Vegan Marengsterta

Marengstertur eru eitthvað sem ég hélt að ég þyrfti að gefa alfarið upp á bátinn þegar ég varð vegan. Mér fannst engar líkur á því að hægt væri að baka tertu sem samanstendur af sykri og eggjahvítu án eggjanna. Svo virðist sem ég hafi haft rangt fyrir mér í þessum efnum þar sem það er ekkert mál að gera marengsbotna án eggjana, en það er nú orðið að einum af mínum uppáhalds kökum. Þetta er gert með svokölluðu aquafaba, en það er soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós. Þessi kaka er því ekki einungis jafn bragðgóð og hin hefðbundna marengsterta heldur líka töluvert ódýrari í framleiðslu. Það er ekki skrítið að marengstertur séu svona vinsælar á veisluborðið en auk þess að vera mjög góðar á bragðið eru þær svo ótrúlega fallegar. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig að ná að fullkomna þessa uppskrift en oftar en ekki hefur uppskriftin sem ég prófaði að baka misheppnast. Ég held þó að ég sé komin nokkuð nálægt því með þessari uppskrift en hún hefur ekki enn misheppnast hjá mér þó ég sé búin að baka hana nokkrum sinnum.

Hráefni:

  • 12 msk aquafaba

  • 220 gr sykur

  • 2 dl mulið kornflex

  • 1/2 tsk lyftiduft

Aðferð:

  1. Þeytið vökvan á hæsta stigi þar til hann verður að stífri, u.þ.b. 15 mínútur. Bætið síðan við einni matskeið af sykrinum í einu á meðan hrært er á miklum hraða. Þeytið þetta tvennt lengi og vel, eða þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að blandan detti úr. þetta tekur allt að 20 mínútum.

  2. Blandið muldu kornflexinu mjög varlega saman við ásamt lyftiduftinu með sleikju.

  3. Bakið marengsin í 50 mínútur við 120°C heitan ofn en ég hef ofninn á blæstri og leyfið botnunum að kólna vel áður en þeir eru teknir af plötunni. Best er að slökkva á ofninum og leyfa botnunum að kólna með honum.

Ég bar marengstertuna mína fram með þeyttum soyatoo rjóma í milli, en í hann setti ég niðurskorin jarðaber og Ichoc núggatsúkkulaði. Bæði rjóminn og súkkulaðið má finna í Nettó. Kökuna skreytti ég svo með heimagerðri vegan karamellu, jarðaberjum og afganginum af súkkulaðinu sem ég reif niður. Jarðaberin og karamellan gera kökuna svo ótrúlega fallega og girnilega en ég lofa að engin sem smakkar hana mun verða fyrir vonbrigðum.

-Júlía Sif