
  • 2 grænmetisteningar
  • vel af salti
  • 1/2 kg kartöflur
  • 1/2 stór rófa
  • 4 gulrætur
  • 1 pakki salty og smóký oumph

Aðferð:

  1. Skolið baunirnar vel og setjið í bleyti daginn áður eða snemma um morguninn.
  2. Hellið vatninu af baununum og setjið í pott með vatninu og sjóðið í 1 1/2 klukkustund. Hrærið reglulega í súpunni á meðan og fleytið froðunni af eftir þörfum.
  3. Bætið grænmetinu, tening og smá salti saman við og sjóðið í 30 mínútur í viðbót.
  4. Smakkið til og bætið við salti eftir þörfum.
  5. Steikið oumphið og berið fram með.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Færslan er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Vegan tikka masala og einfalt pönnubrauð

IMG_1224-2.jpg

Ég er ekkert smá spennt að deila með ykkur þessari uppskrift, en þetta er einn sá besti réttur sem ég hef eldað lengi. Ég áttaði mig á því í dag að þetta er önnur uppskriftin í röð sem ég nota Oumph!, en ég elska vörurnar þeirra og nota mikið í minni daglegu matargerð. Uppskrift dagsins er af dásamlega góðu tikka masala og fljótlegu pönnubrauði. Ég vona innilega að ykkur muni þykja rétturinn jafn góður og mér. Ég er búin að elda hann nokkrum sinnum uppá síðkastið til að mastera uppskriftina og við Siggi erum sammála að hann sé nýtt uppáhald.

IMG_1161.jpg

Ég hef eytt gríðarlega miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og prufað mig áfram með uppskriftir af bæði mat og bakstri. Það er fátt sem veitir mér jafn mikla gleði, sérstaklega nú þegar skólinn hefur færst yfir á netið og ég hitti vini mína ekki jafn oft. Ég hef því notið þess að elda, baka og taka langa góða göngutúra í vorsólinni.

Þetta þýðir að hausinn á mér er fullur af hugmyndum fyrir bloggið og tilfinningin um að ég hafi gert allar uppskriftir sem ég mun nokkurn tímann kunna að elda hefur loksins horfið. Eftir að við skrifuðum bókina okkar leið mér lengi eins og ég væri alveg tóm en nú líður mér eins og ég sé tilbúin að byrja á næstu bók hehe.. Við látum það þó bíða aðeins og reynum að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum hérna á blogginu þangað til.

IMG_1183-2.jpg

þessi uppskrift er ein af þeim sem henta bæði sem hversdagsmatur en líka í matarboðið (eftir samkomubannið að sjáfsögðu). Rétturinn krefst smá undirbúnings þar sem að Oumphið þarf að fá að marinerast aðeins en annars er hann virkilega einfaldur. Hann er bragðgóður og passar einstaklega vel með grjónum og pönnubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Hagkaup er mikið og skemmtilegt úrval af góðum vegan mat. Ég nota Oumph í réttinn, en það er hægt að skipta því út fyrir aðra tegund af vegan kjötlíki, tófú eða kjúklingabaunir. Í Hagkaup er úr ýmsu að velja svo það ættu allir að finna það sem hentar þeim.

IMG_1229.jpg

Ef þið eigið afgang af réttinum er virkilega gott að útbúa fljótlega tikka masala pizzu. Hana geri ég einfaldlega með því að setja tikka masala á pönnubrauð (uppskriftir hér að neðan) sem búið er að steikja og toppa með rauðlauk sem ég hef skorið þunnt. Þetta set ég í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til þetta hefur eldast í gegn og kantarnir á brauðinu orðnir örlítið krispí. Það þarf ekki að baka lengi þar sem þetta er allt eldað fyrir og því í rauninni nóg að hita. Mér finnst þó best ef botninn nær að verða svolítið “krispí". Svo toppa ég þetta með vegan sýrðum rjóma, grófu salti, kóríander, chili flögum og ólífuolíu.

IMG_1233-3.jpg

Vegan tikka masala (fyrir tvo til þrjá)

Hér að neðan er uppskrift af tikka masala og pönnubrauði. Með réttinum sauð ég svo hrísgrjón og toppaði matinn með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma.

Oumph í mareneringu:

  • Olía til steikingar

  • 1 poki Oumph the chunk (eða annað ókryddað vegan sojakjöt, t.d. Filébitarnir frá Hälsans kök)

  • 2 dl ósæt vegan jógúrt

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk turmerik

  • 2 tsk garam masala

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna og setjið svo í stóra skál.

  2. Bætið jógúrtinni út í skálina ásamt hvítlauk, engifer og kryddum.

  3. Hrærið saman svo að jógúrtin og kryddin þekji alla Oumphbitana. Setjið plastfilmu yfir skálina eða færið matinn yfir í box og setjið í ísskáp í helst minnst tvo tíma. Ég mæli virkilega með því að leyfa bitunum að liggja í marineringu yfir nótt eða jafnvel gera þetta snemma jafndægurs ef þið ætlið að matreiða réttinn um kvöldið.

  4. Hitið olíu á pönnu og steikið bitana þar til þeir fá lit. Takið þá af pönnunni og leggið til hliðar. Ekki þvo pönnuna því sósan fer beint á hana.


Sósan:

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar (1 ef þeir eru mjög stórir)

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1.5 tsk garam masala

  • 1.5 tsk cumin

  • 1 tsk malað kóríander

  • 1 tsk túrmerík

  • 1 tsk chiliduft

  • 400 ml niðursoðnir tómatar (helst passata, s.s. alveg maukaðir)

  • 2.5 dl vegan matreiðslurjómi (mæli með iMat frá Oatly)

  • 1 tsk púðursykur

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hellið aðeins meiri olíu á pönnuna.

  2. Saxið niður laukinn og setjið út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýskt aðeins.

  3. Bætið hvítlauk og engifer út á pönnuna og steikið í smá stund.

  4. Bætið kryddunum út á og hrærið þannig þau blandist vel við laukinn og steikið í sirka mínútu. (Ef þið ætlið að bera réttinn fram með hrísgrjónum er tilvalið að byrja að sjóða þau á þessum tímapunkti eftir leiðbeiningum á pakkanum.)

  5. Hellið tómötunum út á. Setjið örlítið vatn í botninn á krukkunni/dósinni til að ná restinni af tómötunum með á pönnuna. Leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur og hrærið reglulega í á meðan. Sósan á að þykkna svolítið og dekkjast.

  6. Hellið rjómanum og púðursykrinum út á pönnuna og blandið vel saman.

  7. Bætið bitunum út á og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur. (Mér finnst gott að steikja pönnubrauðið á meðan)

  8. Toppið með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma (má sleppa). Berið fram með grjónum og pönnubrauði.


Einfaldasta pönnubrauð í heimi (4 stykki):

  • 2 dl hveiti plús smá til að setja á borðið þegar þið fletjið út

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk ólífuolía

  • 1-2 dl vatn. Byrjið á því að setja 1 og sjáið hversu mikið þarf að bæta við

Aðferð:

  1. Hitið pönnu á frekar háum hita

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hellið vatninu og olíunni saman við og blandið saman þar til þið fáið flott deig.

  4. Skiptið deiginu í fjóra hluta.

  5. Stráið smá hveiti á borðið og fletjið deigið úr.

  6. Steikið brauðið í nokkrar mínútur á hvorri hlið á þurri pönnu.


Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka uppskriftin!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina-