Vegan lasagna með Anamma sojahakki

IMG_0541.jpg

Stuttu eftir að við opnuðum bloggið okkar birtum við uppskrift af gómsætu grænmetislasagna. Sú uppskrift hefur lengi verið í uppáhaldi og er elduð ansi oft á okkar heimili. Eins og mér finnst uppskriftin æðisleg, hef ég svolítið verið að prufa mig áfram með nýja uppskrift sem minnir e.t.v. meira á þetta klassíska lasagna sem margir þekkja. Þessi uppskrift er svolítið öðruvísi en hin og inniheldur meðal annars sojahakk í stað linsubauna. Þetta lasagna er svo ótrúlega gott að ég eldaði það tvo daga í röð í síðustu viku. 

IMG_0462.jpg

Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað mér þykir lasagna gott, því mér þótti það aldrei neitt sérstakt þegar ég var yngri. Ég taldi mér trú um að rétturinn væri bara ekkert fyrir mig, þar til fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að gefa honum annan séns. Ég er gríðarlega fegin að hafa gert það, því í dag er það eitt af því besta sem ég fæ. 

IMG_0468.jpg

Ég hef mikið notað vörurnar frá Anamma síðustu ár og þær valda aldrei vonbrigðum. Anamma er sænskt fyrirtæki sem útbýr einungis vegan matvörur og leggur mikinn metnað og vinnu í vörurnar sínar. Nýlega breyttu þau uppskriftunum á öllum vörunum sínum, og bættu helling við úrvalið hjá sér, og nú bragðast maturinn þeirra enn betur en áður. Í lasagnað fannst mér fullkomið að nota hakkið frá þeim, en ég á alltaf til poka af því í frystinum. Vörurnar frá Anamma fást meðal annars í Bónus, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

Eitt af því besta við að gera lasagna er að hægt er að nota í það allt það grænmeti sem til er í ísskápnum. Í uppskriftina í færslunni nota ég t.d gulrætur, kúrbít og spínat, en það er síður en svo heilagt. Ég nota yfirleitt bara það sem ég á til sem hentar mér mjög vel, því ég elska að breyta til. 

IMG_0522.jpg
IMG_0531.jpg

Lasagna fyrir 4-6

Hakk í tómatsósu:

  • 1 poki hakk frá Anamma (325g)

  • 1 miðlungsstór laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • Grillkrydd eftir smekk

  • Oregano eftir smekk (ég er vön að setja frekar mikið)

  • 1 msk balsamik edik

  • salt og pipar

Grænmeti og lasagnaplötur:

  • 1 lítill kúrbítur eða 1/2 stór skorinn í þunnar lengjur. Ég einfaldlega sneiði hann niður með flysjaranum mínum.

  • Sirka 2 gulrætur (1 bolli) skornar í lengjur. Ég nota sömu aðferð og við kúrbítinn.

  • 2 lúkur spínat. Það má alveg vera meira frekar en lítið af spínati því það hverfur nánast við eldun.

  • 1 pakki lasagnaplötur. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikið af plötum, en ég hafði fjögur lög og notaði þrjár í hvert lag svo það fóru tólf plötur alls í lasagnað hjá mér.

Rjómaostasósa:

  • 1 askja vegan rjómaostur (yfirleitt 150-250g)

  • 2 msk ljóst tahini

  • 1/2 grænmetisteningur

  • 1/2 bolli vatn

  • 1/2 bolli ósæt sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að pressa hvítlauk og saxa laukinn og steikið á pönnu með örlítilli olíu á miðlungshita.

  2. Bætið hakkinu út í þegar laukurinn er orðinn mjúkur og steikið þar til það hefur þiðnað. Athugið að vegan hakk má steikja beint úr frystinum svo það þarf alls ekki að þíða það fyrir.

  3. Kryddið hakkið með grillkryddi að eigin vali og bætið svo tómötunum útá ásamt oregano og balsamik edik og leyfið því að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Mögulega þarf að bæta við meira af kryddunum, salti og pipar.

  4. Leggið blönduna til hliðar og steikið grænmetið örstutt á annarri pönnu með smá olíu. Það þarf ekki að vera neitt rosalega vel steikt en samt alveg búið að mýkjast svolítið. Leggið til hliðar.

  5. Setjið hráefnin í rjómaostasósuna í pott og hrærið vel saman þar til hún er orðin heit og laus við kekki. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

  6. Það er engin regla til um það hvernig setja á lasagna saman og ég held ég geri það aldrei nákvæmlega eins. Ég byrja hinsvegar alltaf á því að setja tómatsósu neðst og passa að hún þekji botninn vel.
    Næst raða ég lasagnaplötum og það passar fullkomlega að setja þrjár í hvert lag í mínu eldfasta móti.
    Næst smyr ég yfir góðu lagi af rjómaostasósunni og þar á eftir raða ég grænmetinu yfir, og endurtek svo leikinn.
    Ég nota ekki vegan ost á lasagnað, heldur passa ég að eiga svolítið eftir af rjómaostasósunni sem ég helli yfir áður en lasagnað fer í ofninn.

  7. Bakið við 190°c í 35-40 mínútur.

Við mælum með því að bera lasagnað fram með góðu salat og hvítlauksbrauði. 

Njótið
Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-