Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrí og hnetusmjöri

saetkartoflusupa-tilbuin-og-pottur

Í dag deili ég með ykkur uppskrift að sætkartöflusúpu með kókosmjólk, rauðu karrí og hnetusmjöri. Einstaklega braðgóð súpa sem tekur einungis 30 mínutur að elda og passar fullkomlega sem bæði hversdagsmatur, í matarboðið eða við önnur tilefni. Súpan er stútfull af bæði bragði og næringu frá hráefnum svo sem sætum kartöflum, gulrótum, lauk, hvítlauk, engifer, chili, kókosmjólk, rauðu karrí, hnetusmjöri og lime.

Sækartöflusúpa hráefni ofan frá. Sætar kartöflur, gulrætur, kókosmjólk, hnetusmjör

Þegar ég varð fyrst vegan var sætkartöflusúpa einn af þeim fáu réttum sem ég kunni að elda. Sú súpa smakkaðist þó ekkert í líkingu við súpuna sem ég deili með ykkur í dag. Það vill svo skemmtilega til að uppskriftin að gömlu súpunni er ennþá hérna inni á blogginu og eina ástæðan fyrir því er sú að fólk virðist elda hana oft. Hún er með vinsælli uppskriftum á blogginu okkar enn í dag. Á þessum árum borðaði ég svo mikið af sætkartöflusúpu að ég hef ekki fengið mig til að snerta hana síðastliðin ár.

Sætkartöflusúpa sætar kartöflur og gulrætur skornar í bita

Ég ákvað þó fyrir stuttu að prófa að gera hana aftur en leggja mitt að mörkum til að gera hana virkilega gómsæta. Ég hef lært mikið um matargerð síðan ég gerði gömlu súpuna fyrir mörgum árum svo ég vissi að ég gæti gert mun betur. Það sem ég vissi var að:

  1. Ég vildi að súpan hefði djúpt og gott bragð en væri ekki bara dísæt súpa með kókosbragði.

  2. Ég vildi hafa hana svolitið þykka og matarmikla svo ég yrði vel södd.

  3. Ég vildi hafa hnetusmjör í henni.

Útkoman var þessi dásamlega góða súpa sem ég get stolt mælt með að þið prófið að gera!

Það er ekki oft sem ég vel að mauka súpurnar mínar. Mér finnst yfirleitt að hafa bita í þeim. Ég fæ t.d. áfall þegar fólk maukar sveppasúpu. En sætkartöflusúpa er ein af þeim fáu súpum sem ég mauka alltaf. Ég vil þó alls ekki hafa hana þunna svo þessi súpa er í þykkari kantinum. Mér finnst mikilvægt að finna að súpan er matarmikil og mettandi.

Sætkartöflusúpa í potti með trésleif ofan í

Eins og ég sagði hér að ofan er auðvelt og fljótlegt að útbúa þessa sætkartöflusúpu. Það gerir hana að mjög hentugum hversdags kvöldmat. Mér finnst hún samt passa mjög vel sem matur um helgar eða jafnvel í matarboðum því hún er svo ljúffeng. Ég myndi mæla með að bera hana fram með þessu hérna fljótlegu heimagerðu pönnubrauði.

Sætkartöflusúpa tilbúin og toppuð með kóríander og jarðhnetum. Hönd heldur á skeið í súpunni

Ég toppaði súpuna með fersku kóriander og ristuðum jarðhnetum. Ég get ímyndað mér að það sé gott að bæta við vegan jógúrt ofan á líka en ég átti hana ekki til.

Sætkartöflusúpa nærmynd af tilbúinni súpu í skál með kóríander og jarðhnetum

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin!

-Helga María! <3

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrý og hnetusmjöri

Ljúffeng vegan sætkartöflusúpa með kókosmjólk, rauðu karrý og hnetusmjöri
Höfundur: Helga María
Einstaklega braðgóð sætkartöflusúpa sem tekur einungis 30 mínutur að elda og passar fullkomlega sem bæði hversdagsmatur, í matarboðið eða við önnur tilefni. Súpan er stútfull af bæði bragði og næringu frá hráefnum svo sem sætum kartöflum, gulrótum, lauk, hvítlauk, engifer, chili, kókosmjólk, rauðu karrí, hnetusmjöri og lime.

Hráefni:

  • 2 meðalstórar sætar kartöflur (sirka 600-650 gr)
  • 2 meðalstórar gulrætur (sirka 300 gr)
  • 1 laukur
  • 1 rauður chilipipar
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 1 msk rifið engifer
  • 4 tsk rautt karrýmauk
  • 700 ml vatn
  • 1 grænmetisteningur
  • 1 dós þykk kókosmjólk (400ml)
  • 1-2 msk sojasósa
  • safi úr 1 lime
  • 1/2 dl hnetusmjör (ég notaði gróft en það má auðvitað nota fínt líka)
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Ferskt kóríander og salthnetur að toppa með

Aðferð:

  1. Saxið lauk og steikið uppúr olíu í potti á meðalháum hita þar til hann mýkist
  2. Pressið hvítlauk, rífið engifer, saxið chili og bætið út í pottinn og steikið í smá stund í viðbót. Saltið örlítið.
  3. Bætið karrýmaukinu út í og steikið í sirka 1-2 mínútur á meðan þið hrærið.
  4. Afhýðið sætu kartöflurnar og gulræturnar og bætið út í pottinn ásamt kókosmjólk, vatni, grænmetiskrafti og sojasósu. Látið malla í 15-20 mínútur þar til auðvelt er að stinga í gegnum sætu kartöflurnar og gulræturnar.
  5. Bætið hnetusmjöri og limesafa út í pottinn og mixið súpuna með töfrasprota.
  6. Smakkið til og bætið við salti, pipar eða limesafa ef þarf.
  7. Berið fram með t.d. góðu brauði og toppið með kóríander og fræjum.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið veganistur