Svartbauna- og sætkartöflu enchilada.

Ég elska að elda og borða mexíkóska rétti og hef því þess háttar mat á boðstólnum nánast í hverri viku. Enchilada er mexíkóskur réttur sem er ekki svo þekktur meðal Íslendinga en þegar ég var að ferðast fyrr á árinun smakkaði ég hann í alls konar útgáfum, auðvitað alltaf vegan samt. Ég hafði aldrei eldað enchiladas áður, og aðeins heyrt lítið um réttinn. Ég ákvað því þegar ég kom heim að ég yrði að prufa að elda svoleiðis og fór að lesa og skoða meira um þennan tiltekna rétt. Ég ákvað að ég vildi hafa sætkartöflu og svartbaunafyllingu, bæði af því að það á ég oftast til heima og það eru alls ekki svo dýr hráefni. Ég las mikið á netinu að það væri hægt að kaupa enchilada sósur út í búð. Það hef ég þó aldrei séð hérna á Íslandi og ákvað því að búa hana bara til frá grunni, sem kom í ljós að var ROSALEGA lítið mál. Þessu réttur er ekki bara einfaldur heldur hefur hann slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað hann hjá mér í sumar.

Hráefni:

 • 1 sæt kartafla
 • 2 dósir svartar baunir
 • 1 laukur
 • 1 paprika
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 2 msk saxaður ferskur kóríander
 • 2 tsk broddcúmen
 • 2 tsk malaður kóríander
 • 1 tsk chilliduft
 • salt og pipar eftir smekk
 • 1/2 dós niðuroðnir tómatar
 • Helmingur af enchilada sósunni
 • 8 maís tortillur

Aðferð:

 1. Skerið sætu kartöfluna í litla bita. Setjið kartöflubitana með vatni svo það fljóti yfir í pönnu og látið malla á meðan þið saxið niður papriku, lauk, hvítlauk og kóríander.
 2. Þegar kartöflurnar hafa fegnið að sjóða í 15 mínútur hellið þeim í sigti og látið vatnið renna vel af.
 3. Steikið á pönnunni upp úr örlitlu vatni, lauk, hvítlauk og papríku. Þegar grænmetið hefur fengið að mýkjast aðeins bætiði við sætu kartöflunum og svörtu baununum ásamt niðursöðnum tómötum og kryddinu. Látið malla í 10 mínútur áður en þið setjið enchilada sósuna saman við.
 4. Setjið fyllingu í miðja maíspönnukökuna, rúllið upp og komið fyrir í heldföstu móti. Endurtakið þetta með allar 8 pönnukökurnar. Smyrjið enchilada sósunni yfir og stráið yfir vegan osti ef hans er óskað. Bakið í 190°C heitum ofni í u.þ.b. 20 mínútur.

 

Vegan Enchilada sósa:

 • 3 msk olía
 • 2 msk hveiti
 • 5 msk tómatpúrra
 • 2 msk chilliduft
 • 1 tsk broddcúmen
 • 1 tsk laukduft
 • 1 tsk hvítlauksduft
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 3 1/2 dl vatn

Aðferð:

 1. Hrærið saman í litlum potti á miðlungshita olíu og hveiti.
 2. Bætið tómatpúrru ásamt kryddi útí og blandið vel
 3. Bætið að lokum hálfum desilíter af vatni út í, í einu, þar til öllu vatninu hefur verið hrært saman við. Sósan þarf ekkert að sjóða, aðeins að hitna vel.

Réttinn má bera fram með því sem hugurinn girnist en ég ber hann fram með guacamole, maís, fersku salati og salsasósu.