Vegan sörur

Ég myndi ekki segja að sörur væri ómissandi partur af jólaundirbúningnum frá mér en ef ég kemst í að baka sörur fyrir jólin þá finnst mér þær virkilega góðar. Það er smá vinna að baka sörur og tekur yfirleytt frekar langan tíma en mér finnst frábært að taka tíma frá fyrir jólin í sörubakstur að plata t.d. vinkonur mínar eða mömmu með mér í sörubaksturinn. Úr verður ótrúlega notaleg stund með fólkinu mínu og baksturinn auðveldari fyrir vikið.

Að gera vegan sörur þarf alls ekki að vera mikið mál. Botnarnir eru gerðir á aðeins öðruvísi hátt en hefðbundar sörur þar sem þeir líkjast aðeins meira marengstoppum en þessum algengustu söru uppskriftum. Það þarf að þeyta aquafaba, sem er vökvin sem er í dós af kjuklingabaunum, vel með sykrinum og bæta síðan möndlunum varlega saman við. Ég hef bæði verið að notast við malaðar möndlur og einnig hakkaðar en mér finnst baksturinn verða aðeins auðveldari ef notaðar eru hakkaðar möndlur. Hitt virkar þó alveg svo ég hvet ykkur til að prófa ykkur einfaldlega áfram. Það er líka sniðugt t.d. að skipa deiginu í tvennt og prufa að setja malaðar í annað og hakkaðar í hitt og sjá hvort kemur betur út.

Hráefni:

  • 1 dl auquafaba (kjúklingabaunavatn)

  • 100 gr sykur

  • 100 gr flórsykur

  • 200 gr hakkaða möndlur (eða malaðar)

Aðferð:

  1. Stífþeytið aquafaba á hæsta styrk í hrærivél þar til það verður að mjög þykkri froðu

  2. Bætið sykrinu og flórsykrinum út í mjög hægt, sirka 1 msk í einu, á meðan að hrærivélin hrærið á háum styrk. Hrærið síðan áfram á háum styrk þar til marengsin verður mjög stífur og hægt að hvolfa skálinni án þess að hann detti eða hreyfist.

  3. Blandið möndlunum mjög varlega saman við með sleif.

  4. Setjið í sprautupoka og sprautið litla botna á bökunarplötu

  5. Bakið við 150°C í 16 mínútur, leyfið botnunum að kólna alveg á plötunni áður en þeir eru teknir upp.

Kremið í fyllinguna

  • 175g vegan smjör eða smjörlíki við stofuhita

  • 1/2 dl síróp

  • 250g flórsykur

  • 1/4 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi

  • 1/2 msk kakó

  • 1 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Þeytið smjörið í hrærivél þar til það er mjúkt

  2. Bætið sírópinu út í, í mjórri bunu.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið vel saman.

  4. Setjið sirka 1 tsk af kremi á hvern botn og setjið botnana í frysti í 30 til 60 mínútur áður en þið dýfið þeim í bráðið súkkulaði til að hjúpa fyllinguna.

Ég var með sirka 100 gr af hvítu,- “mjólkur”- og suðusúkkulaði og hjúpaði kökurnar sitt á hvað.

IMG_9032.jpg

-Njótið vel og gleðilega aðvenntu.

Smákökur með súkkulaðidropum

IMG_0071-3.jpg

Í dag deili ég með ykkur annarri smákökuuppskrift. Í síðustu viku birti ég uppskrift af vanilluhringjum og nú deili ég með ykkur gómsætum smákökum með súkkulaðidropum. Bæði vanilluhringirnir og súkkulaðidropakökurnar eru einskonar vegan útgáfa af uppskriftum frá mömmu. Það minnir mig fátt meira á jólin en handskrifaðar uppskriftir úr gömlu bókunum hennar. Uppskriftir sem hún fékk hjá ömmu og hafa fylgt fjölskyldunni lengi. Þar sem ég bý erlendis og get ekki flett uppskriftarbókunum hennar hefur hún þurft að taka myndir af blaðsíðunum og senda mér. Svo þarf hún helst að vera laus akkúrat þegar ég ætla að baka til þess að hjálpa mér og gefa mér ráð. Hún fær því að taka þátt í smákökutilraunum mínum þó við séum í sitthvoru landinu.

IMG_0046.jpg

Þessi færsla er sú fjórða í samstarfi við Naturli og það hefur verið ótrúlega gaman að útbúa góðan jólabakstur og nota í það smjörlíkið þeirra. Smjörlíkið er vegan og unnið úr Shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Naturli framleiða bæði vegan smjör sem er fullkomið á brauð og svo smjörlíki til baksturs. Eins framleiða þau allskonar vegan matrvöru og dásamlega góðan ís sem er hinn fullkomni jóladesert.

IMG_0048-2.jpg

Nú erum við komnar með ansi gott úrval af jólabakstri á blogginu og svo enn meira í bókinni okkar sem er nýkomin út. Í bókinni eru til dæmis uppskriftir af mömmukökum, piparkökum og laufabrauði. Það er svo magnað að hugsa til þess að fyrir nokkrum árum hafi fólk almennt haldið að ekki væri hægt að baka góðar vegan jólasmákökur. Það eru heldur ekkert svakalega mörg ár síðan erfitt var að finna vegan smjörlíki í baksturinn. Í dag sem betur fer er ekkert mál að vera vegan allan ársins hring og við grænkerarnir getum borðað yfir okkur af allskyns kræsingum. Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri hátíðlegum uppskriftum í desember.

IMG_0055-4.jpg

Ég sit með Blonde Redhead í eyrunum og hugsa til þess hversu þakklát ég er fyrir öll fallegu skilaboðin sem okkur hefur borist síðan bókin okkar kom út. Þetta ár hefur verið það allra besta sem ég hef lifað hingað til, en á sama tíma virkilega krefjandi og oft hef ég átt erfitt með að finna góðan balans. Ég efast í sífellu um það sem ég geri. Ég er hrædd um að gera mistök, valda fólki vonbrigðum og bara almennt standa mig ekki nógu vel. Ég talaði aðeins um það á Instagram um helgina hvernig ég ætla að reyna að vera duglegri að sýna ykkur á bakvið tjöldin þegar ég er að blogga og prófa mig áfram í eldhúsinu. Ég nefnilega deili með ykkur færslunum þegar þær eru tilbúnar, með myndum og öllu, en í raun er ýmislegt sem á sér stað áður en sjálf færslan er tilbúin. Ég hef oftar en ekki þurft að prófa hverja uppskrift nokkrum sinnum áður en ég finn nákvæmlega hvernig ég vil hafa hana og í þau skipti sem uppskriftirnar mistakast hjá mér fyllist ég vonleysi og langar að hætta við allt saman. Eins hef ég oft útbúið uppskrift og tekið myndir en verið óánægð með myndirnar sjálfar, eða jafnvel eitthvað pínulítið smáatriði og endað á að gera allt uppá nýtt. Það er svo auðvelt að birta fínustu myndirnar, fullkláraðar uppskriftir og einhvernveginn líta út fyrir að vera manneskja sem er með allt á hreinu. Sama á við um bókina okkar. Okkur leið nánast allan tíman sem við unnum að henni eins og við værum að falla á tíma og eins og allt myndi mistakast. Ég er aðeins meira dramatísk en Júlía svo hún náði oftar en ekki að koma mér út úr þessu hugarfari í sumar þegar við unnum að bókinni og ég reyni auðvitað sjálf að hafa hemil á þessum tilfinningum. Ég er stanslaust að vinna í sjálfri mér og þá aðallega í því að hætta að vera svona hrædd við að gera mistök þegar kemur að hlutunum sem skipta mig mestu máli. Þá á ég helst við jazzinn og svo allt sem viðkemur Veganistum. Ég ætla á næstkomandi ári að leyfa ykkur að fylgjast með því hvernig mér tekst til.

IMG_0059-3.jpg

Það er því við hæfi að láta ykkur vita af því að þessa uppskrift þurfti ég að gera þrisvar til að verða ánægð með hana. Þrátt fyrir mikinn pirring og vonleysi í þau skipti sem uppskriftin var ekki alveg nógu góð er ég himinlifandi í dag yfir því að hafa gefið mér tíma í að prófa mig áfram með hana því útkoman er dásamleg. Þessar kökur eru akkúrat eins og ég vildi hafa þær og ég vona innilega að þið verðið jafn ánægð með þær og ég.

IMG_0073-4.jpg

Smákökur með súkkulaðidropum

  • 200 gr smjörlíki frá Naturli (takið það út úr ísskáp svona klukkustund áður en þið ætlið að baka)

  • 100 gr sykur

  • 100 gr púðursykur

  • 250 gr hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • 20 gr kókosmjöl

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk aquafaba (vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós)

  • Dökkir súkkulaðidropar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 150°C.

  2. Blandið þurrefnunum í skál.

  3. Skerið smjörið í kubba og bætið í skálina ásamt aquafaba.

  4. Hnoðið vel saman með höndunum. Bætið meira hveiti ef þetta er alltof klesst. Þetta á að vera frekar blautt en samt auðvelt að rúlla í kúlur. Bara svona eins og deig af súkkulaðibitakökum.

  5. Rúllið í kúlur og raðið á ofnskúffu klædda með bökunarpappír. Ég hef kúlurnar frekar litlar svo kökurnar verði ekki of stórar.

  6. Bakið í 10-12 mínútur. Takið út og raðið súkkulaðidropanum strax á á meðan kökurnar eru heitar.

  7. Leyfið þeim að kólna vel áður en þið setjið þær í stamp eða skál. Það tekur svolitla stund fyrir súkkulaðidropann að harða aftur.


Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!
- Veganistur <3

 
naturlilogo.png
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

Vegan vanilluhringir

IMG_9973-3.jpg

Nú er desember genginn í garð og við getum glaðar sagt að við höfum beðið eftir þessum mánuði lengi. Ekki bara afþví við erum jólabörn heldur einnig vegna þess að nú er bókin okkar komin út. Bókin heitir Úr eldhúsinu okkar og er gefin út af Björt bókaútgáfu.
Við erum enn á fullu í skólanum að klára próf og verkefni annarinnar svo við reynum eftir bestu getu að halda okkur aðeins niðri á jörðinni en í raun erum við lengst uppi í skýjunum. Við höfum aldrei unnið jafn hart að neinu eins og bókinni okkar og við erum svo ótrúlega ánægðar með hana.

IMG_9959.jpg

En í dag ætlum við að deila með ykkur uppskrift af vanilluhringjum. Mamma okkar bakar alltaf svona smákökur og er uppskriftin okkar innblásin af hennar uppskrift. Eins og komið fram hefur áður erum við í samstarfi við Naturli í desember og þessi færsla er sú þriðja í því samstarfi. Smjörlíkið þeirra hefur reynst okkur gríðarlega vel í jólabakstrinum í ár. Smjörlíkið er 100% vegan, lífrænt og unnið úr Shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Naturli framleiða bæði smjör sem er dásamlegt á brauð og heitir smörbar en svo nýlega hófu þau að framleiða smjörlíki til baksturs og steikingar en það heitir vegan block. Bæði eru þau dásamlega góð og mikið notuð á okkar heimilum.

IMG_9962-2.jpg

Upprunalega hugmyndin var að gera eina stóra smákökufærslu með nokkrum sortum en ég ákvað að gera frekar sér færslur fyrir hverja sort svo auðveldast sé að finna þær. Ég ákvað að byrja á vanilluhringjum og þeir eru ekkert smá góðir. Ég bakaði þá í fyrsta sinn um daginn og mamma var tilbúin í símanum og hjálpaði mér. Ég hélt þetta yrði alveg svakalega flókið en svo var þetta ekkert mál. Næsta sort kemur svo á bloggið á næstu dögum.

IMG_9969-3.jpg

Ég útvegaði mér hakkavél svo það yrði sem auðveldast að útbúa hringina. Ég viðurkenni að mér leið svolítið kjánalega í búðinni þegar ég keypti hakkavélina þar sem ég er vegan og hélt aldrei að ég myndi þurfa svoleiðis vél. Þið megið því endilega koma með skemmtilegar hugmyndir fyrir mig af einhverju sem hægt er að nýta vélina í hehe. Kannski hægt að útbúa í henni baunabuff eða eitthvað slíkt?

IMG_9971-2.jpg

Nú er aðeins að róast í skólanum hjá mér svo ef allt gengur upp þá mun ég ná að pósta uppskriftum af öðru en bara bakstri fyrir jólin. Ég ætla að gera mitt allra besta. Nú þegar erum við með allskonar skemmtilegar uppskriftir í veislu- og hátíðaréttir. Þar eru heitir brauðréttir, brauðtertur, tartalettur, innbakað Oumph og margt fleira. Það ættu allavega flestir að finna eitthvað við sitt hæfi á blogginu okkar og í bókinni. Okkur finnst eiginlega fátt skemmtilegra en að útbúa vegan hátíðarétti. Við vonum innilega að ykkur eigi eftir að líka vanilluhringirnir vel og endilega látið okkur vita ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið sjá á blogginu núna í desember.

IMG_9978-2.jpg

Vegan vanilluhringir (sirka fjórar plötur)

  • 500 gr hveiti

  • 250 gr sykur

  • 1/4 tsk hjartasalt

  • 350 gr kalt Naturli smjörlíki

  • 3 msk aquafaba (kjúklingabaunasafi sem fylgir kjúklingabaunum í dós)

  • 1 tsk vanilludropar

  • 1/2-1 msk vegan mjólk

Aðferð:

  1. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál.

  2. Skerið smjörlíkið í litla kubba og bætið út í skálina ásamt restinni af hráefnunum.

  3. Hnoðið vel saman með höndunum.

  4. Plastið deigið inn og setjið í ísskáp í eina klukkustund.

  5. Hitið á meðan ofninn í 170°c.

  6. Setjið deigið í hakkavél og hafið stjörnuna á. Margir sem eiga hrærivélar eiga svona stykki sem hægt er að setja á og það virkar mjög vel líka. Ég las einhversstaðar að eins sé hægt að nota sprautupoka en þar sem deigið er hnoðað gæti það verið svolítið erfiðara.

  7. Útbúið lengjur og mótið hringi. Ég hef hverja lengju um 8-9 cm.

  8. Bakið í 7-10 mínútur. Passið að fylgjast vel með þeim eftir svona 7 mínútur svo þeir ofbakist ekki.

  9. Kælið vel áður en þeir eru settir í stamp eða skál.

Takk fyrir að lesa og njótið vel.

-Veganistur

 
naturlilogo.png
 


-þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-


Súkkulaðibitakökur

Smákökur eru stór hluti af jólunum hjá öllum Íslendingum. Á öllum heimilum eru bakaðar smákökur fyrir jólin og allir eiga sína uppáhalds sort. Við bökuðum alltaf fullt af jólasmákökum heima þegar ég var yngri. Prófuðum alls konar uppskriftir, góðar og ekki jafn góðar. Þó voru súkkulaðibitakökur alltaf uppáhald allra.

Súkkulaðibitakökur eru virkilega einfaldar í bakstri og alltaf jafn vinsælar hjá stórum sem smáum. Að gera vegan útgáfu af þessum gömlu góðu kökum var alls ekki erfitt. Ef eitthvað er þá er vegan uppskriftin auðveldari en sú upprunalega.

Nú þegar fyrsti í aðventu er liðinn getur fólk með góðri samvisku farið á fullt í bakstur, og borðað allt það góðgæti sem hugurinn girnist. Það er allavega það sem ég geri á aðventunni, á sama tíma og ég plana alla þá hollustu sem ég ætla að demba mér í, í janúar...

Hráfeni:

  • 250 gr vegan smjör (Krónu smjörlíkið er alltaf gott en svo fæst smjör í Hagkaup frá merkinu Earth balance

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðusykur

  • 1/2 dl plöntumjólk

  • 1 tsk vanilludropar

  • 4 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • örlítið salt

  • 150 gr suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Þeytið saman smjörið og sykurinn í smá tíma, bætið síðan útí mjólkinni og vanniludropunum og þeytið örlítið lengur.

  2. Blandið saman öllum þurrefnunum í skál og hrærið síðan saman við smjörið og sykurinn.

  3. Síðast er súkkulaðið saxað og því blandað saman við deigið.

  4. Rúllið litlar kúlur úr deiginu og bakið í 7-9 mínútur við 180°C. Leyfið kökunum að kólna í nokkrar mínútur á plötunni áður en þær eru teknar af henni svo súkkulaðið verði ekki eftir.

Njótið vel
-Júlía Sif