Súkkulaðibitakökur

Smákökur eru stór hluti af jólunum hjá öllum Íslendingum. Á öllum heimilum eru bakaðar smákökur fyrir jólin og allir eiga sína uppáhalds sort. Við bökuðum alltaf fullt af jólasmákökum heima þegar ég var yngri. Prófuðum alls konar uppskriftir, góðar og ekki jafn góðar. Þó voru súkkulaðibitakökur alltaf uppáhald allra.

Súkkulaðibitakökur eru virkilega einfaldar í bakstri og alltaf jafn vinsælar hjá stórum sem smáum. Að gera vegan útgáfu af þessum gömlu góðu kökum var alls ekki erfitt. Ef eitthvað er þá er vegan uppskriftin auðveldari en sú upprunalega.

Nú þegar fyrsti í aðventu er liðinn getur fólk með góðri samvisku farið á fullt í bakstur, og borðað allt það góðgæti sem hugurinn girnist. Það er allavega það sem ég geri á aðventunni, á sama tíma og ég plana alla þá hollustu sem ég ætla að demba mér í, í janúar...

Hráfeni:

  • 250 gr vegan smjör (Krónu smjörlíkið er alltaf gott en svo fæst smjör í Hagkaup frá merkinu Earth balance

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðusykur

  • 1/2 dl plöntumjólk

  • 1 tsk vanilludropar

  • 4 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • örlítið salt

  • 150 gr suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörið og sykurinn í smá tíma, bætið síðan útí mjólkinni og vanniludropunum og þeytið örlítið lengur.

  2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál og hrærið síðan saman við smjörið og sykurinn.

  3. Síðast er súkkulaðið saxað og því blandað saman við deigið.

  4. Rúllið litlar kúlur úr deiginu og bakið í 7-9 mínútur við 180°C. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur á plötunni áður en þær eru teknar af henni svo súkkulaðið verði ekki eftir.

Njótið vel
-Júlía Sif