Smákökur með súkkulaðidropum

IMG_0071-3.jpg

Í dag deili ég með ykkur annarri smákökuuppskrift. Í síðustu viku birti ég uppskrift af vanilluhringjum og nú deili ég með ykkur gómsætum smákökum með súkkulaðidropum. Bæði vanilluhringirnir og súkkulaðidropakökurnar eru einskonar vegan útgáfa af uppskriftum frá mömmu. Það minnir mig fátt meira á jólin en handskrifaðar uppskriftir úr gömlu bókunum hennar. Uppskriftir sem hún fékk hjá ömmu og hafa fylgt fjölskyldunni lengi. Þar sem ég bý erlendis og get ekki flett uppskriftarbókunum hennar hefur hún þurft að taka myndir af blaðsíðunum og senda mér. Svo þarf hún helst að vera laus akkúrat þegar ég ætla að baka til þess að hjálpa mér og gefa mér ráð. Hún fær því að taka þátt í smákökutilraunum mínum þó við séum í sitthvoru landinu.

IMG_0046.jpg

Þessi færsla er sú fjórða í samstarfi við Naturli og það hefur verið ótrúlega gaman að útbúa góðan jólabakstur og nota í það smjörlíkið þeirra. Smjörlíkið er vegan og unnið úr Shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Naturli framleiða bæði vegan smjör sem er fullkomið á brauð og svo smjörlíki til baksturs. Eins framleiða þau allskonar vegan matrvöru og dásamlega góðan ís sem er hinn fullkomni jóladesert.

IMG_0048-2.jpg

Nú erum við komnar með ansi gott úrval af jólabakstri á blogginu og svo enn meira í bókinni okkar sem er nýkomin út. Í bókinni eru til dæmis uppskriftir af mömmukökum, piparkökum og laufabrauði. Það er svo magnað að hugsa til þess að fyrir nokkrum árum hafi fólk almennt haldið að ekki væri hægt að baka góðar vegan jólasmákökur. Það eru heldur ekkert svakalega mörg ár síðan erfitt var að finna vegan smjörlíki í baksturinn. Í dag sem betur fer er ekkert mál að vera vegan allan ársins hring og við grænkerarnir getum borðað yfir okkur af allskyns kræsingum. Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri hátíðlegum uppskriftum í desember.

IMG_0055-4.jpg

Ég sit með Blonde Redhead í eyrunum og hugsa til þess hversu þakklát ég er fyrir öll fallegu skilaboðin sem okkur hefur borist síðan bókin okkar kom út. Þetta ár hefur verið það allra besta sem ég hef lifað hingað til, en á sama tíma virkilega krefjandi og oft hef ég átt erfitt með að finna góðan balans. Ég efast í sífellu um það sem ég geri. Ég er hrædd um að gera mistök, valda fólki vonbrigðum og bara almennt standa mig ekki nógu vel. Ég talaði aðeins um það á Instagram um helgina hvernig ég ætla að reyna að vera duglegri að sýna ykkur á bakvið tjöldin þegar ég er að blogga og prófa mig áfram í eldhúsinu. Ég nefnilega deili með ykkur færslunum þegar þær eru tilbúnar, með myndum og öllu, en í raun er ýmislegt sem á sér stað áður en sjálf færslan er tilbúin. Ég hef oftar en ekki þurft að prófa hverja uppskrift nokkrum sinnum áður en ég finn nákvæmlega hvernig ég vil hafa hana og í þau skipti sem uppskriftirnar mistakast hjá mér fyllist ég vonleysi og langar að hætta við allt saman. Eins hef ég oft útbúið uppskrift og tekið myndir en verið óánægð með myndirnar sjálfar, eða jafnvel eitthvað pínulítið smáatriði og endað á að gera allt uppá nýtt. Það er svo auðvelt að birta fínustu myndirnar, fullkláraðar uppskriftir og einhvernveginn líta út fyrir að vera manneskja sem er með allt á hreinu. Sama á við um bókina okkar. Okkur leið nánast allan tíman sem við unnum að henni eins og við værum að falla á tíma og eins og allt myndi mistakast. Ég er aðeins meira dramatísk en Júlía svo hún náði oftar en ekki að koma mér út úr þessu hugarfari í sumar þegar við unnum að bókinni og ég reyni auðvitað sjálf að hafa hemil á þessum tilfinningum. Ég er stanslaust að vinna í sjálfri mér og þá aðallega í því að hætta að vera svona hrædd við að gera mistök þegar kemur að hlutunum sem skipta mig mestu máli. Þá á ég helst við jazzinn og svo allt sem viðkemur Veganistum. Ég ætla á næstkomandi ári að leyfa ykkur að fylgjast með því hvernig mér tekst til.

IMG_0059-3.jpg

Það er því við hæfi að láta ykkur vita af því að þessa uppskrift þurfti ég að gera þrisvar til að verða ánægð með hana. Þrátt fyrir mikinn pirring og vonleysi í þau skipti sem uppskriftin var ekki alveg nógu góð er ég himinlifandi í dag yfir því að hafa gefið mér tíma í að prófa mig áfram með hana því útkoman er dásamleg. Þessar kökur eru akkúrat eins og ég vildi hafa þær og ég vona innilega að þið verðið jafn ánægð með þær og ég.

IMG_0073-4.jpg

Smákökur með súkkulaðidropum

  • 200 gr smjörlíki frá Naturli (takið það út úr ísskáp svona klukkustund áður en þið ætlið að baka)

  • 100 gr sykur

  • 100 gr púðursykur

  • 250 gr hveiti

  • 1 tsk matarsódi

  • 20 gr kókosmjöl

  • 1/2 tsk salt

  • 3 msk aquafaba (vökvinn sem fylgir kjúklingabaunum í dós)

  • Dökkir súkkulaðidropar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 150°C.

  2. Blandið þurrefnunum í skál.

  3. Skerið smjörið í kubba og bætið í skálina ásamt aquafaba.

  4. Hnoðið vel saman með höndunum. Bætið meira hveiti ef þetta er alltof klesst. Þetta á að vera frekar blautt en samt auðvelt að rúlla í kúlur. Bara svona eins og deig af súkkulaðibitakökum.

  5. Rúllið í kúlur og raðið á ofnskúffu klædda með bökunarpappír. Ég hef kúlurnar frekar litlar svo kökurnar verði ekki of stórar.

  6. Bakið í 10-12 mínútur. Takið út og raðið súkkulaðidropanum strax á á meðan kökurnar eru heitar.

  7. Leyfið þeim að kólna vel áður en þið setjið þær í stamp eða skál. Það tekur svolitla stund fyrir súkkulaðidropann að harða aftur.


Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!
- Veganistur <3

 
naturlilogo.png
 

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-