Vegan lakkrístoppar

Nú nálgast jólin óðfluga og flestir farnir að huga að jólabakstrinum. Við systurnar erum að sjálfsögðu engin undantekning. Þegar við gerðumst vegan bjuggumst við ekki við því að baka lakkrístoppa aftur. Vegan marengs var eitthvað sem fólk almennt hafði ekki hugmynd um að hægt væri að gera. Það var svo fyrir sirka tveimur árum að aquafaba, próteinríki vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós, uppgvötaðist. Það var frakkinn Joël Roessel sem fann upp á þessarri snilld. Aquafaba gjörsamlega breytti lífi vegan fólks um allan heim. Nú geta þeir sem kjósa að borða ekki egg eða eru með ofnæmi fyrir eggjum notið þess að borða til dæmis marengstertur og mæjónes svo eitthvað sé nefnt. 

Síðustu jól bökuðum við lakkrístoppa í fyrsta skipti síðan við urðum vegan. Við vorum örlítið skeptískar í fyrstu og vildum ekki gera okkur of miklar vonir. Við urðum því heldur betur hissa þegar lakkrístopparnir komur úr ofninum og smökkuðust nákvæmlega eins og þeir gömlu góðu sem við vorum vanar að borða áður fyrr. 

Við þróuðum uppskriftina sjálfar og birtum á facebooksíðunni okkar en hún vakti strax mikla lukku. Uppskriftin er virkilega einföld og hefur slegið í gegn hjá öllum sem hafa smakkað toppana hjá okkur. Það er að sjálfsögðu vel hægt að bjóða öllum uppá lakkrístoppana, hvort sem fólk er vegan eða ekki, því það er enginn munur á þeim. 

Við erum á fullu að safna góðum hátíðaruppskriftum á bloggið okkar sem henta vel fyrir jólin og í allskonar veislur. 
Núna erum við til dæmis komnar með

Marengstertu
Aspasbrauðrétt
Döðlunammi
Súkkulaðiköku

... Og það er margt fleira á leiðinni. 
 

IMG_6712-2.jpg

Vegan Lakkrístoppar

  • 9 msk aquafaba

  • 300g púðursykur

  • 150g lakkrískurl

  • 150g suðusúkkulaði

 

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn í 150°c

  2. Þeytið aquafaba í hrærivél þar til vökvinn verður alveg stífur, eða í sirka 15-20 mínútur

  3. Bætið púðursykrinum hægt út í, það er fínt að setja bara eina matskeið í einu og þeytið á meðan

  4. Hrærið vel og lengi, alveg í aðrar 20 mínútur

  5. Slökkvið á hrærivélinni og blandið lakkrísnum útí, ásamt brytjuðu súkkulaðinu, varlega með sleif.

  6. Bakið lakkrístoppana í 15-17 mínútur. Leyfið þeim að kólna í svolítinn tíma á plötunni eftir að þið takið þá út.

Vonum að þið njótið 

-Veganistur