Vegan stroganoff - Veganoff

IMG_9530.jpg

Hvað er stroganoff? 

Stroganoff er upprunalega rússneskur réttur og inniheldur nautakjötsbita sem látnir eru malla í brúnni sósu úr sýrðum rjóma og bornir fram með pasta eða hrísgrjónum. Rétturinn hefur breyst mikið í gegnum tíðina en í dag eru yfirleitt sveppir og laukur í sósunni ásamt dijon sinnepi og einhverskonar súpukrafti. Mig hefur lengi langað að gera vegan útgáfu af þessum rétti en ég smakkaði hann fyrir mörgum árum í Lettlandi og þótti ekkert smá góður. Ég lét loksins verða að því um daginn og útkoman varð æðisleg. 

IMG_9451.jpg

Ég átti til poka af Oumph! í frystinum og afgangs rauðvín svo ég sló til og sé sko ekki eftir því. Ég bið ykkur að taka því ekki illa þótt uppskriftin sé að einhverju leyti ólík hefðbundinni stroganoff uppskrift, en þrátt fyrir að hún sé ekki alveg eins þá er bragðið ekkert síðra. 

IMG_9465.jpg

Ég ætlaði að hafa kóríander í uppskriftinni en þar sem kærastinn minn getur ekki fyrir sitt litla líf borðað ferskt kóríander ákvað ég að setja það frekar út á diskinn og það kom gríðarlega vel út. Ég held það sé sniðugt að gera það bara nema maður sé viss um að allir sem eru í mat borði kóríander. 

Ég ákvað að bera réttinn fram með hrísgrjónum og útbjó túrmerík-grjón. Þau eru einfaldlega gerð með því að hella örlitlu túrmeríkkryddi út í pottinn meðan grjónin eru að sjóða. Bæði verða þau falleg á litinn og kryddið gefur gott bragð. Þó er mikilvægt að setja ekki of mikið heldur strá örlitlu þannig grjónin verði fallega gul. 

IMG_9515.jpg

Hráefni:

  • 1 poki Oumph! the chunk (Ég notaði filet sem er nákvæmlega eins nema bara stærra, því ég fann ekki the chunk úti í búð)

  • 1 askja sveppir (250g)

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 msk dijon sinnep

  • 2 tsk tómatpúrra

  • 2,5 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1 dl vatn

  • 1/2 dl vegan rauðvín

  • 1 sveppateningur

  • 1/2 msk dökk sojasósa

  • safi úr ca 1/4 sítrónu

  • salt og pipar

  • Kóríander (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið Oumphið úr frystinum og leyfið því að þiðna í svona 20 mínútur áður en það er matreitt

  2. Saxið niður laukinn og hvítlaukinn og skerið sveppina niður. Ég hef sveppina í svolítið stærri bitum fyrir þennan rétt. Steikið á pönnu upp úr olíu þar til laukurinn fær gylltan lit og sveppirnir hafa mýkst vel.

  3. Skerið Oumphið niður í munnbita. Mér finnst gott að gera það svo ég fái aðeins meira úr pakkanum því sumir bitarnir geta verið svolítið stórir. Þið sjáið á myndunum að ofan hversu stórir bitarnir voru hjá mér. Bætið Oumphinu út á pönnuna ásamt tómatpúrrunni og dijon sinnepinu og steikið í nokkrar mínútur

  4. Hellið rauðvíninu út á pönnuna og hækkið hitann á sama tíma í nokkrar mínútur á meðan

  5. Lækkið hitann aftur niður í miðlungs og bætið rjómanum, sýrða rjómanum, vatninu, sveppakraftinum og sojasósunni út á pönnuna. Leyfið þessu að malla í 10-15 mínútur

  6. Smakkið til með salti og pipar og kreistið sítrónusafann yfir áður en þið berið matinn fram.

Berið fram með grjónum eða pasta. Hérna er uppskrift af fljótlegu hvítlauksbrauði sem er einstaklega gott að bera fram með. 

Veganistur