Vegan rjómaterta með jarðarberjum

IMG_1865-4.jpg

Hæ. Vonandi hafiði það gott.

Hérna í Piteå er svo sannarlega komið sumar. Sólin hefur skinið daglega síðustu vikur sem bætir svo sannarlega upp fyrir myrkrið sem ríkir hérna á veturna. Í gær fór hitinn upp í þrjátíu stig og bærinn safnaðist saman við vatnið og fólk ýmist baðaði sig eða lá og sólaði sig. Eiginlega ættum við Siggi að vera á Íslandi. Við hlökkuðum mikið til að eyða sumrinu saman á Íslandi í fyrsta skipti í mörg ár, en í kjölfar aðstæðna breyttust plönin og við verðum hér í staðinn. Löngu hlýju sólardagarnir eru svolítil huggun og við ætlum að njóta sumarsins hérna eins vel og við getum.

Á miðvikudaginn er 17. júní og í tilefni af því deili ég með ykkur hinni fullkomnu sumarköku með jaðrarberjarjóma sem tilvalið er að baka fyrir fjölskyldu og vini á þjóðhátíðardaginn. Botninn er dúnmjúkur og hentar í allskonar ljósar tertur en ég ákvað í þetta sinn að gera jarðarberjarjómakrem og úr varð besta rjómaterta sem ég hef bakað.

IMG_1725-2.jpg

Þessi kökubotn er að mínu mati hinn fullkomni ljósi botn. Hægt er að gera úr honum ótrúlega margar góðar kökur, eins og möndluköku, eplaköku, sjónvarpsköku og allskonar rjómatertur. Núna eru búðirnar fullar af gómsætum nektarínum svo ég er að spá í að prófa að gera nektarínuköku á næstunni.

IMG_1728.jpg

Ég var lengi að velta því fyrir mér hvernig ég vildi hafa tertuna og ætlaði fyrst að gera hana svakalega flotta á mörgum hæðum. Eftir þvi sem ég velti þessu lengur fyrir mér hallaðist ég frekar að því að gera köku í skúffuforminu mínu. Í hvert skipti sem ég baka fyrir veislur nota ég þetta form. Mér finnst það mun hentugara. Bæði er það fljótlegra og einfaldara og svo er bæði þægilegra að skera kökuna í sneiðar og að borða hana. Formið sem ég nota er 42x29x4 cm að stærð og er nákvæmlega eins og þetta form sem fæst í Byggt og búið. Það hefur reynst mér svo vel við baksturinn og ég elska smellulokið á því sem gerir það virkilega þægilegt að taka köku með sér eitthvert. Ef þið viljið baka kökuna í hringlaga formi myndi ég giska á að það sé best að skipta deiginu í tvö 24 cm form.

Jarðarberjarjómakremið er svo gott að ég gæti borðað það með skeið. Í rauninni fannst mér það svo gott að ég frysti smá part af því akkúrat til að borða með skeið heh. Mig langaði að sjá hvernig það kæmi út fryst og hvort það mögulega gæti gengið sem fylling í frysta ostaköku og það gerir það svo sannarlega. Með þvi að bæta við einum rjómaosti í viðbóð yrði þetta fullkomin fryst sumarleg ostakaka. Til að kremið þeytist sem best mæli ég með þeytirjómanum frá Aito. Hann þeytist svakalega vel og heldur forminu. Alpro rjóminn virkar líka og kremið er alveg jafn gott með honum, en mér finnst formið ekki verða jafn flott. Aito fæst í Bónus og Krónunni.

IMG_1815-5.jpg

Með því að baka kökuna í skúffuforminu þarf ekkert að gera til að skreyta hana annað en að smyrja rjómanum á og toppa með ferskum jarðarberjum, eða öðrum ávöxtum ef maður vill. Margra hæða rjómatertur eru sannarlega fallegar og myndast dásamlega vel, en ég vel yfirleitt þægindi fram yfir útlit. Að baka kökuna svona gerir það að verkum að hún er virkilega einföld og engin hætta á að hún mistakist eða líti ekki jafn vel út og maður ætlaði sér.

Mér hefur líka þótt þægilegt þegar ég býð fólki uppá köku að geta skorið niður í minni sneiðar, sérstaklega þegar ekki er til nóg af diskum og maturinn borðaður af servíettum.

Ég er virkilega ánægð með þessa gómsætu vegan rjómatertu. Mig langaði að hafa hana hátíðlega og það tókst algjörlega að mínu mati. Ég hef aldrei verið aðdáandi af gamaldags tertum með niðursoðnum ávöxtum og vildi því gera tertu sem ég sjálf myndi glöð borða. Fersk sumarjarðarber virkilega geta ekki klikkað að mínu mati.

IMG_1867-3.jpg

Rjómaterta með jarðarberjum

Hráefni:

  • 7,5 dl hveiti

  • 3 dl sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 7,5 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)

  • 2 dl rapsolía eða önnur bragðlaus olía

  • 1,5 tsk vanilludropar

  • 2 msk eplaedik

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál

  3. Bætið restinni af hráefnunum útí og hrærið saman þar til engir kekkir eru.

  4. Klæðið formið með bökunarpappír. Mér finnst gott að smyrja smá smjörlíki í botninn og hliðarnar og þá festist bökunarpappírinn vel við formið. Eins og ég tók fram hér að ofan nota ég form sem er 42x29x4 cm.

  5. Hellið deiginu út í formið og bakið í miðjum ofni í 30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út þegar þið stingið í hana. Ég myndi kíkja á hana eftir 25 mínútur.

  6. Látið kökuna kólna alveg áður en þið setjið kremið á hana.

Jarðarberjakrem:

  • 500 gr. fersk jarðarber (þegar ég prufubakaði kökuna fann ég hvergi fersk ber og notaði því frosin sem ég leyfði að þiðna fyrst og það var líka mjög gott)

  • 1 ferna þeytirjómi frá Aito (það virkar líka að nota þann frá Alpro en Aito þeytist mun betur að mínu mati)

  • 2 tsk sítrónusafi

  • 1 dolla Oatly rjómaostur (påmackan)

  • 2 dl flórsykur

  • 2 msk vanillusykur

Aðferð:

  1. Mér finnst gott að gera kremið frekar tímanlega þannig að það getið fengið að standa í kæli í allavega klukkutíma. Það er jafnvel sniðugt að byrja kannski á kreminu en annars dugir að gera það um leið og kakan fer í ofninn og hafa það í ísskápnum þar til kakan hefur kólnað.

  2. Hellið rjómanum og sítrónusafanum í skál og þeytið í hrærivél eða rafmagnsþeytara þar til rjóminn er orðinn þykkur. Setjið hann í ísskápinn á meðan þið gerið restina.

  3. Setjið rjómaost, flórsykur og vanillusykur í aðra skál og þeytið saman þar til það hefur blandast vel. Leggið til hliðar

  4. Stappið hluta af jarðarberjunum og takið restina frá til að skreyta með. Ég held ég hafi notað sirka 350 gr í kremið og restin fór ofan á. Þið ráðið í raun alveg hvernig þið viljið hafa það.

  5. Blandið rjómaostakreminu og stöppuðu berjunum varlega saman við rjómann þar til allt er vel blandað.

  6. Kælið þar til kakan er orðin köld.

  7. Smyrjið kreminu á kökuna og raðið berjunum yfir. Þessi kaka er mjög góð við stofuhita en hún er líka svakalega góð beint úr kælinum.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel! <3

Helga María.