Fullkomið grænmetis lasanga

Ég varð snemma ástfangin af ítölskum mat. Það var eitthvað við pasta, pizzur, tómatlagaðar sósur og þessar einstöku kryddjurtir sem heillaði mig. Ég held að pasta hafi alltaf verið einn af mínum uppáhalds mat, hvort sem það var pasta með kjötsósu, lasanga, kalt pastasalat eða pestópasta. Það er eitthvað við þennan rétt, hann getur bæði verið svo látlaus með einfaldri sósu en á sama tíma svo fínn með aðeins meiri tíma og ást.

Í þetta skiptið ætlum við þó að deila með ykkur uppskrift á einföldu, klassísku grænmetislasanga. Það er langt síðan við fengum fyrst fyrirspurn um að gera lasagna uppskrift.  Lasagna er réttur sem maður getur leikið sér endalaust með. Það skiptir eiginlega ekki máli hvaða grænmeti maður notar, það verður alltaf gómsætt. Þessi uppskrift er mjög hefðbundin og þægileg, en við stefnum á að birta uppskriftir af alls kyns mismunandi útgáfum af þessum skemmtilega rétt í framtíðinni. 

I uppskriftina notuðum við meðal annars Violife rjómaost sem gefur réttinum mjög skemmtilegt bragð. Brúnu linsubaunirnar gera líka mikið fyrir réttinn að okkar mati. Grænmetið er hinsvegar smekksatriði. Það er að sjálfsögðu hægt að nota bara það sem er til í ísskápnum en við ákváðum að nota það sem er í uppáhaldi hjá okkur að þessu sinni. 

það halda margir að það sé rosalegt vesen að útbúa lasagna en í rauninni er það verulega einfalt. Það er tekur kannski smá stund að setja það saman en það er skemmtilegt og algjörlega þess virði. 

Það sem er hins vegar mjög þægilegt við lasanga er að það er í góðu lagi að undirbúið það daginn áður en það skal borið fram. Því hentar það fullkomlega þegar maður fær fólk í mat því maður getur haft það tilbúið í ísskápnunm og skellt því í ofninn rétt áður en gestina ber að garði. Ekkert uppvask eða stress.

Hráefni:

 • 1/2 bolli þurrar brúnar linsur
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • 2 til 3 hvítlauksgeirar
 • 1/2 til 1 paprika
 • 1 meðalstór laukur
 • 3 gulrætur
 • hálfur meðalstór blómkálshaus
 • 1 1/2 dós niðursoðnir tómatar
 • 3 msk tómatpúrra
 • 1 msk þurrkuð basilíka
 • 1 msk þurrkað oregano
 • 2 msk grænmetiskraftur
 • salt og pipar
 • spínat
 • 1 dós violife rjómaostur með kryddjurtabragði (herbs)
 • lasanga plötur (passa að þær innihaldi ekki egg)
 • vegan ostur (við notuðum ost frá merkinu follow your heart sem fæst í Gló)

Aðferð

 1. Byrjið á því að skola linsurnar vel og sjóða upp úr einni matskeið af grænmetiskrafti í 40 mínútur. Á meðan er gott að undirbúa fyllinguna.
 2. Skerið gulrætur, papriku og lauk venjulega niður en blómkálið er best að saxa mjög smátt svo það líkist örlítið hakki. Steikið grænmetið með kryddunum og hvítlauknum þangað til það mýkist aðeins. Þegar grænmeti sem nota á í fyllingar og pottrétti líkt og í þessari uppskrift er algjör óþarfi að steikja það upp úr olíu en okkur finnst best að nota bara nokkrar msk af vatni.
 3. Bætið niðursoðnum tómötum og tómatpúrru útí ásamt grænmetiskraftinum. Látið suðuna koma upp og setjið þá soðnar linsurnar saman við og smakkið til með salti og pipar. Leyfið fyllingunni að sjóða í um 10 mínútur og bræðið rjómaostinn í potti á lágum hita á meðan. Það þarf að hræra vel í rjómaostinum á meðan svo hann brenni ekki við.
 4. Setjið í eldfast mót, fyllingu, spínat, lasangaplötur og síðast þunnt lag af rjómaostinum. Endurtakið þrisvar til fjórum sinnum þar til mótið er nánast fullt. Endið síðan á fyllingu og setjið ostin yfir hana.
 5. Bakið í 190°C heitum ofni í 20-25 mínútur.

Lasanga smakkast einstaklega vel borið fram með góðu fersku salati og hvítlauksbrauði, en það er þó alveg nóg eitt og sér.