Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, marmelaði og ávöxtum

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að jógúrtskál með heimagerðu granóla, kókosjógúrt, mangó- og ástaraldinmarmelaði og ferskum ávöxtum. Þetta er tilvalinn morgunmatur og passar einnig vel sem millimál þar sem í skálinni, eða glasinu í þessu tilfelli, er gríðarlegt magn af gómsætum og næringarríkum hráefnum. Granólað inniheldur meðal annars haframjöl, hnetur, möndlusmjör og hlynsíróp og kókosjógúrtin er virkilega mettandi og góð. Marmelaðið og ávextirnir gefa síðan ferska og góða sætu.

Færsla dagsins er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og í jógúrtskálina notaði ég mangó- og ástaraldinmarmelaðið þeirra. Eitt af því sem ég elska mest við St. Dalfour marmelaðið, fyrir utan bragðið að sjálfsögðu, er að það inniheldur ekta ávexti og engan hvítan sykur. Ég kaupi það miklu frekar en hefðbundna sultu því mér finnst það mun ferskara og betra. Þess vegna er ég svo stolt af því að fá að vinna með þeim.

Við borðum jú með augunum og þess vegna finnst mér skemmtilegt að bera einfaldan morgunverð sem þennan fram á fallegan og skemmtilegan hátt. Áttu von á gestum í brunch? Þá er fullkomið að útbúa litlar skálar eða glös af jógúrt, granóla, marmelaði og ávöxtum. Það er fullkomið til að gefa smá ferskleika á móti restinni af brunchinum, sem oft er svolítið djúsí.

Vantar þig fleiri hugmyndir fyrir brunchinn? Prófaðu þá eftirfarandi:

Döðlupestó og pestósnúðar

Gósmætt kjúklingabaunasalat

Bestu vegan vöfflurnar

Vegan pylsuhorn

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin. Endilega taggaðu okkur á Instagram og skrifaðu athugasemd hér undir ef þú prófar. Við elskum að heyra frá ykkur! <3

-Helga María

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, mangó- og ástaralaldinmarmelaði og ávöxtum

Vegan jógúrtskál með heimagerðu granóla, mangó- og ástaralaldinmarmelaði og ávöxtum
Höfundur: Helga María
Geggjuð jógúrtskál með heimagerðu granóla, kókosjógúrt, mangó- og ástaraldinmarmelaði og ferskum ávöxtum. Þetta er tilvalinn morgunmatur og passar einnig vel sem millimál þar sem í skálinni, eða glasinu í þessu tilfelli, er gríðarlegt magn af gómsætum og næringarríkum hráefnum.

Hráefni:

Jógúrtskál með granóla, marmelaði og ávöxtum
  • Kóksjógúrt
  • Granóla - heimagert eða keypt (uppskrift hér að neðan)
  • Mangó- og ástaraldinmarmelaði frá St. Dalfour
  • Ferskir ávextir eftir smekk. Ég notaði mangó, kiwi og ferskjur. Ég toppaði svo með ristuðum kókosflögum.
Heimagert granóla
  • 4 dl haframjöl
  • 3 dl hnetur að eigin vali (ég notaði möndlur, heslihnetur og pistasíuhnetur)
  • 1 dl kókosmjöl
  • 1 dl niðurskornar döðlur
  • 2 kúfaðar msk kókosolía
  • 1 kúfuð matskeið möndlusmjör
  • 1,25 dl hlynsíróp
  • smá salt

Aðferð:

Jógúrtskál með granóla, marmelaði og ávöxtum
  1. Berið annaðhvort fram í skál eða gerið eins og ég og setjið lög af öllu í skál eða glas og toppið með ávöxtum.
Granóla
  1. Hitið ofninn í 150°c
  2. Skerið hneturnar niður og setjið á skál með haframjöli og kókosmjöli.
  3. Setjið kókosolíu, möndlusmjör, hlynsíróp og smá salt í pott og hitið og hrærið í þar til það hefur bráðnað saman.
  4. Bætið út í skálina og hrærið saman við þurrefnin með sleif eða sleikju.
  5. Skerið döðlurnar niður og hrærið saman við.
  6. Bakið í 15 mínútur og hrærið þá varlega saman til að viðhalda "klumpum" í granólanu.
  7. Bakið í 5-10 mínútur í viðbót og takið svo út og látið kólna.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Uppskriftin er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

 
 

Vegan ostakökueftirréttur með mangó og ástaraldin

Vegan ostakökueftiréttur með mangó- och ástaraldin. Einfaldur, bragðgóður og skemmtilegur eftirréttur að bjóða uppá í matarboði eða við önnur tilefni. Ég ber hann fram í fallegum glösum sem gerir það að bæði er auðvelt að útbúa hann og þægilegt að borða.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi og ég notaði gómsæta mangó- og ástaraldinmarmelaðið þeirra í eftirréttinn. Marmelaðið er ótrúlega gott og gaf ferskleikann sem passaði fullkomlega með ostakökunni sem annars er mjög sæt. Við elskum sulturnar frá St. Dalfour. Hágæða vörur með skemmtilegum bragðtegundum sem bjóða uppá skemmtilega möguleika.

Botninn er úr digestive kexi og hann gefur eftirréttinum seltu svo saman myndar hvert lag æðislegan “balans”. Eftirréttinn er hægt að setja í glös eða litlar skálar og kæla en það er líka hægt að setja hann í form og frysta og gera þá sem frysta ostaköku. Við erum nú þegar með nokkrar uppskriftir af slíkum kökum.

Til að hafa þetta sem einfaldast og þægilegast ákvað ég að gera svona kældan eftirrétt. Eitthvað sem hægt er að gera með stuttum fyrirvara og sem þægilegt er að bera fram.

Þessi eftirréttur er virkilega braðgóður. Þetta er líka tilvalin uppskrift að senda á fjölskyldu og vini sem halda að það sé erfitt að gera vegan eftirrétti. Þetta gæti ekki verið einfaldara!

Sjáiði bara hversu fallegur hann er. Við borðum jú fyrst með augunum er það ekki?! :D

Vegan ostakökueftirréttur með mangó- og ástaraldinmarmelaði (3-4 skammtar)

Hráefni:

  • 200 gr. Digestive kex

  • 100 gr. smjörlíki

  • 1.5 dl vegan vanillusósa

  • 1.5 dl vegan þeytirjómi

  • 150-250 gr vegan rjómaostur (sumir eru 150 og aðrir 250 og það virkar að nota einn bara)

  • 2 msk vanillusykur

  • 1 dl sykur

  • 1 krukka mangó og ástaraldinmarmelaði frá St. Dalfour

Aðferð:

  1. Bræðið smjörlíkið.

  2. Myljið kexið í matvinnsluvél og blandið smjörlíkinu út í. Leggið til hliðar.

  3. Þeytið rjómann og vanillusósuna saman og leggið til hliðar.

  4. Þeytið í annarri skál rjómaostinn, sykurinn og vanillusykurinn.

  5. Blandið rjómaostablöndunni varlega saman við þeytta rjómann.

  6. Setjið mulið kex í glas, litlar glerkrukkur eða skálar og pressið niður svo það verði svolítið þétt.

  7. Bætið ostakökufyllingu yfir svo hun fylli næstum glasið

  8. Setjið í kæli í a.m.k 2 tíma eða í frysti i 1 tíma

  9. Takið út og toppið með marmelaðinu og berið fram.

Takk fyrir að lesa og vona að ykkur líki uppskriftin

-Helga María

-Þessi uppskrift er í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-