Grænt karrý með tófú og grænmeti


Matarmikill réttur sem yljar bæði kropp og sál.

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að gómsætu grænu karrýi með tófú, graskeri, brokkóli og sykurertum. Þetta er bragðmikill réttur sem ég elska að gera í stórum skömmtum og eiga afganga fyrir næstu daga. Sjálft karrýið inniheldur tilbúið grænt karrýmauk, vorlauk, kókosmjólk, grænmetiskraft, sojasósu, limesafa, sykur, salt og chiliflögur. Ég vara ykkur við. Rétturinn rífur svolítið í, svo það er þess virði að fara svolitið varlega í karrýmaukið ef þið eruð viðkvæm. Ég notaði 2 msk í réttinn og mér finnst það passlegt. Ég vona að þið njótið!



Grænk karrí með tófú og grænmeti

Grænk karrí með tófú og grænmeti
Fyrir: 4
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.
  2. Skerið niður butternut grasker í bita og setjið í eldfast mót með olíu, salti og pipar. Bakið þar til graskersbitarnir eru mjúkir í gegn.
  3. Útbúið karríið á meðan graskerið bakast. Hitið olíu í potti, skerið niður hvíta hlutann af vorlauk og steikið í nokkrar mínútur þar til hann hefur mýkst.
  4. Bætið karrímauki við og steikið í nokkrar mínútur í viðbót á meðan þið hrærið vel.
  5. Bætið kókosmjólk, vatni og grænmetiskrafti saman við ásamt sojasósu og sykri. Leyfið því að malla í sirka 15-20 mínútur á lágum hita.
  6. Sjóðið hrísgrjón á meðan.
  7. Sjóðið vatn í öðrum potti með smá salti. Skerið niður brokkólí og nokkrar af sykurertunum. Ég hafði nokkrar heilar og nokkrar niðurskornar. Sjóðið í nokkrar mínútur eða þar til það er akkúrat tilbúið. Ég vil frekar hafa það smá stökkt en mauksoðið. Takið grænmetið úr vatninu og setjið beint í ískalt vatn svo það hætti að eldast.
  8. Setjið graskerið, soðna grænmetið og tilbúið steikt tófú frá Yipin ofan í karríið. Leyfið því að hitna upp á hellunni og kreistið limesafa út í. Smakkið til og bætið við salti ef þarf. Toppið svo með salthnetum, græna hlutanum af vorlauknum, kóríander og lime.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við Yipin á Íslandi-

 
 

"Marry me" Oumph! með orzo (risoni)


Hinn fullkomni kvöldmatur!

Í dag deilum við uppskrift af rjómkenndum rétti með orzo (risoni), oumph, sólþurrkuðum tómötum og spínati. Rétturinn er innblásin af vinsælum rétti sem kallast “marry me chicken.” Þetta er fljótlegur og gómsætur réttur sem minnir mikið á risotto en er mun auðveldara að útbúa.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Oumph á Íslandi og ég notaði Thyme & garlic Oumph í uppskriftina. Ég nota Oumph gríðarlega mikið í mína matargerð og elska að sjá hvað úrvalið stækkar ört hjá þeim. Thyme & garlic mun samt alltaf vera í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég toppaði með basiliku, vegan parmesan, sítrónuberki og chiliflögum. Þið trúið því ekki hversu góð lykt var í eldhúsinu á meðan þessi gómsæti réttur var að malla. Útkoman er þessi rjómakenndi gómsæti réttur sem er fullkomið að bera fram með góðu baguettebrauði. Ég hlakka til að gera fleiri útgáfur af þessum rétti, kannski oumph með risoni og góðri sítrónusósu. Ég get líka vel trúað því að það væri virkilega gott að setja rjómaost út í.



"Merry me" Oumph! með orzo (risoni)

"Merry me" Oumph! með orzo (risoni)
Fyrir: 2-3
Höfundur: Veganistur

Hráefni:

  • 1 msk olía frá sólþurrkuðum tómötum
  • Smá vegan smjör (má nota olíu)
  • 1 pakki Oumph garlic & thyme
  • 2 skalottlaukar
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Chiliflögur eftir smekk
  • 250 gr orzo (risoni)
  • 100 gr sólþurrkaðir tómatar
  • 1 dl hvítvín eða hvítt matreiðsluvín
  • 1-2 msk dijonsinnep (ég notaði eina kúfulla)
  • 700 ml vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 dl rifinn vegan parmesanostur
  • 65 gr babyspínat
  • 1/2 dl basilika
  • 250 ml vegan matreiðslurjómi
  • 1 msk sítrónusafi
  • Salt og pipar ef þarf
  • Gott baguette að bera fram með

Aðferð:

  1. Látið Oumphið þiðna aðeins og skerið það niður í aðeins minni bita.
  2. Hitið olíu frá sólþurrkuðu tómötunum og vegan smjör í potti.
  3. Steikið Oumphið í nokkrar mínútur á meðalháum hita eða þar til það mýkist vel.
  4. Skerið niður lauk og pressið eða rífið hvítlaukinn og bætið út í pottinn ásamt chiliflögum og steikið í nokkrar mínútur svo laukurinn og hvítlaukurinn mýkist vel. Hrærið reglulega í svo að laukurinn brenni ekki.
  5. Skerið sólþurrkuðu tómatana niður og bætið út í ásamt risoni og steikið í sirka tvær mínútur á meðan þið hrærið vel í.
  6. Bætið víninu og dijonsinnepinu út í og látið steikjast í nokkrar mínútur í viðbót.
  7. Hellið vatninu út í ásamt grænmetisteningnum og látið malla í 10-15 mínútur eða þar til risoniið er orðið mjúkt. Hrærið reglulega í svo að það festist ekki í botninum.
  8. Bætið spínati, rjóma, parmesanosti, basiliku og sítrónusafa út í og leyfið að hitna svolítið áður en þið berið fram. Smakkið til og bætið salti og pipar ef ykkur finnst þurfa. Toppið svo með basiliku, parmesanosti og sítrónuberki.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Oumph! á Íslandi-

 
 

Linsubauna "Shepert's pie"

IMG_9897.jpg

Mér finnst ég alltaf byrja þessar færslur á að tala um veðrið en það hefur snjóað af og til á landinu síðustu daga og hef ég þurft að skafa nánast alla morgna síðustu vikuna svo það er eiginlega bara ekki annað hægt. Matarvenjur mínar fara líka bara svo rosalega eftir veðri einhvernveginn, en það er akkúrat þess vegna sem ég ákvað að deila með ykkur þessari tilteknu uppskrift núna.

IMG_9874.jpg
IMG_9875.jpg

Uppskriftin er af svokallari “Sherpert’s pie” en ég held að það sé ekki mikil hefð fyrir því að fólk eldi þennan rétt hérna á Íslandi. Ég kynntist honum allavega ekki fyr en eftir að ég varð vegan þar sem það er mjög auðvelt að gera vegan útgáfu af alls konar svona bökum. Þessi útgáfu er mín uppáhalds en fyllingin er svo góð að það væri eiginlega hægt að borða hana á jólunum að mínu mat. Ég set rauðvín í sósuna sem gerir hana eitthvað svo hátíðlega og svo er kartöflumús líka í svo miklu uppáhaldi hjá mér.

Mér finnst þessi rétturinn vera fullkomin þegar það er kalt úti og tikkar í öll boxin yfir þennan svokallaða “comfort food”. Mér finnst líka einhvern veginn aldrei jafn skemmtilegt að kaupa gænmeti og á haustin þegar það er svo extra ferskt og mikið úrval í búðum, og því ákvað ég að hafa réttin stútfullan af fallegu grænmeti. Það má að sjálfsögðu nýta nánast hvaða grænmeti sem er í hann, sleppa einhverju eða skipta út eftir smekk hvers og eins. Ég set oft sveppi eða brokkolí út í ef ég á það til en mér finnst mikilvægast að það séu laukur, gulrætur og baunir í honum.

Uppistaðan í bökunni eru síðan linsubaunirnar en þær eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær draga svo vel í sig bragð og finnst mér áferðin á þeim einhvern veginn betri en á flestum öðrum baunum. Ég notaði baunirnar frá Oddpods þar sem það er svo einfalt að geta bara hent þeim út á pönnuna beint úr pakkningunni. Einnig eru baunirnar frá Oddpods soðnar upp úr grænmetiskrafti en það finnst mér gera þær bragðbetri en aðrar baunir og hentar það sérstaklega vel í rétti eins og þennan.

IMG_9917.jpg

Ég mæli með að elda stóra böku, en þessi uppskrift dugar fyrir 4-5 fullorðna, þar sem hún er eiginlega bara ennþá betri daginn eftir.

Linsubaunafylling:

  • 2 pakkar brúnar linsur frá Oddpods

  • 2-3 msk ólífuolía

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 3 gulrætur

  • 3 stilkar sellerí

  • 1 dl frosnar grænar baunir

  • 250 ml vatn + 1 msk hveiti hrist saman

  • 250 ml hafrarjómi

  • 1 sveppateningur

  • 1 msk dijon sinnep

  • 3 msk eða ein lítil dós tómatpúrra

  • 1-2 msk soyasósa

  • 1/2 dl rauðvín

  • 2 lárviðarlauf

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skera niður allt grænmeti í litla kubba.

  2. Steikið upp úr ólífuolíu þar til grænmetið fer að mýkjast

  3. Bætið baununum út í ásamt smá salti og pipar og steikið í nokkrar mínútur í viðbót á meðalhita.

  4. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið vel saman. Leyfið suðunni að koma upp og sjóðið í u.þ.b. 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar

  5. Setjið í eldfast mót, útbúið kartfölumúsina og dreyfið henni jafnt yfir. Bakið við 200°C í 15 mínútur eða þar til kartöflumúsin verður fallega gyllt að ofan.

  6. Passið að taka lárviðarlaufin úr þegar bakan er borðuð.

Kartöflumús

  • 1 kg kartöflur

  • 150 gr smjörlíki eða vegan smjör

  • 1-2 dl haframjólk

  • vel af salti (eftir smekk)

Aðferð:

  1. Sjóðið kartöflurnar í u.þ.b. 20 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn þegar stungið er gaffli í þær.

  2. Afhýðið kartöflurnar og stappið saman með kartöflustappara eða setjið í gegnum kartöflupressu.

  3. Setjið kartöflurnar, smjörlíki og 1 dl af mjólk saman í pott og hrærið vel í á lágum hita. Bætið við salti og haframjólk eftir þörfum.

-Við mælum með að bera réttinn fram með fersku salati og hvítlauksbrauði en það má líka bera hann fram einan og sér.

- Þessi færsla er í samstarfi við OddPods á Íslandi -

 
Oddpods-logo---edited.png
 

Vegan tikka masala og einfalt pönnubrauð

IMG_1224-2.jpg

Ég er ekkert smá spennt að deila með ykkur þessari uppskrift, en þetta er einn sá besti réttur sem ég hef eldað lengi. Ég áttaði mig á því í dag að þetta er önnur uppskriftin í röð sem ég nota Oumph!, en ég elska vörurnar þeirra og nota mikið í minni daglegu matargerð. Uppskrift dagsins er af dásamlega góðu tikka masala og fljótlegu pönnubrauði. Ég vona innilega að ykkur muni þykja rétturinn jafn góður og mér. Ég er búin að elda hann nokkrum sinnum uppá síðkastið til að mastera uppskriftina og við Siggi erum sammála að hann sé nýtt uppáhald.

IMG_1161.jpg

Ég hef eytt gríðarlega miklum tíma í eldhúsinu síðustu vikur og prufað mig áfram með uppskriftir af bæði mat og bakstri. Það er fátt sem veitir mér jafn mikla gleði, sérstaklega nú þegar skólinn hefur færst yfir á netið og ég hitti vini mína ekki jafn oft. Ég hef því notið þess að elda, baka og taka langa góða göngutúra í vorsólinni.

Þetta þýðir að hausinn á mér er fullur af hugmyndum fyrir bloggið og tilfinningin um að ég hafi gert allar uppskriftir sem ég mun nokkurn tímann kunna að elda hefur loksins horfið. Eftir að við skrifuðum bókina okkar leið mér lengi eins og ég væri alveg tóm en nú líður mér eins og ég sé tilbúin að byrja á næstu bók hehe.. Við látum það þó bíða aðeins og reynum að vera duglegar að deila með ykkur uppskriftum hérna á blogginu þangað til.

IMG_1183-2.jpg

þessi uppskrift er ein af þeim sem henta bæði sem hversdagsmatur en líka í matarboðið (eftir samkomubannið að sjáfsögðu). Rétturinn krefst smá undirbúnings þar sem að Oumphið þarf að fá að marinerast aðeins en annars er hann virkilega einfaldur. Hann er bragðgóður og passar einstaklega vel með grjónum og pönnubrauði.

Færsla dagsins er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Hagkaup er mikið og skemmtilegt úrval af góðum vegan mat. Ég nota Oumph í réttinn, en það er hægt að skipta því út fyrir aðra tegund af vegan kjötlíki, tófú eða kjúklingabaunir. Í Hagkaup er úr ýmsu að velja svo það ættu allir að finna það sem hentar þeim.

IMG_1229.jpg

Ef þið eigið afgang af réttinum er virkilega gott að útbúa fljótlega tikka masala pizzu. Hana geri ég einfaldlega með því að setja tikka masala á pönnubrauð (uppskriftir hér að neðan) sem búið er að steikja og toppa með rauðlauk sem ég hef skorið þunnt. Þetta set ég í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til þetta hefur eldast í gegn og kantarnir á brauðinu orðnir örlítið krispí. Það þarf ekki að baka lengi þar sem þetta er allt eldað fyrir og því í rauninni nóg að hita. Mér finnst þó best ef botninn nær að verða svolítið “krispí". Svo toppa ég þetta með vegan sýrðum rjóma, grófu salti, kóríander, chili flögum og ólífuolíu.

IMG_1233-3.jpg

Vegan tikka masala (fyrir tvo til þrjá)

Hér að neðan er uppskrift af tikka masala og pönnubrauði. Með réttinum sauð ég svo hrísgrjón og toppaði matinn með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma.

Oumph í mareneringu:

  • Olía til steikingar

  • 1 poki Oumph the chunk (eða annað ókryddað vegan sojakjöt, t.d. Filébitarnir frá Hälsans kök)

  • 2 dl ósæt vegan jógúrt

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk turmerik

  • 2 tsk garam masala

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Leyfið Oumphinu að þiðna og setjið svo í stóra skál.

  2. Bætið jógúrtinni út í skálina ásamt hvítlauk, engifer og kryddum.

  3. Hrærið saman svo að jógúrtin og kryddin þekji alla Oumphbitana. Setjið plastfilmu yfir skálina eða færið matinn yfir í box og setjið í ísskáp í helst minnst tvo tíma. Ég mæli virkilega með því að leyfa bitunum að liggja í marineringu yfir nótt eða jafnvel gera þetta snemma jafndægurs ef þið ætlið að matreiða réttinn um kvöldið.

  4. Hitið olíu á pönnu og steikið bitana þar til þeir fá lit. Takið þá af pönnunni og leggið til hliðar. Ekki þvo pönnuna því sósan fer beint á hana.


Sósan:

  • Olía til steikingar

  • 1 meðalstór laukur

  • 2 pressaðir hvítlauksgeirar (1 ef þeir eru mjög stórir)

  • 2 tsk rifið engifer

  • 1.5 tsk garam masala

  • 1.5 tsk cumin

  • 1 tsk malað kóríander

  • 1 tsk túrmerík

  • 1 tsk chiliduft

  • 400 ml niðursoðnir tómatar (helst passata, s.s. alveg maukaðir)

  • 2.5 dl vegan matreiðslurjómi (mæli með iMat frá Oatly)

  • 1 tsk púðursykur

  • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Hellið aðeins meiri olíu á pönnuna.

  2. Saxið niður laukinn og setjið út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur mýskt aðeins.

  3. Bætið hvítlauk og engifer út á pönnuna og steikið í smá stund.

  4. Bætið kryddunum út á og hrærið þannig þau blandist vel við laukinn og steikið í sirka mínútu. (Ef þið ætlið að bera réttinn fram með hrísgrjónum er tilvalið að byrja að sjóða þau á þessum tímapunkti eftir leiðbeiningum á pakkanum.)

  5. Hellið tómötunum út á. Setjið örlítið vatn í botninn á krukkunni/dósinni til að ná restinni af tómötunum með á pönnuna. Leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur og hrærið reglulega í á meðan. Sósan á að þykkna svolítið og dekkjast.

  6. Hellið rjómanum og púðursykrinum út á pönnuna og blandið vel saman.

  7. Bætið bitunum út á og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur. (Mér finnst gott að steikja pönnubrauðið á meðan)

  8. Toppið með fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma (má sleppa). Berið fram með grjónum og pönnubrauði.


Einfaldasta pönnubrauð í heimi (4 stykki):

  • 2 dl hveiti plús smá til að setja á borðið þegar þið fletjið út

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk ólífuolía

  • 1-2 dl vatn. Byrjið á því að setja 1 og sjáið hversu mikið þarf að bæta við

Aðferð:

  1. Hitið pönnu á frekar háum hita

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hellið vatninu og olíunni saman við og blandið saman þar til þið fáið flott deig.

  4. Skiptið deiginu í fjóra hluta.

  5. Stráið smá hveiti á borðið og fletjið deigið úr.

  6. Steikið brauðið í nokkrar mínútur á hvorri hlið á þurri pönnu.


Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur muni líka uppskriftin!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina-


Gómsætt vegan Chili

IMG_2655-2.jpg

Eins og ég hef oft talað um hérna á blogginu finnast mér pottréttir og súpur ótrúlega góður matur. Ég elska að geta skellt allskonar hráefnum í pott, leyft þeim að malla og geta svo bara borið fram án frekari fyrirhafnar. Oft er líka bara svo gott að leyfa mat að malla og taka í sig allskonar brögð. Uppskrift dagsins er einmitt af svoleiðis rétti, en ég hef gert þennan chili rétt oft síðastliðin ár og það er löngu orðið tímabært að ég birti hann hérna á blogginu.

IMG_2633-2.jpg

Árið 2016 vann ég um stund á veitingastað í Gautaborg þar sem reglulega var eldað chili. Það var á þessum veitingastað sem ég lærði að setja kakó í chili. Mér fannst tilhugsunin fyrst rosalega skrítin, en í dag finnst mér það ómissandi. Kokkurinn skellti reyndar líka alltaf vænri skvettu af Kóki í pottinn, en ég er ekki alveg komin þangað.

IMG_2639.jpg

Ég nota mjög oft vegan hakk í þennan rétt, en þar sem ég notaði það í síðustu uppskrift þá ákvað ég að nota sveppi í dag. Það er alveg jafn gott, ef ekki betra. Auk þess er rétturinn stútfullur af gómsætum baunum sem gerir chili-ið rosalega mettandi en á sama tíma alls ekki þungt í magann.

IMG_2644-2.jpg

Rétturinn er passlegur fyrir 3-4 og ég elda eiginlega aldrei minna fyrir okkur Sigga þó við séum bara tvö því það er svo gott að eiga afganga. Það er mismunand hvernig ég ber chili fram, en mér finnst eiginlega möst að toppa það með hreinni sojajógúrt eða Oatly sýrðum rjóma. Svo finnst mér alltaf jafn gott að útbúa djúsí hvítlauksbrauð með. Ef þið eruð í svakalegu stuði er geggjað að búa til “chili cheese fries” og toppa franskar með chiliréttinum og fullt af vegan osti.

IMG_2650.jpg

Eitt af því sem einkennir pottrétti oft er að það er hægt að leika sér mikið með réttina. Það er ekkert heilagt hvaða grænmeti er notað, en ég hef oft bara nýtt það sem ég á heima. Mér finnst gott að setja smá papriku í chili eða jafnvel sætar kartöflur ef ég er í svoleiðis stuði. Ég ákvað að hafa uppskriftina í dag eins og mér þykir hún allra best, og mæli mikið með því að prufa hana.

IMG_2651-2.jpg

Vegan Chili (fyrir 3-4)

  • Olía til steikingar

  • 350g sveppir

  • 2 gulir laukar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 sellerístöngull

  • 2 msk tómatpúrra

  • 3 tsk sojasósa

  • 2 tsk balsamik edik

  • 2 msk kakóduft

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 tsk chiliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1 tsk oregano

  • 1 lárviðarlauf

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 x 400g dósir niðursoðnir tómatar

  • 2 x 400 g dósir baunir (ég notaði 1 dós af svörtum baunum og 1 dós af blönduðum baunum, en ég mæli t.d mikið með að nota nýrnabaunir)

  • 1/2 - 1 tsk sykur

Aðferð:

  1. Skerið sveppina mjög smátt niður, eins smátt og þið getið.

  2. Saxið lauk og hvítlauk niður smátt.

  3. Hellið olíu í heitan pott og bætið lauk og hvítlauk ofan í og leyfið honum að mýkjast í nokkrar mínútur.

  4. Hellið sveppunum út í ásamt smá salti sem hjálpar þeim að svitna smá í pottinum.

  5. Saxið sellerí niður og bætið út í pottinn þegar sveppirnir hafa byrjað að eldast svolítið (eftir 5-10 mínútur).

  6. Bætið kryddunum út í ásamt sojasósunni, balsamik edikinu og tómatpúrrunni og hrærið vel saman í nokkrar mínútur.

  7. Hellið niðursoðnu tómötunum út í ásamt baunum og lárviðarlaufi og leyfið að malla í sirka 20 mínútur, því lengur, því betra. Ég mæli með að bæta smá vatni út í með því að hella aðeins í dósirnar af tómötunum ( sirka 250 ml samtals) og nýta þannig allan tómatsafann sem verður eftir í botninum.

  8. Smakkið til og bætið við kryddum, salti og pipar eftir þörf.

  9. Takið lárviðarlaufið úr áður en borið er fram.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel <3

Veganistur

Gómsætar fylltar paprikur

IMG_2481.jpg

Ég fattaði það um daginn að ég hef ekki póstað neinni “hversdagslegri” uppskrift frá því fyrir jólin. Ég ákvað að bæta úr því í dag og gera gómsæta uppskrift af fylltum paprikum, sem eru fullkomnar sem kvöldmatur á venjulegum virkum degi, en á sama tíma svo ótrúlega bragðgóðar að þær passa vel fyrir fínni tilefni eins og matarboð.

IMG_2443.jpg

Ég hef verið svolítið föst í að elda alltaf það sama síðustu mánuði og ákvað um daginn að breyta því. Mér hafa alltaf þótt fylltar paprikur góðar en mér dettur einhvernveginn aldrei í hug að útbúa þær þegar ég er að ákveða hvað ég ætla að hafa í matinn. Þessi uppskrift er svo ótrúlega góð og auðvelt að útbúa hana og ég skil ekkert í mér að elda hana ekki oftar. Ég ætla að reyna að vera dugleg að pósta góðum uppskriftum af mat sem ég elda mér hversdagslega. Það gefur mér sjálfri innblástur til að vera hugmyndarík og breyta reglulega til.

IMG_2445.jpg

Ég eyddi síðustu helgi í Edinborg með Júlíu, mömmu okkar og Katrínu litlu systur. Við Júlía vorum auðvitað búnar að finna alla veitingastaði sem okkur langaði að prufa og Katrín hafði orð á því að við tölum varla um annað en mat. Matur var hefur alltaf verið stórt áhugamál hjá Júlíu, en hjá mér gerðist það ekki fyrr en ég varð vegan og byrjaði að blogga. Í dag eigum við það sameiginlegt að hugsa mikið og tala mikið um mat. Við urðum alls ekki fyrir vonbrigðum með vegan matinn í Edinborg og borgin þótti okkur alveg æðisleg. Það er þó alltaf jafn áhugavert að sama hvað það er gott að borða á veitingastöðum, þá er oftast langbest að elda mat heima. Ég verð því alltaf jafn fegin þegar ég kem heim úr svona ferðum og get farið að elda sjálf. Ég tek þó oft með mér hugmyndir og innblástur frá veitingastöðunum sem ég borða á.

IMG_2457.jpg

Ég bar paprikurnar fram með góðu salati og hvítlauksbrauði. Við erum með einfalda og þægilega uppskrift af fljótlegu hvítlausbrauði HÉR. Það þarf enga sósu með paprikunum. Þær eru virkilega bragðmiklar og fyllingin er safarík og góð. Það er þó örugglega gott að strá smá vegan osti yfir áður en þær fara í ofninn, en mér finnst það persónulega óþarfi. Ég nota vegan hakk í réttinn og mæli með hakkinu frá Anamma. Fyrir þá sem ekki vilja sojahakk mæli ég með að nota soðnar brúnar linsubaunir. Mér finnst uppskriftin þó fullkomin með hakkinu.

IMG_2466.jpg

Fylltar paprikur (fyrir fjóra)

  • 4 paprikur

  • Olía til steikingar og til að pennsla paprikurnar

  • 30 g furuhnetur

  • 1 lítill laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 225 g vegan hakk - mæli með því frá Anamma

  • 1 tsk chilliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 msk balsamik edik

  • 250 g ferskir tómatar - skornir niður í grófa bita

  • 2 msk sítrónusafi

  • 2 dl soðin hrísgrjón - Ég notaði brún grjón

  • 40 g tómatpúrra

  • 1,5 msk tapenade úr sólþurrkuðum tómötum. Ég keypti það í Svíþjóð og vona innilega að svoleiðis fáist á Íslandi. Ef ekki, þá er rauða pestóið frá Himneskt mjög gott, en eins er hægt að mauka niður sólþurrkaða tómata.

  • 4 lárviðarlauf

  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Skerið toppana af paprikunum og leggið til hliðar.

  3. Pennslið paprikurnar að innan með smá olíu og saltið aðeins. Látið þær standa á meðan þið gerið fyllinguna.

  4. Ristið furuhneturnar á pönnu án olíu í 1-2 mínútur. Leggið til hliðar þegar þær eru orðnar svolítið gylltar.

  5. Hitið olíu í stórum potti. Saxið laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið í pottinum þar til þeir hafa mýkst. Passið að brenna þá ekki.

  6. Bætið hakkinu og kryddunum út í pottinn og hrærið vel í nokkrar mínútur.

  7. Bætið tómötunum í pottinn ásamt 100 ml vatni og latið malla i sirka 10-15 minutur.

  8. Hellið grjónunum (ath að þau eiga að vera soðin þegar þau fara í fyllinguna), edikinu, furuhnetunum og sítrónusafanum saman við og saltið og piprið eftir smekk.

  9. Hrærið saman tómatpúrru, tapande/pestó og 200 ml heitu vatni í skál.

  10. Hellið helmingnum af blöndunni út í pottinn og hrærið saman við fyllinguna.

  11. Fyllið paprikurnar og raðið þeim í eldfast mót. Leggið toppinn á og pennslið tómatpúrrublöndu yfir. Hellið restinni af blöndunni svo ofan í eldfasta mótið og leggið lárviðarlauf i botninn.

  12. Setjið i ofninn i sirka 35 mínútur eða þar til paprikurnar eru orðnar svolítið dökkar að ofan.

  13. Berið fram með salati, hvítlauksbrauði eða því sem ykkur lystir.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur
-Veganistur

Vegan grýta

IMG_2083.jpg
IMG_2122.jpg

Grýta er einn mesti nostalgíumatur sem ég veit um en það var mjög oft í matinn heima hjá mér þegar ég var barn. Rétturinn er virkilega einfaldur en á sama tíma ótrúlega góður sem gerir hann að fullkominni máltíð fyrir köld vetrarkvöld eftir langan dag þegar metnaðurinn er kannski ekki sá allra mesti. Stundum þarf maður virkilega á því að halda að geta bara hent saman hráefnum á pönnu og ekki hugsað neitt sérstaklega um það. 

Ég viðurkenni að grýta var ekki réttur sem að ég hélt að ég myndi borða eftir að ég varð vegan. Ég var þó ekki búin að vera vegan ýkja lengi, þó það hafi alveg verið komið rúmlega eitt ár, þegar ég komst að því að lang flest grýtuduft er vegan. Þá var reyndar ekki mikið um gott vegan hakk á markaðnum og ég hugsaði því ekki oft um að nýta mér slíkt duft. Nú er vegan hakk hins vegar auðfundið í lang flestum búðum og er það líka bara ótrúlega gott. Vegan hakk er eitt af mínu uppáhalds kjötlíki þar sem hakk er notað mikið í góða bragðmikla rétti sem oftast er auðvelt að gera vegan einfaldlega með því að skipta því út fyrir vegan hakk.

IMG_2308.jpg

Hægt er að gera nokkrar útgáfur af þessum rétt. Hann er hægt að gera á mjög einfaldan máta þar sem í raun þarf bara hakk og grýtuduftið, en einnig er hægt að leika sér með hann og bæta alls kynns góðum hráefnum út í. 

Hráefni:

  • Mexíkósk grýta frá Toro

  • 1 poki vegan hakk frá Halsans kök

Það sem mér finnst gott að setja út í:

  • 1 dós nýrnabaunir

  • 1 dl graskersfræ

  • frosnar harricot baunir

Aðferð:

  1. Steikið hakkið á pönnu upp úr smá vatni eða olíu.

  2. Bætið grýtuduftinu út í ásamt vatni eins og nauðsynlegt er samkvæmt pakkanum.

  3. Bætið nýrnabaunum, graskersfræjum og strangjabaunum saman við ef nota á slík hráefni.

  4. Leyfið réttinum að sjóða eins og pakkningarnar segja til um.

Rétturinn stendur vel einn og sér en uppáhalds meðlætið mitt með honum er kartöflumús og sýrður rjómi frá Oatly.

-Júlía Sif

Vegan stroganoff - Veganoff

IMG_9530.jpg

Hvað er stroganoff? 

Stroganoff er upprunalega rússneskur réttur og inniheldur nautakjötsbita sem látnir eru malla í brúnni sósu úr sýrðum rjóma og bornir fram með pasta eða hrísgrjónum. Rétturinn hefur breyst mikið í gegnum tíðina en í dag eru yfirleitt sveppir og laukur í sósunni ásamt dijon sinnepi og einhverskonar súpukrafti. Mig hefur lengi langað að gera vegan útgáfu af þessum rétti en ég smakkaði hann fyrir mörgum árum í Lettlandi og þótti ekkert smá góður. Ég lét loksins verða að því um daginn og útkoman varð æðisleg. 

IMG_9451.jpg

Ég átti til poka af Oumph! í frystinum og afgangs rauðvín svo ég sló til og sé sko ekki eftir því. Ég bið ykkur að taka því ekki illa þótt uppskriftin sé að einhverju leyti ólík hefðbundinni stroganoff uppskrift, en þrátt fyrir að hún sé ekki alveg eins þá er bragðið ekkert síðra. 

IMG_9465.jpg

Ég ætlaði að hafa kóríander í uppskriftinni en þar sem kærastinn minn getur ekki fyrir sitt litla líf borðað ferskt kóríander ákvað ég að setja það frekar út á diskinn og það kom gríðarlega vel út. Ég held það sé sniðugt að gera það bara nema maður sé viss um að allir sem eru í mat borði kóríander. 

Ég ákvað að bera réttinn fram með hrísgrjónum og útbjó túrmerík-grjón. Þau eru einfaldlega gerð með því að hella örlitlu túrmeríkkryddi út í pottinn meðan grjónin eru að sjóða. Bæði verða þau falleg á litinn og kryddið gefur gott bragð. Þó er mikilvægt að setja ekki of mikið heldur strá örlitlu þannig grjónin verði fallega gul. 

IMG_9515.jpg

Hráefni:

  • 1 poki Oumph! the chunk (Ég notaði filet sem er nákvæmlega eins nema bara stærra, því ég fann ekki the chunk úti í búð)

  • 1 askja sveppir (250g)

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 msk dijon sinnep

  • 2 tsk tómatpúrra

  • 2,5 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 dl vatn

  • 1/2 dl vegan rauðvín

  • 1 sveppateningur

  • 1/2 msk dökk sojasósa

  • safi úr ca 1/4 sítrónu

  • salt og pipar

  • Kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið Oumphið úr frystinum og leyfið því að þiðna í svona 20 mínútur áður en það er matreitt

  2. Saxið niður laukinn og hvítlaukinn og skerið sveppina niður. Ég hef sveppina í svolítið stærri bitum fyrir þennan rétt. Steikið á pönnu upp úr olíu þar til laukurinn fær gylltan lit og sveppirnir hafa mýkst vel.

  3. Skerið Oumphið niður í munnbita. Mér finnst gott að gera það svo ég fái aðeins meira úr pakkanum því sumir bitarnir geta verið svolítið stórir. Þið sjáið á myndunum að ofan hversu stórir bitarnir voru hjá mér. Bætið Oumphinu út á pönnuna ásamt tómatpúrrunni og dijon sinnepinu og steikið í nokkrar mínútur

  4. Hellið rauðvíninu út á pönnuna og hækkið hitann á sama tíma í nokkrar mínútur á meðan

  5. Lækkið hitann aftur niður í miðlungs og bætið rjómanum, sýrða rjómanum, vatninu, sveppakraftinum og sojasósunni út á pönnuna. Leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur

  6. Smakkið til með salti og pipar og kreistið sítrónusafann yfir áður en þið berið matinn fram.

Berið fram með grjónum eða pasta. Hérna er uppskrift af fljótlegu hvítlauksbrauði sem er einstaklega gott að bera fram með. 

Veganistur

Kjúklingabaunakarrý

IMG_2023.jpg

Baunir eru dæmi um mat sem ég kunni alls ekki að meta áður en ég varð vegan. Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að ég ólst ekki upp við að borða þær, að undanskildum þessum hefðbundnu grænu og gulu baunum sem flestir þekkja. Þegar ég gerðist grænkeri fór ég fljótt að læra að elda baunir og fyrir mér opnaðist nýr heimur. Í dag eru þær í algjöru uppáhaldi hjá mér. 

IMG_1867.jpg

Baunir eru virkilega hollar. Þær innihalda prótín, mikið af trefjum og alls kynns fleirum góðum næringarefnum. Eins finnst varla ódýrari matur í heiminum í dag og henta því vel námsmönnum eins og mér. hægt er að kaupa þurrar baunir og sjóða í stórum skömmtum og frysta t.d, en þær fást einnig tilbúnar í dós og þarfnast þá nánast engrar fyrirhafnar.  Ég viðurkenni að ég mætti vera duglegri að sjóða mínar eigin baunir en það er bara svo ótrúlega auðvelt að kaupa þær tilbúnar í dós.

IMG_1882.jpg
IMG_1926.jpg

Síðustu ár hafa baunir verið virkilega stór partur af mínu mataræði og má segja að ég eldi einhverskonar baunir á hverjum degi. Það eru til ótrúlega margar tegundir af þeim sem allar hafa sína eiginleika og því eru möguleikarnir miklir. Kjúklingabaunir verða oftar en ekki fyrir valinu því þær eru fullkomnar í allskyns rétti, hvort sem það er hummus, falafelbollur, kryddaðar og ristaðar í ofni eða á pönnu, út á salöt eða í pottrétti. 

IMG_1958.jpg

Í þessari viku ákváðum við systur í samstarfi við Krónuna að deila með ykkur einni af okkar einföldustu baunauppskrift. Ég held að það sé einhverskonar karrýpottréttur á matseðlinum okkar í hverri einustu viku en það er vegna þess hversu einfalt og þægilegt er að gera slíka rétti. Það er einnig hægt að gera þennan rétt svo ótrúlega fjölbreyttan að maður fær aldrei leið á honum. Sú útgáfa sem við deilum með ykkur í þessari viku er sú allra einfaldasta en það þarf einungis fjögur hráefni í réttinn, og gengur hann fullkomlega sem máltíð einn og sér en einnig er hægt að hafa alls kyns gott meðlæti með honum.

IMG_1995.jpg

Hráefni:

Aðferð:

  1. saxið laukinn og steikið upp úr örlitlu vatni þar til mjúkur. 

  2. Setjið madras maukið út í, 1/4 ef þið viljið hafa réttinn mildan og meira fyrir sterkari útgáfu.

  3. Hellið vatninu af baununum og bætið þeim útí ásamt kókosmjólkinni og sjóðið í 10 til 15 mínútur

Réttinn má bera fram einan og sér en hann er einnig virkilega góður með hrísgrjónum ,salati og auðveldu pönnubrauði. HÉR er uppskrift af virkilega einföldu brauði.

-Veganistur

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar.

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar.

Milt grænmetiskarrý

download (3).jpeg

Þessi karrýréttur er ótrúlega góður. Ég geri hann yfirleitt bara úr því grænmeti sem ég á hverju sinni en mér finnst lykilatriði að í réttinum séu, allavega kartöflur eða grasker og einhvers konar baunir, hvort sem það eru nýrnarbaunir eða linsur. Svo lengi sem sósan er eins og flýtur vel yfir grænmetið er hægt að nýta nánast hvaða grænmeti sem er út í, rétturinn verður alltaf ótrúlega góður. 

download.jpeg

Hráefni:

  • Það grænmeti sem ég átti þessu sinni:

    • 1 laukur

    • 4 hvítlauksrif

    • rúmlega 1 paprika

    • 1/2 lítil rófa

    • 1/2 sæt kartafla

    • 3 meðalstórar kartöflur

    • 1/2 lítill hvítkálshaus

    • 2 tómatar

    • 1 dl frosnar grænar baunir

    • 1 bolli frosnar sykurbaunir

    • hálfur poki spínat

  • 3-4 msk milt karrý

  • 1 msk paprikuduft

  • 1 msk þurrt tímían

  • 1/4 tsk kanill

  • salt og pipar

  • 2 bollar linsur

  • 1/2 lítri vatn

  • 4 msk rapunzel grænmetiskraftur

  • 2 dósir angelmark kókosmjólk

  • 1 dós niðursoðnir tómatar

Aðferð:

  1. Steikið lauk og hvítlauk. Þegar ég geri kássur og súpur finnst mér best að steikja bara upp úr vatni í smá tíma. Þá bæti ég bara meira og meira vatni út í ef laukurinn fer að festast við pottinn.

  2. Bætið kryddunum út í ásamt smá vatni í viðbót og hrærið við.

  3. Setjið linsurnar og 1/2 líter af vatni út í og leyfið suðunni að koma upp. Mér finnst gott að skera restina af grænmetinu niður á meðan að linsurnar sjóða. Leyfið linsunum að sjóða í allavega 10 mínútur og setjið svo restina af grænmetinu út í, að undanskildu spínatinu.

  4. Bætið út í kóksmjólkinni, tómötunum og grænmetiskraftinum og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Sjóðið kássuna í allavega 30 mínútur. Gott að smakka til eftir 10-15 mínútur og krydda meira ef þarf.

  6. Bætið spínatinu út í og hrærið því saman við rétt áður en kássan er borin fram.

Ég ber réttinn oftast fram með hrísgrjónum, salati og góðu brauði.

- Júlía Sif

Einfaldur og góður grjónagrautur

Ég hef verið vegan í 5 ár og fæ reglulega spurningar frá fólki varðandi allskonar sem tengist lífsstílnum. Eitt af því sem fólk virðist hafa miklar áhyggjur af þegar það gerist vegan, er að það verði að kveðja grjónagrautinn. Ég held ég hafi verið spurð oftar að því hvaða jurtamjólk sé best til að gera grjónagraut heldur en hvað best sé að nota í stað osts. 

Mér hefur alltaf þótt grjónagrautur góður. Sem barn borðaði ég hann alltaf með rúsínum og kanilsykri. Ég áttaði mig svo á því seinna meir hversu mikið hægt er að leika sér með grautinn. Hann er góður með
eplum og kanil
hlynsírópi
bláberjum og möndlum
sultu
karamellusósu...

..Listinn er endalaus.

Í kvöld bar ég grautinn annarsvegar fram með kanilsykri og hinsvegar með hindberjasultu sem ég hitaði örlítið í potti. Bæði þykir mér alveg virkilega gott!

Hráefni:

  • 3 dl grautar hrísgrjón

  • 3 og 1/2 dl vatn 

  • 1 líter jurtamjólk. Ég mæli mest með því að nota sæta soyamjólk, Provamel og Alpro eru æðislegar. 
    Annars er mjög gott að nota haframjólk, kókosmjólk eða möndlumjólk.
    Mér finnst hrísmjólk virka síst. Hún er æðisleg útá grautinn en hún er svo þunn að mér finnst hún ekki alveg passa í grautargerðina. 

  • 1 og 1/2 tsk salt

  • 1/4 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Setjið grjónin í pott ásamt vatninu og sjóðið þar til allt vatnið er horfið (sirka 10-15 mín). Hrærið reglulega á meðan

  2. Hellið mjólkinni, saltinu og vanilludropunum útí og látið malla í sirka 25-35 mínútur og hrærið mjög reglulega, grauturinn getur nefnilega auðveldlega brunnið við í botninum

  3. Berið fram með því sem ykkur langar. Í kvöld setti ég örlítið af sultu í lítinn pott og hitaði í smá stund. Sultunni helti ég svo yfir grautinn og það var æðislega gott

 

Njótið :)

Helga María