Hátíðlegar morgunverðarbökur úr smjördeigi

IMG_0147.jpg

Nú er innan við vika í að jólin gangi í garð og í nótt fljúgum við Siggi til Noregs og eyðum jólunum með fjölskyldunni hans. Við erum orðin svakalega spennt að komast í smá jólafrí saman eftir annasamt haust. Ég er ekki byrjuð að pakka, en það var mér mikilvægt að koma þessarri færslu frá mér áður en við förum. Ég ætla nefnilega að deila með ykkur uppskrift af dásamlegum fylltum morgunverðarbökum úr smjördeigi sem eru fullkomnar í jólabrönsinn.

IMG_0119.jpg

Ég var búin að ákveða að útbúa einhverja uppskrift með smjördeigi fyrir jólin en var ekki alveg viss hvað ég vildi gera. Við erum nú þegar með geggjaða uppskrift af innbökuðu Oumph! hérna á blogginu og sveppawellington í bókinni okkar. Eins er fjöldinn allur af geggjuðum hugmyndum af wellington á netinu og það er hægt að kaupa nokkrar tegundir tilbúnar. Mér fannst því meira spennandi að gera eitthvað annað en hefðbundinn aðalrétt fyrir jólin. Mér datt í hug að útbúa eitthvað gott og hátíðlegt sem væri hugsað sem morgunmatur/hádegismatur yfir hátíðirnar. Í bökunum eru steiktar kartöflur, tófúhræra, Oumph! og bechamel sósa.

IMG_0123.jpg

Ég prufukeyrði uppskriftina um daginn og sýndi aðeins frá því í Instastory. Þar spurði ég fylgjendur okkar hvaða meðlæti þeim dytti í hug að væri gott með bökunum. Flestir stungu uppá hefðbundnu bröns meðlæti og svo fékk ég allskonar nýjar og skemmtilegar hugmyndir líka. Að lokum sá ég að það skiptir í raun ekki miklu máli hvaða meðlæti ég hef í færslunni, því það er misjafnt hvað fólki þykir gott. Ég ákvað að hafa þetta svolítið eins og stóran og góðan bröns og það var fullkomið.

Í þetta skiptið notaði ég upprúllað kælt smjördeig þar sem ég fann hvergi fryst vegan smjördeig hérna í Piteå. Á Íslandi er þó held ég auðveldara að finna það í frysti en ég hef þó rekist á vegan smjördeig í kæli í Hagkaup. flest keypt smjördeig er vegan því það inniheldur smjörlíki en ekki smjör en það er mikilvægt að lesa á pakkann. Þau merki sem ég veit að fást á Íslandi og eru vegan eru Findus og TC bröd. Það eru örugglega til fleiri tegundir sem ég man ekki eftir.

IMG_0132.jpg

Ég elska að gera smjördeigsbökur í möffinsskúffu. Það er bæði þægilegt að útbúa þær og skemmtilegt að bera þær fram. Það er pottþétt hægt að gera þær fallegri en mér finnst það skipta litlu máli og eiginlega bara betra að hafa þær heimilislegar og fínar.

IMG_0135.jpg

Þetta verður síðasta uppskriftin okkar núna fyrir jólin en ég ælta að gera mitt allra besta að gefa ykkur eina uppskrift á milli jóla og nýárs af desert sem er geggjaður fyrir gamlárskvöld. Við erum með nokkrar uppskriftir á blogginu sem gætu verið góðar sem eftirréttir en svo erum við með uppskrift af risalamande og súkkulaðibúðing í bókinni okkar sem eru hinir fullkomnu hátíðareftirréttir. En eins og ég segi ætla ég að reyna að birta eina fyrir gamlárskvöld.

IMG_0143.jpg

Ég flýg svo til Íslands í byrjun janúar og ég get ekki beðið eftir því að koma heim og halda útgáfuhóf fyrir bókina og gera allskonar skemmtilegt með Júlíu í tilefni veganúar. Við erum ekkert smá spenntar fyrir komandi tímum!

Morgunverðarbökur - 12 bökur

  • 6 plötur fryst smjördeig (2 stykki upprúllað smjördeig ef þið kaupið svoleiðis)

  • 1 pakki Oumph! - Ég notaði garlic & thyme

  • 1 tsk liquid smoke (má sleppa en ég mæli með að hafa það með)

  • 300 gr kartöflur

  • Olía til steikingar

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Tófúhræra (uppskrift hér að neðan)

  • Bechamelsósa (uppskrift hér að neðan

Aðferð:

  1. Takið Oumph úr frystinum og leyfið því að þiðna þar til hægt er að skera það í litla bita.

  2. Skrælið kartöflurnar og skerið í litla bita.

  3. Hitið olíu á tveimur pönnum. Ef þið eigið bara eina pönnu geriði þetta hvort á eftir öðru.

  4. Steikið kartöflurnar þar til þær eru mjúkar í gegn. Saltið þær og passið að fylgjast vel með þeim því kartöflur eiga það til að festast svolítið við pönnuna. Takið kartöflurnar af pönnunni og leggið til hliðar þegar þær eru tilbúnar.

  5. Steikið á meðan Oumph uppúr olíu og bætið á pönnuna salti og liquid smoke. Takið af pönnunni og leggið til hliðar þegar bitarnir eru eldaðir í gegn. Ekki þrífa pönnuna.

  6. Bætið aðeins meira af olíu á pönnuna sem þið steiktuð Oumph á og útbúið tófúhræru eftir leiðbeiningunum að neðan.

  7. Útbúið bechamelsósuna eftir leiðbeiningum hér að neðan.

  8. Blandið tófúhrærunni, Oumphinu, kartöflunum og sósunni saman í stóra skál. Saltið ef þarf. Ég salta allt frekar vel á meðan ég geri það og vil hafa þessa blöndu bragðmikla og góða.

  9. Ef þið notið fryst smjördeig mæli ég með að taka það út þannig plöturnar nái að þiðna svolítið áður en það er notað. Þó eiga þær ekki að vera orðnar alveg þiðnar því þá er erfiðara að vinna með smjördeigið. Það er svolítið erfitt að útskýra en þið munuð skilja þegar þið byrjið að vinna með þetta. fletjið hverja plötu aðeins út og skerið í tvennt þannig úr komi tveir ferhyrningar. Ef þið notið upprúllað kælt deig rúllið það út og skerið fyrst í tvennt langsum og svo í þrennt þannig úr komi sex kassar. Þið sjáið á einni af myndunum fyrir ofan hvernig ég gerði. Uppskriftin af fyllingunni passar í 12 bökur.

  10. Bakið við 200°c í 20 mínútur eða þar til þetta er orðið fallega gyllt að ofan.

Tófúhræra

  • 1 pakki tófú (sirka 400-450 gr)

  • olía til steikingar

  • 1 tsk hvítlauskduft

  • 1 tsk laukduft

  • 1/2 tsk túrmerik

  • 1/2 tsk paprikuduft

  • 1/2 teningur sveppakraftur

  • 3 msk vatn eða sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið olíu á pönnu.

  2. Opnið tófúið og helið vatninu af því. Myljið tófúið á pönnuna.

  3. Bætið við restinni af hráefnunum og blandið vel saman.

  4. Smakkið til og bætið við kryddum ef þarf.

Bechamelsósa

  • 2 msk smjörlíki

  • 2 msk hveiti

  • 3-4 dl ósæt sojamjólk

  • 2-3 msk næringarger

  • Örlítið af hvítum pipar

  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Setið smjörlíki í pott og bræðið.

  2. Bætið hveiti saman við og hrærið vel saman með písk.

  3. Hellið mjólkinni út í 1 dl í einu og hrærið vel á milli.

  4. Bætið næringargeri og kryddum út í og smakkið til.

Hugmyndir af meðlæti:

  • Sveppir steiktir uppúr olíu, hvítlauk og salti

  • Tómatar bakaðir í ofni með olíu, timían, rósmarín, grófu salti og svörtum pipar

  • Bakaðar baunir

  • Klettasalat

  • Vínber

  • Heimagerður kryddostur

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel

-Veganistur