Pinto-villisveppapylsur

Ég hélt Brunch um daginn og ákvað þrátt fyrir að mikið sé af vegan pylsum á markaðnum í dag, að gera mínar eigin. Þær komu ótrúlega vel út en þessa uppskrift má einnig nota í buff eða sem grænmetiskæfu ofan á brauð og kex. Það er hægt að gera stóra uppskrift og frysta pylsurnar eða buffin en mér finnst það ótrúlega þægilegt t.d. til þess að grípa með mér í nesti þegar ekki hefur gefist mikill tími í að útbúa eitthvað annað.

Hráefni:

 • 2 dósir pintobaunir (480 gr eftir að vatnið er tekið frá)
 • 2 msk olía 
 • 1 bolli frosnir villisveppir (mælt áður en þeir eru steiktir)
 • 1/2 meðalstór laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 3 sólþurrkaðir tómatar
 • 1 msk franskar jurtir (herbs de provence krydd)
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • salt og pipar eftir smekk
 • 2 dl hveitiglútein eða malað haframjöl (því er sleppt ef gera á grænmetiskæfu)

Aðferð:

 1. Steikið laukinn, sveppina og hvítlaukinn upp úr olíunni í góðan tíma.
 2. Setjið allt nema hveitiglúteinið eða haframjölið í blandara eða matvinnsluvél og vinnið saman þar til vel blandað. 
 3. Hrærið hveitiglúteininu eða haframjölinu út í með sleif.
 4. Mótið pylsur, bollur eða buff og bakið við 180°C í 20-25 mínútur. 

Afmælis brunch + tvær uppskriftir

Ég átti 21. árs afmæli í vikunni og ákvað að bjóða vinum mínum í smá brunch um helgina. Ég var búin að ákveða fyrir löngu að halda upp á afmælið mitt þar sem ég hef ekki gert það í mörg ár. Ég ætlaði að halda partý og bjóða öllum og hafa rosa gaman en þar sem ég er alls ekki djamm manneskja hætti ég fljótt við það þegar ég fór að hugsa þetta betur. Ég alveg elska að elda eins og þið vitið líklegast öll en það sem mér finnst eiginlega ennþá skemmtilegra er að leyfið öðrum að njóta með mér. Ég ákvað því að bjóða þeim í brunch þar sem að það er svo rosalega vinsælt hjá öllum núna.

Mér fannst tilvalið að gera smá bloggfærslu úr þessu til þess að sýna ykkur að það er ekkert mál að gera risastóran og góðan brunch með alls konar góðgæti þó maður sé vegan. Engin af vinum mínum sem komu er vegan en auðvitað var allt sem var í boði vegan og þeim fannst þetta ótrúlega gott og söknuðu einskis. Það þarf því engin að vera hræddur við að bjóða bara uppá vegan bakkelsi í boðum þar sem að lang flestir eru ekki einu sinni að fara að átta sig á því! Ég ætla því að deila með ykkur því sem ég bauð upp á ásamt tveimur uppskriftum.

 

Matseðilinn í afmælis brunchinum var eftirfarandi:

Amerískar pönnukökur m/bönunum, jarðaberjum og sírópi
Heimabakað brauð
Fræbrauð
Hummus & Pestó
Kasjú ostakaka
Bakaðar baunir
Pinto-villisveppapylsur
Gulrótarmuffis
Súkkulaðimuffins
Vatsmelónur & appelsínur

Epla og engifer safi
Appelsínusafi
Súkkulaði haframjólk

Hér fyrir neðan ætla ég að deila með ykkur uppskriftunum af pinto-villisveppapylsum og mjög einföldu heimabökuðu brauði.

Ernubrauð

Erna er í tengdafjölskyldunni minni en hún á heiðurinn af þessu brauði. Þetta brauð er svo ótrúlega einfalt og gott að það er bakaðr fyrir hverja einustu veislu í jfölskyldunni. Það er hægt að leika sér með það eins og hugurinn girnist en ég set oft ólífur og sólþurrkaðar tómata í það eða hvítlauk. Hérna kemur uppskrift af hinu hefðbundna brauði en hægt er að bæta við eftir eigin höfði.

Hráefni:

 • 1/2 lítri volgt vatn
 • 3 tsk þurrger
 • 1 msk salt
 • 600 gr hveiti
 • olía og gróft salt til að smyrja

Aðferð:

 1. Setjið volgt vatn í skál og dreyfið þurrgerinu yfir. Leyfið þessu að standa í 5 mínútur áður en haldið er lengra.
 2. Bætið hveitinu og saltinu útí. (Ef setja á eitthvað fleira í brauðið er best að bæta því útí á þessu stigi, áður en deigið er hrært saman.)
 3. Hrærið deigið með sleif þar til hveitið er alveg blandað, sem sagt ekkert þurrt hveiti eftir. Setjið plastfilmu eða poka yfir skálina og leyfið henni að standa í ísskáp í 8 klukkustundir eða yfir nótt.
 4. Hellið deiginu beint á plötu, smyrjið með olíu og dreyfið vel af salti yfir. Bakið við 200°C í 50 mínútur eða þar til brauðið er gullið að ofan.

Pinto-villisveppapylsur

Ég ákvað þrátt fyrir að mikið sé af vegan pylsum á markaðnum í dag, að gera mínar eigin. Þær komu ótrúlega vel út en þessa uppskrift má einnig nota í buff eða sem grænmetiskæfu ofan á brauð og kex. Það er hægt að gera stóra uppskrift og frysta pylsurnar eða buffin en mér finnst það ótrúlega þægilegt t.d. til þess að grípa með mér í nesti þegar ekki hefur gefist mikill tími í að útbúa eitthvað annað.

Hráefni:

 • 2 dósir pintobaunir (480 gr eftir að vatnið er tekið frá)
 • 2 msk olía 
 • 1 bolli frosnir villisveppir (mælt áður en þeir eru steiktir)
 • 1/2 meðalstór laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 3 sólþurrkaðir tómatar
 • 1 msk franskar jurtir (herbs de provence krydd)
 • 1 msk grænmetiskraftur
 • salt og pipar eftir smekk
 • 2 dl hveitiglútein eða malað haframjöl (því er sleppt ef gera á grænmetiskæfu)

Aðferð:

 1. Steikið laukinn, sveppina og hvítlaukinn upp úr olíunni í góðan tíma.
 2. Setjið allt nema hveitiglúteinið eða haframjölið í blandara eða matvinnsluvél og vinnið saman þar til vel blandað. 
 3. Hrærið hveitiglúteininu eða haframjölinu út í með sleif.
 4. Mótið pylsur, bollur eða buff og bakið við 180°C í 20-25 mínútur. 

Takk fyrir mig
-Júlía Sif

Fjórir auðveldir chia-grautar

Mér finnst ótrúlega þægilegt að gera mér chia-graut á kvöldin til að taka með mér í vinnuna daginn eftir. Það er svolítið síðan ég byrjaði að búa mér til grauta en fyrst um sinn flækti ég það mikið fyrir mér og grautarnir innihéldu mörg hráefni. Síðan þá hef ég þróað þá mikið og ákvað ég að deila með ykkur hversu einföld uppskriftin er orðin. Hver grautur inniheldur einungis þrjú hráefni. Það eru á markaðnum í dag alls konar tegudnri af plöntumjólk með alls konar mismunandi bragði. Mér finnst tilvalið að nota bragðbætta mjólk í grautinn minn til að auðvelda fjölbreyttni, en þá fæ ég ekki leið á grautnum. Ég ákvað að nota uppáhalds mjólkina mína í þetta skiptið en það er haframjólkin frá sænska merkinu Oatly.

Hefðbundni grauturinn

Þessi grautur er æðislegur og ótrúlega hollur. Vanillan er alls ekki nauðsynleg en hún gerir mjög gott bragð sem passar æðislega við peruna.

Hráefni:

 • 3 msk chiafræ
 • 250 ml Oatly haframjólk
 • Örlítið af lífrænni vanillu (má sleppa)
 • 1/2 pera

Aðferð:

 1. Hrærið saman chiafræunum, mjólkinni og vanillunni. 
 2. Skerið peruna í litla bita og bætið út í.
 3. Leyfið grautnum að sitja í allavega 30 mínútur í ísskáp áður en hann er borðaður. Ég geri minn á kvöldin og læt að bíða í ísskáp yfir nóttina.

 

Bleiki grauturinn

Ótrúlega góður grautur en það að hann sé bleikur gerir hann ennþá betri. 

Hráefni:

 • 3 msk chiafræ
 • 1 ferna Oatly jarðaberja drykkjarjógúrt
 • 1/2 - 1 epli

Aðferð:

 1. Hrærið saman chiafræunum og jógúrtinni
 2. Skerið eplið í litla bita og bætið út í.
 3. Leyfið grautnum að sitja í ísskáp í minns 30 mínútur. Ég geri minn á kvöldin og hef hann í ísskápnum yfir nótt.

 

 

 

Suðræni grauturinn

Þessi er uppáhalds grauturinn minn en ég er mjög mikið fyrir mangó. Hann bókstaflega kitlar bragðlaukana.

Hráefni:

 • 3 msk chiafræ
 • 1 ferna Oatly mangó og appelsínu drykkjarjógúrt (230 ml)
 • 1/2 mangó

Aðferð:

 1. Hrærið saman chiafræunum og drykkjarjógúrtinni
 2. Skerið mangóið í litla bita og setjið út í
 3. Leyfið grautnum að sitja í minnst 30 mín í ísskáp. Ég geri minn á kvöldið og leyfi honum að sitja yfir nótt.

 

 

Helgar grauturinn

Þessi grautur er tilvalinn fyrir laugardagsmorgnanna þar sem manni líður bókstaflega eins og maður sé að borða súkkulaðibúðing. Mér finnst súkkulaði og bananar passa fullkomlega saman og þess vegna toppaði ég hann með niðurskornum banana.

Hráefni:

 • 3 msk chiafræ
 • 250 ml Oatly súkkulaðimjólk
 • 1/2 - 1 banani

Aðferð:

 1. Hrærið saman chiafræunum og mjólkinni.
 2. skerið bananan í litla bita og blandið saman við
 3. Leyfið grautnum að sitja í að minnsta kosti 30 mínútur eða yfir nótt.

Amerískar pönnukökur

Okkur þykir fátt betra en nýbakaðar pönnukökur á sunnudagsmorgnum. Það er eitthvað svo yndislegt við það að vakna og skella í þessar einföldu og gómsætu pönnsur. Þessi uppskrift er skothelld og fljótleg. Við höfum prófað allskonar uppskriftir en endum alltaf aftur á þessari því okkur þykir hun einfaldlega best. 

Eins og flestar uppskriftirnar okkar eru þessar pönnsur virkilega einfaldar. Bragðið gefur samt ekkert eftir, þær eru fullkomlega "fluffy" og bragðgóðar. Við bökum þær við allskonar tilefni. Þær eru frábærar sem morgunmatur einar og sér, eða jafnvel bara miðdegishressing. Þær fullkomna sunnudagsbrönsinn og eru meira að segja góðar sem eftirréttur með vegan ís og súkkulaðisósu. 

Það er misjafnt með hverju við berum pönnsurnar fram. Ef þær eru partur af bröns er einfaldlega best að hafa á þeim hlynsíróp. Við aðrar aðstæður fær hugmyndaflugið að ráða. Júlíu finnst algjört möst að hafa banana á sínum pönnsum en Helga er mikið fyrir allskonar ber. Í þetta skipti ákvað ég að skella allskonar dóti á þær og ég held þær hafi aldrei smakkast betur. 

Ég setti á þær:
Hlynsíróp
Ichoc súkkulaði sem ég skar niður
Hindber
Og kókosmjöl

Hráefni:

 • 2 bollar hveiti
 • 2 msk sykur
 • 4 tsk lyftiduft
 • Smá salt
 • 2 bollar haframjólk - eða önnur jurtamjólk
 • 4 msk olía
 • 1 tsk vanilludropar eða vanillusykur

Aðferð:

 1. Byrjið á því að hita smá olíu á pönnu við meðalhita
 2. Blandið þurrefnum saman í stóra skál
 3. Bætið mjólkinni, olíunni og vanilludropunum útí skálina og hrærið þar til engir kekkir eru
 4. Steikið pönnukökur úr deiginu, sirka 2-3 mínútur á hvorri hlið
 5. Berið fram með því sem ykkur lystir.

Vona að þið njótið

Helga María

Smoothie skál

Þegar fer að vora minnkar löngunin í heitan hafragraut í morgunmatinn. Ég er mikill aðdáandi ávaxta og mér þykir æðislegt að útbúa gómsæta smoothie skál og toppa hana með hnetum, fræjum og öðru góðgæti. Mér finnst mikilvægt að festast ekki í því sama svo ég er dugleg að breyta til. 

Innihald:
1 frosinn banani
5 fersk jarðarber
lúka af frosnum berjum að eigin vali, það er líka gott að setja örlítið af frosnu mangó

1 dl kókosmjólk

Ég skellti öllu í blandarann og helti svo í skál. 

Þegar kemur að því að ákveða hvernig ég skreyti smoothie skálina er tvennt sem ræður úrslitum, hugmyndaflugið og hvaða hráefni ég á til hverju sinni. Í þetta sinn sneiddi ég niður banana, skar niður jarðarber og raðaði í skálina ásamt kókosmjöli, möluðum hörfræjum og muldum möndlum. Þið verðið að finna út hvað ykkur þykir best, möguleikarnir eru endalausir. Hvort sem það er granola, kiwi, mangó, appelsínur, vínber, chia fræ, kókosflögur, fleiri ber eða t.d ananas, ég get eiginlega lofað því að það mun koma vel út. 

Helga María


´
 

Vegan ommelettur

 

Nýlega uppgvötaði ég að það er hægt að útbúa ommelettur úr kjúklingabaunahveiti.
Það halda líklega margir að þegar maður gerist vegan taki maður út úr matarræðinu allt það sem gefur lífinu gleði og endi sem líflaus, myglaður og dapur einstaklingur með litlausa húð og hor í nös.
Ég viðurkenni það alveg að svoleiðis hugsaði ég líka áður. Þegar ég gerðist vegan hélt ég að nú þyrfti ég að lifa á þurru byggi og spínati. Það var mér því mikill léttir þegar ég áttaði mig á því hvað ég hafði ótrúlega rangt fyrir mér. Ég hætti að borða þurrt bygg og ég eiginlega hef ekki getað borðað bygg síðan þó liðin séu hátt í fimm ár.
Það hvarflaði ekki að mér að þegar ég tæki eitthvað úr matarræðinu gæti ég yfirleitt alltaf fundið eitthvað sem kæmi í staðinn. Ég áttaði mig heldur ekki á því hvað ég myndi taka inn gríðarlega mikið af hráefnum í eldamennskuna sem mér hefði aldrei dottið í hug að nota áður fyrr. Dæmi um svoleiðis hráefni er kjúklingabaunahveiti. Ég hefði ekki fyrir mitt litla líf geta svarað því í hvað hægt væri að nota hveiti úr baunum. ,,Í súkkulaðiköku?? Nei takk!”

Það var svo um daginn að ég fór að prófa mig áfram með vegan ommelettugerð. Nú hef ég ekki borðað ommelettur síðan 2011 og aldrei saknað þeirra neitt svaðalega en mér fannst tilhugsunin um vegan ommelettur alveg svolítið spennandi.  Þær eru hollar, bragðgóðar og hægt að leika sér mikið með uppskriftina. Ég er farin að búa þær til oft í viku því það er svo grátlega auðvelt og fljótlegt.

Sum hráefnanna gætu hrætt ykkur í fyrstu, en treystið mér, þau bíta ekki!

Innihald:
1 bolli kjúklingabaunahveiti (fæst í Nettó)
1 höregg eða chiaegg (Aðferð útskýrð að neðan)
1 tsk eplaedik
1 tsk lyftiduft
½  tsk cumin
½  tsk paprika
1 tsk kala namak (Okei, þetta er indverskt salt, oft kallað svart salt, en er samt bleikt á litinn. Þetta salt er aaalveg eins og egg á bragðið, trúið mér, líkindin eru fáránleg. Ég bý í Svíþjóð svo ég er ekki viss hvar þetta salt fæst á Íslandi, en ég myndi giska á víetnamska markaðinn eða búðir í svipuðum dúr. Annars er hægt að panta það á netinu. Ef þið nennið ekki að þeysast um bæinn í leit að skrítnu salti og hafið engan áhuga á að versla það á netinu er ekkert mál að sleppa því, ommeletturnar verða samt ótrúlega góðar. Ég mæli samt með því að þið prófið!)
Salt og pipar eftir smekk
Vatn (Ég hef aldrei mælt það sérstaklega hversu mikið vatn ég set, en ég set smá og smá í einu þar til deigið er orðið svipað pönnukökudeigi.)

Aðferð:
1. Fyrst bý ég til höreggið. Það geri ég með því að blanda 1 msk af muldum hörfræjum saman við 3 msk af vatni og leyfa því að standa í 5 mínútur eða þar til áferðin á blöndunni minnir svolítið á gel.

2. Á meðan ég læt höreggið þykkna blanda ég saman þurrefnunum í stóra skál. Ég set yfirleitt meira af cumin og papriku en þessar ½ tsk en það er bara vegna þess að ég er brjáluð í kryddaðan mat. Ég meira að segja bæti oft allskonar kryddum útí og það kemur alltaf sjúklega vel út. Best er að byrja á því að setja minna frekar en meira og fikra sig svo áfram.

3. Þegar höreggið er orðið þykkt hræri ég því saman við þurrefnin ásamat vatninu. Deigið á að vera svona eins og pönnukökudeig. Ekki of þunnt samt því ommeletturnar eiga ekki að vera eins þunnar og t.d íslenskar pönnukökur.

4. Ég hita pönnu á meðalhita með örlítilli olíu og steiki ommeletturnar eins og pönnukökur. Á annarri pönnu steiki ég svo það grænmeti sem mér dettur í hug að hverju sinni og nota sem fyllingu. Það er algjörlega misjafnt eftir dögum hvað ég set og hvernig ég krydda það. Mér finnst einfaldlega best að nota bara allt það sem ég á til í ísskápnum.

Ég mæli með því að þið prófið þetta, hvort sem þið eruð vegan eða ekki, það er nefnilega alltaf gaman að breyta til og prófa eitthvað nýtt og spennandi.

Njótið
Helga María

Chia grautur

Yndislegur chiagrautur sem bragðast eins og eftirréttur en er súper hollur! Ég blandaði saman 2 msk af chia fræjum, nokkrum dropum af lífrænum vanilludropum og 1,5 dl möndlumjólk og lét það standa í sirka hálftíma. Á meðan setti ég nokkur frosin kirsuber í pott og mýkti þau vel, bætti þeim svo ofan á grautinn ásamt kanil. Ótrúlega gott og stútfullt af næringu

 

Gómsætur helgarbrunch

Þegar maður er uppí bústað er nauðsynlegt að gera vel við sig. Á þvi er engin undantekning þessa helgina. Við vöknuðum eldhress í morgun og ákváðum að útbúa brunch. Ég gerði tófuhræru á meðan Siggi steikti pönnukökur. Við skelltum pylsum frá Lindu McCartney í ofninn (fást í Iceland), hituðum bakaðar baunir og steiktum sveppi uppúr hvítlauksolíu. Að lokum hrærði ég í súkkulaðiglassúr sem við höfðum með pönnukökunum. 

Tófuhræra: 
Ég byrjaði á því að mylja eitt tófústykki ofan í sigti og leyfði því að sitja í smá stund.

Á meðan hitaði ég olíu á pönnu og byrjaði að steikja grænmetið. Í þetta skipti notaði ég einn lítinn haus brokkólí, einn lítinn blaðlauk og eina rauða papriku. 

Næst helti ég tófúinu úti og hrærði saman. 

Ég kryddaði með 1 tsk hvítlauksdufti, 1/2 tsk turmerik, 1/2 tsk cumin, 1/2 tsk chili dufti, 1 msk næringargeri og saltaði eftir smekk. 

Ég leyfði hrærunni að malla á pönnunni í sirka 10 mínútur.

Á meðan steikti siggi pönnukökurnar og uppskriftin af þeim er hérna http://www.helgamaria.com/2014/05/ameriskar-ponnukokur.html