Vegan kjötbollur með ritz og döðlum

IMG_6487.jpg

Við erum loksins mættar aftur með nýja uppskrift fyrir ykkur. Síðustu mánuðir hafa verið ansi viðburðarríkir, en við vildu einbeita okkur að því að klára önnina í skólanum og gera það eins vel og við gætum. Júlía tók nokkur próf og Helga hélt tvo lokatónleika og spilaði nokkur gigg. En nú eru skólarnir komnir í sumarfrí og við báðar byrjaðar á fullu í sumarvinnunum okkar. Ég (Helga) er stödd á Íslandi og verð þar í sumar þar sem það eru mjög spennandi verkefni framundan hjá okkur systrum. Við hlökkum mikið til að deila því öllu með ykkur og ég viðurkenni það alveg að það er svakalega gott að fá smá tíma núna í sumar til að sinna Veganistum saman en ekki úr sitthvoru landinu.

IMG_6489.jpg

Í júní erum við í samstarfi við Anamma, en það vita það flestir sem hafa skoðað bloggið okkar eða fylgjast með okkur á samfélagsmiðlum að við elskum vörurnar þeirra. Ég byrjaði að fylgjast svolítið með þessu fyrirtæki þegar ég flutti til Svíþjóðar, en þau eru einmitt þaðan, og mér finnst allt svo frábært sem þau eru að gera. Þau framleiða pylsur, borgara, bollur, falafel, hakk og fleira, en í fyrra kom frá þeim ein vara sem bókstaflega setti allt á hvolf í Svíþjóð. Það var nefnilega nýja hakkið þeirra sem heitir á sænsku “formbar färs” og er sojahakk sem hefur þann eiginleika að einstaklega auðvelt er að móta úr því það sem maður vill. Það hefur lengi verið svolítið tímafrekt að útbúa heimagerða vegan borgara úr vegan hakki vegna þess að það þarf að setja út í það eitthvað sem er bindandi. Hinsvegar er engin þörf á því þegar kemur að þessu nýja hakki sem þýðir að nú er hægt að útbúa dásamlega góða borgara, kjötbollur eða bara það sem mann langar úr vegan hakki. Nú er þetta hakk loksins komið til Íslands og er bókstaflega fullkomið til að útbúa eitthvað gott á grillið í sumar. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup, Bónus og fleiri minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6452.jpg

Það virkar bæði að móta eitthvað úr hakkinu, en einnig að steikja það beint á pönnu. Þegar á að móta úr því þarf að taka það út sirka klukkutíma fyrir og leyfa því að þiðna svona nokkurnveginn alveg. Mér þykir best að eiga við það þegar það er nánast þiðið en samt enn ískalt. Hinsvegar þegar á að steikja það beint á pönnu þá er best að hafa það alveg frosið þegar byrjað er að steikja. Það eru svo auðvitað skýrar leiðbeiningar aftan á pakkanum.

IMG_6460.jpg

Ég hef útbúið ýmsar gerðir af bollum úr hakkinu, en oft skelli ég bara hakki, söxuðum lauk, dökkri sojasósu, smá sinnepi, salti og pipar í skál og rúlla úr því bollur. Þetta er alveg dásamlega gott og týpískur hversdagsmatur. Í dag ætlum við að deila með ykkur alveg ótrúlega góðri uppskrift af bollum sem eru bæði góðar sem kvöldmatur og einnig sem pinnamatur við ýmis tilefni. Það tekur enga stund að rúlla þessar bollur og útkoman er alveg frábær.

Við vonum innilega að þið prufið þessa uppskrift. Við munum svo gera aðra á næstu dögum og hlökkum til að deila henni með ykkur. Eins vonum við að þið getið fyrirgefið okkur þessa fjarveru síðustu mánuði, en við ætlum í sumar að vera duglegar á Instagram og hlökkum svo til að segja ykkur betur frá komandi verkefnum.

IMG_6482.jpg

Kjötbollur

  • 450 gr formbar hakk frá anamma

  • 100 gr ritzkex

  • 1 dl saxaður vorlaukur

  • 2 hvítlauksgeirar eða 2 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 bolli döðlur

  • salt og pipar

  • kjöt og grillkrydd

  • 2 msk matarolía eða vegan smjör

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti sirka klukkustund áður byrjað er að vinna með það.

  2. Saxið laukinn og döðlurnar mjög smátt og setjið í skál ásamt hakkinu og kryddunum.

  3. Myljið ritzkexið vel, t.d. í matvinnsluvél eða í höndunum og setjið út í hakkið.

  4. Hrærið saman og mótið litlar kúlur úr hakkdeiginu.

  5. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni við 180°C í 12-14 mínútur

Rjómaostasósa

  • 1 bolli vegan rjómaostur (t.d. rjómaostur frá YOSA)

  • 1 bolli plönturjómi (t.d. hafrarjómi frá yosa)

  • 1/2 bolli saxaður vorlaukur

  • 1 grænmetisteningur

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Saxið laukinn smátt og steikið upp úr örlítilli olíu eða vegan smjöri í nokkrar mínútur.

  2. Bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið þar til rjómaosturinn hefur bráðnað saman við rjóman.

  3. Sjóðið sósuna í 10 til 15 mínútur.

  4. Hægt er að þykkja sósuna með hveitiblöndu (hveiti og vatn hrisst saman) ef þess er óskað

Takk fyrir að lesa og við vonum innilega að þið njótið!
-Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Vegan lasagna með Anamma sojahakki

IMG_0541.jpg

Stuttu eftir að við opnuðum bloggið okkar birtum við uppskrift af gómsætu grænmetislasagna. Sú uppskrift hefur lengi verið í uppáhaldi og er elduð ansi oft á okkar heimili. Eins og mér finnst uppskriftin æðisleg, hef ég svolítið verið að prufa mig áfram með nýja uppskrift sem minnir e.t.v. meira á þetta klassíska lasagna sem margir þekkja. Þessi uppskrift er svolítið öðruvísi en hin og inniheldur meðal annars sojahakk í stað linsubauna. Þetta lasagna er svo ótrúlega gott að ég eldaði það tvo daga í röð í síðustu viku. 

IMG_0462.jpg

Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað mér þykir lasagna gott, því mér þótti það aldrei neitt sérstakt þegar ég var yngri. Ég taldi mér trú um að rétturinn væri bara ekkert fyrir mig, þar til fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að gefa honum annan séns. Ég er gríðarlega fegin að hafa gert það, því í dag er það eitt af því besta sem ég fæ. 

IMG_0468.jpg

Ég hef mikið notað vörurnar frá Anamma síðustu ár og þær valda aldrei vonbrigðum. Anamma er sænskt fyrirtæki sem útbýr einungis vegan matvörur og leggur mikinn metnað og vinnu í vörurnar sínar. Nýlega breyttu þau uppskriftunum á öllum vörunum sínum, og bættu helling við úrvalið hjá sér, og nú bragðast maturinn þeirra enn betur en áður. Í lasagnað fannst mér fullkomið að nota hakkið frá þeim, en ég á alltaf til poka af því í frystinum. Vörurnar frá Anamma fást meðal annars í Bónus, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

Eitt af því besta við að gera lasagna er að hægt er að nota í það allt það grænmeti sem til er í ísskápnum. Í uppskriftina í færslunni nota ég t.d gulrætur, kúrbít og spínat, en það er síður en svo heilagt. Ég nota yfirleitt bara það sem ég á til sem hentar mér mjög vel, því ég elska að breyta til. 

IMG_0522.jpg
IMG_0531.jpg

Lasagna fyrir 4-6

Hakk í tómatsósu:

  • 1 poki hakk frá Anamma (325g)

  • 1 miðlungsstór laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • Grillkrydd eftir smekk

  • Oregano eftir smekk (ég er vön að setja frekar mikið)

  • 1 msk balsamik edik

  • salt og pipar

Grænmeti og lasagnaplötur:

  • 1 lítill kúrbítur eða 1/2 stór skorinn í þunnar lengjur. Ég einfaldlega sneiði hann niður með flysjaranum mínum.

  • Sirka 2 gulrætur (1 bolli) skornar í lengjur. Ég nota sömu aðferð og við kúrbítinn.

  • 2 lúkur spínat. Það má alveg vera meira frekar en lítið af spínati því það hverfur nánast við eldun.

  • 1 pakki lasagnaplötur. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikið af plötum, en ég hafði fjögur lög og notaði þrjár í hvert lag svo það fóru tólf plötur alls í lasagnað hjá mér.

Rjómaostasósa:

  • 1 askja vegan rjómaostur (yfirleitt 150-250g)

  • 2 msk ljóst tahini

  • 1/2 grænmetisteningur

  • 1/2 bolli vatn

  • 1/2 bolli ósæt sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að pressa hvítlauk og saxa laukinn og steikið á pönnu með örlítilli olíu á miðlungshita.

  2. Bætið hakkinu út í þegar laukurinn er orðinn mjúkur og steikið þar til það hefur þiðnað. Athugið að vegan hakk má steikja beint úr frystinum svo það þarf alls ekki að þíða það fyrir.

  3. Kryddið hakkið með grillkryddi að eigin vali og bætið svo tómötunum útá ásamt oregano og balsamik edik og leyfið því að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Mögulega þarf að bæta við meira af kryddunum, salti og pipar.

  4. Leggið blönduna til hliðar og steikið grænmetið örstutt á annarri pönnu með smá olíu. Það þarf ekki að vera neitt rosalega vel steikt en samt alveg búið að mýkjast svolítið. Leggið til hliðar.

  5. Setjið hráefnin í rjómaostasósuna í pott og hrærið vel saman þar til hún er orðin heit og laus við kekki. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

  6. Það er engin regla til um það hvernig setja á lasagna saman og ég held ég geri það aldrei nákvæmlega eins. Ég byrja hinsvegar alltaf á því að setja tómatsósu neðst og passa að hún þekji botninn vel.
    Næst raða ég lasagnaplötum og það passar fullkomlega að setja þrjár í hvert lag í mínu eldfasta móti.
    Næst smyr ég yfir góðu lagi af rjómaostasósunni og þar á eftir raða ég grænmetinu yfir, og endurtek svo leikinn.
    Ég nota ekki vegan ost á lasagnað, heldur passa ég að eiga svolítið eftir af rjómaostasósunni sem ég helli yfir áður en lasagnað fer í ofninn.

  7. Bakið við 190°c í 35-40 mínútur.

Við mælum með því að bera lasagnað fram með góðu salat og hvítlauksbrauði. 

Njótið
Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 

Vegan hakk og spaghettí

IMG_9011-2.jpg

Í janúar ætlum við, í samstarfi við Krónuna, að útbúa fjóra gríðarlega einfalda rétti sem tekur einungis nokkrar mínútur að elda. Réttirnir munu henta öllum, hvort sem þeir eru að taka sín fyrstu skref í lífsstílnum eða löngu orðnir sjóaðir. Réttirnir eru fullkomnir fyrir þá sem eru á síðasta snúningi með að kaupa í matinn eða einfaldlega nenna ekki að hafa mikið fyrir kvöldmatnum eftir langan vinnu- eða skóladag. Þó eru þeir líka tilvaldir fyrir þá sem elska að elda og munu réttirnir allir bjóða upp á að hægt sé að bæta við því sem manni þykir gott ef maður er í stuði til að eyða meiri tíma í eldamennskuna. Réttirnir munu passa fyrir alla fjölskylduna og líka fyrir þá sem eru svolítið efins varðandi vegan mat. 

Mér fannst viðeigandi að byrja á þeirri máltíð sem ég geri hvað oftast þegar ég vil elda eitthvað sem er fljótlegt en á sama tíma bragðgott og saðsamt. Hakk og spaghettí hefur alla tíð verið í uppáhaldi hjá mér og enn frekar eftir að ég varð vegan. Sojahakkið frá Hälsans Kök er ótrúlega gott og hentar mjög vel í þennan rétt. Ég er ekki viss um að margir myndu taka eftir því að um vegan hakk sé að ræða þegar þeir borða það í réttum eins og þessum. 

IMG_9094-2.jpg

Það er að sjálfsögðu misjafnt hvaða grænmeti fólk notar í hakk og spaghettí en í þetta skiptið vildi ég hafa þetta virkilega einfalt og notaði frosnar grænar baunir og svartar ólífur. Mér finnst ólífurnar eiginlega þarfar í réttinn en vissulega þykja ekki öllum ólífur góðar og vilja því nota eitthvað annað. Ég myndi þá mæla með sveppum og gulrótum. 

IMG_9078-3.jpg
IMG_9090.jpg

Ég útbjó hvítlauksbrauð og hemp-parmesan sem meðlæti en fyrir þá sem hafa ekki tíma eða nenna ekki að útbúa meðlæti er t.d mjög gott að hafa bara baguette og vegan smjör. Þó er alls ekki þörf á því að hafa meðlæti þar sem rétturinn er saðsamur og bragðgóður einn og sér. 

IMG_9103-2.jpg

Hakk og spaghettí - fyrir 4

  • 400g Spaghettí frá Gestus

  • 1 poki hakk frá Hälsans Kök

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka pastasósa frá Gestus

  • 1 dl frosnar grænar baunir (má sleppa)

  • 1 dl svartar ólívur skornar í sneiðar (má sleppa)

Aðferð

1. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningunum á pakkanum. Gott er að setja örlítið salt í pottinn og nokkra dropa af olíu

2. Hitið olíu á pönnu og steikið hakkið í sirka fjórar mínútur

3. Bætið grænu baununum, ólívunum og pastasósunni á pönnuna og leyfið því að malla í sirka sjö mínútur

4. Smakkið til með salti og pipar

Hérna eru svo uppskriftir af:
Hvítlauksbrauði
Hemp-parmesan

-Veganistur

krónan.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar-