Einfaldur og góður grjónagrautur

Ég hef verið vegan í 5 ár og fæ reglulega spurningar frá fólki varðandi allskonar sem tengist lífsstílnum. Eitt af því sem fólk virðist hafa miklar áhyggjur af þegar það gerist vegan, er að það verði að kveðja grjónagrautinn. Ég held ég hafi verið spurð oftar að því hvaða jurtamjólk sé best til að gera grjónagraut heldur en hvað best sé að nota í stað osts. 

Mér hefur alltaf þótt grjónagrautur góður. Sem barn borðaði ég hann alltaf með rúsínum og kanilsykri. Ég áttaði mig svo á því seinna meir hversu mikið hægt er að leika sér með grautinn. Hann er góður með
eplum og kanil
hlynsírópi
bláberjum og möndlum
sultu
karamellusósu...

..Listinn er endalaus.

Í kvöld bar ég grautinn annarsvegar fram með kanilsykri og hinsvegar með hindberjasultu sem ég hitaði örlítið í potti. Bæði þykir mér alveg virkilega gott!

Hráefni:

 • 3 dl grautar hrísgrjón
 • 3 og 1/2 dl vatn 
 • 1 líter jurtamjólk. Ég mæli mest með því að nota sæta soyamjólk, Provamel og Alpro eru æðislegar. 
  Annars er mjög gott að nota haframjólk, kókosmjólk eða möndlumjólk.
  Mér finnst hrísmjólk virka síst. Hún er æðisleg útá grautinn en hún er svo þunn að mér finnst hún ekki alveg passa í grautargerðina. 
 • 1 og 1/2 tsk salt
 • 1/4 tsk vanilludropar

Aðferð:

 1. Setjið grjónin í pott ásamt vatninu og sjóðið þar til allt vatnið er horfið (sirka 10-15 mín). Hrærið reglulega á meðan
 2. Hellið mjólkinni, saltinu og vanilludropunum útí og látið malla í sirka 25-35 mínútur og hrærið mjög reglulega, grauturinn getur nefnilega auðveldlega brunnið við í botninum
 3. Berið fram með því sem ykkur langar. Í kvöld setti ég örlítið af sultu í lítinn pott og hitaði í smá stund. Sultunni helti ég svo yfir grautinn og það var æðislega gott

 

Njótið :)

Helga María