Vegan skonsur með smjöri og sítrusmarmelaði

-Samstarf-

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af nýbökuðum skonsum (e. scones) bornum fram með smjöri og sítrusumarmelaði. Skonsurnar eru virkilega einfaldar og fljótlegar en það tekur innan við 30 mínútur að útbúa þær og þær innihalda 5 hráefni sem flestir eiga alltaf til heima. Fullkomnar að bera fram sem morgunmat um helgar.

Skonsur eru mjög vinsælar hérna í Svíþjóð og einmitt oft bakaðar um helgar. Íslenska nafnið gæti eflaust ruglað einhvern þar sem við þekkjum skonsur sem þykkar pönnukökur. Þessar skonsur minna þó meira á brauð og er hægt að leika sér endalaust með deigið. Það er bæði hægt að hafa þær saltar eins og ég gerði núna eða bæta smá sykri í deigið og jafnvel súkkulaði. Eins má nota jógurt í staðinn fyrir mjólk. Ég hef smakkað sætar scones og þær voru alls ekki síðri.

Eins og ég sagði tekur enga stund að útbúa skonsur og í rauninni er best að hræra og hnoða deigið alls ekki of mikið. Þegar mjólkinni hefur verið bætt út í er best að hræra henni saman við þurrefnin hratt í mjög stutta stund og færa deigið svo yfir á eldhúsborðið og hnoða það létt saman. Það þarf alls ekki að líta fullkomlega slétt út (sjá myndirnar að ofan).

Deiginu skipti ég í tvennt og flet út tvær kökur sirka 2-3 cm þykkar með höndunum. Ég sker svo hverja köku í fjóra bita með hníf og sting í þær með gaffli.

Úr koma þessar gómsætu skonsur sem eru langbestar bornar fram nýbakaðar og volgar. Fullkomnar á morgunverðarborðið um helgina.

Færsla dagsins er í samstarfi við St. Dalfour, en þegar ég smakkaði sítrónu- og límónumarmelaðið frá þeim var það fyrsta sem mér datt í hug að það væri örugglega fullkomið á nýbakaðar skonsur. Ég dreif mig inn í eldhús og hófst handa við að prófa og viti menn, ég hafði rétt fyrir mér. Marmelaðið er dásamlega gott og þar sem það inniheldur sítrónur og lime hefur það einstaklega ferskt bragð. Ég smurði góðu vegan smjöri undir og toppaði með marmelaðinu og það var algjör draumur.

Takk fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin

-Helga María

Vegan skonsur

Vegan skonsur
Fyrir: 6-8
Höfundur: Veganistur
Einfaldar og fljótlegar skonsur sem tekur innan við 30 mínútur að útbúa. Þær innihalda 5 hráefni sem flestir eiga alltaf til heima. Fullkomnar að bera fram sem morgunmat um helgar.

Hráefni:

  • 5 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 tsk sykur
  • 60 gr kallt smjörlíki
  • 2 dl vegan mjólk að eigin vali (ég notaði sojamjólk)
  • Hitið ofninn í 250°c undir og yfir hita.
  • Hrærið þurrefnunum saman í stórri skál
  • Skerið niður smjörlíkið og bætið útí og blandið saman við með fingrunum svo deigið verði eins og mylsna.
  • Hellið mjólkinni út í og hrærið hratt og stutt saman. Ekki hafa áhyggjur þó deigið sé klístrað.
  • Stráið hveiti á borð og færið deigið yfir á það. Hnoðið létt i stutta stund. Deilið hveitinu í 2 hluta og mótið kúlu úr hverjum hluta.
  • Setjið smjörpappír á ofnskúffu og fletjið deigið út með höndunum í kringlóttar kökur sirka 2-3 cm að þykkt.
  • Skerið 4 hluta úr deiginu. Það þarf ekki að skera alveg í gegn (sjá mynd að ofan) og stingið í kökuna með gaffli. Bakið í miðjum ofninum í 10-15 mínútur eða þar til þær hafa fengið örlítið gylltan lit.
  • Berið fram með því sem ykkur lystir.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur


-Uppskriftin er unnin í samstarfi við St. Dalfour á Íslandi-

Auðvelt foccacia brauð og fylltir smjördeigsnúðar │ Veganistur TV │ 5.þáttur

Auðvelt Foccasia brauð

  • 5 dl hveiti

  • 2 1/2 tsk þurrger

  • 1/2 tsk salt

  • 2 1/2 dl volgt vatn (sirka við líkamshita)

  • Filippo Berio Olífuolía

Aðferð:

  1. Setjið hveitið, þurrger og salt í stóra skál og hrærið aðeins saman.

  2. gerið holu í miðjuna á skálinni og hellið vatninu í holuna.

  3. Hrærið deiginu saman með sleif þar til allt er komið vel saman og ekkert þurrt hveiti er eftir í skálinni.

  4. Hellið smá ólífuolía í kringum deigið og flettið því aðeins í höndunum.

  5. Setjið plastfilmu, disk eða annað “lok” yfir skálinni (passa að hafa ekki alveg lofþétt lok") og geymið deigið í ísskáp í 10 til 12 tíma eða yfir nótt.

  6. Setjið ólífuolíu yfir deigið og hendurnar þegar það hefur fengið að hvíla nægilega lengi í ísskápnum og veltið því aðeins í skálinni og hellið því síðan í eldfast mót eða pönnu sem má fara í ofn og leyfið því að hvíla í tvo til fjóra tíma eða þar til það hefur náð að fylla út í mótið eða pönnuna.

  7. Hellið olíu yfir deigið og hendur einu sinni enn og gerið “göt” hér og þar í deigið með fingrunum.

  8. Stráið vel af grófu salti yfir brauðið og bakið í 40 mínútur í 200°C heitum ofni eða þar til brauðið er orðið fallega gyllt að ofan.

  9. Leyfið brauðinu að kólna aðeins áður en það er skorið eða í allavega hálftíma.

  10. Brauðið má bera fram eitt og sér en þá má líka skera það þversum í gegn og nýta það í góðar samlokur.

  11. Einnig er gott að setja t.d. ólífur og sólþurrkaða tómata yfir deigið áður en það er bakað.

Fylltir smjördeigs snúðar með Oatly rjómaosti

  • Tilbúið vegan smjördeig (fæst bæði í kæli og í frysti)

  • 1 askja Oatly rjómaostur (Påmacken)

  • 1 tsk laukduft

  • 1/2 hvítlauksgeiri

  • örlítið salt

  • 2-3 msk saxaður ferskur graslaukur

  • 3-4 sveppir

  • 1 lúka klettasalat

Aðferð:

  1. Leyfið smjördeiginu aðeins að þyðna (ef notað er frosið deig þ.a.s.)

  2. Hrærið saman í skál rjómaostinum, hvítlauk, laukdufti, salti og graslauk.

  3. Saxið niður sveppina

  4. Smyrjið deigið með vel af rjómaostinum.

  5. Stráið sveppunum og klettasalatinu yfir degið.

  6. Rúllið deiginu upp og skerið í sirka 2 cm þykka bita.

  7. Raðið á ofnplötu með smjörpappír og ýtið aðeins ofan á snúðana með höndunum eða sleikju.

  8. Smyrjið snúðana með smá oatly mjólk og stráið yfir þá sesamfræum.

  9. Bakið í 200°C heitum ofni í sirka 20 mínútur eða þar til snúðarnir eru orðin fallega gylltir.

Þessi færsla er unninn í samstarfi við Krónuna og Oatly á Íslandi

 
Oatly_logo_svart.png
 
KRONAN-merki.png
 

Hafra- og speltbrauð með fræjum

IMG_1511-7.jpg

Við fengum skilaboð um daginn þar sem við vorum beðnar að gera fleiri uppskriftir af góðu brauði. Við elskum gott brauð og þess vegna er kannski svolítið skrítið að á blogginu finnist bara tvær brauðuppskriftir, en það eru heimagerðar tortillur og svo ernubrauð. Ernubrauðið er alveg ótrúlega gott, en maður þarf að plana svolítið fram í tímann þar sem deigið þarf að hefast yfir nótt, eða í allavega 8 klst. Stundum fæ ég skyndilega löngun í að baka gómsætt brauð, en nenni ekki að bíða í margar klukkustundir, og þá geri ég þetta gómsæta hafra- og speltbrauð sem ég ætla að deila með ykkur í dag. Þessi uppskrift er ekkert smá einföld og góð og tekur enga stund að gera. 

IMG_1355-2.jpg

Ég vann um stund á veitingastað í Gautaborg og bakaði svipað brauð, sem var virkilega vinsælt. Brauðið innihélt nokkurskonar súrmjólk, sem ég hef skipt út fyrir vegan jógúrt, og svo voru allskonar hnetur í því en ég ákvað að hafa fræ í staðinn því kærastinn minn er með ofnæmi fyrir flestum hnetum. Ég get ekki borið brauðið saman við það sem ég bakaði á veitingastaðnum, þar sem það var ekki vegan og ég smakkaði það aldrei, en ég er viss um að þetta er alveg jafn gott. Uppskriftin er alls ekki sú sama, en hitt brauðið var innblástur við gerð þessa brauðs. 

Ef ég fengi að ráða myndi ég útbúa hlaðborð af mat á hverjum morgni. Ég elska að hafa allskonar að velja úr og þetta brauð er einmitt fullkomið fyrir helgarbrönsinn. Nýbakað brauð, allskonar álegg, nýlagað kaffi, góður appelsínusafi, grautur og ávextir... er hægt að biðja um eitthvað betra?? 

IMG_1490-3.jpg
IMG_1504-2.jpg

Í dag er úrvalið af góðu vegan áleggi orðið endalaust. Hægt er að fá allskonar vegan smjör, osta, skinkur, ótrúlega margar tegundir af hummus, smurosta.. og lengi mætti telja. Ég átti svolítið erfitt með að ákveða hvað ég vildi hafa á brauðinu fyrir færsluna og ákvað á endanum að gera tvær útgáfur. Á sneiðina til vinstri setti ég vegan rjómaostinn frá Oatly, avókadó, sultaðan rauðlauk sem ég keypti úti í búð (Ica fyrir ykkur sem eruð í Svíþjóð), sítronusafa, chilli explosion, gróft salt og svartan pipar. Á hægri sneiðina setti ég svo hummus, kirsuberjatómat, frosinn graslauk og gróft salt. Grauturinn sem er í bakgrunni er svo "overnight oats" með túrmerik og fl. Þið megið endilega láta mig vita ef þið viljið fá uppskrift af grautnum, en ég geri hann daglega og fæ bara ekki nóg. 

IMG_1519-7.jpg

Hafra- og speltbrauð með fræjum

  • 3,5 dl gróft spelt

  • 1,5 dl fínt spelt

  • 2 dl grófir hafrar

  • 1 dl graskersfræ

  • 1/2 dl sólblómafræ

  • 1,5 tsk salt

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 msk olía

  • 3 dl hrein vegan jógúrt

  • 2 dl heitt vatn (bætið við hálfum dl ef þetta verður of þykkt. Deigið á samt að vera þykkt, svolítið eins og slímugur hafragrautur hehe)

  • Gróft salt og fræ til að strá yfir brauðið

  1. Stillið ofninn á 180°c.

  2. Blandið saman þurrefnunum.

  3. Hrærið saman við öllu nema vatninu.

  4. Bætið vatninu við og sjáið hvernig deigið er eftir 2 dl. Ef ykkur finnst það of þykkt, bætið við 1/2-1 dl í viðbót.

  5. Smyrjið brauðform og hellið deiginu í

  6. Bakið í 45-60 mínútur. Það fer rosalega eftir ofnum hversu lengi brauðið þarf að baka. Ofninn minn er frekar lélegur og býður ekki upp á blástur og það tekur alveg rúmlega klukkustund að baka brauðið í honum. Hinsvegar tók það mig 45 mínútur í öðrum ofni um daginn. Brauðið á að vera aðeins gyllt að ofan, en brauðið mitt á myndunum er ekki gyllt, því ég var óþolinmóð og tók það aðeins of snemma út í þetta skiptið.

  7. Ég leyfi brauðinu að kólna aðeins áður en ég sker það, en mér finnst samt gott að hafa það volgt. 

Njótið!! 

Helga María <3

Tacoveisla - Heimagerðar taco pönnukökur með Anamma-bitum, ostasósu og hrásalati

IMG_3873.jpg

Þessi dásamlega uppskrift varð til í síðustu viku og sló algjörlega í gegn hjá mér og vinum mínum. Ég hef alltaf verið mikið fyrir taco og finnst virkilega gaman að leika mér með hráefnin. Í vetur komst ég upp á lag með að baka mínar eigin tortilla vefjur og ég reyni að nýta tækifærið og gera það þegar ég hef smá tíma til að dunda mér við matargerðina. Heimabakað brauð nær einhvernveginn aldrei að valda manni vonbrigðum. 

IMG_3777-2.jpg

Þessa dagana erum við í samstarfi við Anamma á Íslandi og er þetta önnur færslan sem við vinnum í samstarfi við þau. Mér fannst tilvalið að nota bitana þeirra í þessa uppskrift og það kom að sjálfsögðu æðislega vel út. Við notum báðar vörurnar frá Anamma mikið, og er það því mikill heiður fyrir okkur að vinna með þeim. Þau leggja mikið upp úr því að útbúa vandaðar og góðar vegan matvörur, auk þess sem þeim er annt um umhverfið. Nýlega uppfærðu þau allar uppskriftirnar sínar og eru vörurnar því enn betri en áður. Ég var ekkert smá glöð að sjá hvað bitarnir voru fullkomnir í þennan rétt.

Taco hefur uppá svo margt að bjóða því það er algörlega hægt að aðlaga því sínum smekk. Við höfum báðar leikið okkur endalaust með það hvað við setjum í vefjurnar/skeljarnar og hérna að neðan sjáið þið mína uppáhalds samsetningu.

IMG_3857.jpg

Uppáhalds samsetningin mín:

  • Heimagerðar tortillur eða tortillur frá Santa Maria

  • Santa Maria salsasóssa

  • kál

  • Gúrka

  • Tómatar

  • Anamma bitar

  • Kartöflur ofnbakaðar með salti, pipar og smá olíu

  • Avocado

  • Heimagerð ostasósa

  • Heimagert hrásalat

  • Kóríander

IMG_3866-2.jpg

Mexíkóskir anamma bitar

  • Bitar frá Anamma

  • Olía til steikingar

  • Laukur

  • Santa Maria Taco kryddblanda

  • Vatn

Aðferð:

  1. Steikið bitana og laukinn upp úr olíunni þar til þeir hafa fengið gylltan lit

  2. Bætið taco kryddinu og vatni við samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum.

Heimagerðar tortillur:

  • 1 bolli hveiti

  • 1/2 tsk lyftiduft

  • Örlítið salt

  • 3 msk olía

  • 1/3 bolli vatn

Aðferð:

  1. Blandið þurrefnunum saman í skál

  2. Bætið olíu og vatni út í og hnoðið saman.

  3. Skiptið deginu í 6 litlar kúlur, fletjið út í mjög þunnar pönnukökur og steikið á þurri pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið

 

Heimagerð ostasósa

  • 1/2 bolli niðursneiddar kartöflur (afhýddar)

  • 1/4 bolli niðursneiddar gulrætur

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið kartöflurnar og skerið niður ásamt gulrótunum. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Setjið restina í blandara og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)

 

Hrásalat

  • Hvítkál

  • Gulrætur

  • Vegan majónes

  • Örlítið eplaedik

Aðferð:

  1. Skerið hvítkálið mjög smátt og rífið gulræturnar niður.

  2. Blandið majónesinu og edikinu saman við.

Vonum að þið njótið 
-Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Gómsætur heitur brauðréttur

IMG_9975-2.jpg

Ein af okkar fyrstu uppskriftum hérna á blogginu er af heitu rúllubrauði með aspas og sveppum. Uppskriftin hefur verið ein af þeim vinsælustu á blogginu síðan. Við höfum fengið ótal margar skemmtilegar myndir af því þegar fólk útbýr brauðið við ýmis hátíðleg tilefni og það virðist slá í gegn í hvert skipti. Við höfum þó fengið margar spurningar um það hvernig hægt sé að breyta réttinum úr rúllubrauði yfir í hefðbundinn aspasbrauðrétt í eldföstu móti. Eftir að hafa í þónokkurn tíma svarað öllum persónulega þegar ég er spurð, ákvað ég að búa til nýja uppskrift svo fólk geti bæði notast við uppskriftina af rúllubrauðinu og uppskrift af réttinum í eldföstu móti. 

IMG_9894-2.jpg

Ég ákvað að nota reykta og saltaða Oumph!-ið, og vá! Það passaði fullkomlega í réttinn. Ef þið eruð ókunnug Oumph!-inu mæli ég með því að þið lesið þessa grein. Ég nota Oumph! mikið í allskonar rétti og þið finnið ýmsar uppskriftir hérna á blogginu þar sem það er notað, við erum miklir aðdáendur. 

Í réttinn nota ég heimagert vegan mæjónes. Það er vissulega hægt að kaupa tilbúið vegan mæjónes úti í búð en þegar maður hefur prófað að búa til sitt eigið er eiginlega ekki aftur snúið. Það tekur innan við 5 mínútur, er virkilega ódýrt og stenst algjörlega allan samanburð. Síðan ég lærði að gera mæjónes sjálf hefur það reynst mér mun auðveldara að gera allskonar sósur sem ég var vön að elska áður en ég gerðist vegan, eins og pítusósu, kokteilsósu, hamborgarasósu og sæta sinnepssósu. Í mæjóið þarf einungis 5 hráefni og er uppskriftin af því hér að neðan. 

Í réttinum er einnig heimagerð sveppasósa sem er algört lykilatriði. Þegar ég var yngri var mamma vön að gera brauðrétt þar sem hún notaði sveppasúpu í dós frá Campbell og ég vildi búa til svipaðan "fíling." Heimagerða sósan er miklu betri að mínu mati og gefur réttinum svo ótrúlega gott bragð. 

Webp.net-gifmaker (5).gif

Þó það sé bæði heimagert mæjónes og heimagerð sveppasósa í réttinum, tekur enga stund að búa hann til. Ég get líka lofað ykkur því að þetta er allt þessi virði þegar hann er tilbúinn. Mér þætti virkilega gaman að heyra hvort ykkur líkar og ég skora á ykkur til að búa hann til fyrir næstu veislu og segja engum að hann sé vegan fyrr en eftir á. Mér finnst mjög hæpið að fólki myndi detta það í hug!

IMG_9928.jpg

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 1 peli Oatly matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur frá Knorr

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (Má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg. Ég nota hana bara þegar ég á hana til en myndi ekki kaupa hana sérstaklega fyrir sósuna)

  • Vatn og hveiti til að þykkja. (Ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið)

  1. Skerið sveppina niður eftir smekk (fyrir þennan rétt finnst mér gott að skera þá mjög smátt) og setjið í pott. Ekki láta ykkur bregða þó potturinn sé nánast fullur af sveppum, þeir rýrna mikið við eldun.

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta örlitlu vatni saman við og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð.

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni. Mér þykir best að hafa sósuna mjög þykka (mun þykkari en ef ég væri að bera hana fram með mat. Að öðru leyti væri þessi sósa fullkomin sem meðlæti með ýmsum mat)

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið. Sósan má vera svolítið bragðsterk.

Aspas brauðréttur:

  • 1/2 poki Salty & Smoky Oumph!

  • 1 dós aspas ásamt safanum (Ég var með aspas í krukku sem var 330g með vatninu og 185g þegar einungis aspasinn er veginn)

  • 2 dl vegan mæjónes + meira til að smyrja ofan á réttinn áður en hann fer í ofninn

  • Sveppasósan hér að ofan

  • Sirka 12 sneiðar af hvítu samlokubrauði. Ég fyllti svona 2/3 af eldfasta mótinu af brauði

  • Paprikuduft (eða annað krydd eftir smekk. Mamma notaði oft sítrónupipar ofan á svona brauðrétt en mér finnst paprikuduft og örlítið af grófu salti best. Ég hef líka notað Chilli explosion kryddið frá Santa Maria og það var virkilega gott)

  1. Hitið ofninn á 200°c

  2. Gerið mæjóið og sveppasósuna og leggið til hliðar

  3. Skerið Oumph!-ið niður í smáa bita og steikið í nokkrar mínútur á pönnu

  4. Bætið mæjónesinu, sósunni, aspasnum og safanum frá aspasnum á pönnuna og hrærið vel saman

  5. Skerið skorpuna af brauðinu og skerið sneiðarnar í teninga og setjið í eldfast mót. Það er alveg hægt að setja sneiðarnar heilar í formið en mér þykir betra að skera þær niður í sirka 6 teninga.

  6. Hellið fyllingunni ofan í formið og jafnið hana út svo hún nái yfir allt formið.

  7. Smyrjið mæjónesi yfir blönduna og kryddið með paprikudufti og gófu salti, eða bara því kryddi sem ykkur þykir best.

  8. Bakið réttinn þar till yfirborðið er orðið gyllt, eða í kringum 20 mínútur.

Pönnubrauð

IMG_1978.jpg
IMG_1985.jpg

Heimabakað brauð getur sett punktinn yfir i-ið þegar kemur að ýmsum máltíðum. Það er því virkilega hentugt að kunna að gera einfalt og fljótlegt brauð til að hafa með matnum. Ég komst fyrir nokkru upp á lagið með að gera pönnubrauð en það er einstaklega þægilegt þar sem þarf hvorki að hefa það né baka í ofni.  Hráefnunum er einfaldlega skellt saman og brauðið steikt í nokkrar mínútur á pönnu. Þetta brauð passar fullkomlega með alls konar pottréttum og súpum.

IMG_2011.jpg

Hráefni:

  • 4 dl spelt hveiti

  • 2 dl vatn

  • örlítið salt

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum saman og bætið við meiru hveiti ef deigið er blautt.

  2. Skiptið deiginu í 6 litlar kúlur.

  3. Fletjið kúlurnar út og steikið í nokkrar mínútur á heitri þurri pönnu.

  4. Gott er að pensla brauðið með vegan hvítlaukssmjöri um leið og það kemur af pönnunni en það er alls ekki nauðsynlegt.

-Veganistur

 

Einfalt hvítlauksbrauð

IMG_9107.jpg

Þessi uppskrift er svo einföld að hún telst varla sem uppskrift. Þó langaði okkur að deila henni með ykkur því þetta hvítlauksbrauð er ómissandi með góðum pastaréttum. Þegar við vorum yngri keypti mamma okkar stundum tilbúið hvítlauksbrauð til að setja í ofninn og við héldum mikið uppá það. Þetta brauð bragðast nákvæmlega eins, ef ekki betra.

IMG_9050.jpg

Hvítlauksbrauð:

  • Baguette

  • Vegan smör eftir smekk

  • 1-2 hvítlauksgeirar (fer eftir því hversu mikið smjör notað er)

  • Örlítið salt

Aðferð:

  1. Skerið baguette í sneiðar. Ekki skera alveg niður samt heldur búið til svona djúpar rákir en passið að brauðið haldist ennþá saman

  2. Blandið saman smöri, pressuðum hvítlauk og salti. Það fer alfarið eftir smekk hversu mikið hvítlaukssmjör fólk vill hafa. Ég vil hafa mitt vel safaríkt að innan svo ég notaði 2 kúfullar msk af smjöri og svo 2 frekar litla hvítlauksgeira

  3. Skiptið smjörinu niður í rákirnar og troðið því vel á milli. það má alveg verða smá eftir ofan á brauðinu, það er bara betra

  4. Setjið í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til brauðið er orðið smá gullið að ofan og smjörið alveg bráðið innan í

  5. Berið fram heitt með því sem ykkur lystir

-Veganistur