"Marry me" Oumph! með orzo (risoni)


Hinn fullkomni kvöldmatur!

Í dag deilum við uppskrift af rjómkenndum rétti með orzo (risoni), oumph, sólþurrkuðum tómötum og spínati. Rétturinn er innblásin af vinsælum rétti sem kallast “marry me chicken.” Þetta er fljótlegur og gómsætur réttur sem minnir mikið á risotto en er mun auðveldara að útbúa.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Oumph á Íslandi og ég notaði Thyme & garlic Oumph í uppskriftina. Ég nota Oumph gríðarlega mikið í mína matargerð og elska að sjá hvað úrvalið stækkar ört hjá þeim. Thyme & garlic mun samt alltaf vera í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég toppaði með basiliku, vegan parmesan, sítrónuberki og chiliflögum. Þið trúið því ekki hversu góð lykt var í eldhúsinu á meðan þessi gómsæti réttur var að malla. Útkoman er þessi rjómakenndi gómsæti réttur sem er fullkomið að bera fram með góðu baguettebrauði. Ég hlakka til að gera fleiri útgáfur af þessum rétti, kannski oumph með risoni og góðri sítrónusósu. Ég get líka vel trúað því að það væri virkilega gott að setja rjómaost út í.



"Merry me" Oumph! með orzo (risoni)

"Merry me" Oumph! með orzo (risoni)
Fyrir: 2-3
Höfundur: Veganistur

Hráefni:

  • 1 msk olía frá sólþurrkuðum tómötum
  • Smá vegan smjör (má nota olíu)
  • 1 pakki Oumph garlic & thyme
  • 2 skalottlaukar
  • 3 hvítlauksgeirar
  • Chiliflögur eftir smekk
  • 250 gr orzo (risoni)
  • 100 gr sólþurrkaðir tómatar
  • 1 dl hvítvín eða hvítt matreiðsluvín
  • 1-2 msk dijonsinnep (ég notaði eina kúfulla)
  • 700 ml vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 dl rifinn vegan parmesanostur
  • 65 gr babyspínat
  • 1/2 dl basilika
  • 250 ml vegan matreiðslurjómi
  • 1 msk sítrónusafi
  • Salt og pipar ef þarf
  • Gott baguette að bera fram með

Aðferð:

  1. Látið Oumphið þiðna aðeins og skerið það niður í aðeins minni bita.
  2. Hitið olíu frá sólþurrkuðu tómötunum og vegan smjör í potti.
  3. Steikið Oumphið í nokkrar mínútur á meðalháum hita eða þar til það mýkist vel.
  4. Skerið niður lauk og pressið eða rífið hvítlaukinn og bætið út í pottinn ásamt chiliflögum og steikið í nokkrar mínútur svo laukurinn og hvítlaukurinn mýkist vel. Hrærið reglulega í svo að laukurinn brenni ekki.
  5. Skerið sólþurrkuðu tómatana niður og bætið út í ásamt risoni og steikið í sirka tvær mínútur á meðan þið hrærið vel í.
  6. Bætið víninu og dijonsinnepinu út í og látið steikjast í nokkrar mínútur í viðbót.
  7. Hellið vatninu út í ásamt grænmetisteningnum og látið malla í 10-15 mínútur eða þar til risoniið er orðið mjúkt. Hrærið reglulega í svo að það festist ekki í botninum.
  8. Bætið spínati, rjóma, parmesanosti, basiliku og sítrónusafa út í og leyfið að hitna svolítið áður en þið berið fram. Smakkið til og bætið salti og pipar ef ykkur finnst þurfa. Toppið svo með basiliku, parmesanosti og sítrónuberki.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Oumph! á Íslandi-