Smjördeigsbökur með vegan ostum og vínberjasultu

Í dag deilum við með ykkur dásamlega góðum smjördeigsbökum með vegan fetaosti, rjómaosti, vínberjasultu, timían og balsamikediki. Skemmtilegar bökur sem gott er að bjóða uppá í veislunni, partýinu eða vínkvöldinu. Bökurnar henta t.d. vel við tilefni þar sem kex, ostar og sulta eru á boðstólnum. Blanda af söltu, sætu og súru. Fullkomið!

Hugmyndin að bökunum kom í síðustu viku þegar ég útbjó þeyttan fetaost. Ég tók fram gómsætu vínberjasultuna frá St. dalfour og smurði henni á kex með þeytta fetaostinum. Guðdómleg blanda. Færsla dagsins er einmitt í samstarfi við St. Dalfour og við erum ótrúlega spenntar fyrir því að vinna með þeim. Við höfum í mörg ár notað sulturnar þeirra við allskyns tilefni. Virkilega góðar gæðasultur. Nýlega komu á markað þrjár nýjar bragðtegundir og við ætlum á næstu vikum að kynna þær fyrir ykkur. Í dag kynnum við til leiks vínberjasultuna. Þar sem ég bý í Svíþjóð stendur Vindruva á sultukrukkunni en á sultunni heima stendur French grape.

Kex, vegan ostar og sulta. Eitthvað sem ég gæti borðað daglega. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og ákvað að nota smjördeig. Ég mæli eindregið með því að þið prófið. Þetta er svo dásamlega gott.

Keypt smjördeig er oftar en ekki vegan. Það inniheldur sjaldan smjör en þess í stað olíur. Það er því oftast laust við allar mjólkurafurðir. Það er þó mikilvægt að lesa vel á umbúðirnar til að vera viss.

Ég útbjó bökurnar í muffinsformi, eins og við gerum með hátíðarOumphið okkar. Það er bæði einfalt að útbua þær á þann hátt og líka þægilegt að vera þær fram. Auk ostanna og sultunnar setti ég í þær ferskt timían, ólífuolíu, balsamikedik, salt og pipar. NAMM!

Smjördeigsbökur með vegan fetaosti, rjómaosti og sultu

Hráefni:

  • 1 pakki vegan smjördeig, annaðhvort frosið eða upprúllað kælt

  • 1 krukka vínberjasulta frá St. Dalfour (Ath í verslunum á íslandi heitir bragðtegundin French grape)

  • 1 pakki vegan fetaostur

  • 1 dolla vegan rjómaostur

  • Ferskt timían

  • Ólífuolía

  • Balsamikedik

  • Salt og pipar

  • Vegan mjólk til að pennsla bökurnar með

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Takið smjördeigið úr frystinum og látið það þiðna svona nánast alveg. Það á að vera kallt ennþá samt þegar þið meðhöndlið það. Ef þið notið kælt deig, takið það út svona 5 mínútum áður en þið ætlið að nota það.

  3. Ef þið notið kælt deig, rúllið því út og skerið eins og ég gerði á myndinni að ofan. Ég fékk 9 bökur úr mínu deigi. Ef þið notið fryst mæli ég með því að fletja hverja plötu örlítið út og skipta henni svo í tvo ferninga.

  4. Leggið smjördeigið í muffinsform og fyllið. Ég setti 1 tsk rjómaost, 1 tsk fetaost, 1 tsk sultu, nokkra dropa af ólífuolíu, nokkra dropa af ediki, smá timían, salt og pipar í hverja. Það má auðvitað setja aðeins meira, ég þurfti að hafa í huga að þær yrðu fínar fyrir mynirnar. En ég mæli þó með að fylla þær ekki of mikið.

  5. Lokið bökunum með því að klípa saman hornin og pennslið með mjólkinni

  6. Bakið í 10-15 mínútur eða þar til þær eru gullinbrúnar. Látið kólna svolítið áður en þið berið fram.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið vel!

-Helga María

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-