Heimsins besta vegan gulrótarkaka með rjómaostakremi

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hinni fullkomnu gulrótarköku. Hún slær í gegn í hvert skipti sem við bökum hana, enda er hún dúnmjúk, ómótstæðilega bragðgóð og toppuð með rjómaostakremi sem er ávanabindandi. Það er einnig virkilega einfalt að baka hana og enn einfaldara að háma hana í sig.

Í þetta sinn bakaði ég kökuna í skúffuformi sem er 42x29x4 cm. Það er þó ekkert mál að baka hana í tveimur 24 cm hringlaga formum. En ég elska allt sem er fljótlegt og einfalt svo ég baka oftast í þessu stóra formi, sérstaklega ef ég er að baka fyrir hóp af fólki. Ég veit vel að þriggja hæða tertur eru mun fallegri, en það er miklu minna vesen að baka, bera fram og borða kökur gerðar í skúffuformi. Svo ég vel þægindin yfirleitt fram yfir útlit. Ég vil taka það fram að hér er Helga að skrifa því Júlía er, eins og þið flest vitið, meistari í að gera fallegar margra hæða tertur.

Ég lýg ekki þegar ég segi að þessi kaka slær í gegn hvar sem hún er borin fram. Ég birti hana fyrir yfir ári síðan á sænska blogginu mínu og hún hefur verið langvinsælasta uppskriftin þar síðan. Ég vona að hún hitti í mark hjá ykkur líka.

Ef þið hafið áhuga á að baka fleiri góðar kökur mæli ég með eftirfarandi:

Vegan rjómaterta með jarðarberjum

Klassíska súkkulaðitertan okkar (hér sjáum við dæmi um hversu fallegar kökur Júlía bakar. Ég baka þessa uppskrift yfirleitt í skúffuformi heh)

Stór súkkulaðibitakaka með karamellusósu

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að ykkur líki uppskriftin!

-Helga María

Heimsins besta vegan gulrótarkaka

Heimsins besta vegan gulrótarkaka
Fyrir: 10-12
Höfundur: Helga María
Hin fullkomna gulrótarköka. Hún slær í gegn í hvert skipti sem við bökum hana, enda er hún dúnmjúk, ómótstæðilega bragðgóð og toppuð með rjómaostakremi sem er ávanabindandi. Það er einnig virkilega einfalt að baka hana og enn einfaldara að háma hana í sig.

Hráefni:

  • 7.5 dl hveiti
  • 3.5 dl sykur
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 msk kanill
  • 5 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)
  • 6 dl rifnar gulrætur
  • 1.5 tsk vanilludropar
  • 1.5 msk eplaedik
  • 1.5 dl bragðlaus matarolía
Rjómaostakrem
  • 200 gr vegan rjómaostur
  • 100 smjörlíki við stofuhita
  • 500 gr flórsykur
  • 2 tsk vanilludropar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c.
  2. Hellið olíu og sykri í stóra skál og hrærið.
  3. Bætið restinni af blautu hráefnunum við og hrærið saman.
  4. Bætið þurrefnunum við og hrærið þar til deigið er laust við kjekki.
  5. Bætið rifnum gulrótum út í og hrærið varlega saman við með sleikju.
  6. Hellið í annaðhvort skúffuform klætt smjörpappír (mitt er 42x29x4 cm) eða tvö 24 cm hringlaga form.
  7. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til kökupinni kemur hreinn út.
  8. Látið kökuna kólna og gerið kremið á meðan.
  9. Gerið kremið með því að hræra hráefnunum saman í hrærivél og setjið á kökuna þegar hún hefur kólnað.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

Klassísk súkkulaðiterta

Súkkulaðikökur eru í miklu uppáhaldi hjá flestum. Þegar við gerðumst vegan urðu vinir og ættingar oftar en ekki stressaðir að fá okkur í afmælis- og matarboð. Þeim fannst tilhugsunin um að baka vegan köku yfirþyrmandi og ómöguleg. ,,Getið þið ekki bakað sjálfar bara, ég kann ekkert að baka svona vegan kökur" heyrðum við í hvert einasta skipti. Ástæðan fyrir því að fólk hræðist bakstur á vegan kökum er yfirleitt sá algengi misskilningur að vegan kökur innihaldi þrjátíu hráefni og að það taki marga klukkutíma að búa þær til. Það gæti hreinlega ekki verið meira fjarri sanni.

Kakan okkar er gríðarlega einföld og virkar bæði sem hefðbundin súkkulaðikaka og einnig sem dýrindis bollakökur. Þeir sem hafa smakkað hjá okkur kökuna eru yfirleitt steinhissa á því hvað hún er bragðgóð. ,,Vá þetta bragðast nú bara nákvæmlega eins og súkkulaðikakan sem ég er vön að gera."
Ástæðan er einmitt sá algengi misskilningur að vegan matur og kökur séu alltaf öðruvísi og verri á bragðið en annar matur. Aftur gæti það ekki verið meira fjarri sanni. 

Þessi uppskrift er ein af fyrstu vegan kökuuppskriftum sem við systur þróuðum og birti Helga hana fyrst fyrir mörgum árum á gömu bloggi sem hún var með. Hún varð strax lang vinsælasta uppskriftin á síðunni og var birt meðal annars á vefsíðu Kvennablaðsins. Fljótlega fór það að spyrjast út að til væri uppskrift af vegan súkkulaðiköku sem innihéldi færri en tíu hráefni og ekki bara það, að hún innihéldi einungis hráefni sem allir þekkja og flestir eiga til inni í skáp. Skyndilega hætti fólkið í kringum okkur að vera hrætt við að fá okkur í afmælisveislur. Í dag nota flestir okkar vina og fjölskyldumeðlima þessa uppskrift þegar þeir baka súkkulaðikökur þar sem þeim finnst ótrúlega þægilegt að geta boðið upp á köku sem hentar vegan fólki og er laus við flesta ofnæmisvalda.

Það er ekki einungis kakan sem slær í gegn heldur skiptir smjörkremið miklu máli líka. Það er nefnilega ekkert mál að útbúa vegan smjörkrem og það myndi enginn þekkja það í sundur frá öðru kremi. Það fæst gríðarlega gott vegan smjör í flestum búðum í dag og einnig er smjörlíki nánast alltaf vegan. Við notumst þó mest við smjörlíki í kremið þar sem það heldur vel stífleika og gerir smjörkremið fallegt og þægilegt að vinna með.

Þriðji algengi misskilningurinn hvað varðar vegan bakstur er sá að vegan kökur séu hollustukökur. Fólk setur oft upp svip þegar við segjumst ætla að baka köku því það sér fyrir sér harða hráfæðiköku úr hnetum og döðlum.  Flestir verða yfirleitt hissa yfir því hvað kökurnar eru mjúkar, sætar og gómsætar en verður þó yfirleitt mög hissa þegar það fær þau svör að kakan sé ekki endilega holl. Það er nefnilega ennþá mjög margir sem setja enn samansem merki á milli vegan og hollustu.

Svo ef þið eruð að leita ykkur að uppskrift af hollri köku er þessi uppskrift ekki fyrir ykkur. Hér er á ferð klassísk súkkulaðikaka úr hveiti og sykri og uppistaða kremsins er smjörlíki og flórsykur. 

Júlía nýtur þess mikið að útbúa fallegar kökur og hefur frá því að hún var lítil haft mjög gaman af því að skreyta kökur fallega og fylgja nýjustu “trendunum” í kökuskreytingum. Þeir sem hafa fylgst með blogginu í einhvern tíma muna líklegast vel eftir rósaköku myndunum sem voru áður við þessa uppskrift en var það mikið “trend” í kökuskreytingum þegar við útbjuggum hana fyrst. Nú hefur þó margt breyst og er mikið í tísku núna að gera háar fallegar kökur með súkkulaði sem lekur niður með hliðunum. Okkur fannst því nauðsynlegt að nýta tækifærið og uppfæra þessa vinsælu uppskrift með nýjum fallegum myndum.

Við bættum við súkkulaði ganache sem við notuðum sem fyllingu á milli kökubotnanna og til að láta leka fallega niður með hliðum kökunnar. Það þarf þó alls ekki að hafa það með og er kakan virkilega góð með smjörkreminu einu og sér. Við mælum þó með að allir prófi að setja ganache á milli með kreminu því það tekur kökuna alveg á næsta stig. Uppskriftin af því er að sjálfsögðu hér að neðan.

IMG_0212.jpg

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache

Súkkulaðikökubotnar með smjörkremi og ganache
Höfundur: Veganistur
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 20 MinEldunartími: 30 Min: 50 Min
Klassísku súkkulaðikökubotnarnir hafa verið ein vinsælasta uppskriftin okkar frá upphafi. Þessi uppskrift er fullkomin í afmæliskökuna, sem skúffukaka eða í muffinsform.

Hráefni:

Súkkulaðikökubotnar
  • 3 bollar hveiti
  • 2 bollar Dan sukker sykur
  • 1/2 bolli kakó
  • 2 tsk matarsódi
  • 1 tsk salt
  • 2 bollar vatn (eða 2 bollar kallt kaffi)
  • 2/3 bolli bragðlaus olía - við notuðum sólblómaolíu
  • 2 tsk vanilludropar
  • 1 msk eplaedik
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  • 400g smjörlíki eða vegan smjör við stofuhita
  • 500g Dan sukker flórsykur
  • 1/2 dl kælt, sterkt uppáhelt kaffi
  • 1 msk kakó
  • 1 tsk vanilludropar
  • 50g suðusúkkulaðisúkkulaði
Súkkulaði ganache
  • 50 gr suðusúkkulaði eða það súkkulaði sem hver og einn kýs að nota.
  • 50 gr vegan þeytirjómi

Aðferð:

Súkkulaðikökubotnar
  1. Hitið ofninn í 175°c með blæstri
  2. Blandið þurrefnum saman í skál
  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og hrærið þar til engir kekkir eru í deiginu
  4. Smyrjið tvö kökuform og skiptið deiginu jafnt í þau. Þessi uppskrift passar akkurat í tvö 20-24 cm hringlaga kökuform eða þrjú 15 cm kökuform. Það er þó einnig hægt að baka kökuna í eldföstu móti, lítilli skúffu eða sem bollakökur.
  5. Bakið í 20-30 mínútur eða þar til tannstöngull eða grillpinni kemur hreinn út þegar honum er stungið í botnana.
Einfalt súkkulaðismjörkrem
  1. Þeytið smjörið í hrærivél eða með rafmagnsþeytara þar til það er vel mjúkt og loftkennt.
  2. Bætið öllum hráefnum nema súkkulaðinu útí og hrærið vel saman.
  3. Bræðið súkkulaðið og hellið því útí og hrærið á meðan á litlum hraða.
  4. Leyfið kökubotnunum að kólna alveg áður en kreminu er smurt á.
  5. Ath. Ef gera á þriggja hæða köku og skreyta hana þarf að gera eina og hálfa uppskrift af kreminu. Okkur þykir gott að gera tvöfalda uppskrift og ef það er afgangur þá frystum við það og notum seinna.
Súkkulaði ganache
  1. Brjótið súkkulaðið niður og skerið það í litla bita og setjið í skál sem má fara í örbylgjuofn.
  2. Vigtið rjómann og hellið honum út í skálina. Það er ekki sniðugt að slumpa þessa uppskrift þar sem við viljum fá ákveðna áferð á súkkulaðið svo hægt sé að vinna með það.
  3. Setjið súkkulaðið og rjóman í örbylgjuofn og hitið í 20 sekúndur. Takið út og hrærið til í skálinni. Setjið súkkulaði blönduna aftur í örbylgjuofn í 10 sekúndur í einu þar til súkkulaðið er alveg bráðnað. Það er best að hræra mjög vel í skálinni á milli þess sem blandan er hituð, helst með litlum sósupísk eða gaffli.
  4. Ef nota á ganache a milli botnanna er best að setja fyrst vel af smjörkremi á neðri botninn, dreifa vel úr því og búa síðan til holu í kremið í miðjunni. Ganache’ið þarf að fá að kólna aðeins og er honum síðan hellt í holuna og næsti botn settur yfir.
  5. Til að láta það lekur niður með hliðum kökunnar er mikilvægt að kæla kökuna tilbúna í allavega 30 mínútur áður. Leyfið einnig ganache’inum að kólna aðeins og prófið að láta það leka niður hliðina á glasi t.d. áður en þið byrjið á kökunni. Súkkulaði ganache’ið á að leka hægt og rólega niður glasið þegar það er tilbúið. Ef það lekur hratt í mjög mjórri bunu er það enn of heitt.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin við Nathan og Olsen -

download.png

Sítrónukaka með birkifræjum og rjómaostakremi

IMG_0099.jpg

LOKSINS er aðeins farið að birta til og vorið að koma, þó svo að það sé skítakuldi og smá snjór af og til. En þessi tími árs er í MIKLU uppáhaldi hjá mér, með meiri birtu og sól og sumarið einhvern vegin rétt handan við hornið.

Mér fannst því tilvalið að skella í eina sumarlega köku sem er að mínu mati fullkomin fyrir páskana líka. Hún er fallega gul og ótrúleqa fersk og góð á bragðið.

Ég hef mikið séð svona kökur á netinu og erlendis en ekki eins oft hérna á Íslandi og er því búin að vera að fullkomna vegan útgáfu af þessari köku. Það var þó smá bras að komast yfir birkifræ hér á andi en ég fann þau loksins í Krónunni. Það má þó alveg sleppa þeim í þessari uppskrift ef þau eru ekki til út í búð eða á heimilu fyrir. Ég mæli þó með að prófa að kaupa birkifræin og nota þau í kökuna en þau koma með skemmtilegt “twist” á áferðina og síðan eru þau fullkomin ofan á heimabakað brauð, þó svo að það sé annað mál.

kakan er í grunnin hin fullkomna vanillukaka og ef sleppt er sítrónunni og fræjunum er hægt að nota þessa uppskrift sem grunn í alls konar kökur. Í þessari útgáfu gefur sítrónusafinn og börkurinn ótrúlega ferkst og gott bragð og er kakan alveg ótrúlega sumarleg og góð. Hún passar að mínu mati líka fullkomlega með íslatte, ef við viljum missa okkur alveg í sumarfýlingnum.

IMG_0079.jpg

Sítrónubotnar með birki

  • 7,5 dl hveiti

  • 3 dl sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 5 1/2 dl plöntumjólk

  • 2 dl matarolía eða önnur bragðlaus olía

  • safi og börkur af 1 sítrónu

  • 2 msk eplaedik

  • 2-3 msk birkifræ

Aðferð:

  1. Hitið ofnin í 180 gráður.

  2. Byrjið á því að balnda saman í skál plöntu mjólkinni, sítrónusafanum og berkinum ásamt edikinu og leggið til hliðar.

  3. Hrærið þurrefnin saman í aðra skál, bætið síðan út í mjólkurblöndunni og olíunni og hrærið vel saman.

  4. Bætið birkifræunum saman við og hrærið aðeins.

  5. Skiptið í tvö 24 cm form eða þrjú 18 cm form og bakið í ofninum í 30 mínútur, eða þar til tannstöngull eða grillpinni kemur hreinn út þegar honum er stungið í einn botninn.

Rjómaostakrem með sítrónu (miðað við þriggja hæða köku)

  • 250 gr hreinn vegan rjómaostur (t.d. oatly)

  • 400 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 pakkar flórsykur. (ég vil hafa kremið mjög stíft til að skreyta með því en þá minnka sykurinn ef hver og einn vill)

  • safi úr 1/2 sítrónu

Aðferð:

  1. Byrjið á því að þeyta smjörlíkið vel eitt og sér í hrærivél eða með handþeytara.

  2. Bætið rjómaostinum út í og þeytið vel saman við smjörlíkið.

  3. Bætið flórsykri út í ásamt sítrónusafanum og þeytið vel.

  4. Skreytið kökuna eins og hver og einn vill.

-Njótið vel og takk fyrir að lesa <3

Crunchy rabbabarakaka

IMG_7957.jpg

Haustið og veturinn er líklegast minn uppáhalds tími hvað varðar mat. Það er ekkert betra en góðar súpur, kássur og haustlegar kökur og tengi ég haustið alltaf við slíkan mat. Nú þegar haustið er handan við hornið er þessi gómæsta rabbabarakaka hin fullkomna kaka fyrir kósý helgarbakstur eða sem eftirréttur í gott matarboð.

IMG_7887.jpg

Mér finnst rabbabari ótrúlega góður og fannst því fullkomið að gera mjúka rabbabara köku með “crunchy” toppi þessa vikuna. Það kom mér þó á óvart hversu erfitt er að finna rabbabara út í búð þar sem ég átti alls ekki í vandræðum með að þefa hann uppi hvar sem er þegar ég var barn.

IMG_7897.jpg
IMG_7901.jpg

Ég kíkti í Hagkaup en ég fékk skilaboð um að einhverjir hefðu séð hann þar fyrr í sumar en þau áttu hann ekki til ennþá. Ég fékk einhver skilaboð um að hann fengist í frú Laugu en ég kíkti ekki þangað þar sem mamma vinkonu minnar var svo góð að gefa mér einn poka sem hún átti í frysti.

Það er þó allt í góðu ef þú finnur ekki rabbabara eða jafnvel finnst hann ekki góður þar sem það má alveg nota aðra ávexti í staðinn. Epli passa til dæmis ótrúlega vel með þessari uppskrift og ég gæti trúað því að hindber eða bláber gætu gætu gert það líka en ég ætla klárlega að prófa það á næstunni.

Þessi kaka er því fullkomin grunnur til að leika sér með en ég elska slíkar uppskriftir. Kakan er bökuð í lítilli skúffu sem er 30x20 cm en það má líka baka hana í venjulega hringformi en þá þarf að helminga uppskriftina.

IMG_7952.jpg

Hráefni:

  • 150 gr niðurskorinn rabbabari

  • 1 dl sykur

  • 150 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 dl sykur

  • 5 dl hveiti

  • 2 tsk matarsódi

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1 tsk salt

  • 1 tsk vanilludropar

  • 2 msk eplaedik

  • 5 dl mjólk

Aðferð:

  1. Hitið ofnin á 175° C

  2. Skerið rabbabaran í sneiðar og blandið einum dl af sykri saman við bitana. Setjið til hliðar á meðan deigið er undirbúið.

  3. Þeytið saman sykur og smjör með rafmagnsþeytara eða í hrærivél þar til létt og ljóst.

  4. Blandið þurrefnunum saman í annari skál og hellið út í smjörblönduna ásamt mjólkinni, edikinu og vanilludropunum.

  5. Hrærið saman þar til deigið er slétt og laust við kjekki. Ekki hræra deigið of lengi.

  6. Smyrjið form með smjörlíki, olíu eða setjið smjörpappír í botninn. Dreifið úr rabbabaranum í formið og hellið deiginu yfir. Útbúið haframjöls”crumble” og stráið yfir. Bakið í 40 mínútur þar til kakan er fallega gyllt að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar honum er stungið í kökuna.

Haframjöls”crumble”

  • 2 dl haframjöl

  • 1 dl hveiti

  • 1 & 1/2 dl púðursykur

  • 100 gr mjúkt vegan smjör eða smjörlíki

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í skál.

  2. Skerið smjörið í bita og hrærið saman við þurrefnin. Best er að nota bara hendurnar til að ná öllu saman í stóran “klump”. Deigið á að vera frekar þurrt og molna auðveldlega.

  3. Stráið yfir kökuna og bakið í 40 mínútur, þar til kakan er fallega gyllt að ofan og tannstöngull kemur hreinn út þegar honum er stungið í kökuna.

Kökuna má bera fram heita, beint úr ofninum, með vegan ís eða rjóma eða kalda eina og sér eða með rjóma.

Njótið vel

Vegan rjómaterta með jarðarberjum

IMG_1865-4.jpg

Hæ. Vonandi hafiði það gott.

Hérna í Piteå er svo sannarlega komið sumar. Sólin hefur skinið daglega síðustu vikur sem bætir svo sannarlega upp fyrir myrkrið sem ríkir hérna á veturna. Í gær fór hitinn upp í þrjátíu stig og bærinn safnaðist saman við vatnið og fólk ýmist baðaði sig eða lá og sólaði sig. Eiginlega ættum við Siggi að vera á Íslandi. Við hlökkuðum mikið til að eyða sumrinu saman á Íslandi í fyrsta skipti í mörg ár, en í kjölfar aðstæðna breyttust plönin og við verðum hér í staðinn. Löngu hlýju sólardagarnir eru svolítil huggun og við ætlum að njóta sumarsins hérna eins vel og við getum.

Á miðvikudaginn er 17. júní og í tilefni af því deili ég með ykkur hinni fullkomnu sumarköku með jaðrarberjarjóma sem tilvalið er að baka fyrir fjölskyldu og vini á þjóðhátíðardaginn. Botninn er dúnmjúkur og hentar í allskonar ljósar tertur en ég ákvað í þetta sinn að gera jarðarberjarjómakrem og úr varð besta rjómaterta sem ég hef bakað.

IMG_1725-2.jpg

Þessi kökubotn er að mínu mati hinn fullkomni ljósi botn. Hægt er að gera úr honum ótrúlega margar góðar kökur, eins og möndluköku, eplaköku, sjónvarpsköku og allskonar rjómatertur. Núna eru búðirnar fullar af gómsætum nektarínum svo ég er að spá í að prófa að gera nektarínuköku á næstunni.

IMG_1728.jpg

Ég var lengi að velta því fyrir mér hvernig ég vildi hafa tertuna og ætlaði fyrst að gera hana svakalega flotta á mörgum hæðum. Eftir þvi sem ég velti þessu lengur fyrir mér hallaðist ég frekar að því að gera köku í skúffuforminu mínu. Í hvert skipti sem ég baka fyrir veislur nota ég þetta form. Mér finnst það mun hentugara. Bæði er það fljótlegra og einfaldara og svo er bæði þægilegra að skera kökuna í sneiðar og að borða hana. Formið sem ég nota er 42x29x4 cm að stærð og er nákvæmlega eins og þetta form sem fæst í Byggt og búið. Það hefur reynst mér svo vel við baksturinn og ég elska smellulokið á því sem gerir það virkilega þægilegt að taka köku með sér eitthvert. Ef þið viljið baka kökuna í hringlaga formi myndi ég giska á að það sé best að skipta deiginu í tvö 24 cm form.

Jarðarberjarjómakremið er svo gott að ég gæti borðað það með skeið. Í rauninni fannst mér það svo gott að ég frysti smá part af því akkúrat til að borða með skeið heh. Mig langaði að sjá hvernig það kæmi út fryst og hvort það mögulega gæti gengið sem fylling í frysta ostaköku og það gerir það svo sannarlega. Með þvi að bæta við einum rjómaosti í viðbóð yrði þetta fullkomin fryst sumarleg ostakaka. Til að kremið þeytist sem best mæli ég með þeytirjómanum frá Aito. Hann þeytist svakalega vel og heldur forminu. Alpro rjóminn virkar líka og kremið er alveg jafn gott með honum, en mér finnst formið ekki verða jafn flott. Aito fæst í Bónus og Krónunni.

IMG_1815-5.jpg

Með því að baka kökuna í skúffuforminu þarf ekkert að gera til að skreyta hana annað en að smyrja rjómanum á og toppa með ferskum jarðarberjum, eða öðrum ávöxtum ef maður vill. Margra hæða rjómatertur eru sannarlega fallegar og myndast dásamlega vel, en ég vel yfirleitt þægindi fram yfir útlit. Að baka kökuna svona gerir það að verkum að hún er virkilega einföld og engin hætta á að hún mistakist eða líti ekki jafn vel út og maður ætlaði sér.

Mér hefur líka þótt þægilegt þegar ég býð fólki uppá köku að geta skorið niður í minni sneiðar, sérstaklega þegar ekki er til nóg af diskum og maturinn borðaður af servíettum.

Ég er virkilega ánægð með þessa gómsætu vegan rjómatertu. Mig langaði að hafa hana hátíðlega og það tókst algjörlega að mínu mati. Ég hef aldrei verið aðdáandi af gamaldags tertum með niðursoðnum ávöxtum og vildi því gera tertu sem ég sjálf myndi glöð borða. Fersk sumarjarðarber virkilega geta ekki klikkað að mínu mati.

IMG_1867-3.jpg

Rjómaterta með jarðarberjum

Hráefni:

  • 7,5 dl hveiti

  • 3 dl sykur

  • 3 tsk lyftiduft

  • 2 tsk matarsódi

  • 1 tsk salt

  • 7,5 dl vegan mjólk (ég notaði haframjólk)

  • 2 dl rapsolía eða önnur bragðlaus olía

  • 1,5 tsk vanilludropar

  • 2 msk eplaedik

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°c

  2. Blandið saman þurrefnunum í stóra skál

  3. Bætið restinni af hráefnunum útí og hrærið saman þar til engir kekkir eru.

  4. Klæðið formið með bökunarpappír. Mér finnst gott að smyrja smá smjörlíki í botninn og hliðarnar og þá festist bökunarpappírinn vel við formið. Eins og ég tók fram hér að ofan nota ég form sem er 42x29x4 cm.

  5. Hellið deiginu út í formið og bakið í miðjum ofni í 30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn út þegar þið stingið í hana. Ég myndi kíkja á hana eftir 25 mínútur.

  6. Látið kökuna kólna alveg áður en þið setjið kremið á hana.

Jarðarberjakrem:

  • 500 gr. fersk jarðarber (þegar ég prufubakaði kökuna fann ég hvergi fersk ber og notaði því frosin sem ég leyfði að þiðna fyrst og það var líka mjög gott)

  • 1 ferna þeytirjómi frá Aito (það virkar líka að nota þann frá Alpro en Aito þeytist mun betur að mínu mati)

  • 2 tsk sítrónusafi

  • 1 dolla Oatly rjómaostur (påmackan)

  • 2 dl flórsykur

  • 2 msk vanillusykur

Aðferð:

  1. Mér finnst gott að gera kremið frekar tímanlega þannig að það getið fengið að standa í kæli í allavega klukkutíma. Það er jafnvel sniðugt að byrja kannski á kreminu en annars dugir að gera það um leið og kakan fer í ofninn og hafa það í ísskápnum þar til kakan hefur kólnað.

  2. Hellið rjómanum og sítrónusafanum í skál og þeytið í hrærivél eða rafmagnsþeytara þar til rjóminn er orðinn þykkur. Setjið hann í ísskápinn á meðan þið gerið restina.

  3. Setjið rjómaost, flórsykur og vanillusykur í aðra skál og þeytið saman þar til það hefur blandast vel. Leggið til hliðar

  4. Stappið hluta af jarðarberjunum og takið restina frá til að skreyta með. Ég held ég hafi notað sirka 350 gr í kremið og restin fór ofan á. Þið ráðið í raun alveg hvernig þið viljið hafa það.

  5. Blandið rjómaostakreminu og stöppuðu berjunum varlega saman við rjómann þar til allt er vel blandað.

  6. Kælið þar til kakan er orðin köld.

  7. Smyrjið kreminu á kökuna og raðið berjunum yfir. Þessi kaka er mjög góð við stofuhita en hún er líka svakalega góð beint úr kælinum.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að ykkur líki vel! <3

Helga María.

Stór vegan súkkulaðibitakaka með karamellusósu

IMG_1367-2.jpg

Í dag færi ég ykkur uppskrift af stórri vegan súkkulaðibitaköku með karamellusósu og ís. Kakan er hinn fullkomni desert og mun svo sannarlega stela senunni við ýmis tilefni.

IMG_1285.jpg

Þessi kaka er virkilega skemmtilegur eftirréttur að bjóða uppá t.d. í matarboðum eða veislum. Hún smakkast eins og venjulegar súkkulaðibitakökur en það er mun auðveldara að útbúa hana og borin fram volg með vanilluís er hún betri en nánast allt annað í heiminum! Já stór orð, en ég stend við þau!

Færslan er í samstarfi við Hagkaup og þar fást allar þær vörur sem þarf í uppskriftina. Eins og við höfum nefnt áður er mikið úrval af góðum vegan vörum í Hagkaup og við elskum að versla þar. Ég notaði í þetta sinn suðusúkkulaði í kökuna, en get ímyndað mér að það sé ótrúlega gott að leika sér með uppskrifitina og nota eitthvað af gómsætum vegan súkkulaðistykkjunum sem fást í Hagkaup. Mín uppáhalds eru Jokerz sem er eins og vegan útgáfa af snickers, Twilight sem er eins og Mars og Buccaneer sem er eins og Milky way. Í Hagkaup fást einnig allskonar tegundir af vegan ís sem er góður með kökunni. Við mælum mikið með ísnum frá Oatly og Yosa.

IMG_1311.jpg

Karamellusósan er sú sama og í uppskriftinni af Döðlukökunni (mæli með að prófa döðlukökuna ef þið hafið ekki gert það). Ég leyfði sósunni þó að þykkna aðeins meira fyrir þessa uppskrift og hún passaði fullkomlega með kökunni og ísnum.

Þegar kakan er borin fram heit er hún svolítið klesst að innan sem mér finnst alveg ótrúlega gott. Það er mikilvægt að baka hana ekki of lengi þvi þá verður hún bara eins og hörð smákaka. Við viljum hafa hana svolítið “gooey!”

IMG_1356.jpg

Ég vona innilega að þið bakið kökuna og látið okkur vita hvað ykkur finnst. Þið hafið verið dugleg að tagga okkur á Instragram uppá síðkastið og okkur þykir enn og aftur ótrúlega vænt um það.

IMG_1349.jpg

Takk innilega fyrir að lesa! <3

-Helga María

Æðisleg stór vegan súkkulaðibitakaka

Æðisleg stór vegan súkkulaðibitakaka
Höfundur: Helga María
Eldunartími: 30 MinHeildartími: 30 Min

Hráefni:

  • 200 gr. smjörlíki
  • 2 dl púðursykur
  • 1,5 dl sykur
  • 1 hörfræsegg (1 msk möluð hörfræ + 3 msk vatn)
  • 1 tsk vanilludropar
  • 5 dl hveiti (Ath að til að fá rétt magn af hveiti mæli ég með að nota skeið til að setja hveitið í dl málið í stað þess að moka upp hveiti með málinu því með því að moka beint upp með dl málinu er hætta á að pakka inn alltof miklu hveiti)
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 200 gr. saxað suðusúkkulaði (eða annað vegan súkkulaði)

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c
  2. Byrjið á því að gera hörfræseggið með því að blanda 1 msk möluðum hörfræjum saman við 3 msk vatn og láta standa í nokkrar mínútur þar til það hefur þykknað svolítið.
  3. Bræðið smjörlíkið og hrærið saman við púðursykur og sykur með písk.
  4. Bætið hörfræsegginu og vanilludropunum út í og hrærið saman.
  5. Hrærið hveiti, lyftidufti, salti og matarsóda saman í aðra skál og bætið út í smjörblönduna í skömmtum og hrærið saman með sleikju eða sleif. Ég bæti hveitinu í skömmtum svo deigið verði ekki of þurrt.
  6. Saxið súkkulaðið og setjið út í skálina og blandið saman við með sleikju eða sleif. Geymið smá af súkkulaðinu til hliðar sem þið setjið ofan á deigið þegar það er komið í formið.
  7. Smyrjið steypujárnspönnu eða kökuform með smjörlíki.
  8. Setjið deigið ofan í og toppið með reistinni af súkkulaðinu.
  9. Bakið í 20-25 mínútur eða þar til kakan er orðin svolítið gyllt að ofan. Eins og ég sagði hér að ofan er kakan svolítið klesst að innan ef hún er borðuð heit en það er alveg eins og það á að vera.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur
 
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
 

-Færslan er unnin í samstarfi við Hagkaup og þar fást allar vörurnar í uppskriftina-

Mjúk piparkaka með rjómaostakremi

IMG_9859-4.jpg

Nú er loksins kominn nóvember svo við megum byrja að tala um jólin.
Ég er búin að hlakka til síðan í sumar að byrja að birta jólauppskriftir. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og elska að dunda mér í eldhúsinu í kringum aðventuna. Uppskrift dagsins, fyrsta jólauppskrift ársins, er af mjúkri piparköku með rjómaostakremi. Ég get ekki lýst því með orðum hvað eldhúsið lyktar vel þegar þessi kaka er bökuð. Þessi kaka er mjög vinsæl hérna í Svíþjóð og bragðið minnir svolítið á lagtertu. Þetta er uppskrift sem er komin til að vera og ég mun klárlega baka hana oft núna fram að jólum.

Næstkomandi vikur erum við systur í samstarfi við Naturli og ég ætla því að birta nokkrar uppskriftir af jólabakstri þar sem ég nota nýja smjörlíkið þeirra. Hingað til hefur ekki fengist á Íslandi gott vegan smjörlíki sem er lífrænt, laust við pálmaolíu og hentar vel í bakstur. Ég var því ekkert smá spennt að prófa nýja smjörlíkið frá Naturli og sjá hvernig væri að nota það í bakstur, og ég hef verið þvílíkt ánægð með útkomuna í hvert skipti. Smjörlíkið er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar vel til baksturs og steikingar og er líkt og hitt smjörið frá þeim virkilega gott. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni Melabúðinni og Fjarðarkaupum.

IMG_9841-2.jpg

Hérna í Piteå kyngir niður snjó og því óhjákvæmilegt að vera farin að huga að jólunum. Kertaljós, fallegur hvítur snjór og jólalög gera dimman veturinn mun bærilegri og þar sem ég hef alltaf haft fremur rómantíska sýn á lífið nýt ég þess mikið að geta skapað þessa notalegu stemningu. Ég er ein af þeim kýs að lýsa upp heimilið með lömpum, seríum og kertaljósi frekar en skærgulu loftljósi. Það kemur því engum sem þekkja mig á óvart hversu mikið ég elska aðventuna og allt sem henni fylgir.

IMG_9848-2.jpg

Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri góðum hátíðaruppskriftum fram að jólum. Ég vona að þið prófið að baka þessa dásamlegu mjúku piparköku og endilega látið mig vita, ef þið bakið hana, hvernig ykkur finnst hún. Eins þykir okkur alltaf jafn gaman þegar þið komið með hugmyndir af mat sem þið viljið sjá á blogginu. Er eitthvað sem ykkur finnst ómissandi um jólin og viljið sjá í vegan útgáfu t.d.?

IMG_9851-2.jpg

Mjúk piparkaka

  • 200 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 2 dl sykur

  • 6 dl hveiti

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1,5 tsk matarsódi

  • 1 msk kanill

  • 2 tsk engiferkrydd

  • 2 tsk negull

  • Örlítið salt

  • 6 dl vegan mjólk

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 msk týtuberjasulta (lingonsylt). Þessa sultu er kannski svolítið erfitt að finna á Íslandi. Hún er alltaf notuð í svona köku í Svíþjóð og mér þykir gott að hafa hana með. Ég veit að hún fæst í Ikea, en fyrir ykkur sem ekki nennið eða hafið tök á að fara þangað eftir henni mæli ég með að prufa að nota aðra sultu í staðinn eða jafnvel rúsínur. Annars er ekkert mál að sleppa henni bara.

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 175°C. Minn er ekki með blæstri svo ég set á undir og yfir hita.

  2. Þeytið smjörlíkið og sykurinn í stórri skál þar til það verður létt og svolítið ljóst.

  3. Sigtið út í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kryddin.

  4. Hellið útí mjólk, vanilludropum og eplaediki og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  5. Bætið sultunni útí og blandið varlega saman við deigið.

  6. Smyrjið tvö smelluform og skiptið deiginu í þau.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast en ég byrja að fylgast með henni eftir sirka hálftíma.

  8. Látið botnana kólna áður en þið setjið kremið á.

Rjómaostakrem

  • 200 gr vegan rjómaostur

  • 100 gr Naturli smjörlíki

  • 2 msk vanillusykur

  • 500 gr flórsykur

  • 1 msk kanill

Aðferð

  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn og smjörlíkið.

  2. Bætið saman við flórsykrinum, vanillusykrinum og kanil og þeytið þar til kremið er létt og ljóst.

  3. Smyrjið botnana með kreminu og skreytið kökuna eftir smekk. Ég muldi niður piparkökur og stráði yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið prófið að baka þessa dásamlegu köku.

Helga María

 
naturlilogo.jpg
 

- þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli -