Vegan lagterta

Jólaundirbúningurinn heldur áfram hjá okkur systrum og enn einu sinni sannast það að maður þarf ekki dýraafurðir til að njóta matarins sem fylgir þessari hátíð. Núna í nóvember prófuðum við í fyrsta skipti síðan við gerðumst vegan að gera lagtertu. við gerðum okkur þó ekki miklar vonir og vissum í raun ekki alveg út í hvað við værum að fara.

Við skoðuðum nokkrar uppskriftir og sáum að þær voru ekkert rosalega flóknar. Uppistaðan í þeim flestum var u.þ.b. sú sama en auðvitað innihéldu þær allar egg. Við ákváðum að þróa okkar eigin uppskrift og nota aquafaba í staðin fyrir egg. 

Aquafaba er orðið flestum kunnungt en það notum við t.d. í marengsuppskriftirnar okkar. Júlía bakaði köku fyrir jólin í fyrra sem minnti mikið á lagtertu og notaði aquafaba í hana og því ákváðum við bara að halda okkur við það. En fyrir þá sem ekki vita hvað það er þá er það soðið sem kemur af kjúklingabaunum í dós.

Það að baka lagtertu er alls ekki eins flókið og við héldum. Ástæðan fyrir því að okkur hafði ekki dottið í hug að baka lagtertu áður er sú að við borðuðum ekki mikið af henni í æsku. Hún var aldrei bökuð heima og því ekki mjög stór partur af okkar jólum. Núna í vetur höfum við samt mikið verið að gæla við þessa hugmynd þar sem kakan er svo rosalega jólaleg.

Einnig fundum við fyrir svolítilli eftirspurn eftir uppskrift af þessari köku og við sjáum svo sannarlega ekki eftir að hafa skellt í hana. Við erum núna búnar að prófa uppskriftina nokkrum sinnum og hefur hún alltaf heppnast mjög vel.

Hráefni:

 • 150 gr vegan smjör (við notum Krónu smjörlíki)
 • 3 dl sykur
 • 6 msk aquafaba
 • 7 1/2 dl hveiti
 • 2 tsk kanill
 • 1 1/2 tsk negull
 • 1 1/2 tsk matarsódi
 • 1 msk kakó
 • 2 1/2 dl plöntumjólk (við notum Oatly haframjólkina)

Aðferð:

 1. Þeytið smjörið og sykurinn í hrærivél og bætið síðan aquafaba útí. Þeytið þetta þar til létt og ljóst.
 2. Blandið þurrefnunum saman í aðra skál.
 3. Bætið því út í smjörhræruna ásamt mjólkinni og hrærið saman.
 4. Skiptið deginu jafnt í tvennt og bakið tvo botna í 18 mínútur við 175°C. Botnarnir eiga að vera u.þ.b. 25 x 35 cm. Skerið hvorn botn í tvennt svo þið hafið fjóra botna og smyrjið smjörkreminu jafnt á milli þeirra.

Smjörkrem:

 • 200 gr vegan smjör
 • 3 msk aquafaba
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1 pakki flórsykur (500 gr)

Aðferð:

 1. Setjið öll hráefnin í hrærivel og þeytið vel saman.
 2. Smyrjið á milli botnanna.

Njótið vel!
-Veganistur