Spæsí buffaló vöfflur með nöggum

Næsta laugardag, 25.mars er alþjóðlegi vöffludagurinn og því deilum við með ykkur í dag gómsætri útfærslu af vöfflum með spæsí buffaló nöggum, “ranch” sósu og fersku grænmeti.

Við erum í samstarfi með Hagkaup og því ákvað ég að fara og þangað og athuga úrvalið af vöfflujárnum. Þar sá ég að þau eru að selja vöfflujárnið sem ég var búin að dreyma um lengi en það er járn frá merkinu Wilfa, en það gerir fullkomnar, stórar vöfflur sem henta einstaklega vel í svona “matar”vöfflur.

Ég gerði hefðbundnu uppskriftina okkar af vöfflum sem klikkar aldrei og úr henni komu um það bil 6 stórar vöfflur. Ég ákvað að gera “ranch” dressingu sem er mild og bragðgóð með alls konar kryddjurtum en hún passar fullkomlega á móti buffaló sósunni sem ég notaði á naggana.

Ég ákvað að kaupa naggana frá merkinu peas of heaven en þeir eru soja lausir sem hentar einstaklega vel þar sem dóttir mín er með soja óþol. Það er hins vegar mjög mikið úrval af góðum vegan nöggum í Hagkaup og þessi uppskrift passar með flestum þeirra.

Uppskriftina af vöfflunum sjálfum má finna hér.

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum

Spæsí buffaló vöfflum með vegan nöggum
Fyrir: 3 stórar vöfflur
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 10 HourEldunartími: 16 Hour: 26 Hour
Einstaklega góðar "matar" vöfflur með spæsi buffaló nöggum, "ranch" sósu og grænmeti.

Hráefni:

Spæsí buffaló vöfflur
  • 3 vöfflur
  • 1 pakki Peas of heaven naggar
  • sirka 1 dl Frank RedHot wings buffaló sósa
  • "Ranch" sósa
  • Fersk salat
  • 1 avócadó
  • 1/2 rauðlaukur
  • Ferskur kóríander
  • Lime
Ranch sósa
  • 2 dl vegan majónes
  • 2 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 msk hvítlauksduft
  • 1 msk laukduft
  • 1 msk niðursaxaður graslaukur
  • 1 tsk dill
  • 1 tsk þurrkuð steinselja eða kóríander
  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Gerið vöffludeigið tilbúið
  2. Setjið naggana í ofninn við 200°C og bakið í 16 mínútur
  3. Útbúið "ranch" sósuna eftir uppskrift hér að neðan á meðan að naggarnir bakast
  4. Hitið vöfflujárnið vel og bakið síðan vöfflurnar
  5. Þegar naggarnir eru tilbúnir setjið þá í skál, hellið buffalósósunni yfir og veltið þeim vel upp úr henni.
  6. Skerið rauðlaukinn og avócadóið í þunnar sneiðar
  7. Setjið Ranch sósu, salat, rauðlauk, avócadó, nagga, ferskan kórander og lime sósu á hverja vöfflu.
Ranch sósa
  1. Saxið graslaukinn
  2. Hrærið öllu saman í skál og smakkið til salti og pipar
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Uppskriftin er unnin í samstarfi við Hagkaup -

 
 

Dásamlegar vegan vöfflur úr bókhveiti og höfrum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlegum vegan vöfflum úr bókhveiti og höfrum. Vöfflurnar eru frábær morgunmatur en á sama tíma fullkomnar að bjóða uppá með síðdegiskaffinu. Toppið með hverju sem ykkur lystir, sultu, rjóma, ávöxtum, jógúrt, hnetum eða ís. Leyfið hugmyndarfluginu að ráða.

Færsla dagsins er í samstarfi við Naturli á Íslandi og í vöfflurnar nota ég bæði vanillu jógúrtina og smjörlíkið frá þeim. Ég nota vörurnar frá Naturli mikið í bakstur og matargerð og finnst bæði smjörlíkið (vegan block) og smjörið (smörbar) bera af þegar kemur að vegan smjöri. Ég er því alltaf jafn stolt að fá að vinna með Naturli.

Undanfarið hef ég verið að prófa mig áfram með að baka úr öðrum tegundum af mjöli en einungins hefðbundu hveiti. Mér hefur þótt það virkilega skemmtilegt og þessar vöfflur komu einmitt úr einni slíkri tilraun. Ég mundi nefnilega að ég hafði fyrir mörgum árum fengið vöfflur á kaffihúsi gerðar úr bókhveiti og í gærmorgun ákvað ég að prófa að útbúa vöfflur úr haframjöli og bókhveiti og útkoman varð þessar virkilega góðu vöfflur sem ég borðaði í morgunmat áður en ég hafðist handa við að baka þær upp á nýtt og mynda ferlið fyrir ykkur.

Hvernig eru bókhveiti og hafravöfflur öðruvísi en þær sem gerðar eru úr hefðbundnu hveiti? Fyrir það fyrsta bragðast þær aðeins öðruvísi þar sem bæði haframjöl og bókhveiti smakkast öðruvísi en hvítt hveiti. Þó þær smakkist ekki nákvæmlega eins fannst mér þær ekki síðri. Ég fékk aðeins meiri “morgunverðarfíling” þegar ég borðaði þær og ætli það sé ekki vegna þess að við tengjum haframjöl oftast við morgunmat. Ég toppaði þær því ekki með sultu og rjóma heldur með jógúrt, hnetusmjöri og ávöxtum svo eitthvað sé nefnt. Ef þú ert frekar í stuði fyrir hefðbundnar vöfflur úr venjulegu hveiti erum við auðvitað með uppskrift af æðislega góðum vegan vöfflum hér.

Nú er haustið að koma, ég finn það. Laufin hérna í Piteå eru farin að skipta um lit og ég finn hvernig ég fyllist lífi í kjölfarið. Ég hlakka til að deila með ykkur gómsætum uppskriftum í haust og vetur. Ég veit ekki hvað það er, en mér finnst erfitt að finna innblástur í matargerð á sumarin. Mér finnst yfirhöfuð erfitt að finna fyrir innblæstri almennt á sumrin og finnst tíminn einhvernveginn standa í stað. Ég fagna því haustsins á hverju ári og finn að hugmyndir af matréttum og bakstri koma svífandi til mín. Hvaðan þær koma veit ég ekki, en ég þakka fyrir pent.

Þema haustsins hér á blogginu verður að miklu leyti matur eldaður frá grunni, matur sem nærir líkama og sál. Matarmiklir réttir stútfullir af grænmeti og baunum og minna af réttum úr tilbúnu vegan kjöti, þó það verði svo sannarlega til staðar líka. Við höfum síðustu ár lagt mikið upp úr að sýna öllum hversu einfalt og gott það er að elda og borða vegan mat. Það er, og hefur, alltaf verið eitt af okkar stóru markmiðum. Að gera mat sem hentar öllum, hvort sem viðkomandi er vegan eða ekki. Núna í haust viljum við leggja áherslu á að sýna ykkur hversu mikið grænmeti, baunir, tófú, kornvörur og önnu hráefni úr plönturíkinu hafa upp á að bjóða. Fjölbreytileikann sem grænmeti og baunir hafa. Og ekki nóg með það heldur eru það oft þau ódýrustu hráefnin.

En í dag eru það vöfflurnar sem eru í aðalhlutverki. Vöfflur sem ég myndi einmitt segja að næri líkama og sál. Vöfflur sem öll fjölskyldan getur notið í morgunmat og toppað með því sem hverjum og einum þykir best. Sjálf finnst mér best að hafa blöndu af: Sætu, söltu, rjómakenndu, fersku og stökku. Ég held að þetta eigi við um allt sem ég borða. Ferskar jurtir eru mikilvægur partur af öllum mínum máltíðum og ég toppa yfirleitt allan mat með einhverju stökku, hvort sem það eru fræ eða hnetur.

Til að uppfylla öll þessi skilyrði sem ég nefndi hér að ofan toppaði ég vöfflurnar með eftirfarandi:

Eplum og banönum: Sætt og ferskt
Jógúrt: Rjómakennt
Hnetusmjöri: Salt og rjómakennt
Ristuðum möndlum, heslihnetum, hempfræjum og ristuðum kókosflögum: Stökkt (hvaða hnetur og fræ hefðu virkað hérna, ég tók bara allskonar sem ég átti til uppi í skáp)
Kanil: Bara af því hann er svo góður!


Eins og ég segi er þetta eitthvað sem hægt er að leika sér endalaust með og ég mun kannski toppa þær með einhverju allt öðru þegar ég baka þær næst. Mér þætti gaman að heyra hvað þér þykir best á vöfflur?

Ég vona innilega að ykkur líki vöfflurnar og hlakka til að deila með ykkur góðum haustuppskrftum á næstu mánuðum. Endilega heyrið í okkur ef það er eitthvað sérstakt sem þið viljið sjá á blogginu, við tökum öllum hugmyndum fagnandi. Hafið það gott! <3

-Helga María

Iljandi vegan vöfflur úr bókhveiti og höfrum

Iljandi vegan vöfflur úr bókhveiti og höfrum
Fyrir: 2-4
Höfundur: Helga María
Þessar dásamlegu vöfflur eru frábær morgunmatur en á sama tíma fullkomnar að bjóða uppá með síðdegiskaffinu. Toppið með hverju sem ykkur lystir, sultu, rjóma, ávöxtum, jógúrt, hnetum eða ís. Leyfið hugmyndarfluginu að ráða.

Hráefni:

  • 100 g bókhveiti (sirka 2 dl)
  • 100 gr mulið haframjöl (sirka 2,5 dl)
  • 1 msk mulin hörfræ eða chiafræ
  • 2 tsk kanill
  • Hafsalt á hnífsoddi
  • 1/4 tsk vanilluduft (má skipta út fyrir vanilludropa)
  • 1 tsk lyftiduft
  • 3 dl vegan mjólk (má bæta við ef deigið er alveg ótrúlega þykkt, hafið samt í huga að þetta deig er þykkara en hefðbundið vöffludeig)
  • 2,5 dl Joe' kurt vanillujógúrt frá Naturli
  • 50 g vegan block smjörlíki frá Naturli
  • 2 msk hlynsíróp

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja haframjölið í matvinnsluvél eða blandara og myljið.
  2. Myljið hörfæin líka ef þið eigið bara til heil. Ég geri það yfirleitt í kaffikvörn en það virkar auðvitað að nota matvinnsluvél eða blandara.
  3. Setjið í skál ásamt restinni af þurrefnunum og hrærið saman.
  4. Bræðið smjörlíkið og leyfið því að kólna örlítið áður en þið bætið því saman við ásamt restinni af hráefnunum. Mér finnst gott að skilja eftir smá í botninum til að nota til að smyrja vöfflujárnið með. Bætið örlítilli mjólk saman við ef deigið er alveg virkilega þykkt. Passið samt að hræra ekki um of því við viljum ekki að vöfflurnar verði þurrar.
  5. Hitið vöfflujárnið og leyfið deiginu að standa á meðan.
  6. Smyrjið vöfflujárnið með smjörlíki og steikið hverja vöfflu í nokkrar mínútur eða þar til hún hefur fengið gylltan og fínan lit. Ég fékk úr uppskriftinni 4-5 vöfflur.
  7. Berið fram með því sem ykkur lystir.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við Naturli á Íslandi-

 
 

Gómsætar vegan vöfflur!

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að dásamlega góðum vegan vöfflum. Þær eru undursamlega stökkar að utan og dúnmjúkar að innan. Það gæti ekki verið auðveldara að skella í vegan vöffludeig og við LOFUM að þær hverfa ofan í mannskapinn á innan við fimmtán mínútum!

Ég elska vöfflur, bæði því mér þykir þær svo dásamlega góðar á bragðið, en líka vegna þess að ég elska að útbúa þær. Ef ég á von á gestum er ég fljót að taka fram vöfflujárnið og steikja nokkrar vöfflur til að bjóða upp á. Það krefst mjög lítillar fyrirhafnar þær og þær slá alltaf rækilega í gegn. Hver elskar ekki að vera boðið uppá nýsteiktar vöfflur?!

Það sem ég geri til að fá vöfflurnar stökkar að utan en mjúkar að innan er að ég nota sódavatn í vöffludeigið. Ég er svo sannarlega ekki að finna upp hjólið þarna heldur er þetta gamalt og gott ráð sem margir svíar nota. Mér finnst þetta gera vöfflurnar einstaklega góðar og mæli mikið með því að prufa.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Krónuna og þar fáið þið allt sem þið þurfið í uppskriftina. Þar er líka frábært úrval af góðum vegan þeytirjóma, vegan ís, vegan súkkulaði og fleiru gómsætu að toppa vöfflurnar með! Algjör snilld!

Hvað er gott á vöfflur?! ALLT myndi ég segja. Nei okei ég ætla að lista nokkur góð “combo”

  • Vegan þeyttur rjómi og rabbabarasulta - klassískt og gott!

  • Vegan vanilluís, vegan “nutella” og jarðarber. Hljómar örlítið klisjukennt en er virkilega gott. Kannski smá ristaðar heslihnetur ofan á???

  • Hnetusmjör, ristaður banani og kanelsykur eða hlynsíróp. Treystið mér!

  • Þeyttur vegan rjómi, fersk ber og hlynsíróp eins og á myndunum. SVO GOTT!

Vegan vöfflur

Hráefni:

  • 4 dl hveiti

  • 2 msk sykur

  • 1/2 tsk salt

  • 2 tsk lyftiduft

  • 4 dl vegan mjólk

  • 1 dl sódavatn

  • 1 tsk vanilludropar

  • 4 msk bráðið smjörlíki.

Aðferð:

  1. Sigtið þurrefnin í skál.

  2. Bætið blautu efnunum saman við fyrir utan sódavatnið. Reynið að hræra sem minnst því annars geta vöfflurnar orðið þurrar.

  3. Bætið sódavatninu saman við og hrærið eins lítið og mögulegt er.

  4. Steikið vöfflurnar þar til þær eru gylltar og fallegar

  5. Toppið með öllu sem ykkur þykir gott! Ég setti allskonar vegan ber, Þeytanlega rjómann frá Oatly og hlynsíróp.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel. Munið að tagga okkur á Instagram ef þið prufið uppskriftirnar okkar. Það gerir okkur alltaf jafn glaðar!

-Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og þar fáiði öll hráefni í þessa uppskrift-