Kókos og súkkulaðimús með pólókexi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af hinum fullkomna eftirrétti. Ótrúlega loftkennd og mjúk súkkulaðimús með kókoskeim og muldu pólókexi. Við lofum því að það munu allir elska þennan gómsæta eftirrétt.

Við fáum oft spurningar um að deila með ykkur freiri eftirréttum sem eru einfaldir og krefst þess ekki að baka eða neitt slíkt. Því ákváðum við að deila með ykkur þessari snilldar uppskrift því hún er svo fljótleg en á sama tíma fullkomin. Létt og loftkennd og ekki þung í maga sem hentar fullkomlega eftir góða máltíð.

Pólókex er að sjálfsögðu í miklu uppáhaldi hjá okkur systrum þar sem það er ein af gömlu góðu “óvart” vegan vörunum hér á landi. Ég á yfirleitt til pakka af þessu kexi inn í skáp hjá mér til að grípa í með kaffinu.

Ásamt pólókexinu eru einungis þrjú önnur hráefni sem þar í réttinn, að undanskyldum kókosflögum ef fólk vill nota þær til að skreyta hann. Ég nota sweetened condenced coconut milk sem má nú finna í blárri niðursuðudós í flestum verslunum. Þessi vara er ótrúlega bragðgóð, sæt og með kókoskeim.

Kókos og súkkulaðimús með pólókexbotni

Kókos og súkkulaðimús með pólókexbotni
Fyrir: 4-5
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 Hour: 10 Hour
Gómsæt kókos og súkkulaðimús sem "krispý" kexbotni sem við lofum að allir muni elska

Hráefni:

  • 1/2 pakki pólókex
  • 1 ferna vegan þeytirjómi
  • 125 gr suðusúkkulaði
  • 1 dós sweetened condensed coconut milk
  • kókosflögur til að skreyta (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Ef súkkulaðið er brætt í örbylgju er mikilvægt að hræra vel í því á 20 sekúndna fresti.
  2. Þeytið rjóman vel og hellið súkkulaðinu síðan út í á meðan þið þeytið á fullum styrk.
  3. Bætið kókosmjólkinni út í og þeytið aðeins lengur.
  4. Myljið niður pólókex í glös eða stórt fat, eftir því í hverju þið kjósið að bera fram músina. Mér finnst best að mylja það gróft og hafa smá bita með en þá má líka hafa það alveg fínt.
  5. Hellið músinni yfir kexið og kælið í að minnsta kosti 2 klst áður en músin er borin fram.
  6. Skreytið með meira kexi og kókosflögum
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Frón -

 
 

Vegan súkkulaðimús með appelsínukeim

Í dag deilum við með ykkur dásamlega mjúkri og loftkenndri súkkulaðimús úr Síríus suðusúkkulaði, appelsínum og möndlum. Þessi súkkulaðimús er fullkomin eftirréttur fyrir hvaða tilefni sem er, hvort sem það er um hátíðir líkt og jól eða páska, veislur eða hversdagslegri tilefni.

Færslan og uppskriftin eru í samstarfi við Nóa Síríus, en í uppskriftina notum við gamla góða suðusúkkulaðið sem er alltaf nauðsynlegt að eiga til á hverju heimili að okkar mati. Suðusúkkulaðið frá Nóa hefur alltaf verið vegan og hentar því í hvaða vegan matargerð sem er, hvort sem það er bakstur, eftirrétti eða heitt súkkulaði til dæmis.

Páskadagur eru á morgun og fannst okkur því nauðsynlegt að deila með ykkur góðum eftirrétti sem væri fullkomin fyrir páskadag og því kom ekki annað til greina en að gera eftirrétt með súkkulaði. Við vildum að uppskriftin væri einföld og tæki ekki langan tíma þar sem það er nauðsynlegt að slaka á og gera sem minnst á páskadag að okkar mati. Músin inniheldur því fá hráefni sem einungis þarf að þeyta saman og bera fram.

Við ákváðum að hafa appelsínur og möndlur með í músinni til að gera hana ennþá betri á bragðið en okkur finnst appelsínur passa fullkomlega með súkkulaði. Það kemur ekkert smá vel út og gerir músina ferskari og skemmtilegri á bragðið. Það er þó alveg hægt að sleppa því og gera músina ennþá einfaldari. Hún bragðast alveg ótrúlega vel á báða máta.

Við vonum að ykkur líki uppskriftin vel og eins og alltaf megið þið endilega tagga okkur á Instagram ef þið eruð að gera uppskriftir frá okkur þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að fylgjast með.

Gleðilega páska!

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum

Dámasleg vegan súkkulaðimús með appelsínum og möndlum
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 Min: 10 Min
Dásamleg mjúk og loftkennd súkkulaðimús með appelsínukeim sem hentar fullkomlega sem eftirréttur við hvaða tilefni sem er.

Hráefni:

  • 1 ferna vegan þeytirjómi (250 ml)
  • 150 gr Síríus suðusúkkulaði frá Nóa Síríus
  • Safi úr 1/2 appelsínu
  • Börkur af 1/2 appelsínu
  • 1 dl sykur
  • 1/2 dl hakkaðar möndlur (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða með því að setja það í örbylgjuofn í 20 sekúndur í einu og hræra vel í á milli.
  2. Þeytið rjóman í hrærivél eða með handþeytara þar til stífþeyttur.
  3. Þeytið áfram á meðalhraða og bætið appelsínusafanum, berkinum og sykri út í á meðan.
  4. Hellið súkkulaðinu út í rjóman í mjórri bunu á meðan þið þeytið áfram á meðalhraða. Skafið meðfram hliðum og þeytið þar til allt er komið saman.
  5. Bætið hökkuðum möndlum út í og blandið þeim saman við músina með sleikju.
  6. Fínt er að leyfa músinni að sitja í ísskáp í allavega klukkutíma áður en hún er borin fram en þess þarf þó ekki.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur