Gómsætar fylltar paprikur

IMG_2481.jpg

Ég fattaði það um daginn að ég hef ekki póstað neinni “hversdagslegri” uppskrift frá því fyrir jólin. Ég ákvað að bæta úr því í dag og gera gómsæta uppskrift af fylltum paprikum, sem eru fullkomnar sem kvöldmatur á venjulegum virkum degi, en á sama tíma svo ótrúlega bragðgóðar að þær passa vel fyrir fínni tilefni eins og matarboð.

IMG_2443.jpg

Ég hef verið svolítið föst í að elda alltaf það sama síðustu mánuði og ákvað um daginn að breyta því. Mér hafa alltaf þótt fylltar paprikur góðar en mér dettur einhvernveginn aldrei í hug að útbúa þær þegar ég er að ákveða hvað ég ætla að hafa í matinn. Þessi uppskrift er svo ótrúlega góð og auðvelt að útbúa hana og ég skil ekkert í mér að elda hana ekki oftar. Ég ætla að reyna að vera dugleg að pósta góðum uppskriftum af mat sem ég elda mér hversdagslega. Það gefur mér sjálfri innblástur til að vera hugmyndarík og breyta reglulega til.

IMG_2445.jpg

Ég eyddi síðustu helgi í Edinborg með Júlíu, mömmu okkar og Katrínu litlu systur. Við Júlía vorum auðvitað búnar að finna alla veitingastaði sem okkur langaði að prufa og Katrín hafði orð á því að við tölum varla um annað en mat. Matur var hefur alltaf verið stórt áhugamál hjá Júlíu, en hjá mér gerðist það ekki fyrr en ég varð vegan og byrjaði að blogga. Í dag eigum við það sameiginlegt að hugsa mikið og tala mikið um mat. Við urðum alls ekki fyrir vonbrigðum með vegan matinn í Edinborg og borgin þótti okkur alveg æðisleg. Það er þó alltaf jafn áhugavert að sama hvað það er gott að borða á veitingastöðum, þá er oftast langbest að elda mat heima. Ég verð því alltaf jafn fegin þegar ég kem heim úr svona ferðum og get farið að elda sjálf. Ég tek þó oft með mér hugmyndir og innblástur frá veitingastöðunum sem ég borða á.

IMG_2457.jpg

Ég bar paprikurnar fram með góðu salati og hvítlauksbrauði. Við erum með einfalda og þægilega uppskrift af fljótlegu hvítlausbrauði HÉR. Það þarf enga sósu með paprikunum. Þær eru virkilega bragðmiklar og fyllingin er safarík og góð. Það er þó örugglega gott að strá smá vegan osti yfir áður en þær fara í ofninn, en mér finnst það persónulega óþarfi. Ég nota vegan hakk í réttinn og mæli með hakkinu frá Anamma. Fyrir þá sem ekki vilja sojahakk mæli ég með að nota soðnar brúnar linsubaunir. Mér finnst uppskriftin þó fullkomin með hakkinu.

IMG_2466.jpg

Fylltar paprikur (fyrir fjóra)

  • 4 paprikur

  • Olía til steikingar og til að pennsla paprikurnar

  • 30 g furuhnetur

  • 1 lítill laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 225 g vegan hakk - mæli með því frá Anamma

  • 1 tsk chilliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 msk balsamik edik

  • 250 g ferskir tómatar - skornir niður í grófa bita

  • 2 msk sítrónusafi

  • 2 dl soðin hrísgrjón - Ég notaði brún grjón

  • 40 g tómatpúrra

  • 1,5 msk tapenade úr sólþurrkuðum tómötum. Ég keypti það í Svíþjóð og vona innilega að svoleiðis fáist á Íslandi. Ef ekki, þá er rauða pestóið frá Himneskt mjög gott, en eins er hægt að mauka niður sólþurrkaða tómata.

  • 4 lárviðarlauf

  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Skerið toppana af paprikunum og leggið til hliðar.

  3. Pennslið paprikurnar að innan með smá olíu og saltið aðeins. Látið þær standa á meðan þið gerið fyllinguna.

  4. Ristið furuhneturnar á pönnu án olíu í 1-2 mínútur. Leggið til hliðar þegar þær eru orðnar svolítið gylltar.

  5. Hitið olíu í stórum potti. Saxið laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið í pottinum þar til þeir hafa mýkst. Passið að brenna þá ekki.

  6. Bætið hakkinu og kryddunum út í pottinn og hrærið vel í nokkrar mínútur.

  7. Bætið tómötunum í pottinn ásamt 100 ml vatni og latið malla i sirka 10-15 minutur.

  8. Hellið grjónunum (ath að þau eiga að vera soðin þegar þau fara í fyllinguna), edikinu, furuhnetunum og sítrónusafanum saman við og saltið og piprið eftir smekk.

  9. Hrærið saman tómatpúrru, tapande/pestó og 200 ml heitu vatni í skál.

  10. Hellið helmingnum af blöndunni út í pottinn og hrærið saman við fyllinguna.

  11. Fyllið paprikurnar og raðið þeim í eldfast mót. Leggið toppinn á og pennslið tómatpúrrublöndu yfir. Hellið restinni af blöndunni svo ofan í eldfasta mótið og leggið lárviðarlauf i botninn.

  12. Setjið i ofninn i sirka 35 mínútur eða þar til paprikurnar eru orðnar svolítið dökkar að ofan.

  13. Berið fram með salati, hvítlauksbrauði eða því sem ykkur lystir.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur
-Veganistur