Gómsætur heitur brauðréttur

IMG_9975-2.jpg

Ein af okkar fyrstu uppskriftum hérna á blogginu er af heitu rúllubrauði með aspas og sveppum. Uppskriftin hefur verið ein af þeim vinsælustu á blogginu síðan. Við höfum fengið ótal margar skemmtilegar myndir af því þegar fólk útbýr brauðið við ýmis hátíðleg tilefni og það virðist slá í gegn í hvert skipti. Við höfum þó fengið margar spurningar um það hvernig hægt sé að breyta réttinum úr rúllubrauði yfir í hefðbundinn aspasbrauðrétt í eldföstu móti. Eftir að hafa í þónokkurn tíma svarað öllum persónulega þegar ég er spurð, ákvað ég að búa til nýja uppskrift svo fólk geti bæði notast við uppskriftina af rúllubrauðinu og uppskrift af réttinum í eldföstu móti. 

IMG_9894-2.jpg

Ég ákvað að nota reykta og saltaða Oumph!-ið, og vá! Það passaði fullkomlega í réttinn. Ef þið eruð ókunnug Oumph!-inu mæli ég með því að þið lesið þessa grein. Ég nota Oumph! mikið í allskonar rétti og þið finnið ýmsar uppskriftir hérna á blogginu þar sem það er notað, við erum miklir aðdáendur. 

Í réttinn nota ég heimagert vegan mæjónes. Það er vissulega hægt að kaupa tilbúið vegan mæjónes úti í búð en þegar maður hefur prófað að búa til sitt eigið er eiginlega ekki aftur snúið. Það tekur innan við 5 mínútur, er virkilega ódýrt og stenst algjörlega allan samanburð. Síðan ég lærði að gera mæjónes sjálf hefur það reynst mér mun auðveldara að gera allskonar sósur sem ég var vön að elska áður en ég gerðist vegan, eins og pítusósu, kokteilsósu, hamborgarasósu og sæta sinnepssósu. Í mæjóið þarf einungis 5 hráefni og er uppskriftin af því hér að neðan. 

Í réttinum er einnig heimagerð sveppasósa sem er algört lykilatriði. Þegar ég var yngri var mamma vön að gera brauðrétt þar sem hún notaði sveppasúpu í dós frá Campbell og ég vildi búa til svipaðan "fíling." Heimagerða sósan er miklu betri að mínu mati og gefur réttinum svo ótrúlega gott bragð. 

Webp.net-gifmaker (5).gif

Þó það sé bæði heimagert mæjónes og heimagerð sveppasósa í réttinum, tekur enga stund að búa hann til. Ég get líka lofað ykkur því að þetta er allt þessi virði þegar hann er tilbúinn. Mér þætti virkilega gaman að heyra hvort ykkur líkar og ég skora á ykkur til að búa hann til fyrir næstu veislu og segja engum að hann sé vegan fyrr en eftir á. Mér finnst mjög hæpið að fólki myndi detta það í hug!

IMG_9928.jpg

Vegan mæjónes:

 • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

 • 2 tsk eplaedik

 • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

 • 1 tsk gróft sinnep

 • 1/2 tsk salt

 1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

 2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

 3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Sveppasósa:

 • 1 askja sveppir (250g)

 • Olía til steikingar

 • 1 peli Oatly matreiðslurjómi

 • 1 sveppateningur frá Knorr

 • 1/2 tsk dökk sojasósa (Má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg. Ég nota hana bara þegar ég á hana til en myndi ekki kaupa hana sérstaklega fyrir sósuna)

 • Vatn og hveiti til að þykkja. (Ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið)

 1. Skerið sveppina niður eftir smekk (fyrir þennan rétt finnst mér gott að skera þá mjög smátt) og setjið í pott. Ekki láta ykkur bregða þó potturinn sé nánast fullur af sveppum, þeir rýrna mikið við eldun.

 2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta örlitlu vatni saman við og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð.

 3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

 4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp

 5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni. Mér þykir best að hafa sósuna mjög þykka (mun þykkari en ef ég væri að bera hana fram með mat. Að öðru leyti væri þessi sósa fullkomin sem meðlæti með ýmsum mat)

 6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið. Sósan má vera svolítið bragðsterk.

Aspas brauðréttur:

 • 1/2 poki Salty & Smoky Oumph!

 • 1 dós aspas ásamt safanum (Ég var með aspas í krukku sem var 330g með vatninu og 185g þegar einungis aspasinn er veginn)

 • 2 dl vegan mæjónes + meira til að smyrja ofan á réttinn áður en hann fer í ofninn

 • Sveppasósan hér að ofan

 • Sirka 12 sneiðar af hvítu samlokubrauði. Ég fyllti svona 2/3 af eldfasta mótinu af brauði

 • Paprikuduft (eða annað krydd eftir smekk. Mamma notaði oft sítrónupipar ofan á svona brauðrétt en mér finnst paprikuduft og örlítið af grófu salti best. Ég hef líka notað Chilli explosion kryddið frá Santa Maria og það var virkilega gott)

 1. Hitið ofninn á 200°c

 2. Gerið mæjóið og sveppasósuna og leggið til hliðar

 3. Skerið Oumph!-ið niður í smáa bita og steikið í nokkrar mínútur á pönnu

 4. Bætið mæjónesinu, sósunni, aspasnum og safanum frá aspasnum á pönnuna og hrærið vel saman

 5. Skerið skorpuna af brauðinu og skerið sneiðarnar í teninga og setjið í eldfast mót. Það er alveg hægt að setja sneiðarnar heilar í formið en mér þykir betra að skera þær niður í sirka 6 teninga.

 6. Hellið fyllingunni ofan í formið og jafnið hana út svo hún nái yfir allt formið.

 7. Smyrjið mæjónesi yfir blönduna og kryddið með paprikudufti og gófu salti, eða bara því kryddi sem ykkur þykir best.

 8. Bakið réttinn þar till yfirborðið er orðið gyllt, eða í kringum 20 mínútur.

Heitt rúllubrauð með aspas og sveppum

Síðastliðin ár hefur mér þótt virkilega gaman að prufa mig áfram með allskonar uppskriftir. Þegar ég tók út dýraafurðir varð það að svolitlu sporti hjá mér að veganæsa rétti sem mér þóttu góðir. Hinsvegar lagði ég einhvernveginn aldrei í að útbúa vegan heitan brauðrétt. Ég held að það hafi verið vegna þess að svona brauðréttir voru virkilega eitt það besta sem ég fékk, og ég var mögulega hrædd um að valda sjálfri mér vonbrigðum. Ég prufaði það svo í fyrsta sinn í gær og ég eiginlega trúi ekki að ég hafi verið vegan í rúm 5 ár og farið í gegnum afmælisveislur og jólaboð og svona án þess að gera svona brauðrétt. Þetta er bæði fáránlega einfalt og smakkast aaalveg eins og þessir sem ég var vön að elska sem barn. Ég bauð ömmu minni uppá réttinn, sem er langt frá því að vera vegan, og henni þótti hann gjörsamlega æðislegur. Það eitt og sér er nógu góð staðfesting á því að þetta hafi heppnast vel hjá mér!

Í brauðréttinn nota ég meðal annars heimagerða mæjónesið mitt. Uppskriftina birti ég í annarri færslu í sumar og hérna er linkur á hana. Það er að sjálfsögðu hægt að kaupa vegan mæjónes útum allt en það er mun ódýrara að gera sitt eigið og alveg jafn gott, ef ekki betra. Ég á það til að mikla fyrir mér hlutina og ég frestaði því lengi að prufa að gera mæjó, aðallega því mér fannst það hljóma eins og svaka vesen en það er einmitt hlægilega einfalt. 

Annað hráefni sem mér þykir mikivægt í uppskriftinni er sveppakrafturinn. Hann gefur réttinum æðislegt bragð sem kemur í stað sveppasúpunnar frá Campbell/sveppasmurostsins sem ég notaði alltaf í brauðrétti áður en ég varð vegan. Það fást bæði sveppateningar frá Kallo og frá Knorr hér á landi. Ef þið notið þennan frá Knorr þarf alls ekki að salta fyllinguna því krafturinn er vel saltur. Ég hef ekki prufað að nota þennan frá Kallo svo ég er ekki viss hversu mikið salt er í honum. Að sjálfsögðu smakkið þið bara og finnið hvort ykkur finnst vanta salt. 

Rúllubrauðið kaupi ég frosið og það fæst í Bónus. Ég leyfi því að þiðna áður en ég nota það og það tekur yfirleitt svona rúmlega hálftíma. Brauðið kemur rúllað upp í plasti og gott er að leggja plastið undir brauðið, smyrja fyllingunni á og nota plastörkina til að rúlla brauðinu upp. Það verður nefnilega svolítið viðkvæmt þegar fyllingin er komin inn í það. 

Í fyrstu ætlaði ég að hafa rifinn vegan ost ofan á brauðinu en átti hann ekki til. Ég smurði því vel af vegan mæjónesinu ofan á og stráði kryddi yfir. Í þetta sinn notaði ég Old bay kryddið en það er líka æðislegt að nota bara paprikuduft. Eftir að hafa prufað þetta finnst mér ostur aaalgjör óþarfi ofan á þetta því mæjóið kemur svolítið út eins og bráðinn ostur og er sjúklega gott! 

Ég er svo ánægð að hafa loksins tekið af skarið og búið til svona heitt brauð. Þessi uppskrift mun svo sannarlega vera notuð mikið í framtíðinni við allskonar tilefni. Mig langar helst að halda veislu bara til þess að geta boðið uppá svona brauðrétt og vegan marengstertuna sem Júlía birti hérna á blogginu fyrir stuttu. Ég vona að ykkur líki uppskriftin og endilega sendið okkur snap (veganistur) ef þið gerið uppskriftirnar okkar, við elskum að fá að fylgjast með ykkur! :)

Hráefni:

1 Rúllubrauð. Ég notaði þetta brauð.
1 bolli vegan mæjónes. (Plús tvær matskeiðar auka til að smyrja ofan á brauðið áður en það fer í ofninn)
1 sveppateningur. Ég notaði þennan frá Knorr
100 g sveppir
Smávegis af olíu til að steikja sveppina uppúr
1/2 dós aspas plús 1 msk af safanum úr dósinni
Old bay krydd eða paprikuduft

Aðferð:

1. Hitið ofninn í 200°c

2. Skerið sveppina smátt og steikið á pönnu í svolítilli olíu í sirka 5 mínútur, eða þar til þeir eru svolítið mjúkir

3. Bætið mæjónesinu útá pönnuna ásamt sveppakrafi, aspasinum og safanum frá aspasinum og blandið vel saman

4. Smyrjið fyllingunni í rúllubrauðið og notið plastörkina sem fylgir með til þess að rúlla brauðinu upp. 

5. Smyrjið toppinn á brauðinu með mæjónesi og stráið kryddinu yfir

6. Bakið í ofninum í 15-20 mínútur. Það fer svolítið eftir því hvernig ofninn er. Endarnir á brauðinu voru orðnir svolítið gylltir þegar það var tilbúið og tók sirka 17 mínútur hjá mér. 

Ég vona innilega að uppskriftin muni nýtast ykkur. Mæli klárlega með því að prufa! 

Helga María