Glútenlaust rjómapasta

IMG_1390.JPG

Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram við að elda glútenlausan mat, en ég elska pasta og er mjög oft með það í matinn. Þegar reyna á að gera hina ýmsu pastarétti glútenlausa þarf að finna staðgengil fyrir aðal hráefnið, pastað sjálft. Það eru til alls kyns glútenlaus pasta í flestum búðum í dag en ég hef ekki smakkað mörg þeirra ennþá. Þó hefur mig lengi langað að prófa að elda baunapasta, en ég hef séð svoleiðis í mörgum búðum í soldin tíma. Ég ákvað að láta verða af því og keypti svartbauna-pasta, en ásamt því er hægt að fæ bæði soyjabauna-pasta og edamame-pasta. Pakkinn af pastanu er frekar dýr en 200gr pakki var nóg fyrir fjórar fullorðnar manneskjur í kvöldmat þar sem pastað stækkar alveg rosalega mikið við suðu. 

Einhvernveginn fannst mér líklegra að rjómasósa myndi passa með svartbaunapastanu frekar en sósa með tómatgrunn. Rjómapasta hefur alltaf verið smá spariréttur hjá mér en það geri ég alltaf þegar mig langar í eitthvað extra gott. Ég átti kebab Oumph í frystinum og datt í hug að það myndi passa vel í þennan rétt. Ég notaði svo það grænmeti sem ég átti til í ísskápnum, en mér finnst sveppir og laukur allavega vera nauðsyn í rjómapasta. Uppskriftin passar fyrir fjóra.

Hráefni:

 • 1 pakki svartbaunapasta
 • 1 bolli niðurskorið Oumph að eigin vali (ég notaði Kebab Oumph)
 • u.þ.b. 4 sveppir
 • hálfur rauðlaukur
 • u.þ.b. 1 bolli brokkolíblóm
 • tveir hvítlauksgeirar/1/4 lítill kínverskur hvítlaukur
 • rjómasósugrunnur (uppskrift neðar í færslunni)
 • salt og pipar eftir smekk
 • 2 msk Pasta Rossa krydd frá Santa Maria
 • 2 msk maísmjöl

Aðferð:

 1.  Byrjið á því setja vatn í pott, kveikja undir og leyfa suðunni að koma upp. Á meðan er sniðugt að undribúa grænmetið. Þegar suðan kemur upp er pastað sett út í og látið sjóða í 4-6 mínútur, en ég sauð mitt pasta í 6 mínútur. Aðskiljið pastað nokkrum sinnum með gaffli á meðan það síður.
 2. Skerið grænmetið eins og þið viljið hafa það, en ég reyni að skera það ekki of smátt, og steikið ásamt Oumph'inu upp úr örlítilli olíu og pressuðum hvítlauknum í nokkrar mínútur.
 3. Þegar grænmetið hefur mýkst er rjómasósunni hellt út í ásamt kryddunum og suðan látinn koma upp. Stráið maísmjölinu yfir, hrærið vel í og leyfið sósunni svo að sjóða í 4-5 mínútur.
 4. Pastanu er síðan hrært saman við þegar slökkt hefur verið undir pönnunni.

Rjómasósugrunnur:

 • 1 dós kókosmjólk
 • 1/4 dl næringarger
 • 1/2 grænmetisteningur

Aðferð:

 1. Öllu er blandað saman í skál og notað eftir aðferðinni hér að ofan. 

Það sem ég elska mest við þennan rétt er hversu einfaldur hann er þó svo að hann sé í fínni kanntinum og passi æðislega vel í matarboðið. Ég bar mitt pasta fram með ristuðu grófu brauði með vegan smjöri og vegan parmesan ostinum frá Follow Your Heart, en hann fæst í Gló Fákafeni og Hagkaup.

-Júlía Sif