Brauðterta með baunasalati

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af klassískri brauðtertu með vegan útgáfu af hangikjöts- og baunasalati í samstarfi við ORA. Þessa brauðtertu má ekki vanta á hvaða veisluborð sem er sem og á hátíðisdögum.

Ég notast við blandað grænmeti frá ORA sem er lykilatriði í baunasalatinu og “bacon bites” til að fá smá reykt bragð í salatið. Þetta salat er virkilega einfalt og má vel bera fram eitt og sér með kexi eða brauði.

Ég elska að bera fram klassíska íslenska rétti sem eru hefðir fyrir í veislum og á hátíðisdögum og eru veisluréttir líkt og brauðtertur iðulega það sem slær mest í gegn. Eins og flestir sem hafa fylgt okkur lengi vita elskum við að deila með ykkur alls konar uppskriftum af veislumat og mæli ég með að þið kíkið einnig á þessa brauðtertuuppskrift sem er virkilega góð.

Brauðterta með baunasalati

Brauðterta með baunasalati
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 15 Min: 15 Min
Vegan útgáfu af klassískri brauðtertu og "hangikjöts" og baunasalati

Hráefni:

  • 1 dós blandað grænmeti frá ORA
  • 1 dl bacon bites frá Oumph
  • 100 gr vegan majónes (+ 2 msk til að smyrja tertuna)
  • 1/2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/2 tsk salt
  • 3 sneiðar brauðtertubrauð
  • Grænmeti eftir smekk til að skreyta

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál majónesinu og sýrða rjómanum
  2. Bætið út í blandaða grænmetinu, beikon bitunum og salti og hrærið saman
  3. Smyrjið helmingnum af salatinu á brauðtertu brauðsneið og setjið aðra ofan á. Smyrjið restinni af salatinu og lokið síðan með þriðju sneiðinni
  4. Smyrjið vegan majónesi ofan á og á allar hliðar tertunnar
  5. Skreytið með fersku grænmeti og kryddjurtum eftir smekk
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við ORA -

Smákökur með tvöföldu súkkulaði og sjávarsalti

Það kemur örugglega engum á óvart að jólin eru uppáhalds tími ársins hjá okkur systrum og þá sérstaklega hvað varðar mat. Við systur erum búnar að eyða síðustu vikum í að prófa og mynda nýjar hátíðlegar uppskriftir og það mun svo sannarlega ekki vanta nýjar jólauppskriftir á blogginu hjá okkur í ár. Fyrsta hátíðlega færslan eru þessar ótrúlega góðu súkkulaðismákökur með tvöföldu súkkulaði.

Smákökurnar eru einskonar “brownie” smákökur og eru þær alveg stútfullar af súkkulaði, ótrúlega mjúkar og gómæstar. Þær eru nánast eins og gott konfekt og henta því einstaklega vel með kaffibollan eða jafnvel eftir góða máltíð.

Ég notaði cocospread súkkulaðismyrjuna frá violife í kökurnar sem gerir þær extra mjúkar og bragðgóðar, en síðan er stráð örlítið af sjávarsalti yfir hverja köku sem dregur enn frekar fram djúpa súkkulaðibragðið. Við mælum með að allir prófi þessar kökur og fylgist með okkur næstu vikur þar sem við munum birta mikið af nýjum uppskriftum.

Hráefni:

  • 1 dolla violife cocospread (150 gr)

  • 50 gr smjörlíki eða vegan smjör

  • 100 gr suðusúkkulaði

  • 1 dl sykur

  • 1 dl púðursykur

  • 2 1/2 dl hveiti

  • 1 tsk lyftiduft

  • 2 msk kakóduft

  • 150 gr saxað suðusúkkulaði

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða smjörlíki og 100 gr suðusúkkulaði í potti við lágan hita eða yfir vatnsbaði.

  2. Þeytið saman cocospread, sykur og púðursykur í hrærivél eða með handþeytara í 4-5 mínútur

  3. Hellið súkkulaðismjör blöndunni hægt út í sykurblönduna og hafið hrærivélina í gangi á meðan á lágri stillingu.

  4. Blandið þurrefnunum saman í skál og hrærið síðan saman við blautu hráefnin.

  5. Saxið 150 gr af suðusúkkulaði og bætið út í deigið.

  6. Kælið deigið í að minnsta kosti 4 klst eða yfir nótt.

  7. Mótið í litlar kúlur og bakið við 180°C í 8-10 mínútur. Leyfið þeim að kólna á plötunni áður en þið takið þær af.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur á instagram þegar þið eruð að baka uppskriftirnar okkar. <3

- Færslan er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -

 
 

Anamma hátíðarsteik á tvo vegu

IMG_9274.jpg

Þegar ég var yngri var jólamaturinn heilagur fyrir mér. Það var alltaf það nákvæmlega sama í matinn á aðfangadag og því mátti alls ekki breyta. Eftir að ég varð vegan koma hins vegar varla jól nema ég sé með nýjan hátíðarrétt á boðstólnum. Á hverju ári hef ég prófað mig áfram með uppskriftir af alls konar steikum og er oft með fleiri en einn aðalrétt núna í jólamatinn.

Þetta árið er ég búin að vera að prófa mjög einfaldar uppskriftir sem henta einstaklega vel fyrir þá sem eru að byrja að fikra sig áfram í vegan matargerð og þá sem eru kannski að elda vegan mat fyrir vini eða ættingja en eru ekki vegan sjálf. Í þessar steikur þarf engin flókin hráefni og er matreiðslan sjálf einstaklega fljótleg og einföld. Ég gerði sömu steikina á tvo mismunandi vegu og komu þær báðar virkilega vel út. Steikunar henta einnig fullkomlega með hefðbundnu hátíðarmeðlæti sem er nú þegar á borðstólnum á flestum heimilum landsins.

Wellington steik (fyrir 4 til 5)

  • 6 stk Anamma hamborgarar

  • 4-5 kastaníu sveppir eða tveir portobello sveppir

  • 1-2 skarlott laukar eftir stærð

  • 2 stilkar ferskt tímían eða ferskt rósmarín

  • salt og pipar

  • 4 hvítlauksgeirar

  • 50 gr vegan smjör

  • 1-2 msk dijon sinnep

  • 1 rúlla tilbúið vegan smjördeig úr kæli eða frysti

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja sveppina, laukinn, 2 hvítlauksgeira og tímían eða rósmarín af einum stilk í blandara og blandið saman.

  2. Leyfið hamborgunum að þiðna og stappið þá saman og mótið í fallega steik.

  3. Bræðið vegan smjör á pönnu með restinni af hvítlauk og rósamríni eða tímían og steikið síðan hamborgarasteikina á öllum hliðum á pönnunni.

  4. Smyrjið sveppablöndunni á smjördeig, penslið steikina með dijon sinnepinu og rúllið steikinni inn í smjördeigið.

  5. Penslið steikina með smá plöntumjólk eða plöntu rjóma.

  6. Bakið við 200°C í 30 til 35 mínútur eða þar til hún verður fallega gylt að ofan.

Steik með púðursykurgljáa

  • 6 stk Anamma hamborgara

  • 1/2 dl púðursykur

  • 2 msk tómatsósa

  • 2 msk sætt sinnep

  • smá salt

  • 2 ananassneiðar úr dós

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°C

  2. Leyfið hamborgunum að þiðna, stappið þá saman og mótið í langa fallega steik.

  3. Bræðið saman púðursykurinn, tómatsósu og sinnepið.

  4. Setjið vel af púðursykurgljáanum (sirka 2/3) á steikina og bakið í ofni í 15 mínútur.

  5. Takið steikina úr ofninum, smyrjið restinni af gljáanum yfir steikina og setjið tvær ananassneiðar á steikina og bakið í 10 mínútur í viðbót.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Ásbjörn Ólafsson, Bitz og Anamma á Íslandi.

anamma_logo.png
vendor_189.png

Auðvelt og fljótlegt jólahlaðborð að hætti Krónunnar

Við fengum það ótrúlega skemmtilega verkefni í samstarfi við Krónuna að skoða jólahlaðborðs tillögurnar sem þau eru búin að setja saman. En krónan hefur útbúið frábæran vef með vegan hátíðarvörum sem auðvelt er að pússla saman á fallegt jólahlaðborð eða fyrir matarboð. Snilldin við þennan vef er að tillögurnar eru einfaldar og aðgengilegar og flest sem hefur verið sett þar fram þarf einungis að hita áður en það er borið á borð. Við vildum hafa það til hliðsjónar þegar við völdum réttina í hlaðborðið okkar að það yrði sem allra auðveldast og ekki þyrfti að vera mikið umstang í kringum neinn rétt.

Við verðum að segja að úrvalið hjá þeim er ekkert smá flott og svo ótrúlega gaman hvað eru margar vörur að velja úr. Þetta hlaðborð er frábært til að fá tillögur að því sem hægt er að bjóða uppá á jólunum eða sem hugmyndir fyrir þá sem kannski eru ekki vanir að elda mikið vegan og eru að fá einhvern sem fylgir vegan lífstílnum í mat til sín. Við vildum hafa borðið sem fjölbreytast svo allir gætu fundið eitthvað sem þeim líkaði. Við ákváðum því að velja þrjá aðalrétti og síðan meðlæti sem myndi passa með þeim öllum. Okkur finnst líka alltaf nauðsynlegt að vera með góða súpu fyrir eða með jólamatnum og að sjálfsögðu eftirrétt.

Við ákvaðum að miða við að hlaðborðið yrði fyrir fjóra til sex manns og að verðið færi ekki yfir 15.000 krónur. En við erum einmitt með gjafaleik á instagram hjá okkur akkúrat núna þar sem við gefum tvö 15.000 króna gjafakort í Krónuna svo endilega kíkið þangað og takið þátt! Maturinn sem við vorum með passaði vel fyrir sex manns en næst munum við bæta við einum ís í viðbót þar sem það var eina sem hefði mátt vera meira af. Við ákváðum að setja upp fyrir ykkur lista af öllu því sem við keyptum ásamt verðunum og vorum við akkúrat rétt undir 15.000 krónum. En fyrir þriggja rétta máltíð fyrir 6 manns gerir það 2.468 krónur á mann.

jólahlaðborð.png

Undirbúningurinn á matnum var mjög einfaldur en við settur steikurnar og butternut graskerið í ofninn og elduðum samkvæmt leiðbeiningum á pakkningunum, hituðum súpuna og sósuna upp í potti og suðum rósakálið. Við keyptum forsoðnar kartöflur sem við síðan brúnuðum rétt áður en allt var borið á borð en það má finna leiðbeiningar fyrir brúnaðar kartfölur hér. Steikurnar þurfa góðan tíma í ofninum svo það er frábært að nota þann tíma til þess að leggja á borð og gera það tilbúið en maturinn og borðið var tilbúið hjá okkur á innan við 40 mínútum.

Við hvetjum alla til að setja saman svona auðvelt jólahlaðborð til að bjóða fjölskyldu eða vinum og endileg tagga okkur á instagram ef þið deilið myndum og það er að sjálfsögðu ekkert mál að senda okkur fyrirspurnir ef þið þurfið einhverja hjálp með jólamatinn. ♡

IMG_9229.jpg

Borðbúnaðinn sem sjá má á myndunum fengum við að gjöf frá Bitz á Íslandi og passaði hann fullkomlega á jólaborðið. Diskarnir og skálarnar eru virkilega stílhreinar og fara ótrúlega fallega með gylu hnífapörunum sem gera borðið svo ótrúlega hátiðlegt. Vörurnar frá Bitz hafa að okkar mati ótrúlega fallega hönnun en þær eru einnig hitaþolnar og mega þar af leiðandi fara í ofn að 220°C og í uppþvottavél sem er mjög hentugt. Bitz fæst í Húsgagnahöllinni, Bast í kringlunni og versluninni Snúran.

IMG_9179.jpg

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og Bitz á Íslandi

 
KRONAN-merki.png
vendor_189.png
 

Aspassúpa og hátíðar meðlætið │ Veganistur TV │ 7. þáttur

Aspassúpa

  • 75 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 1 dl hveiti

  • 2 dósir niðursoðinn aspas (soðið og aspasinn)

  • 2 lítrar Oatly Barista mjólkin

  • 4 msk grænmetiskraftur (2 grænmetisteningar)

  • 2 tsk salt

  • 1/2 lítri Oatly iMat matreiðslurjómi

Aðferð:

  1. Bryjið á því að bræða smjörlíki í stórum potti. Þegar smjörlíkið er bráðið setjið hitan á hellunni niður á miðlungs eða lágan hita.

  2. Stráið hveitinu út í smjörið og hrærið það saman í hveitibolli, Bollan á að vera frekar þurr.

  3. Hellið soðinu af tveimur aspadósum í könnu og bætið út í pottinn í nokkrum skömmtum og hrærið vel saman við hveitibollunna. Ekki setja of mikið vökva út í pottinn í einu því þá er líklegra að kekkir myndist í súpunni.

  4. Þegar allt soðið er komið saman við bætið hálfum lítra af mjólkinni saman við og hrærið vel og síðan restinni af mjólkinni.

  5. Bætið grænmetiskrafti og saltinu saman við og leyfið því að hitna þar til suðan kemur upp.

  6. Þegar suðan er komin upp bætið matreiðslurjómanum og aspasinum saman við og hitið í nokkrar mínútur í viðbót.

  7. Berið fram með hvítu hveitibrauði.

Pipar sveppasósa

  • 25 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 200 gr sveppir

  • 2 tímían stilkar (ferkst)

  • salt og pipar

  • 1 bréf piparsósa

  • 250 ml vatn

  • 2 msk grænmetiskraftur (1 grænmetisteningur)

  • 250 ml Oatly iMat matreiðslurjómi

  • 1 tsk rifsberjahlaup eða rifsberjasulta

Aðferð:

  1. Skerið sveppina í þunnar sneiðar, kremjið hvítlaukinn og setjið út á heita pönnu mðe vegan smjörinu og tímían stilkunum.

  2. Steikið í nokkrar mínútur þar til að vökvi fer að myndast úr sveppunum.

  3. bætið vatninu, piparsósunni og grænmetiskraftinum út á pönnuna og hrærið saman þar til duftið er alveg komið saman við vatnið.

  4. Bætið rjómanum og rifsberjasultunni saman við og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið í sirka 5 mínútur.

Brúnaðar kartöflur (10 meðalstórar kartöflur)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

Aðferð:

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Eplasalat

  • 2 meðalstór græn epli

  • 1 bolli græn vínber

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1/2 dl þeyttur vegan rjómi

Aðferð:

  1. Takið hýðið af eplunum og skerið niður í litla kúbba

  2. Skerið vínberin í tvennt

  3. hrærið sýrða rjómanum og þeytta rjómanum saman við ávextina í stórri skál.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og Oatly á Íslandi

 
 
KRONAN-merki.png
Oatly_logo_svart.png
 

Mjúk piparkaka með rjómaostakremi

IMG_9859-4.jpg

Nú er loksins kominn nóvember svo við megum byrja að tala um jólin.
Ég er búin að hlakka til síðan í sumar að byrja að birta jólauppskriftir. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og elska að dunda mér í eldhúsinu í kringum aðventuna. Uppskrift dagsins, fyrsta jólauppskrift ársins, er af mjúkri piparköku með rjómaostakremi. Ég get ekki lýst því með orðum hvað eldhúsið lyktar vel þegar þessi kaka er bökuð. Þessi kaka er mjög vinsæl hérna í Svíþjóð og bragðið minnir svolítið á lagtertu. Þetta er uppskrift sem er komin til að vera og ég mun klárlega baka hana oft núna fram að jólum.

Næstkomandi vikur erum við systur í samstarfi við Naturli og ég ætla því að birta nokkrar uppskriftir af jólabakstri þar sem ég nota nýja smjörlíkið þeirra. Hingað til hefur ekki fengist á Íslandi gott vegan smjörlíki sem er lífrænt, laust við pálmaolíu og hentar vel í bakstur. Ég var því ekkert smá spennt að prófa nýja smjörlíkið frá Naturli og sjá hvernig væri að nota það í bakstur, og ég hef verið þvílíkt ánægð með útkomuna í hvert skipti. Smjörlíkið er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar vel til baksturs og steikingar og er líkt og hitt smjörið frá þeim virkilega gott. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni Melabúðinni og Fjarðarkaupum.

IMG_9841-2.jpg

Hérna í Piteå kyngir niður snjó og því óhjákvæmilegt að vera farin að huga að jólunum. Kertaljós, fallegur hvítur snjór og jólalög gera dimman veturinn mun bærilegri og þar sem ég hef alltaf haft fremur rómantíska sýn á lífið nýt ég þess mikið að geta skapað þessa notalegu stemningu. Ég er ein af þeim kýs að lýsa upp heimilið með lömpum, seríum og kertaljósi frekar en skærgulu loftljósi. Það kemur því engum sem þekkja mig á óvart hversu mikið ég elska aðventuna og allt sem henni fylgir.

IMG_9848-2.jpg

Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri góðum hátíðaruppskriftum fram að jólum. Ég vona að þið prófið að baka þessa dásamlegu mjúku piparköku og endilega látið mig vita, ef þið bakið hana, hvernig ykkur finnst hún. Eins þykir okkur alltaf jafn gaman þegar þið komið með hugmyndir af mat sem þið viljið sjá á blogginu. Er eitthvað sem ykkur finnst ómissandi um jólin og viljið sjá í vegan útgáfu t.d.?

IMG_9851-2.jpg

Mjúk piparkaka

  • 200 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 2 dl sykur

  • 6 dl hveiti

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1,5 tsk matarsódi

  • 1 msk kanill

  • 2 tsk engiferkrydd

  • 2 tsk negull

  • Örlítið salt

  • 6 dl vegan mjólk

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 msk týtuberjasulta (lingonsylt). Þessa sultu er kannski svolítið erfitt að finna á Íslandi. Hún er alltaf notuð í svona köku í Svíþjóð og mér þykir gott að hafa hana með. Ég veit að hún fæst í Ikea, en fyrir ykkur sem ekki nennið eða hafið tök á að fara þangað eftir henni mæli ég með að prufa að nota aðra sultu í staðinn eða jafnvel rúsínur. Annars er ekkert mál að sleppa henni bara.

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 175°C. Minn er ekki með blæstri svo ég set á undir og yfir hita.

  2. Þeytið smjörlíkið og sykurinn í stórri skál þar til það verður létt og svolítið ljóst.

  3. Sigtið út í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kryddin.

  4. Hellið útí mjólk, vanilludropum og eplaediki og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  5. Bætið sultunni útí og blandið varlega saman við deigið.

  6. Smyrjið tvö smelluform og skiptið deiginu í þau.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast en ég byrja að fylgast með henni eftir sirka hálftíma.

  8. Látið botnana kólna áður en þið setjið kremið á.

Rjómaostakrem

  • 200 gr vegan rjómaostur

  • 100 gr Naturli smjörlíki

  • 2 msk vanillusykur

  • 500 gr flórsykur

  • 1 msk kanill

Aðferð

  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn og smjörlíkið.

  2. Bætið saman við flórsykrinum, vanillusykrinum og kanil og þeytið þar til kremið er létt og ljóst.

  3. Smyrjið botnana með kreminu og skreytið kökuna eftir smekk. Ég muldi niður piparkökur og stráði yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið prófið að baka þessa dásamlegu köku.

Helga María

 
naturlilogo.jpg
 

- þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli -

Vegan súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör

IMG_1960.jpg

Í dag deili ég með ykkur annarri uppskrift sem hentar fullkomlega sem heimatilbúin jólagjöf. Þessar trufflur eru mögulega besta nammi sem ég hef gert. Þær eru svo ótrúlega ljúffengar og bráðna bókstaflega í munninum. Þetta er svona uppskrift sem smakkast eins og hún sé rosalega flókin, en er í raun virkilega einföld og þægileg. Ég fékk mér kúlu með síðdegiskaffinu og mér leið eins og það væru komin jól.

IMG_1876-5.jpg

Í nóvember héldum við Siggi upp á afmælið hans og nokkrir vinir okkar mættu með litlar flöskur af allskonar líkjör sem þau höfðu keypt í Alko, finnsku vínbúðinni, þegar þau fóru í “roadtrip” í Ikea á landamærunum. Þau skildu eitthvað af því eftir, þar á meðal Cointreau appelsínulíkjör. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég smakkaði Cointreau var að hann yrði ég að nota í uppskrift og datt þá í hug að gera trufflur fyrir jólin. Ég var ekki alveg viss hvernig það myndi koma út, en fannst þó trúlegt að líkjörinn myndi passa mjög vel við súkkulaðið, sem hann gerði svo sannarlega. Það er þó hægt að skipta honum út fyrir annan líkjör sem manni þykir góður, eða bara sleppa honum ef maður vill. Ég gerði annan skammt í morgun þar sem ég notaði Amaretto möndlulíkjör og ætla að gera úr honum kúlur í kvöld. Ég smakkaði fyllinguna áður en hún fór í ísskápinn og hún var guðdómlega góð líka. Það er því hægt að leika sér endalaust með svona trufflur.

IMG_1956.jpg

Eins og ég sagði að ofan eru þessar trufflur fullkomnar sem jólagjöf. Það er ekki bara persónulegt og skemmtilegt að gefa heimatilbúnar gjafir, heldur kemur það einnig í veg fyrir að maður kaupi bara eitthvað til að gefa eitthvað, sem oftar en ekki bætir bara við dótið sem fólk kannski notar lítið. Eins eru margir sem eiga ekkert svakalega mikinn pening um jólin og eiga erfitt með að kaupa gjafir handa öllum sem þau vilja gefa. Við Siggi erum bæði í námi og eigum því oft ekki mikinn pening svona í lok annarinnar. Því finnst mér hugmyndin um að búa til gómsætar gjafir frábær.

IMG_1964.jpg

Ég rúllaði nokkrar kúlur upp úr kakó en ákvað líka að hjúpa nokkrar í súkkulaði. Mér fannst bæði alveg virkilega gott, en þessar súkkulaðihúðuðu voru alveg extra góðar að mínu mati. Ég var smá hrædd um að það yrði erfitt að hjúpa kúlurnar, en ég setti þær í frystinn eftir að ég rúllaði þær upp þannig þær fengu aðeins að stífna áður en ég hjúpaði þær og það varð ekkert mál. Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri örugglega líka mjög gott utan um kúlurnar. Eins held ég að 70% súkkulaði passi rosalega vel því fyllingin er svo sæt.

IMG_1981-2.jpg
IMG_1984.jpg

Súkkulaðitrufflur með appelsínulíkjör (ca 15 stk)

  • 1 dl Alpro þeytirjómi -Ekki þeyta hann samt

  • 25 g smjörlíki

  • 200 g suðusúkkulaði

  • 2 msk Cointreau appelsínulíkjör - Eða bara sá líkjör sem ykkur þykir góður. Eins og ég sagði að ofan passar Amaretto líka fullkomlega í trufflurnar en svo setja margir viskí eða annað áfengi. Eins er auðvitað hægt að sleppa öllu svoleiðis og hafa þetta einfaldlega súkkulaðitrufflur. Eins er líka smekksatriði hversu mikill líkjör er settur út í. Mér fannst 2 msk alveg passlegt, en svo er hægt að bæta meiru við ef fólk vill.

  • Kakó til að rúlla upp úr eða súkkulaði ef þið ætlið að hjúpa kúlurnar

Aðferð:

  1. Saxið niður súkkulaði og setjið í skál.

  2. Hitið rjóma og smjörlíki í potti þar til suðan er alveg að koma upp.

  3. Hellið heitu rjómablöndunni yfir og hrærið varlega saman við súkkulaðið með sleikju. Súkkulaðið á að bráðna alveg, en ef það bráðnar ekki er hægt að hella blöndunni aftur í pottinn og setja á heitu helluna, án þess þó að kveikja á henni.

  4. Bætið líkjörnum út í þegar súkkulaðið er bráðið.

  5. Hellið blöndunni í skál og látið hana kólna upp á borði og setjið svo í ísskáp í 4-6 klst eða yfir nótt.

  6. Takið út og mótið kúlur. Ef þið ætlið að rúlla þeim úr kakó gerið það strax en ef þið ætlið að hjúpa þær í súkkulaði mæli ég með að raða þeim á smjörpappír og setja í frystinn í 30 mín og hjúpa þær svo. Ég reif niður appelsínubörk og setti ofan á og mér fannst það koma mjög skemmtilega út.

  7. Geymið í loftþéttu íláti í ísskáp.

Takk fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki vel.

veganisturundirskrift.jpg

Vegan kókoskonfekt

IMG_1921-3.jpg

Áður en ég gerðist vegan var konfekt í miklu uppáhaldi hjá mér. Mér fannst æðislegt þegar ég fékk heimagert konfekt í jólagjöf, en ég er ein af þeim sem elska heimatilbúnar gjafir. Það er ekkert mál að gera gott vegan konfekt, en það halda margir að eina leiðin til þess sé að gera það úr döðlum og hnetum. Við erum með eina uppskrift af dásamlegum möndlu- og döðlukúlum hér á blogginu, en í dag ætla ég að gera vegan konfekt sem er einfaldlega bara nammi. Ég hef ákveðið að sýna ykkur þrjár uppskriftir næstu daga, sem eru fullkomnar í jólapakkann. Þetta eru allt einfaldar og ótrúlega gómsætar uppskriftir sem slá í gegn, sama hvort fólk er vegan eða ekki. Í dag ætla ég að birta þá fyrstu, og það eru heimagerðir “Bounty” bitar.

Þessir bitar koma þvílíkt á óvart, því þeir minna svo ótrúlega mikið á Bounty súkkulaði. Það tók enga stund að búa þá til og ég naut mín í botn með jólatónlist og kertaljós. Ég er komin í jólafrí og er gríðarlega þakklát að hafa tíma núna fyrir jólin til að gera skemmtilegar uppskriftir. Í fyrra hafði ég engan tíma og missti því svolítið af mínum uppáhalds tíma, sem eru vikurnar fyrir jól, þegar jólastressið er ekki orðið svo mikið og enn er hægt að dunda sér við jólastússið. Núna ætla ég því að njóta þess að gera súper kósý hérna heima og prufa mig áfram með skemmtilegar jólauppskriftir.

IMG_1888.jpg
IMG_1894-2.jpg

Eitt af okkar markmiðum er að sýna öllum að það er ekkert mál að halda jól án þess að borða dýraafurðir. Það er hægt að útbúa vegan útgáfu af nánast öllu og ef ekki, þá er hægt að finna eitthvað annað í staðinn. Við erum með gott úrval af hátíðaruppskriftum hérna á blogginu og ætlum að reyna eins og við getum að koma út nokkrum góðum jólauppskriftum núna á næstu vikum. Eins er æðislegt að sjá hvað fyrirtæki og veitingastaðir eru orðin dugleg að framleiða vegan mat. Það eru ekkert alltof mörg ár síðan við borðuðum hnetusteik í öll mál yfir allar hátíðir og vorum orðnar ansi þreyttar á henni þegar kom að gamlárskvöldi, eins og hnetusteikin er nú góð. Nú er hægt að velja úr ótal skemmtilegum og hátíðlegum uppskriftum og ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi um jólin.

IMG_1905.jpg

Vegan kókosbitar (ca 20 stykki)

  • 3,5 dl kókosmjöl

  • 1,5 dl Alpro þeytirjómi - Ekki þeyta hann samt

  • 1/2 dl kókosolía

  • 1/2 tsk vanillusykur

  • 2 msk flórsykur

  • Örlítið salt

  • 200-220 g súkkulaði - Ég notaði suðusúkkulaði, en vegan mjólkursúkkulaðið frá Ichoc væri fullkomið utan um kúlurnar.

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál kókosmjöli, flórsykri, vanillusykri og salti

  2. Bætið í skálina rjómanum og kókosolíunni og blandið öllu vel saman

  3. Rúllið upp í kúlur eða stykki, raðið á smjörpappír og setjið í frystinn í 30 mínútur

  4. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði

  5. Veltið kókosbitunum upp úr súkkulaðinu. Leggið bitana á smjörpappír og kælið þar til súkkulaðið er orðið hart.


Takk fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki vel

Veganistur

Vegan páskaegg

Ég hef ekki keypt mér páskaegg um páskana síðan ég gerðist vegan. Í staðinn hef ég lagt það í vana minn að kaupa mér bara uppáhalds vegan nammið mitt og háma það í mig á meðan að hinir gæða sér á eggjunum sínum. Úrvalið af vegan nammi er orðið svo gríðarlegt í dag að það er ekkert mál fyrir grænkera að njóta hátíðarinnar.

Þetta árið er þó hægt að fá vegan páskaegg í Krónunni en ég ákvað samt að búa mér til mitt eigið egg í fyrsta skipti. Páskaeggið í Krónunni er úr suðusúkkulaði en mig langaði í egg úr vegan mjólkursúkkulaði sem myndi minna meira á það sem ég var vön að borða áður. Ég hafði hugsað um að búa mér til páskaegg í svolítinn tíma en aldrei lagt í það. Ég ákvað að láta reyna á það og ég sé svo sannarlega ekki eftir því.

Það að gera heimagerð páskaegg var þó örlítið meira maus en ég hélt. Það var alls ekki flókið eða erfitt, það var bara aðeins tímafrekara en ég hafði gert ráð fyrir. Ég varð sem betur fer ótrúlega sátt með útkomuna sem gerði þetta allt þess virði.  Ég ætla að deila með ykkur mínum ráðum og því nammi sem ég notaði í eggin.

Ichoc súkkulaðið er uppáhalds súkkulaðið mitt og því fannst mér tilvalið að nota það til að útbúa páskaeggin. Ichoc er vegan mjólkursúkkulaði gert úr hrísgrjónamjólk og það fæst í nokkrum tegundum sem eru allar ómótstæðilega góðar. Súkkulaðið hentaði fullkomlega í páskaeggin sem gerði mig að sjálfsgöðu virkilega glaða, það var mjög auðvelt að vinna með það og það harnaði vel. Páskaegg eru ekki alvöru páskaegg nema þau séu stútfull af gómsætu nammi. Ef maður ætlar á annað borð að belgja sig út af sykri verður maður að gera það almennilega. Ég fór því í leiðangur og valdi mitt uppaáhalds nammi til þess að setja inní eggin. Formin fékk ég í búðinni Allt í köku, en þar fást páskaeggjamót í öllum stærðum og gerðum. Ég notaði mót sem eru 19 centímetrar en mér finnst það mjög mátuleg stærð.

Hráefni í eitt egg:

  • 4 plötur Ichoc súkkulaði (320 gr) (Classic súkkulaðið henntar best en ég gerði líka úr hvíta súkkulaðinu og núggat súkkulaðinu)

  • það nammi sem hugurinn girnist (ég notaði eftirfarandi)

    • bubs hlaup (fæst í Krónunni)

    • biona hlaup (fæst í Nettó)

    • dökkt brak (fæst í Iceland)

    • lakkrís (flestur íslenskur lakkrís er vegan, fyrir utan fylltan lakkrís og lakkrískonfekt. ATH mjólkursýra er vegan og hefur ekkert með kúamjólk að gera)

    • svartur brjóstsykur

    • Hjúpaður lakkrís sem ég hjúpaði sjálf með classic súkkulaðinu

Aðferð:

  1. Það er nauðsynlegt að "tempra" súkkulaðið eins og það er kallað en þá er 2/3 af súkkulaðinu eða í þessu tilfelli u.þ.b. 200 gr brætt yfir vatnsbaði og hrært í á meðan. Þegar súkkulaðið er bráðið er það tekið af hitanum og restinni sem var tekin frá (1/3) bætt út í og hrært þar til allt er bráðnað.

  2. Súkkulaðinu er hellt í páskaeggjaformin og vellt um í góða stund. Mér fannst best að setja vel í fomin, velta því um og leggja fomin svo á hvolf yfir skálina í allt að 10 mínútur. Þetta er svo endurtekið nokkrum sinnum eða þar til frekar þykkt lag af súkkulaði hefur myndast í formin. Passa þarf að brúnirnar séu einnig þykkar svo auðvelt sé að festa eggin saman.

  3. Ef setja á eitthvað í súkkulaðið líkt og lakkrískurl eða krispies er best að setja eitt lag af súkkulaði fyrst í formin áður en kurlinu er bætt út í. 

  4. Formin þurfa síðan að sitja í frysti í allavega 30 mínútur eða þar til súkkulaðið hefur losnað frá plastinu. Þegar fomið er lagt á hvolf á eggið að detta auðvledlega úr.

  5. Til að festa eggin saman er best að vera með súkkulaði sem hefur verið "temprað" og leyft að kólna við stofuhita þar til það verður ágætlega þykkt. Munið að fylla eggin með nammi og málshætti áður en því er lokað.

Gleðilega páska

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg