Brauðterta með baunasalati

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af klassískri brauðtertu með vegan útgáfu af hangikjöts- og baunasalati í samstarfi við ORA. Þessa brauðtertu má ekki vanta á hvaða veisluborð sem er sem og á hátíðisdögum.

Ég notast við blandað grænmeti frá ORA sem er lykilatriði í baunasalatinu og “bacon bites” til að fá smá reykt bragð í salatið. Þetta salat er virkilega einfalt og má vel bera fram eitt og sér með kexi eða brauði.

Ég elska að bera fram klassíska íslenska rétti sem eru hefðir fyrir í veislum og á hátíðisdögum og eru veisluréttir líkt og brauðtertur iðulega það sem slær mest í gegn. Eins og flestir sem hafa fylgt okkur lengi vita elskum við að deila með ykkur alls konar uppskriftum af veislumat og mæli ég með að þið kíkið einnig á þessa brauðtertuuppskrift sem er virkilega góð.

Brauðterta með baunasalati

Brauðterta með baunasalati
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 15 Min: 15 Min
Vegan útgáfu af klassískri brauðtertu og "hangikjöts" og baunasalati

Hráefni:

  • 1 dós blandað grænmeti frá ORA
  • 1 dl bacon bites frá Oumph
  • 100 gr vegan majónes (+ 2 msk til að smyrja tertuna)
  • 1/2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/2 tsk salt
  • 3 sneiðar brauðtertubrauð
  • Grænmeti eftir smekk til að skreyta

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál majónesinu og sýrða rjómanum
  2. Bætið út í blandaða grænmetinu, beikon bitunum og salti og hrærið saman
  3. Smyrjið helmingnum af salatinu á brauðtertu brauðsneið og setjið aðra ofan á. Smyrjið restinni af salatinu og lokið síðan með þriðju sneiðinni
  4. Smyrjið vegan majónesi ofan á og á allar hliðar tertunnar
  5. Skreytið með fersku grænmeti og kryddjurtum eftir smekk
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við ORA -

Spæsí buffaló vöfflur með nöggum

Næsta laugardag, 25.mars er alþjóðlegi vöffludagurinn og því deilum við með ykkur í dag gómsætri útfærslu af vöfflum með spæsí buffaló nöggum, “ranch” sósu og fersku grænmeti.

Við erum í samstarfi með Hagkaup og því ákvað ég að fara og þangað og athuga úrvalið af vöfflujárnum. Þar sá ég að þau eru að selja vöfflujárnið sem ég var búin að dreyma um lengi en það er járn frá merkinu Wilfa, en það gerir fullkomnar, stórar vöfflur sem henta einstaklega vel í svona “matar”vöfflur.

Ég gerði hefðbundnu uppskriftina okkar af vöfflum sem klikkar aldrei og úr henni komu um það bil 6 stórar vöfflur. Ég ákvað að gera “ranch” dressingu sem er mild og bragðgóð með alls konar kryddjurtum en hún passar fullkomlega á móti buffaló sósunni sem ég notaði á naggana.

Ég ákvað að kaupa naggana frá merkinu peas of heaven en þeir eru soja lausir sem hentar einstaklega vel þar sem dóttir mín er með soja óþol. Það er hins vegar mjög mikið úrval af góðum vegan nöggum í Hagkaup og þessi uppskrift passar með flestum þeirra.

Uppskriftina af vöfflunum sjálfum má finna hér.

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum
Fyrir: 3 stórar vöfflur
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 HourEldunartími: 16 Hour: 26 Hour
Einstaklega góðar "matar" vöfflur með spæsi buffaló nöggum, "ranch" sósu og grænmeti.

Hráefni:

Spæsí buffaló vöfflur
  • 3 vöfflur
  • 1 pakki Peas of heaven naggar
  • sirka 1 dl Frank RedHot wings buffaló sósa
  • "Ranch" sósa
  • Fersk salat
  • 1 avócadó
  • 1/2 rauðlaukur
  • Ferskur kóríander
  • Lime
Ranch sósa
  • 2 dl vegan majónes
  • 2 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 msk hvítlauksduft
  • 1 msk laukduft
  • 1 msk niðursaxaður graslaukur
  • 1 tsk dill
  • 1 tsk þurrkuð steinselja eða kóríander
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Gerið vöffludeigið tilbúið
  2. Setjið naggana í ofninn við 200°C og bakið í 16 mínútur
  3. Útbúið "ranch" sósuna eftir uppskrift hér að neðan á meðan að naggarnir bakast
  4. Hitið vöfflujárnið vel og bakið síðan vöfflurnar
  5. Þegar naggarnir eru tilbúnir setjið þá í skál, hellið buffalósósunni yfir og veltið þeim vel upp úr henni.
  6. Skerið rauðlaukinn og avócadóið í þunnar sneiðar
  7. Setjið Ranch sósu, salat, rauðlauk, avócadó, nagga, ferskan kórander og lime sósu á hverja vöfflu.
Ranch sósa
  1. Saxið graslaukinn
  2. Hrærið öllu saman í skál og smakkið til salti og pipar
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Uppskriftin er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að ofnbökuðu nachosi með vegan hakki, ostasósu og salsasósu. Sannkallað súpernachos. Skemmtilegur, fljótlegur og einfaldur réttur sem gaman er að deila með vinum eða fjölskyldu og passar vel sem til dæmis forréttur, snarl eða kvöldmatur.

Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi og í nachosið notaði ég hakkið frá þeim sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og virkilega mikið notað á mínu heimili. Við systur elskum vörurnar frá Anamma og erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Ég kryddaði hakkið með blöndu af gómsætum mexíkóskum kryddum. Ég notaði tómatpúrru, hvítlauk, kúmín, túrmerík, reykta papríku, oregano. laukduft og chiliduft. Ég bætti svo örlítilli sojasósu við til að gefa réttinum örlítið extra “umame” og að lokum safa úr hálfu lime. Það má að sjálfsögðu nota tilbúna taco kryddblöndu sem fæst í öllum verslunum. Ég gríp oft í svoleiðis krydd sjálf og finnst það mjög gott.

Vegan-nachos-med-anamma-hakki-vegan-osti-vegan-ostasosu

Ég setti nachosflögurnar í eldfast mót og toppaði með hakkinu, heimatilbúinni ostasósu, salsasósu og rifnum vegan osti áður en það fór inn í ofn. Uppskrift af ostasósunni finnurðu HÉR.

Ég bakaði nachosið þar til osturinn bráðnaði og rétturinn hafði fengið á sig örlítið gylltan lit. Það tók ekki langan tíma, um það bil 10 mínútur.

Ég skellti í einfalt guacamole til að toppa réttinn með. Ég nota yfirleitt ferskt avókadó en ég hafði nýlega keypt tvo pakka af frystu avókadó á afslætti og ákvað að prófa að nota það í guacamole og mér fannst það koma mjög vel út.

Ég toppaði nachosið með guacamole, vorlauk, fersku kóríander, vegan sýrðum rjóma og fullt af kreistum limesafa. Það er í raun hægt að toppa með öllu því sem manni þykir gott. Ég mæli með t.d. svörtum baunum, maísbaunum, fersku eða niðursoðnu jalapeno, ferskum tómötum, sýrðum rauðlauk.. listinn gæti haldið endalaust áfram.

Takk kærlega fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki uppskriftin. Taggið okkur endilega á Instagram ef þið prófið uppskriftirnar okkar, það gerir okkur svo ótrúlega glaðar.

-Helga María

Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu

Ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María
Einstaklega gott ofnbakað nachos með vegan hakki, ostasósu og salsasósu.

Hráefni:

  • 1 poki tortillaflögur
  • 1 poki Anamma hakk (320 g)
  • 2 hvítlauksgeirar
  • 2 msk tómatpúrra
  • 1 tsk reykt papríka (má nota venjulegt paprikukrydd ef ykkur líkar ekki reykta bragðið)
  • 1 tsk kúmín
  • 1 tsk oregano
  • 1 tsk laukduft
  • 1/2 tsk chiliduft
  • 1 dl vatn
  • 2 tsk sojasósa
  • salt og pipar eftir smekk
  • safi úr 1/2 lime
  • 1 krukka salsasósa
  • heimagerð ostasósa eftir smekk (ég notaði sirka helminginn af sósunni á nachosið og notaði svo afganginn á tacos nokkrum dögum seinna. Uppskriftin er hér að neðan).
  • Rifinn vegan ostur eftir smekk
  • Ég toppaði nachosið með: guacamole, fersku kóríander, vorlauk, vegan sýrðum rjóma og limesafa. Hugmyndir af fleira góðgæti að toppa með eru t.d. svartar baunir, maísbaunir, jalapeno, tómatar og sýrður rauðlaukur. Það er í raun hægt að toppa með öllu því sem manni þykir gott.

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hita ofninn við 200°c.
  2. Steikið hakkið á pönnu uppúr olíu þar til það mýkist örlítið.
  3. Bætið pressuðum hvítlauk út á og steikið í 2 mínútur í viðbót.
  4. Bætið kryddunum, sojasósunni og vatninu út á og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  5. Kreistið limesafa út á og takið pönnuna af hellunni.
  6. Setjið tortillaflögur í eldfast mót.
  7. Toppið með hakkinu, ostasósu, salsasósu og rifnum osti.
  8. Bakið í ofninum í sirka 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og nachosið fengið á sig örlítið gylltan lit.
  9. Takið út og toppið með því sem ykkur lystir.
Guacamole
  1. 2-3 avókadó
  2. 1/2 laukur
  3. 2 hvítlauksgeirar
  4. 1/2 tómatur
  5. 2 msk ferskt kóríander
  6. safi úr 1/2 lime
  7. örlítið af chiliflögum
  8. Salt og pipar eftir smekk
  1. Stappið avókadó gróflega.
  2. Saxið niður lauk og tómat og pressið hvítlauk.
  3. Bætið saman við avókadóið og pressið limesafa út í.
  4. Saltið og piprið eftir smekk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færsla dagsins er í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 
 

Vegan súkkulaðimús með appelsínukeim

Í dag deilum við með ykkur dásamlega mjúkri og loftkenndri súkkulaðimús úr Síríus suðusúkkulaði, appelsínum og möndlum. Þessi súkkulaðimús er fullkomin eftirréttur fyrir hvaða tilefni sem er, hvort sem það er um hátíðir líkt og jól eða páska, veislur eða hversdagslegri tilefni.

Færslan og uppskriftin eru í samstarfi við Nóa Síríus, en í uppskriftina notum við gamla góða suðusúkkulaðið sem er alltaf nauðsynlegt að eiga til á hverju heimili að okkar mati. Suðusúkkulaðið frá Nóa hefur alltaf verið vegan og hentar því í hvaða vegan matargerð sem er, hvort sem það er bakstur, eftirrétti eða heitt súkkulaði til dæmis.

Páskadagur eru á morgun og fannst okkur því nauðsynlegt að deila með ykkur góðum eftirrétti sem væri fullkomin fyrir páskadag og því kom ekki annað til greina en að gera eftirrétt með súkkulaði. Við vildum að uppskriftin væri einföld og tæki ekki langan tíma þar sem það er nauðsynlegt að slaka á og gera sem minnst á páskadag að okkar mati. Músin inniheldur því fá hráefni sem einungis þarf að þeyta saman og bera fram.

Við ákváðum að hafa appelsínur og möndlur með í músinni til að gera hana ennþá betri á bragðið en okkur finnst appelsínur passa fullkomlega með súkkulaði. Það kemur ekkert smá vel út og gerir músina ferskari og skemmtilegri á bragðið. Það er þó alveg hægt að sleppa því og gera músina ennþá einfaldari. Hún bragðast alveg ótrúlega vel á báða máta.

Við vonum að ykkur líki uppskriftin vel og eins og alltaf megið þið endilega tagga okkur á Instagram ef þið eruð að gera uppskriftir frá okkur þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að fylgjast með.

Gleðilega páska!

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 Min: 10 Min
Dásamleg mjúk og loftkennd súkkulaðimús með appelsínukeim sem hentar fullkomlega sem eftirréttur við hvaða tilefni sem er.

Hráefni:

  • 1 ferna vegan þeytirjómi (250 ml)
  • 150 gr Síríus suðusúkkulaði frá Nóa Síríus
  • Safi úr 1/2 appelsínu
  • Börkur af 1/2 appelsínu
  • 1 dl sykur
  • 1/2 dl hakkaðar möndlur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða með því að setja það í örbylgjuofn í 20 sekúndur í einu og hræra vel í á milli.
  2. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til stífþeyttur.
  3. Þeytið áfram á meðalhraða og bætið appelsínusafanum, berkinum og sykri út í á meðan.
  4. Hellið súkkulaðinu út í rjóman í mjórri bunu á meðan þið þeytið áfram á meðalhraða. Skafið meðfram hliðum og þeytið þar til allt er komið saman.
  5. Bætið hökkuðum möndlum út í og blandið þeim saman við músina með sleikju.
  6. Fínt er að leyfa músinni að sitja í ísskáp í allavega klukkutíma áður en hún er borin fram en þess þarf þó ekki.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Vegan réttir í áramótaveisluna

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan partýréttum fyrir áramótaveisluna. Við vitum öll að gamlárskvöld einkennist að miklu leyti af mat og drykk. Við grænkerarnir erum að sjálfsögðu engin undantekning þar. Við systur höfum því sett saman gómsætan partýmat sem mun stela senunni í áramótapartýinu og sanna fyrir ÖLLUM að vegan partý eru bestu partýin! Færsla dagsins er í samstarfi við Krónuna og allt sem þarf í þessa dásamlegu áramótaveislu fáiði þar.

Það fyrsta sem við bjóðum uppá er krydduð ostakúla sem er fullkomin með góðu kexi. Ostakúlan er innblásin frá mexíkóosti og er svolítið spæsí en samt alls ekki of. Hún var ekki lengi að hverfa ofan í okkur eftir að við kláruðum að taka myndir af henni.

Það er alltaf jafn gaman að bjóða fólki uppá ostakúlur því það er skemmtilega öðruvísi og alveg svakalega bragðgott. Það er líka svo gaman að prófa sig áfram með mismunandi brögð og samsetningar.

Utan um kúluna gerðum við kasjúhnetukryddblöndu og hún setti punktinn yfir i-ið að okkar mati. Ekkert smá góð!

Mexíkó ostakúla

  • 1 askja (250 gr) hreinn Sheese rjómaostur eða annar góður vegan rjómaostur

  • 2 msk vegan smjör

  • 2 msk vegan majónes

  • 1 Chilli og hvítlauksostur úr ostabakkanum frá Violife

  • 1/2 epic mature úr ostabakkanum frá violife

  • 1 dl niðursaxaður vorlaukur

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 2-3 tsk hot sauce eða tabasco sósa

  • 1 tsk sojasósa

Mexíkó kryddblanda utan um ostinn:

  • 3-4 msk mexíkaninn krydd frá Kryddhúsinu

  • 1 tsk chilli og lime krydd frá Bowl&Basket

  • Heimagerður kasjúhnetuparmesan

    • 1 dl kasjúhnetur

    • 2 msk næringarger

    • 1 tsk laukduft

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Saxið niður vorlaukinn.

  3. Bætið restinni af hráefnunum ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  4. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  5. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  6. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr kryddblöndunni.

Aðferð fyrir kryddblöndu:

  1. Setjið hráefni fyrir heimagerða kasjúhnetuostinn í blandari eða matvinnsluvél og vinnið í nokkrar sekúndur þar til það verður að mjög grófu “mjöli”.

  2. Blandið saman við restina af kryddunum.

  3. Dreifið á disk og veltið ostinum upp úr.

Næst á boðstólnum er önnur gómsæt ostakúla sem er aðeins meira í þessum hefðbundna hátíðlega búning, mjög jólaleg og góð. Hún inniheldur meðal annars timían og þurrkuð trönuber og utan um kúluna eru saxaðar pekanhnetur. Virkilega gómsætt og eins og hin kúlan er hún fullkomin með góðu kexi. Pssst.. Við erum með fleiri færslur á blogginu með dásamlegum partýréttum ef þið viljið kíkja!

Ostakúla með trönuberjum, timían og pekanhnetum:

  • 1 askja (250 gr) hreinn Sheese rjómaostur eða annar góður vegan rjómaostur

  • 2 msk vegan smjör

  • 2 msk vegan majónes

  • 1 smoked mature úr hátíðarostabakkanum frá Violife

  • 1/2 epic mature úr hátíðarostabakkanum frá Violife

  • 1 dl niðursaxaður vorlaukur

  • 1/2 dl niðursöxuð þurrkuð trönuber

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk timían

  • 1 tsk sojasósa

Utan um ostinn :

  • Pekanhnetur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Saxið niður vorlaukinn og trönuberin.

  3. Bætið restinni af hráefnunum ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  4. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  5. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  6. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr pekanhnetunum.

  7. Saxið niður pekan hnetur og dreifið á stóran disk. Veltið ostinum upp úr þeim.

Snakk og ídýfa er að okkar mati möst í gott partý. Við útbjuggum því einfalda og gómsæta ídýfu sem er innblásin af Holiday ídýfuduftinu frá Maarud sem fæst því miður ekki á Íslandi en er virkilega gott. Ídýfan kom ekkert smá vel út og tók snakkið á næsta level!

Gómsæt vegan ídýfa

  • 4 dl vegan sýrður rjómi

  • 3 msk vegan mæjónes

  • 1,5 tsk laukduft

  • 1,5 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 tsk túrmerík

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1/2 tsk þurrkað dill

  • 1/2 tsk þurrkuð steinselja

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1/2-1 tsk hlynsíróp

  • 1 tsk tabasco sósa

  • Salt og pipar eftir smekk. Ég notaði 1 tsk salt og smá pipar

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í skál og leyfið að standa í ísskáp í sirka klukkustund til að leyfa brögðunum að blandast vel saman.

Nammi er svo sannarlega mikilvægt líka í góðum gleðskap og við ákváðum að búa til skemmtilegt súkkulaðibark með allskyns sælgæti í. Ef þið hafið ekki prófað súkkulaði með saltstöngum mælum við með því að gera það ASAP! Svo gott!!

Súkkulaði bark með nammi:

  • Saltkringlur

  • Fazer marianne brjóstsykur

  • Tutti Frutti nammi frá Fazer

  • 2 plötur reint hafrasúkkulaði frá HAPPI

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgju. Passið að hræra í því á 20-30 sekúndna fresti ef það er gert í örbylgjunni

  2. Saxið niður það nammið í mjög grófa bita og bætið út í súkkulaðið.

  3. Hellið á bökunarpappír, dreifið vel úr og leyfið því að harðna í kæli í allavega eina klukkustund.

  4. Brjótið eða skerið niður í bita og berið fram.

Auk þessarra rétta eru á plattanum:

  • Ólífur

  • Vínber

  • Ostarnir úr Holiday bakkanum frá Violife

  • Vegan chorizo frá Veggyness

  • Brauðstangir

  • Snakk

  • Baguettebrauð

  • Hrökkbrauð

  • Sulta

  • Jarðarber húðuð í hvítt súkkulaði og haframjólkusúkkulaði frá Happi

  • Pestó

  • Möndlur

  • Saltkringlur dýfðar í bráðið súkkulaði

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!

-Veganistur

-Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í uppskriftirnar þar-

 
 

Smjördeigsbökur með vegan ostum og vínberjasultu

Í dag deilum við með ykkur dásamlega góðum smjördeigsbökum með vegan fetaosti, rjómaosti, vínberjasultu, timían og balsamikediki. Skemmtilegar bökur sem gott er að bjóða uppá í veislunni, partýinu eða vínkvöldinu. Bökurnar henta t.d. vel við tilefni þar sem kex, ostar og sulta eru á boðstólnum. Blanda af söltu, sætu og súru. Fullkomið!

Hugmyndin að bökunum kom í síðustu viku þegar ég útbjó þeyttan fetaost. Ég tók fram gómsætu vínberjasultuna frá St. dalfour og smurði henni á kex með þeytta fetaostinum. Guðdómleg blanda. Færsla dagsins er einmitt í samstarfi við St. Dalfour og við erum ótrúlega spenntar fyrir því að vinna með þeim. Við höfum í mörg ár notað sulturnar þeirra við allskyns tilefni. Virkilega góðar gæðasultur. Nýlega komu á markað þrjár nýjar bragðtegundir og við ætlum á næstu vikum að kynna þær fyrir ykkur. Í dag kynnum við til leiks vínberjasultuna. Þar sem ég bý í Svíþjóð stendur Vindruva á sultukrukkunni en á sultunni heima stendur French grape.

Kex, vegan ostar og sulta. Eitthvað sem ég gæti borðað daglega. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og ákvað að nota smjördeig. Ég mæli eindregið með því að þið prófið. Þetta er svo dásamlega gott.

Keypt smjördeig er oftar en ekki vegan. Það inniheldur sjaldan smjör en þess í stað olíur. Það er því oftast laust við allar mjólkurafurðir. Það er þó mikilvægt að lesa vel á umbúðirnar til að vera viss.

Ég útbjó bökurnar í muffinsformi, eins og við gerum með hátíðarOumphið okkar. Það er bæði einfalt að útbua þær á þann hátt og líka þægilegt að vera þær fram. Auk ostanna og sultunnar setti ég í þær ferskt timían, ólífuolíu, balsamikedik, salt og pipar. NAMM!

Smjördeigsbökur með vegan fetaosti, rjómaosti og sultu

Hráefni:

  • 1 pakki vegan smjördeig, annaðhvort frosið eða upprúllað kælt

  • 1 krukka vínberjasulta frá St. Dalfour (Ath í verslunum á íslandi heitir bragðtegundin French grape)

  • 1 pakki vegan fetaostur

  • 1 dolla vegan rjómaostur

  • Ferskt timían

  • Ólífuolía

  • Balsamikedik

  • Salt og pipar

  • Vegan mjólk til að pennsla bökurnar með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Takið smjördeigið úr frystinum og látið það þiðna svona nánast alveg. Það á að vera kallt ennþá samt þegar þið meðhöndlið það. Ef þið notið kælt deig, takið það út svona 5 mínútum áður en þið ætlið að nota það.

  3. Ef þið notið kælt deig, rúllið því út og skerið eins og ég gerði á myndinni að ofan. Ég fékk 9 bökur úr mínu deigi. Ef þið notið fryst mæli ég með því að fletja hverja plötu örlítið út og skipta henni svo í tvo ferninga.

  4. Leggið smjördeigið í muffinsform og fyllið. Ég setti 1 tsk rjómaost, 1 tsk fetaost, 1 tsk sultu, nokkra dropa af ólífuolíu, nokkra dropa af ediki, smá timían, salt og pipar í hverja. Það má auðvitað setja aðeins meira, ég þurfti að hafa í huga að þær yrðu fínar fyrir mynirnar. En ég mæli þó með að fylla þær ekki of mikið.

  5. Lokið bökunum með því að klípa saman hornin og pennslið með mjólkinni

  6. Bakið í 10-15 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar. Látið kólna svolítið áður en þið berið fram.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið vel!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

 
 


Þeyttur vegan fetaostur með sólþurrkuðum tómötum, basilíku og möndlum

Í dag deilum við með ykkur fljótlegum og gómsætum rétti sem er fullkominn sem forréttur, smáréttur, millimál eða partýréttur. Þeyttur vegan fetaostur toppaður með allskonar góðgæti. Að okkar mati bestur borinn fram með nýbökuðu brauði eða góðu kexi.

Færsla dagsins er unnin i samsarfi við Violife á Íslandi og í uppskriftina notum við greek white ostinn þeirra sem minnir a fetaost og rjómaostinn. Ég passa að eiga þessa tvo osta alltaf til í ísskápnum því þeir eru svo hentugir. Rjómaostinn nota ég mikið á brauð, í súpur, sósur og í krem. Fetaostinn myl ég ofan á allskonar matrétti og sallöt. Að þeyta þá saman gerir kraftarverk og er svo dásamlega gott og hægt að toppa með þvi sem mann lystir.

Það tekur innan við 10 mínútur að setja saman þennan rétt. Ég elska allt sem er einfalt og fljótlegt og þetta er svo sannarlega bæði. Á sama tíma er rétturinn bragðgóður og skemmtilegur. Þetta er akkúrat eitthvað sem ég myndi bjóða uppá sem forrétt í matarboðinu eða skella þessu saman þegar ég fæ óvænta gesti og bera fram með góðu brauði og jafnvel víni.

Það er hægt að toppa ostinn með því sem mann lystir og ég hef prófað allskonar útgáfur. Það sem ég hafði í þetta sinn var:

  • Sólþurrkaðir tómatar

  • Basilíka

  • Ristaðar og saltaðar möndlur

  • Ólífuolía

  • Sítrónubörkur

  • Hlynsíróp

  • Chiliflögur

  • Salt og pipar

Ég vona að þið njótið og endilega látið okkur vita ef þið prófið að gera þeytta fetaostinn, hvort sem þið toppið hann eins og við eða prófið að gera hann öðruvisi. Við ELSKUM að heyra frá ykkur!

Þeyttur vegan fetaostur (miðaður sem forréttur fyrir 2-4)

Hráefni:

  • 1 pakki (200gr) greek white fetaosturinn frá Violife

  • 100 gr rjómaosturinn frá Violife (creamy original flavor)

  • 2-4 msk ósæt sojamjólk eða haframjólk - byrjið á 2 msk og sjáið hvort það þarf að bæta meiru við

  • 1 msk sítrónusafi

Aðferð:

  1. Setjið allt í matvinnsluvél og blandið þar til áferðin er mjúk

  2. Setjið i skál og toppið með því sem ykkur þykir gott.

Ég toppaði með:

  • Söxuðum sólþurrkuðum tómötum

  • Söxuðum ristuðum og söltuðum möndlum

  • Saxaðri basilíku

  • Ólífuolíu og olíu frá sólþurrkuðu tómötunum

  • Sítrónuberki

  • Hlynsírópi

  • Chiliflögum

  • Salti og pipar

Magnið af hverju setti ég eftir smekk. Myndi fara varlega í sítrónubörkinn og sírópið og setja frekar minna fyrst og bæta svo við. Mér finnst líka gott að setja út á ofnbakaðan lauk og hvítlauk og ólífur.

Takk innilega fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel! <3

-Veganistur

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
 

Djúpsteiktir vegan mac and cheese bitar

djupsteiktir-mac-and-cheese-bitar-tilbunir-a-disk.jpg

Hæ!

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er hinn FULLKOMNI partýmatur. Djúpsteiktir vegan mac and cheese bitar. Svo dásamlega stökkir að utan og djúsí að innan. Bitarnir henta vel sem t.d pinnamatur, meðlæti, snarl eða kvöldmatur. Þeir myndu bókstaflega slá í gegn sem meðlæti með góðum hamborgara eins og þessum HÉR!

Hraefni-fyrir-mac-and-cheese-bita.jpg

Færslan er í samstarfi við Violife á Íslandi en við elskum ostinn frá þeim. Í uppskriftina ákvað ég að nota tvær týpur, Original flavor og Epic mature cheddar. Mér fannst þeir passa svo vel saman í ostasósuna. Það er þó hægt að nota hvaða ost frá þeim sem er. Það er örugglega geggjað að prófa að setja svolítið af rjómaosti líka. Möguleikarnir eru endalausir. Ég vissi að ég vildi nota Epic mature cheddar ostinn til að fá þetta gómsæta cheddar bragð. Ég sé sko ekki eftir því!

Hér í Piteå fæ ég ekki rifna ostinn frá Violife svo ég keypti hann í stykki og reif sjálf. Þið heima búið hinsvegar svo vel að geta keypt hann rifinn svo ég mæli með því. Epic mature osturinn fæst bara í stykkjum þó.

Þennan rétt er hægt að leika sér með og breyta eftir eigin höfði. Ég mæli auðvitað með því að ALLIR prufi að gera djúpsteikta mac and cheese bita, en það er auðvitað hægt að borða matinn beint úr pottinum eða færa hann í eldfast mót, strá yfir t.d. panko brauðraspi og baka í ofni. Ef þið veljið að baka hann í ofni eða borða beint úr pottinum er örugglega gott að bæta við t.d. brokkólí eða öðru grænmeti í hann!

mac-and-cheese-bitar-velt-uppur-jogurti.jpg

Við vitum öll hvað er gaman að koma fólki á óvart með spennandi nýjum réttum sem kannski flestum hefði ekki einu sinni dottið í hug að útbua. Þessir bitar eru akkúrat dæmi um svoleiðis mat. Matur sem stelur senunni við allskonar tilefni!

Djúpsteiktan mat tekur alltaf svolitla stund að útbúa en þrátt fyrir það er virkilega einfalt að útbúa djúpsteiktu mac and cheese bitana. Þeir eru einnig dæmi um mat sem gaman er að útbúa og okkur systrum þykir alltaf jafn spennandi að smakka eitthvað nýtt. Hlökkum mikið til að heyra hvað ykkur finnst!

Tilbunir-mac-and-cheese-bitar-opnir.jpg

Djúpsteiktir vegan mac and cheese bitar (sirka 30 stykki litlir bitar)

Hráefni:

Fyrir sjálfan mac and cheese réttinn:

  • 125 gr makkarónur

  • 20 gr smjörlíki

  • 20 hveiti

  • 3 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)

  • 80 gr Violife ostur að eigin vali (ég notaði 40 gr original og 40 gr epic mature cheddar)

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk hvítlauksduft

  • 2 msk næringarger

  • 1/2 tsk eplaedik

  • salt og pipar eftir smekk

Það sem þarf til að velta uppúr og djúpsteikja:

Blautt:

  • Sirka 500 ml hrein vegan jógúrt

  • 1 tsk eplaedik

  • Nokkrir dropar hot sauce (má sleppa en ég mæli með)

Þurrt:

  • 2 dl hveiti

  • 2 dl panko brauðrasp (eða venjulegt brauðrasp ef þið finnið ekki panko)

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 2 tsk hvítlauksduft

  • 2 tsk laukduft

  • 3 tsk paprikuduft

  • 1 tsk oregano krydd

  • 1 tsk timían krydd

  • 1 tsk basilika krydd

  • 1 tsk hvítur pipar

  • svartur pipar eftir smekk

  • Olja að djúpsteikja í (ég notaði 1 líter)

Aðferð:

  1. Sjóðið makkarónurnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Saltið vatnið vel.

  2. Bræðið smjörlíki í öðrum potti.

  3. Bætið hveiti út í og hrærið með píski. Leyfið hveitiblöndunni að eldast svolítið og hrærið í á meðan. Við viljum fá burtu bragðið af hráu hveiti en hveitiblandan á þó ekki að verða brún.

  4. Bætið mjólkinni út í sirka 1 dl í einu og hrærið ve á meðan. Þannig fáiði þykka og fína sósu.

  5. Bætið rifna ostinum, eplaediki, laukdufti, hvítlauksdufti, salti og pipar samanvið og hrærið þangað til osturinn er alveg bráðinn.

  6. Hellið vatninu af makkarónunum og bætið þeim út í sósuna ásamt næringargerinu. Saltið og piprið meira ef ykkur finnst þurfa. Þetta má vera svolítið braðgmikið.

  7. Leggið réttinn í box og setjið inn í ísskáp í klukkutíma.

  8. Takið út og myndið litlar bollur. Mér finnst gott að hafa bitana svona sirka 2 munnbita. Þannig fékk ég 30 kúlur. Leggið bollurnar á fat og setjið í frystinn í sirka hálftíma eða þar til bollurnar eru orðnar vel stífar. Þær þurfa ekki að frosna þó.

  9. Undirbúið djúpsteikinguna. Blandið saman jógúrti, eplaediki og sterku sósunni í djúpan disk.

  10. Blandið saman hveiti, panko brauðraspi, lyftidufti og öllum kryddunum í annan djúpan disk.

  11. Hitið olíuna í 180°c.

  12. Veltið bitunum í jógúrtblönduna og svo hveitiblönduna og djúpsteikið þar til bitarnir fá fallegan, dökkan gylltan lit.

  13. Berið fram með t.d. vorlauk og góðri sósu. Ég mæli með salsasósu eða pizzasósu.

Takk kærlega fyrir að lesa og vona að þið njótið!
Ekki gleyma að tagga okkur á Instagram ef þið prófið einhverja af réttunum okkar! <3

-Helga María

-Þessi færsla er í samstarfi við Violife á Íslandi-

 
violife-logo-1.png
 

Döðlupestó og auðveldir pestó snúðar

Ég er alltaf mjög hrifin af fallegum ostabökkum þegar ég sé myndir af þeim og hefur mér lengi langað að prófa að gera svona bakka sjálf. Mér fannst því tilvalið að gera fallegan ostabakka með döðlupestó uppskrift sem ég er búin að vera að elska síðustu vikur. Þetta pestó er svo ótrúlega einfalt og það þarf engin sérstök tæki eins og matvinnsluvél eða slíkt til að útbúa það.

Ég ákvað kaupa alls konar vegan osta sem mér finnst góðir og hafa síðan ávexti, grænt pestó og ólífur líka. Þessi ostabakki kom ótrúlega vel út og mér finnst þetta vera fullkominn bakki til að bera fram í veislum eða bara þegar ég fæ vini í heimsókn.

Ég notaði nýja vegan chilli pestóið frá Sacla Italia sem er alveg einstaklega gott að mínu mati en það er þó smá sterkt svo það er ekkert mál að nota rauða pestóið eða til dæmi eggaldin pestóið frá þeim í staðinn til að gera það aðeins mildara.

IMG_9537.jpg
IMG_9546.jpg

Hráefni:

  • 1 dl svartar ólífur

  • 1 dl saxaðar döðlur

  • 1 dl kasjúhnetur

  • 1 dl söxuð fersk steinselja

  • 1 hvítlauksgeiri

  • Salt

  • Ein krukka chilli pestó frá Sacla Italia

Aðferð:

  1. Saxið gróflega niður ólífurnar, döðlurnar, kasjúhneturnar og ferska steinselju.

  2. Merjið hvítlaukinn og blandið öllum hráefnunum saman í skál.

Þetta perstó hentar fullkomlega með til dæmis góðu kexi, brauði eða bara nánast hverju sem er. Ég prófaði einnig að amyrjaum vel af pestóinu á smjördeigsplötur rúlla þeim upp í snúða og baka í ofni þar til þeir urðu fallega gylltir til að útbúa gómsæta smjördeigssnúða.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi.

 
logo Sacla.jpg
 

Vegan partýplatti - kryddostur, kex og salat

IMG_0105-3.jpg

Ég elska að halda partý. Í hvert sinn sem ég býð fólki í heimsókn vil ég helst útbúa heilt veisluborð af kræsingum og oftar en ekki þarf Siggi að stoppa mig og draga mig niður á jörðina. Eins finnst mér alveg ómögulegt að koma tómhent í heimsókn til annarra og baka því yfirleitt eitthvað gott. Ég hef ekki alltaf verið svona en þetta byrjaði þegar ég varð vegan. Mér þótti mikilvægt að sýna fólki hversu góður vegan matur getur verið og lengi vel var það svoleiðis að ef mér var boðið í mat eða veislur þá þurfti ég að sjá um minn mat sjálf þar sem flestir héldu að það væri of erfitt að útbúa vegan mat. Þetta var árið 2011, löngu áður en úrvalið af spennandi vegan hráefnum varð svona gott. Ég vandist því að mæta með mat í allskyns heimsóknir og oftar en ekki þótti fólki svakalega spennandi að smakka það sem ég mætti með. Með tímanum hefur þetta svo orðið að vana hjá mér og nú elska ég að bjóða fólki í heimsókn og útbúa skemmtilega partýrétti og allskonar kökur.

Þessi færsla er einmitt ætluð þeim sem vilja bjóða uppá skemmtilega partýrétti um jólin eða áramótin eða jafnvel útbúa góðan veislubakka sem forrétt um hátíðirnar. Sem betur fer hefur hugarfar fólks almennt breyst mikið hvað varðar vegan mat og flestir vita að ekkert mál er að borða gómsætan hátíðarmat án dýraafurða. Þó eru enn sumir sem halda að vegan jól þýði að þeir þurfi að fórna einhverju og er þessi veislubakki tilvalinn til að koma fólki rækilega á óvart.

IMG_0083.jpg

Það var mikil áskorun að gera þessa færslu því á þessum tíma ársins er dagsbirta af skornum skammti hérna í Piteå. Í dag var nánast alveg dimmt í eldhúsinu fyrir utan pínuitla ljósglætu alveg við gluggann og ég gerði mitt besta til að nýta hana. Það er synd að minn uppáhalds tími til að blogga sé akkúrat þegar skilyrðin eru sem verst. Ég læt það þó ekki á mig fá og held ótrauð áfram að útbúa gómsætar uppskriftir.

IMG_0092-3.jpg

Þessar uppskriftir eru báðar virkilega einfaldar og fljótlegar en þó skiptir máli að þær séu gerðar svolítið fyrirfram. Osturinn þarf helst að fá að sitja í ísskáp í nokkrar klukkustundir og salatið er einnig betra þegar það fær að sitja í ísskápnum og draga í sig bragðið frá kryddunum. Allt annað á disknum er svo bara smekksatriði og hægt er að leika sér endalaust með það. Ég t.d. held að laufabrauðið úr bókinni okkar væri fullkomið á partýbakkann og dásamlegt með bæði salatinu og ostinum.

Ég var fyrst svolítið á báðum áttum með að birta færslu sem inniheldur svona mikið af tilbúnum vegan vörum. En eftir því sem ég hugsaði meira um það áttaði ég mig á því að það er ekkert að því að birta svoleiðis færslu. Það er oft sett svolítil krafa á okkur sem erum vegan að búa allt til frá grunni og nota ekkert tilbúið. Ég hef stundum rekist á athugasemdir við uppskriftir annarra grænkera þar sem þau eru gagnrýnd fyrir það að nota t.d. tilbúinn rjómaost í stað þess að gera hann sjálf, en ég hef aldrei séð athugasemdir þar sem fólk er beðið um að útbúa sinn eiginn rjómaost úr kúamjólk í stað þess að kaupa tilbúinn. Það er enginn skömm af því að kaupa tilbúnar vörur og þegar það eru jól og við erum öll á fullu í eldhúsinu er svakalega gott að geta útbúið eitthvað einfalt til að bjóða uppá.

IMG_0106-3.jpg

Ég vona innilega að þið prófið að útbúa þennan dásamlega partýbakka og látið okkur endilega vita hvernig ykkur og öðrum líkar við uppskriftirnar.

IMG_0107-3.jpg
IMG_0118-2.jpg

Vegan kryddostur (2 stk)

  • 3 öskjur (samtals 450 gr) hreinn vegan rjómaostur (ég notaði Oatly)

  • 2 dl rifinn vegan ostur (ég notaði Violife)

  • 2 msk vegan majónes. Ég nota heimagert því það er virkilega einfalt og mér finnst það langbest. Það þarf líka majónes í salatið hér að neðan svo ég geri tvöfalda uppskrift af þessu hér

  • 2 msk smjörlíki frá Naturli - vegan block

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1,5 dl saxaður vorlaukur (bara græni parturinn)

  • 2-3 tsk tabasco sósa (mæli með að byrja á því að setja 2 og bæta svo við eftir þörf)

  • 1 tsk sojasósa

  • salt eftir smekk

Utan um ostinn

  • 2 dl saxaðar hnetur (ég notaði möndlur því Siggi er með ofnæmi fyrir öðrum hnetum. Pekanhnetur og valhnetur passa örugglega mjög vel líka)

  • svartur pipar eftir smekk

  • gróft salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Bætið restinni ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  3. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  4. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  5. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr söxuðu möndlunum og kryddunum.

Vegan kjúklingasalat með karrý

Þetta salat gerði ég upprunalega fyrir skonsubrauðtertu. Það er ekkert smá gott og karrýið gerir salatið enn betra að mínu mati. Það má þó sleppa því. Ég gerði þetta salat fyrir partý um daginn og það sló bókstaflega í gegn.

  • 1 pakki vegan filébitar frá Hälsans Kök

  • Sirka 5-6 dl vegan majónes. Eins og ég sagði hér að ofan finnst mér langbest að útbúa mitt eigið majónes og ef þið ætlið að gera bæði salatið og ostana mæli ég með því að tvöfalda þessa uppskrift. Ef þið ætlið aðeins að útbúa salatið myndi ég gera eina og hálfa uppskrift

  • 1-2 dl saxaður vorlaukur. Ég setti um 1,5 dl

  • 1 msk gróft sinnep

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk karrý

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Takið bitana úr frysti og steikið aðeins á pönnu uppúr smá olíu og salti. Bitarnir þurfa í raun ekkert að eldast mikið, bara í nokkrar mínútur þannig þeir séu orðnir mjúkir.

  2. Hellið þeim á stórt skurðarbretti og rífið í sundur með tveimur göfflum. Mér finnst þetta skipta miklu máli uppá áferðina á salatinu. Ég ríf þá ekkert alveg niður en ríf þá í sundur í þá stærð sem ég vil hafa bitana í stað þess að skera þá niður.

  3. Setjið bitana í stóra skál og bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund. Þetta gerir það að verkum að salatið verður bragðmeira og betra. Eins og ég sagði hér að ofan er mjög gott að gera þetta snemma sama dag og þið ætlið að bera salatið fram eða jafnvel kvöldið áður.

Ég vona innilega að þið njótið. Eins og þið sjáið kannski þá hef ég bætt við linkum á margar vörur í færslunni svo auðvelt sé að sjá hvernig þær líta út. Ég mæli með að opna hvern link í nýjum glugga svo það sé sem þægilegast þegar þið skoðið færsluna.

-Veganistur

Fjórir Vegan Partýréttir

Eurovision er næstu helgi. Flestir Íslendingar fara í Eurovision-partý, hvort sem þeim þykir keppnin skemmtileg eða ekki. Það er alltaf fínt að hafa afsökun til þess að hitta vini og/eða ættingja, belgja sig út af allskonar grillmat og snarli og skemmta sér fram eftir kvöldi. 

Við systur elskum öll tilefni sem tengjast mat. Við elskum að útbúa spennandi rétti til að taka með í partý og matarboð. Það er samt svolítið algengt að í boðunum séu allskonar fjölbreyttar kræsingar en ekkert vegan fyrir utan saltaðar kartöfluflögur. Við ákváðum því í samstarfi við Krónuna að skella í fjóra gómsæta rétti sem eru fullkomnir fyrir Euro-partýin og allir ofur einfaldir og fljótlegir. 

 

1. Vegan eðla

Sko, þessi uppskrift er kannski engin svaka uppskrift, en þessi gómsæta heita ídýfa er ómissandi í alvöru partý. Ídýfan hefur verið vinsæl í langan tíma en síðustu ár hefur hún gengið undir nafninu ,,eðla." Við höfum gert vegan eðlu ótal oft, hún er alveg jafn góð og þessi sem við borðuðum hér áður fyrr. Nýlega hóf Krónan að selja uppáhalds vegan rjómaostinn okkar sem hefur ekki fengist hér á landi í rúm tvö ár. Það gleður okkur að sjálfsögðu mikið því okkur finnst hann langbestur í svona eðlu. 

  • 1 askja creamy Sheese original

  • 1 krukka salsasósa

  • Follow your heart pizzeria blend ostur - það er undir hverjum og einum komið hversu mikið magn af osti er sett yfir, en við setjum vel af honum. Osturinn frá Follow your heart er einn af okkar uppáhalds vegan osti.
    Ath: Það er mismunandi hversu stórt eldfast mót fólk notar. Við miðum yfirleitt við að hafa sirka 1 cm þykkt af rjómaostinum, 1 cm af salsasósunni og setjum ostinn þannig að hann hylji allt.

  1. Smyrjið rjómaosti í eldfast mót

  2. Hellið salsasósunni yfir

  3. Stráið osti yfir þannig að hann hylji vel

  4. Setjið inn í ofn á 200°c í 15-20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn

  5. Berið fram með snakki að eigin vali. Við notuðum tegund af Dorítós flögum sem er ný í verslunum hér á landi. Flögurnar eru í gulum pokum og heita Lightly salted. (Svart dórítos er líka vegan og mjög gott.)

Eins og við segjum, þetta er varla uppskrift, en það er ekki hægt að gera partýrétta færslu án þess að hafa þessa ídýfu með. 

2. Rocky road bitar

Næsta uppskrift er eiginlega svolítið ólík öllu sem við höfum smakkað. Þetta gómsæta sælgæti kallast Rocky road á ensku, en við vitum ekkert íslenskt nafn yfir bitana. Þetta var í fyrsta skipti sem við útbúum rocky road og urðum því að nota hugmyndarflugið. Það heppnaðist heldur betur vel og bitarnir eru ómótstæðilega góðir. 

  • 4 stykki Vego súkkulaði

  • 100 g suðusúkkulaði

  • 1 tsk kókosolía

  • 2 bollar nammi að eigin vali (Við notuðum tvær tegundir af hlaupinu frá Bubs, saltstangir, lakkrísreimar frá Appolo og svolítið af heslihnetunum úr Vego súkkulaðinu)

  1. Bræðið vego súkkulaðið og suðusúkkulaðið ásamt kókosolíu

  2. Veiðið hneturnar uppúr súkkulaðinu þegar það er bráðið. Ef þið viljið hafa mikið af hnetum þá auðvitað hafiði þær bara í, en við notuðum sirka 1 msk af hnetunum því þær eru annars svolítið yfirþyrmandi. Ástæðan fyrir því að við notuðum Vego súkkulaðið er því það er langbesta súkkulaðið að okkar mati, það gjörsamlega bráðnar uppí manni.

  3. Klippið lakkrísreimarnar í bita, brjótið saltstanginar niður og blandið saman við súkkulaðið í stóra skál ásamt hlaupinu og hnetunum

  4. Setjið smjörpappír í eldfast mót og hellið sælgætisblöndunni ofan í

  5. Geymið í ísskáp í klukkutíma og skerið svo niður í munnbita

Við vorum ekkert smá ánægðar með rocky road bitana. Það er algjörlega valfrjálst hvaða sælgæti er notað en okkur fannst þessi blanda alveg fullkomin.

3. BBQ Oumph! salat með mæjónesi

Við fengum hugmyndina af næsta rétti í Pálínuboði fyrir rúmu ári. Þar var gómsætt BBQ-mæjónes salat borið fram með ritzkexi og við ákváðum strax að búa til okkar útgáfu af svoleiðis. Salatið er æðislegt og er fullkomið með kexi eða á samlokur. Júlía bauð uppá svona salat á kaffistofunni í vinnunni sinni fyrir stuttu og það sló í gegn. 

  • 1 poki Oumph - pure chunk. Við ætluðum að nota pulled Oumph því það inniheldur BBQ sósu. Það var hinsvegar ekki til í Krónunni í dag svo við tókum til okkar ráða og bjuggum til okkar eigin útgáfu

  • 1 miðlungs laukur - smátt saxaður

  • 6 sneiðar af jalapenos - smátt saxað (það er undir hvern og einn komið hversu sterkt hann við hafa salatið)

  • 3 dl BBQ sósa

  • 3 msk vegan mæjónes frá Follow your heart (Vegenaise)

  • örlítið salt

  1. Ef þið notið pulled oumph er fyrsta skrefið ekki nauðsynlegt. Hinsvegar ef þið notið pure chunk mælum við með því að leyfa því að þiðna í sirka hálftíma, rífa bitana í sundur (við notuðum tvo gaffla í verkið), blanda þeim saman við BBQ sósuna í stórri skál og leyfa því að standa í marineringu í sirka hálftíma.

  2. Steikið laukinn á pönnu í nokkrar mínútur

  3. Bætið jalapenos á pönnuna ásamt oumph-bitunum og steikið í sirka 10 mínútur

  4. Hellið blöndunni í skál og leyfið henni að kólna

  5. Blandið mæjónesinu saman við

  6. Berið fram. Okkur þykir gott að bera salatið fram með ritz kexi eða útbúa litlar samlokur t.d úr Baguette brauði

4. Smjördeigs-hnetusmjörs-súkkulaði-ávaxtasæla með vanilluís

Þennan "rétt" skálduðum við upp í morgun. Við vissum ekkert hvort þetta myndi koma vel út eða misheppnast hryllilega. Við urðum ekkert smá hissa á því hvað þetta smakkaðist æðislega vel en á sama tíma hissa yfir því að okkur hafi ekki dottið þetta í hug fyrr. Við höfum ekkert nafn yfir þessa dásemd. Okkur datt fyrst í hug að útbúa einhverskonar eftirrétta-pizzu en ákváðum svo að nota smjördeig. Það vita það ekki allir en smjördeig inniheldur sjaldan smjör og er því oft vegan. Það kemur sér einstaklega vel því smjördeig býður uppá allskonar möguleika. 

  • 3 plötur af smjördeigi. Við notuðum deigið frá TC brød

  • 100 g suðusúkkulaði

  • 2,5 msk fínt hnetusmjör

  • 1 tsk flórsykur

  • ávextir að eigin vali - við notuðum banana og jarðarber

  • NadaMoo! vanilluís - valfrjáls

  1. Leyfið smjördeigsplötunum að þiðna svona hálfpartinn

  2. Leggið plöturnar hlið við hlið, fletjið þær aðeins út og festið saman þannig þær myndi eina plötu. Gatið deigið vel með gaffli og útbúið smá kannt (það er gert svo sósan hellist ekki um allt þegar henni er smurt á)

  3. Bakið smjördeigið í 15 mínútur á 190°c eða þar til það verður örlítið gyllt

  4. Bræðið súkkulaðið og blandið saman við það hnetusmjörinu og flórsykrinum

  5. Smyrjið sósunni á smjördeigið þegar það er tilbúið og komið úr ofninum

  6. Raðið ávöxtunum á, sigtið flórsykur yfir og toppið að lokum með vanilluís. Þetta er bæði hægt að bera fram heitt og kalt, við smökkuðum bæði og fannst hvoru tveggja æðislegt.

Vonandi gefa þessir réttir ykkur smá innblástur til þess að útbúa fjölbreytta veganrétti í Europartýunum næstu helgi, við erum allavega ótrúlega spenntar. 

 

Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar. 

Pulled Oumph! borgari með jalapeno mæjó og gómsæt ídýfa

Ég held að flestum Íslendingum líði þessa dagana eins og þeir gangi um í draumi. Karlalandsliðið okkar í fótbolta spilar í átta liða úrslitum á Evrópumeistaramótinu á morgun. Þetta lið er eitt af átta bestu fótboltaliðum evrópu. Og ekki gengur kvennaliðinu verr, efstar í undankeppni evrópumótsins sem fer fram á næsta ári, búnar að skora tæp 30 mörk og fá engin á sig. Ég er allavega í sjokki og ekkert smá stolt af þessu fólki og því að litla landið okkar skari fram úr á svo mörgum sviðum. Líkt og flestir Íslendingar ætla ég að horfa á leikinn á sunnudaginn, en leikurinn er sýndur klukkan 19:00, einmitt á kvöldmatartíma. Því er eiginlega nauðsynlegt að hafa eitthvað gott að borða á meðan. Það verður þó að vera eitthvað auðvelt þar sem spennan og stressið sem við munum finna fyrir á sunnudaginn mun örugglega hindra flókna eldamennsku. Ég ákvað því að á sunnudaginn þyrfti ég að hafa eitthvað rosalega gott en einnig rosalega auðvelt í matinn.

Þegar ég var í Svíþjóð hjá Helgu í maí fórum við á skyndibitastaðinn Max, en hann er nýlega farin að bjóða upp á vegan borgara. Þetta er þó ekki hinn hefðbundni grænmetisborgari en uppistaðan í honum var Pulled Oumph. Mér datt því í hug að reyna að endurgera þennan borgara þar sem ekki er erfitt að nálgast Pulled Oumph þessa dagana á Íslandi. Það gekk líka svona ljómandi vel og útkoman varð æðisleg máltíð sem tók örskamman tíma að útbúa. Ég ætla að deila með ykkur uppskriftinni af borgaranum svo þið getið notið hans yfir leiknum á morgun líkt og ég mun gera.

Pulled Oumph borgari (ein uppskrift verður að tveimur borgurum)

1 poki Pulled Oumph
2 hamborgarabrauð (athugið að brauðin sem þið kaupið séuð vegan, en brauðin frá Myllu eru það til dæmis)
Það grænmeti sem hugurinn girnist, en ég notaði kál, gúrku og tómata.
Jalapeno mæjónes

Borgarinn er mjög auðveldur í eldamennsku en það eina sem þarf að gera er að steikja Oumphið þar til það er tilbúið og setja á hamborgarabrauð ásamt sósunni og grænmetinu. Ég bar borgarann fram með kartöflubátum og vegan hrásalati. En uppskriftin af hrásaltinu má finna HÉR. Fyrir þá sem ekki vita hvað Oumph er, þá er það soja kjöt sem líkist kjúklingi mjög mikið. Pulled Oumph er í bbq sósu og því þarf ekki einu sinni að krydda það og því mjög auðvelt að gera góða máltíð úr því. Hægt er að fá Oumph í nánast öllum Krónu búðum á landinu.

Jalapeno mæjónes

1 dl vegan mæjónes
3 skífur niðursoðið jalapeno mjög smátt skorið
nokkrir dropar af sítrónusafa
salt og pipar

Hrærið öllu saman í skál. Hægt er að fá vegan mæjónes t.d. í Hagkaup frá Just Mayo en mér finnst lang best að gera bara heimatilbúið mæjónes en það er mjög auðvelt. Uppskrif af mæjó er að finna HÉR


Ég ætla einnig að deila með ykkur uppáhalds sjónvarpsmönnsinu mínu. Þessa ídýfu kenndi mamma vinkonun minnar okkur að gera þegar við vorum litlar en mér fannst þessi uppskrift hljóma svo illa að ég var staðráðin í að mér myndi sko ekki finnast þetta gott. Ástæðan var örugglega sú að ídýfan samanstendur af sósu með fullt af grænmeti ofan á. Mér fannst alveg furðulegt að maður myndi setja grænmeti á eitthvað sem ætti að vera borðað yfir sjónvarpinu á föstudagskvöldi. Ég hefði þó ekki getað haft meira rangt fyrir mér þar sem þessi ídýfa er það besta sem ég veit og heldur betur tilvalinn með leiknum á sunnudaginn. Einnig er hún alls ekkert óholl og þarf maður því ekki að sitja með samviskubit eftir að maður gæðir sér á henni.

Ídýfa Önnu í Túni (ein uppskrift verður að ágætisstærð af ídýfu sem gott er að deila með vinum og fjölskyldu)

1 dós vegan rjómaostur (tofutti rjómaosturinn er mjög góður en hann fæst í Hagkaup)
1 dós (sirka 300 gr) salsa sósa
Það grænmeti sem hugurinn girnist, t.d. kál, gúrka, tómatar og paprika, en það er það sem ég notaði

Hrærið rjómaostinn ötlitla stund með handþeytara. Hrærið salsasósunni út í og setjið blönduna í það ílát sem þið hyggist bera ídýfuna fram í. Gott er að nota einhversskona eldfast mót eða bakka en blandan á að vera sirka einn cm þykk í botninum. Skerir grænmetið mjög smátt og stráið yfir. Berið ídýfuna fram kalda með tortilla snakki eða svörtu doritos, en það er vegan. Ef tíminn fyrir leikinn er naumur er gott að gera ídýfuna fyrr um daginn en þá er sniðugt að skera vatnsmesta partin úr gúrkunni (miðjuna) og sleppa tómötunum svo ídýfan verði ekki vatnskennd.

 

Ég hvet alla til að prófa þessar uppskriftir og hafa með leiknum á morgun, en ef þið gerið það má alltaf pósta á instagram og merkja #veganistur eða senda okkur myndir á snapchat, en við elskum að fá myndir frá ykkur.

 

 Júlía Sif