Dásamleg vegan lasagnasúpa

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan lasagnasúpu. Súpan inniheldur allt sem gott lasagna inniheldur, svo sem tómata, vegan hakk, lasagnaplötur, grænmeti, gómsæt ítölsk krydd og mikið af hvítlauk. Þetta er hin fullkomna súpa að elda á köldum vetrardegi. Hún vermir svo sannarlega líkama og sál.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og ég notaði vegan hakkið frá þeim. Við höfum lengi unnið með Anamma og erum gríðarlega stoltar af því. Vörurnar frá þeim eru svo góðar og hakkið frá þeim, bæði þetta “hefðbundna” og formbar hakkið nota ég svakalega mikið í mína matargerð. Ég hef eldað marga rétti með Anamma hakkinu fyrir vegan vini og vini sem borða kjöt og þeir hafa alltaf slegið í gegn. Þessi súpa er akkúrat dæmi um slíkan rétt.

Við erum með uppskrift af lasagnasúpu í bókinni okkar en þessi sem ég deili í dag er að mörgu leyti ólík. Mig langaði að gera hana aðeins meira eins og alvöru lasagna og ég er mjög stolt af útkomunni. Hún er virkilega bragðgóð og mettandi og ég er viss um að hún verður elduð oft í kvöldmatinn á mínu heimili á næstunni. Ég mæli með að gera hvítlauksbrauð með súpunni en uppskrift að svoleiðis brauði er að finna HÉR!

Eins og ég sagði hér að ofan inniheldur súpan gómsæt ítölsk krydd og ég notaði:

Oregano
Basiliku
Timían
Rósmarín
Majoram

Kryddin passa fullkomlega við tómatana og rjómann og gera súpuna svo dásamlega góða!

Vegan lasagna súpa

Hráefni:

  • Olía og/eða smjörlíki að steikja uppúr

  • 1 meðalstór laukur

  • 6 hvítlauksgeirar

  • 2 meðalstórar gulrætur

  • 2 sellerístiklar

  • 1 msk oregano

  • 1 msk þurrkuð basilika

  • 1 tsk rósmarín

  • 1 tsk timían

  • 1 tsk majoram

  • pínu chiliflakes

  • 2 msk sojasóa

  • 325 gr hakk frá Anamma (1 lítill poki)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar (hver dós 400g)

  • 1 líter vatn

  • 2 grænmetisteningar

  • 1 msk balsamikedik

  • 3 lárviðarlauf

  • 6 lasagnaplötur

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi

  • Salt og pipar

  • Rifinn vegan ostur að setja í að lokum (má sleppa)

Aðferð:

  1. Hitið olíu/smjörlíki í potti.

  2. Saxið laukinn og bætið út í og steikið þar til hann mýkist.

  3. Skerið niður gulrætur og sellerí og bætið út í ásamt pressuðum eða rifnum hvítlauksgeirum og steikið í nokkrar mínútur eða þar til grænmetið mýkist.

  4. Bætið út í pottinn kryddunum, hakkinu og sojasósunni og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Hellið tómötunum og vatninu út í og setjið balsamikedik, lárviðarlaufin og grænmetiskraftinn út í líka og leyfið þessu að ná suðu.

  6. Brjótið þá lasagnaplötur út í og leyfið súpunni að malla í 15-20 mínútur og verið viss um að lasagnaplöturnar séu orðnar mjúkar.

  7. Hellið rjómanum út í og smakkið til með salti og pipar. Leyfið súpunni að hitna þar til hún nær næstum því suðu, takið þá af hellunni, stráið vegan osti yfir og hrærið honum saman við svo hann bráðni. Það má að sjálfsögðu sleppa ostinum ef þið viljið en mér finnst það gott.

  8. Berið fram með góðu brauði og toppið með t.d. ferskri basíliku og vegan parmesanosti.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur uppskriftin vel!

-Helga María

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Lasagna rúllur með Sacla Italia sósum.

Uppskrift vikunnar er af fullkomnum kósý heimilismat. Ég elska að elda pottrétti og góða ofnrétti þegar fer að hausta og núna er akkúrat sá tími ársins sem mikið af grænmeti er sem best. Því er fullkomið að elda góða grænmetisrétti sem hafa grænmeti í aðalhlutverki. Mig langaði akkúrart að gera þannig rétt núna í vikunni þar sem ég hef mikið verið að deila “kjöt”líkis uppskriftum síðustu vikur.

Þessar nýju vegan sósur frá Sacla Italia eru fullkomnar í ítalska matargerð og gera þær eldamennsku extra einfalda og þægilega. Ég ákvað að fara smá óhefðbundna leið að lasagna í þetta skiptið og gera lasagna rúllur en það kom ekkert smá á óvart hvað það var auðvelt og hversu vel það kom út. Þessi réttur er svo ótrúlega fallegur í fatinu og svo þægilegt að skammta hverjum og einum, sér rúllu.

Í þetta skiptið fór ég aðeins óhefðbundnari leið með hvítu sósuna en í staðin fyrir að gera hvíta sósu frá grunni eða nota rjómaost líkt og ég hef oft gert áður ákvað ég að nota frábæru CH**SE sósuna frá Sacla. Ég prófaði mig áfram með tófu þar sem mér fannst vanta smá upp á áferðina á réttinum og koma það fullkomlega út að stappa eða mylja niður tófú og hræra ostasósunni saman við. Áferðin minnir svolítið á kotasælu en það var alltaf notuð kotasæla í lasagna á mínu heimili þegar ég var lítil.

Hráefni

  • 8-9 lasagna plötur

  • Fylling:

    • 1 dl linsubaunir

    • 1 sveppakraftur

    • 2-3 hvítlauksgeirar

    • 1/2 kúrbítur

    • 1/2 laukur

    • 2-3 gulrætur

    • 2-3 sellerístangir

    • 2 msk ítalskar juritr (t.d. oreganó, basil og smá tímían blandað saman)

    • 1 teningur grænmetiskraftur

    • salt og pipar

    • 2 krúkkur Vegan Bolognese sósa frá Sacla

    • 1-2 dl vatn

  • 1-2 dl vegan ostur (má sleppa)

  • Hvít sósa

    • 1 krukka VEGAN CH**SE sósan frá Sacla Italia

    • 100 gr tófú

    • 2-3 dl eða sirka 2 lúkur af spínati

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk laukduft

    • 2 msk þurrkurð steinselja

  • 1-2 dl vegan ostur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja linsubaunirnar, sveppakraftin og vel af vatni í pott og sjóða í sirka 20 mínútur.

  2. ´Á meðan að linsurnar sjoða skerið allt grænmetið ´í fyllinguna niður ´í sm´áa teninga og pressið hvítlaukinn. Steikið grænmetið upp úr olía í góðar 10 mínútur á vægum hita eða þar til það fer að mýkjast vel. Bætið ítölsku jurtunum, salti og pipar út í og hrærið saman við ásamt linsubaunum. Steikið þetta áfram í nokkrar mínútur í viðbót.

  3. Bætið Bolognese sósunum út í ásamt 1-2 dl af vatni og leyfið suðunni að koma upp. Smakkið til og slökkvið síðan undir.

  4. Myljið tófúfið í skál með höndunum eða stappið það vel með gaffli og saxið spínatið niður frekar smátt.

  5. Hrærið ölum hráefnunum fyrir hvítu sósunni saman við tófúið og spínatið og setjið til hliðar

  6. Setjið vel af vatni í stóran pott ásamt smá olíu og salti og látið suðuna koma upp. Þegar vatnið fer að sjóða setjið þá lasagna plöturnar eina af annari út í vatnið og leyfið þeim að sjóða í 6-8 mínútur.

  7. Setjið lasagna plöturnar yfir í volgt vatn og passið að þær séu ekki fastar saman. Ef þær festast aðeins saman er ekki mál að taka þær varlega í sundur ofan í volgu vatni.

  8. Setjið smá fyllingu í botninn á eldföstu móti

  9. Takið eina lasagnaplötu í einu, smyrjið á hana vel af hvítri sósu og síðan fyllingu og rúllið henni varlega upp og raðið þessu þétt saman í eldfasta mótið.

  10. Geymið örlítið af fyllingu og hvítri sósu til að smyrja aðeins yfir og stráið síðan ostinum yfir allt saman í lokinn ef fólk kýs að nota ost.

  11. Bakið í ofni við 220°C í 10 til 15 mínútur eða þar til efsta lagið er orðið fallega gyllt.

Það er alveg ótrúlega skemmtilegt að útbúa þennan rétt og hann kemur fólki alltaf á óvart þar sem hann er svo fallegur í fatinu og ótrúlega brgaðgóður. Ég mæli með því að bera hann fram með góðu salati og hvítlauksbrauði.

-Njótið vel

Þessi færsla er unninn í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi

 
Sacla_HR.png
 

Mexíkóskt lasagna

IMG_1608.jpg

Hæ!

Ég hef hlakkað lengi til að deila með ykkur uppskriftinni af þessu gómsæta mexíkóska lasagna. Þetta er einn af þessum réttum sem er virkilega einfalt að útbúa en smakkast á sama tíma svakalega vel. Það er eitt það besta sem ég veit, að elda einfaldan mat sem samt smakkast ótrúlega vel.

Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fáiði allt sem þarf í þessa uppskrift. Við höfum unnið svolítið með Hagkaup síðustu mánuði og við erum alveg ótrúlega ánægðar með það. Úrvalið hjá þeim af vegan mat er gríðarlega flott og alltaf jafn gaman að sjá eitthvað nýtt og spennandi hjá þeim að prófa.

IMG_1568.jpg

Nú er mánudagur og ný vika að hefjast en eins og hjá mörgum öðrum hafa dagarnir svolítið runnið í eitt síðasta mánuðinn. Það hefur því ekki verið jafn auðvelt að skilja helgina frá skólavikunni. Við Siggi höfum þó reynt að halda okkur við okkar rútínu yfir vikuna og gera eitthvað svolítið öðruvísi um helgar. Við pössum okkur t.d. á því að gera okkur helgarbröns eins og við erum vön og kaupum vel inn fyrir vikuna af mat svo auðvelt sé að gera góðan matseðil. Ég viðurkenni að þetta ástand hefur haft áhrif á mig og ég hef stundum orðið kvíðin yfir þessu öllu saman. Mér hefur því þótt mikilvægt að hafa matarræðið og svefninn í góðu lagi og hef fundið að það gerir gæfumun.

IMG_1580.jpg

Eitt af því sem hefur haldið geðheilsunni minni í lagi síðustu vikur er nýi áhugi minn á súrdeigi. Mér líður hálf kjánalega að segja frá því, það virðast allir annaðhvort vera byrjaðir á fullu í súrdeiginu eða orðnir dauðþreyttir á því að sjá þetta á öllum miðlum. Mig hefur langað að gera súrdegi lengi og um áramótin strengdi ég ein heit. Að læra að gera súrdeigsbrauð. Ég hef svo haldið áfram að fresta því þar til fyrir rúmri viku þegar ég ákvað loksins að slá til og byrja að búa til súr.

Akkúrat viku seinna bakaði ég mitt fyrsta súrdeigsbrauð sem var svo dásamlega gott og fallegt. Í þessum töluðu orðum liggur brauðdeig í hefunarkörfum inni í ísskáp og ég skelli þeim í ofninn á eftir. Ég skil það loksins hvernig fólk getur fengið þetta á heilann. Þegar ég byrjaði að lesa mér til um þetta og skoða allskonar myndbönd fannst mér þetta líta nánast ógerlegt út. Endalaust vesen, súr, levain, “stretch and fold”, formótun, mótun, hefunarkörfur, steypujárnspottur.. Mér fannst nánast eins og allt þetta stúss gæti ekki verið þess virði. EN nú þegar ég hef bakað mitt fyrsta brauð og borðað það fatta ég þetta. Þetta var í fyrsta lagi ekki jafn mikið vesen og ég hélt. Það þarf vissulega að gera ýmislegt en það tekur alltaf lítinn tíma í einu og svo fær þetta að bíða. Í öðru lagi er þetta miklu betra (að mínu mati) en allt annað brauð. Ég get nefnilega ekki keypt nýbakað súrdeigsbrauð þar sem ég bý. Ég get því sagt að ég er mjög spennt fyrir þessu nýja áhugamáli mínu.

IMG_1593.jpg

En færsla dagsins snýst ekki um súrdeigsbrauð heldur þetta gómsæta mexíkóska lasagna. Í stað pasta nota ég tortilla pönnukökur og ofan á lasagnað ákvað ég að setja tortillaflögur sem gaf réttinum þetta góða “crunch”. Þegar það var komið úr ofninum toppaði ég það með lárperu, fljótlegu fersku tómatsalsa, fersku kóríander og vegan sýrðum rjóma. Þetta gaf réttinum dásamlegan ferskleika. Þetta er hinn fullkomni réttur til að bjóða uppá í matarboði en er líka frábær sem góður kvöldmatur!

IMG_1601.jpg

Mexíkóskt lasagna

Hráefni:

  • Olía til að steikja uppúr

  • 5-6 meðalstórar tortillapönnukökur

  • 1 pakki (ca 300 gr) vegan hakk (þarf ekki að vera nákvæmlega 300 en þeir eru yfirleitt í kringum það. Ég mæli mikið með hakkinu frá Anamma)

  • 1/2 rauðlaukur

  • 1-1 1/2 paprika

  • 1-2 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk cuminduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk laukduft

  • 2 krukkur salsasósa (ég nota þær frá Santa Maria)

  • 2 dl tómatpassata

  • 100 gr svartar baunir úr dós

  • 100 gr maísbaunir (ég mæli með frosnum maísbaununum frekar en þeim í dós)

  • 1 pakki vegan rjómaostur (ég setti helminginn í fyllinguna og restina ofan á áður en ég bakaði lasagnað). Mæli með Oatly

  • salt og pipar

  • Rifinn vegan ostur eftir smekk

  • Tortillaflögur

Hugmyndir af hlutum til að toppa með eftir á:

  • Lárpera

  • Vegan sýrður rjómi. Mæli með Oatly

  • Ferskt tómatsalsa (ég gerði mjög einfalda útgáfu þar sem ég blandaði saman ferskum tómötum, rauðlauk, lime safa, kóríander og salti)

  • Ferskt kóríander

  • Lime safi

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Hitið olíu á pönnu eða í potti.

  3. Bætið hakkinu út í. Vegan hakk má elda beint úr frystinum og þarf því ekki að láta þiðna. Steikið hakkið í nokkrar mínútur.

  4. Saxið rauðlaukinn og pressið hvítlaukinn og bætið út í. Steikið þar til laukurinn hefur mýskt svolítið.

  5. Bætið paprikunni út í og steikið í nokkrar mínútur.

  6. Bætið kryddum út í og hrærið saman við.

  7. Hellið salsaósu og tómatpassata út í og leyfið þessu að malla í sirka 10 mínútur.

  8. Skolið svörtu baunirnar í sigti undir vatni til að ná af þeim safanum úr dósinni. Bætið þeim út í fyllinguna ásamt maís og helmingnum af rjómaostinum. Það má vissulega setja hann allan út í en mér fannst mjög gott að spara helminginn og setja ofan á áður en ég setti réttinn í ofninn. Leyfið að malla í sirka 5 mínútur eða þar til rjómaosturinn hefur bráðnað vel í fyllingunni.

  9. Saltið og piprið eftir smekk

  10. Skerið niður tortillapönnukökurnar í ræmur eða eftir því sem passar best í ykkar eldfasta mót.

  11. Setjið fyllingu í botninn á forminu, raðið svo pönnukökum yfir og endurtakið þar til fyllingin er búin.

  12. Stráið örlítið af vegan osti yfir, raðið tortillaflögum yfir ostinn, því næst restinni af rjómaostinum (ég hitaði minn örlítið í litlum potti svo auðvelt væri að setja hann yfir), og á endanum aðeins meira af vegan osti.

  13. Setjið inní ofn og bakið í sirka 25 mínútur eða þar til osturinn ofan á er orðinn gylltur og fínn.

  14. Toppið með því sem ykkur lystir. Þið sjáið mínar hugmyndir hér að ofan, en mér finnst gera mikið fyrir réttinn að bæta þessu ferska yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin vel!

Helga María

 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

Vegan lasagna með Anamma sojahakki

IMG_0541.jpg

Stuttu eftir að við opnuðum bloggið okkar birtum við uppskrift af gómsætu grænmetislasagna. Sú uppskrift hefur lengi verið í uppáhaldi og er elduð ansi oft á okkar heimili. Eins og mér finnst uppskriftin æðisleg, hef ég svolítið verið að prufa mig áfram með nýja uppskrift sem minnir e.t.v. meira á þetta klassíska lasagna sem margir þekkja. Þessi uppskrift er svolítið öðruvísi en hin og inniheldur meðal annars sojahakk í stað linsubauna. Þetta lasagna er svo ótrúlega gott að ég eldaði það tvo daga í röð í síðustu viku. 

IMG_0462.jpg

Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað mér þykir lasagna gott, því mér þótti það aldrei neitt sérstakt þegar ég var yngri. Ég taldi mér trú um að rétturinn væri bara ekkert fyrir mig, þar til fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að gefa honum annan séns. Ég er gríðarlega fegin að hafa gert það, því í dag er það eitt af því besta sem ég fæ. 

IMG_0468.jpg

Ég hef mikið notað vörurnar frá Anamma síðustu ár og þær valda aldrei vonbrigðum. Anamma er sænskt fyrirtæki sem útbýr einungis vegan matvörur og leggur mikinn metnað og vinnu í vörurnar sínar. Nýlega breyttu þau uppskriftunum á öllum vörunum sínum, og bættu helling við úrvalið hjá sér, og nú bragðast maturinn þeirra enn betur en áður. Í lasagnað fannst mér fullkomið að nota hakkið frá þeim, en ég á alltaf til poka af því í frystinum. Vörurnar frá Anamma fást meðal annars í Bónus, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

Eitt af því besta við að gera lasagna er að hægt er að nota í það allt það grænmeti sem til er í ísskápnum. Í uppskriftina í færslunni nota ég t.d gulrætur, kúrbít og spínat, en það er síður en svo heilagt. Ég nota yfirleitt bara það sem ég á til sem hentar mér mjög vel, því ég elska að breyta til. 

IMG_0522.jpg
IMG_0531.jpg

Lasagna fyrir 4-6

Hakk í tómatsósu:

  • 1 poki hakk frá Anamma (325g)

  • 1 miðlungsstór laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • Grillkrydd eftir smekk

  • Oregano eftir smekk (ég er vön að setja frekar mikið)

  • 1 msk balsamik edik

  • salt og pipar

Grænmeti og lasagnaplötur:

  • 1 lítill kúrbítur eða 1/2 stór skorinn í þunnar lengjur. Ég einfaldlega sneiði hann niður með flysjaranum mínum.

  • Sirka 2 gulrætur (1 bolli) skornar í lengjur. Ég nota sömu aðferð og við kúrbítinn.

  • 2 lúkur spínat. Það má alveg vera meira frekar en lítið af spínati því það hverfur nánast við eldun.

  • 1 pakki lasagnaplötur. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikið af plötum, en ég hafði fjögur lög og notaði þrjár í hvert lag svo það fóru tólf plötur alls í lasagnað hjá mér.

Rjómaostasósa:

  • 1 askja vegan rjómaostur (yfirleitt 150-250g)

  • 2 msk ljóst tahini

  • 1/2 grænmetisteningur

  • 1/2 bolli vatn

  • 1/2 bolli ósæt sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að pressa hvítlauk og saxa laukinn og steikið á pönnu með örlítilli olíu á miðlungshita.

  2. Bætið hakkinu út í þegar laukurinn er orðinn mjúkur og steikið þar til það hefur þiðnað. Athugið að vegan hakk má steikja beint úr frystinum svo það þarf alls ekki að þíða það fyrir.

  3. Kryddið hakkið með grillkryddi að eigin vali og bætið svo tómötunum útá ásamt oregano og balsamik edik og leyfið því að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Mögulega þarf að bæta við meira af kryddunum, salti og pipar.

  4. Leggið blönduna til hliðar og steikið grænmetið örstutt á annarri pönnu með smá olíu. Það þarf ekki að vera neitt rosalega vel steikt en samt alveg búið að mýkjast svolítið. Leggið til hliðar.

  5. Setjið hráefnin í rjómaostasósuna í pott og hrærið vel saman þar til hún er orðin heit og laus við kekki. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

  6. Það er engin regla til um það hvernig setja á lasagna saman og ég held ég geri það aldrei nákvæmlega eins. Ég byrja hinsvegar alltaf á því að setja tómatsósu neðst og passa að hún þekji botninn vel.
    Næst raða ég lasagnaplötum og það passar fullkomlega að setja þrjár í hvert lag í mínu eldfasta móti.
    Næst smyr ég yfir góðu lagi af rjómaostasósunni og þar á eftir raða ég grænmetinu yfir, og endurtek svo leikinn.
    Ég nota ekki vegan ost á lasagnað, heldur passa ég að eiga svolítið eftir af rjómaostasósunni sem ég helli yfir áður en lasagnað fer í ofninn.

  7. Bakið við 190°c í 35-40 mínútur.

Við mælum með því að bera lasagnað fram með góðu salat og hvítlauksbrauði. 

Njótið
Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-