Rjómalöguð sveppasúpa í brauðskál

IMG_6705.jpg

Á veturna eru súpur og kássur algjörir bjargvættir. Það er fátt meira kósí en ylvolg súpa eftir langan og kaldan dag. Við ætlum að vera duglegar að deila með ykkur góðum súpuuppskriftum í vetur, en í dag ætlum við að sýna ykkur sveppasúpu uppskriftina okkar sem er ein af okkar eftirlætis súpum. 

Súpur eru ekki einungis þægilegar vegna þess að þær ylja manni á köldum dögum, heldur einnig vegna þess að við eldamennskuna þarf yfirleitt bara einn pott og eitthvað til að hæra með. Oftar en ekki er gott að skella hráefnunum í pottinn og leyfa þeim að malla í svolítinn tíma á lágum hita án þess að þurfa mikið að skipta sér af. Eins og okkur þykir gaman að eyða tíma í eldhúsinu er oft rosalega fínt að geta gert fljótlegan, bragðgóðan og næringarríkan mat án mikillar fyrirhafnar. Það skemmtilegasta við þessa súpu er það að hún hentar fullkomlega sem kvöldmatur á venjulegu miðvikudagskvöldi en hentar einnig einkar vel sem forréttur við hvaða tilefni, eins og til dæmis sem forréttur á aðfangadagskvöld. 

Við erum duglegar að gera sveppasúpu við allskonar tilefni.  Við höfum mikið borðað hana á hátíðum og Júlía bar hana til dæmis fram í útskriftarveislunni sinni. Hún er klassísk og það finnst flestum hún góð svo hún hentar til dæmis vel fyrir tilefni þar sem ekki eru allir vegan, því fæstir finna nokkurn bragðmun. Eini munurinn er sá að jurtarjóminn er alls ekki jafn þungur í magann og hinn hefðbundni og við getum lofað ykkur að fólk mun ekki kvarta yfir því. 

Við ákváðum að prufa að bera súpuna fram í brauðsskál. Við keyptum súrdeigsbrauð í Passion bakaríi og einfaldlega skárum ofan af brauðinu, tókum það mesta innan úr og stungum í ofnin á 200°C í sirka 10 mínútur svo skálin yrði ekki blaut í gegn.

Þar sem brauðið var heldur stórt komst nóg af súpu í það fyrir okkur tvær. Næst ætlum við að reyna að finna aðeins minni brauð svo maður geti fengið sína eigin brauðskál. Við þurfum þó varla að taka það fram að brauðskálin er engin nauðsyn, hún var gerð einungis uppá gamanið en kom virkilega vel út. Við mælum þó sterklega með súrdeigsbrauðunum úr Passion bakarí, hvort sem þið viljið nota þau sem skálar eða einfaldlega njóta þess að borða það með súpunni. 

Hráefni:

  • 100 gr vegan smjör

  • 1/2 til 1 laukur (við notuðum hálfan stóran)

  • 200 gr frosin villisveppablanda

  • 250 (1 pakki) sveppir

  • hveitiblanda (2 kúfullar msk hveiti + 1 dl vatn hrisst saman)

  • 1 til 2 greinar ferskt timian

  • 1 tsk þurrkað timian

  • salt og pipar

  • 1 sveppateningur

  • 1 til 2 tsk grænmetiskraftur

  • 250 ml vatn

  • 750 ml Oatly haframjólk

  • 500 ml (tvær fernur) Oatly hafrarjómi

Aðferð:

  1. Leyfið frosnu sveppunum að þiðna í nokkrar mínútur. Skerið þá svo niður ásamt fersku sveppunum og saxið laukinn.

  2. Bræðið smjörið í potti og bætið sveppunum og lauknum saman við. Steikið við lágan hita í dágóðan tíma eða u.þ.b. 15 mínútur. 

  3. Nýtið tímann á meðan í að sjóða vatn í katli eða öðrum potti. Þetta er ekki nauðsynlegt en okkur þykir gott að búa til grænmetissoð með því að sjóða vatn, hella því í skál og leyfa kraftinum að leysast almennilega upp í því áður en við hellum því út í pottinn með sveppunum. 

  4. Hristið saman hveitiblönduna þar til engir kekkir eru eftir. Okkur þykir fínt að nota sultukrukku í verkið því þá er engin hætta á að þetta hristist uppúr. Hellið blöndunni hægt útí og hrærið vel í á meðan.

  5. Hellið grænmetissoðinu útí 50 ml í einu og hrærið vel í á meðan svo ekki myndist kekkir í súpuna. Leyfið suðunni svo að koma upp og hellið síðan mjólkinni útí. 

  6. Látið súpuna malla í 15-20 mínútur áður en rjóminn fer útí.  Á þessu stigi er fínt að smakka súpuna og sjá hvort vantar meira af kryddum. 

  7. Hellið hafrarjómanum útí, leyfið suðunni að koma upp, slökkvið undir og berið fram. 

  8. Ef gera á súpuna daginn áður, líkt og við gerum t.d. oft á jólunum, er fínt að geyma það að setja rjómann útí þar til hún er hituð upp rétt áður en það á að borða hana.

  9. Það má auðvitað mauka súpuna með töfrasprota ef þess er kosið en við kjósum að gera það ekki.

Vonandi njótið þið vel! 
-Veganistur