Falafel úr chana dal baunum

Síðan ég varð ólétt hef ég verið mikið að prófa mig áfram með fleiri baunarétti og svona aðeins “hollari” fæðu. Ég myndi segja að mataræðið mitt sé nú alveg frekar hollt yfir höfuð en ég á það til að elda mikið af soyakjöti og plana flestar máltíðir í kringum slík hráefni. Ég hugsa að partur af því sé til komið vegna þess að fyrst þegar við systur urðum vegan var lítið til að slíkum vörum og samanstóð mataræðið okkar eingöngu af grænmeti, ávöxtum, baunum, hnetum og fræjum. Þar af leiðandi opnaðist alveg nýr heimur fyir mér þegar vegan kjöt fór að vera í boði.

En eftir að ég varð ólétt hef ég aðeins verið að reyna að fara til baka og gera fleiri rétti úr minna unnum vörum og hef því verið að koma baunum meira og meira inn í mataræðið mitt aftur þar sem þær eru alveg stútfullar af góðri næringu, próteini, trefjum og alls kona góðu. Ég er þó alls ekki að segja að vegan “kjöt” sé óhollt og borða ég það yfirleitt eitthvað á hverjum degi líka.

Mér hefur fundist mjög gaman að leika mér með allskonar baunir síðustu mánuði og þá sérstaklega baunirnar frá Oddpods en við erum búnar að vera í samstarfi með þeim síðan í sumar. Baunirnar eru svo frábærar þar sem þær er hægt að nota á svo marga vegu og er hægt að leika sér með nánast hvaða baunir sem er í alls konar mismunandi réttum. Það sem mér finnst vera mikill plús við þetta merki er að það er hægt að fá baunir líkt og brúnar linsur og chana dal baunirnar sem ég nota í þessari uppskrift forsoðnar, en það hefur ekki verið auðvelt að nálgast slíkt hérna heima. Þessar baunir þarf yfirleitt að leggja í bleyti og sjóða sjálfur. Oddpods baunirnar koma hins vegar tilbúnar til neyslu beint úr pokanum og eru þær soðnar upp úr vatni og grænmetiskrafti sem gerir þær einstaklega bragðgóðar.

Nú er ég í vaktavinnu og er því oft heima í hádeginu hina og þessa daga og því finnst mér nauðsynlegt að kunna að gera góða, fljótlega rétti í hádeginu þegar ég á t.d. ekki afganga frá því kvöldinu áður eða eitthvað slíkt. Auðveldar grænmetisbollur sem taka enga stund eru alveg fullkomnar í svona fljótlega rétti og er þessi uppskrift alveg einstaklega góð þar sem hún er SVO auðveld og tekur innan við 15 mínútur að græja. Þær má einnig nota á svo marga vegu, t.d. með góðu salati, í pítubrauði eða í vefjur. Það er líka svo frábært að það er hægt að nota hvaða baunir sem er í hana og því alltaf hægt að grípa í þessa uppskrift sama hvaða baunir eru til. Í þetta skipti ætla ég að deila með ykkur uppskrift með Chana dal baununum frá Oddpods en það eru gular “split peas” líkt og notað er í baunasúpu.

Hráefni:

  • 1 poki Chana dal baunir frá Oddpods

  • 1 hvítlauksrif

  • 1 msk ferskt kóríander

  • 1 msk ferksur graslaukur

  • 1 tsk malaður kóríander

  • 1 tsk laukduft

  • 1 tsk kúminduft

  • 2-3 msk ferskur sítrónusafi

  • salt

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin saman í blandara eða matvinnsluvél og maukið þar til fínt duft. Tekur einungis um 2-3 mínútur í góðum blandara.

  2. Mótið í bollur, buff eða það sem hentar hverju sinni.

  3. Steikið á pönnu í nokkrar mínútur á hvorri hlið eða bakið í ofni í 12-15 mínútur við 200°C.

  4. Berið fram með tzaziki sósu og salati eða í pítúbrauði, vefju eða sem borgari.

Tzatziki sósa

  • 1 bolli hreint jógúrt (mín uppáhalds eru Oatly Turkisk havregurt eða hreina sojade)

  • 2 msk rifin gúrka

  • 1/2 hvítlauksrif

  • salt

  • 1 msk ferskur sítrónusafi

  • 1 msk niðursaxað ferskt dill

Aðferð:

  1. Rífið gúrkuna niður og pressið hvítlaukinn eða saxið bæði mjög smátt. Saxið dillið.

  2. Blandið öllum hráefnum saman í skál og smakkið til með salti.

-Njótið vel og endilega kíkið á instagram hjá okkur en þar er stutt myndband af því hvernig ég geri bollurnar.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Oddpods á Íslandi -

 
 

Mjúk piparkaka með rjómaostakremi

IMG_9859-4.jpg

Nú er loksins kominn nóvember svo við megum byrja að tala um jólin.
Ég er búin að hlakka til síðan í sumar að byrja að birta jólauppskriftir. Ég hef alltaf verið mikið jólabarn og elska að dunda mér í eldhúsinu í kringum aðventuna. Uppskrift dagsins, fyrsta jólauppskrift ársins, er af mjúkri piparköku með rjómaostakremi. Ég get ekki lýst því með orðum hvað eldhúsið lyktar vel þegar þessi kaka er bökuð. Þessi kaka er mjög vinsæl hérna í Svíþjóð og bragðið minnir svolítið á lagtertu. Þetta er uppskrift sem er komin til að vera og ég mun klárlega baka hana oft núna fram að jólum.

Næstkomandi vikur erum við systur í samstarfi við Naturli og ég ætla því að birta nokkrar uppskriftir af jólabakstri þar sem ég nota nýja smjörlíkið þeirra. Hingað til hefur ekki fengist á Íslandi gott vegan smjörlíki sem er lífrænt, laust við pálmaolíu og hentar vel í bakstur. Ég var því ekkert smá spennt að prófa nýja smjörlíkið frá Naturli og sjá hvernig væri að nota það í bakstur, og ég hef verið þvílíkt ánægð með útkomuna í hvert skipti. Smjörlíkið er búið til úr shea-, kókos-, raps- og möndluolíu. Það hentar vel til baksturs og steikingar og er líkt og hitt smjörið frá þeim virkilega gott. Smjörlíkið fæst í Bónus, Krónunni Melabúðinni og Fjarðarkaupum.

IMG_9841-2.jpg

Hérna í Piteå kyngir niður snjó og því óhjákvæmilegt að vera farin að huga að jólunum. Kertaljós, fallegur hvítur snjór og jólalög gera dimman veturinn mun bærilegri og þar sem ég hef alltaf haft fremur rómantíska sýn á lífið nýt ég þess mikið að geta skapað þessa notalegu stemningu. Ég er ein af þeim kýs að lýsa upp heimilið með lömpum, seríum og kertaljósi frekar en skærgulu loftljósi. Það kemur því engum sem þekkja mig á óvart hversu mikið ég elska aðventuna og allt sem henni fylgir.

IMG_9848-2.jpg

Ég hlakka til að deila með ykkur fleiri góðum hátíðaruppskriftum fram að jólum. Ég vona að þið prófið að baka þessa dásamlegu mjúku piparköku og endilega látið mig vita, ef þið bakið hana, hvernig ykkur finnst hún. Eins þykir okkur alltaf jafn gaman þegar þið komið með hugmyndir af mat sem þið viljið sjá á blogginu. Er eitthvað sem ykkur finnst ómissandi um jólin og viljið sjá í vegan útgáfu t.d.?

IMG_9851-2.jpg

Mjúk piparkaka

  • 200 gr Naturli smjörlíki við stofuhita

  • 2 dl sykur

  • 6 dl hveiti

  • 2 tsk lyftiduft

  • 1,5 tsk matarsódi

  • 1 msk kanill

  • 2 tsk engiferkrydd

  • 2 tsk negull

  • Örlítið salt

  • 6 dl vegan mjólk

  • 2 tsk vanilludropar

  • 1 msk eplaedik

  • 2 msk týtuberjasulta (lingonsylt). Þessa sultu er kannski svolítið erfitt að finna á Íslandi. Hún er alltaf notuð í svona köku í Svíþjóð og mér þykir gott að hafa hana með. Ég veit að hún fæst í Ikea, en fyrir ykkur sem ekki nennið eða hafið tök á að fara þangað eftir henni mæli ég með að prufa að nota aðra sultu í staðinn eða jafnvel rúsínur. Annars er ekkert mál að sleppa henni bara.

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 175°C. Minn er ekki með blæstri svo ég set á undir og yfir hita.

  2. Þeytið smjörlíkið og sykurinn í stórri skál þar til það verður létt og svolítið ljóst.

  3. Sigtið út í skálina hveiti, lyftiduft, matarsóda, salt og kryddin.

  4. Hellið útí mjólk, vanilludropum og eplaediki og hrærið þar til deigið er laust við kekki.

  5. Bætið sultunni útí og blandið varlega saman við deigið.

  6. Smyrjið tvö smelluform og skiptið deiginu í þau.

  7. Bakið í 40-60 mínútur. Það fer svolítið eftir ofninum hversu lengi kakan er að bakast en ég byrja að fylgast með henni eftir sirka hálftíma.

  8. Látið botnana kólna áður en þið setjið kremið á.

Rjómaostakrem

  • 200 gr vegan rjómaostur

  • 100 gr Naturli smjörlíki

  • 2 msk vanillusykur

  • 500 gr flórsykur

  • 1 msk kanill

Aðferð

  1. Byrjið á því að þeyta rjómaostinn og smjörlíkið.

  2. Bætið saman við flórsykrinum, vanillusykrinum og kanil og þeytið þar til kremið er létt og ljóst.

  3. Smyrjið botnana með kreminu og skreytið kökuna eftir smekk. Ég muldi niður piparkökur og stráði yfir.

Takk fyrir að lesa og ég vona innilega að þið prófið að baka þessa dásamlegu köku.

Helga María

 
naturlilogo.jpg
 

- þessi færsla er unnin í samstarfi við Naturli -

Gómsætar fylltar paprikur

IMG_2481.jpg

Ég fattaði það um daginn að ég hef ekki póstað neinni “hversdagslegri” uppskrift frá því fyrir jólin. Ég ákvað að bæta úr því í dag og gera gómsæta uppskrift af fylltum paprikum, sem eru fullkomnar sem kvöldmatur á venjulegum virkum degi, en á sama tíma svo ótrúlega bragðgóðar að þær passa vel fyrir fínni tilefni eins og matarboð.

IMG_2443.jpg

Ég hef verið svolítið föst í að elda alltaf það sama síðustu mánuði og ákvað um daginn að breyta því. Mér hafa alltaf þótt fylltar paprikur góðar en mér dettur einhvernveginn aldrei í hug að útbúa þær þegar ég er að ákveða hvað ég ætla að hafa í matinn. Þessi uppskrift er svo ótrúlega góð og auðvelt að útbúa hana og ég skil ekkert í mér að elda hana ekki oftar. Ég ætla að reyna að vera dugleg að pósta góðum uppskriftum af mat sem ég elda mér hversdagslega. Það gefur mér sjálfri innblástur til að vera hugmyndarík og breyta reglulega til.

IMG_2445.jpg

Ég eyddi síðustu helgi í Edinborg með Júlíu, mömmu okkar og Katrínu litlu systur. Við Júlía vorum auðvitað búnar að finna alla veitingastaði sem okkur langaði að prufa og Katrín hafði orð á því að við tölum varla um annað en mat. Matur var hefur alltaf verið stórt áhugamál hjá Júlíu, en hjá mér gerðist það ekki fyrr en ég varð vegan og byrjaði að blogga. Í dag eigum við það sameiginlegt að hugsa mikið og tala mikið um mat. Við urðum alls ekki fyrir vonbrigðum með vegan matinn í Edinborg og borgin þótti okkur alveg æðisleg. Það er þó alltaf jafn áhugavert að sama hvað það er gott að borða á veitingastöðum, þá er oftast langbest að elda mat heima. Ég verð því alltaf jafn fegin þegar ég kem heim úr svona ferðum og get farið að elda sjálf. Ég tek þó oft með mér hugmyndir og innblástur frá veitingastöðunum sem ég borða á.

IMG_2457.jpg

Ég bar paprikurnar fram með góðu salati og hvítlauksbrauði. Við erum með einfalda og þægilega uppskrift af fljótlegu hvítlausbrauði HÉR. Það þarf enga sósu með paprikunum. Þær eru virkilega bragðmiklar og fyllingin er safarík og góð. Það er þó örugglega gott að strá smá vegan osti yfir áður en þær fara í ofninn, en mér finnst það persónulega óþarfi. Ég nota vegan hakk í réttinn og mæli með hakkinu frá Anamma. Fyrir þá sem ekki vilja sojahakk mæli ég með að nota soðnar brúnar linsubaunir. Mér finnst uppskriftin þó fullkomin með hakkinu.

IMG_2466.jpg

Fylltar paprikur (fyrir fjóra)

  • 4 paprikur

  • Olía til steikingar og til að pennsla paprikurnar

  • 30 g furuhnetur

  • 1 lítill laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 225 g vegan hakk - mæli með því frá Anamma

  • 1 tsk chilliduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk cumin

  • 1/2 tsk kanill

  • 1 msk balsamik edik

  • 250 g ferskir tómatar - skornir niður í grófa bita

  • 2 msk sítrónusafi

  • 2 dl soðin hrísgrjón - Ég notaði brún grjón

  • 40 g tómatpúrra

  • 1,5 msk tapenade úr sólþurrkuðum tómötum. Ég keypti það í Svíþjóð og vona innilega að svoleiðis fáist á Íslandi. Ef ekki, þá er rauða pestóið frá Himneskt mjög gott, en eins er hægt að mauka niður sólþurrkaða tómata.

  • 4 lárviðarlauf

  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°C.

  2. Skerið toppana af paprikunum og leggið til hliðar.

  3. Pennslið paprikurnar að innan með smá olíu og saltið aðeins. Látið þær standa á meðan þið gerið fyllinguna.

  4. Ristið furuhneturnar á pönnu án olíu í 1-2 mínútur. Leggið til hliðar þegar þær eru orðnar svolítið gylltar.

  5. Hitið olíu í stórum potti. Saxið laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið í pottinum þar til þeir hafa mýkst. Passið að brenna þá ekki.

  6. Bætið hakkinu og kryddunum út í pottinn og hrærið vel í nokkrar mínútur.

  7. Bætið tómötunum í pottinn ásamt 100 ml vatni og latið malla i sirka 10-15 minutur.

  8. Hellið grjónunum (ath að þau eiga að vera soðin þegar þau fara í fyllinguna), edikinu, furuhnetunum og sítrónusafanum saman við og saltið og piprið eftir smekk.

  9. Hrærið saman tómatpúrru, tapande/pestó og 200 ml heitu vatni í skál.

  10. Hellið helmingnum af blöndunni út í pottinn og hrærið saman við fyllinguna.

  11. Fyllið paprikurnar og raðið þeim í eldfast mót. Leggið toppinn á og pennslið tómatpúrrublöndu yfir. Hellið restinni af blöndunni svo ofan í eldfasta mótið og leggið lárviðarlauf i botninn.

  12. Setjið i ofninn i sirka 35 mínútur eða þar til paprikurnar eru orðnar svolítið dökkar að ofan.

  13. Berið fram með salati, hvítlauksbrauði eða því sem ykkur lystir.

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur
-Veganistur

Rauðrófu- og eplasalat

IMG_2189-3.jpg

Þetta salat er alveg rosalega einfalt og þarf varla sér færslu. Ég ákvað þó að skella því hérna inn því þetta er mitt uppáhalds meðlæti yfir jólin. Það er svolítið erfitt að segja hversu mikið þarf af hverju, því það fer algjörlega eftir því hversu margir ætla að borða. Ég sker niður epli eins og ég vil og sker svo niður rauðbeður úr krukku þannig jafn mikið verði af þeim og af eplunum. Svo bæti ég vegan mæjónesi út í eins og mér finnst passlegt. Ég ætla að skrifa hér að neðan hversu mikið ég gerði, en ég gerði einfaldlega það sem mér fannst þurfa svo ég ætti nóg í færsluna, en það myndi þó passa fyrir 3-4 held ég.

Rauðrófu- og eplasalat

  • 1 og ½ afhýtt epli

  • Rauðbeður úr krukku þannig jafn mikið sé af þeim og af eplunum

  • Nokkrar msk heimagert mæjónes,eða eins og mér fannst passlegt. Uppskrift af mæjónesinu er að finna HÉR

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Skerið niður eplin

  2. Skerið niður rauðbeðurnar

  3. Bætið mæjónesinu saman við ásamt salti og pipar

Njótið

Veganistur

Vegan tartalettur á tvo vegu

IMG_2129-5.jpg

Í dag ætla ég að deila með ykkur tveimur uppskriftum af tartalettum. Það var aldrei hefð á okkar heimili að borða tartalettur og ég held ég hafi bara smakkað þær nokkrum sinnum yfir ævina. Hinsvegar hefur mig lengi langað að prufa að gera tartalettur með góðri vegan fyllingu og í gær lét ég loksins verða af því. Ég ákvað að gera tvær útgáfur, en mér fannst nauðsynlegt að gera eina uppskrift sem minnir á hangikjötsfyllinguna sem margir borða. Ég elska aspasbrauðrétti svo mér fannst ég verða að gera svoleiðis útgáfu líka. Báðar heppnuðust alveg ótrúlega vel og komu mér í þvílíkt hátíðarskap.

IMG_2072-2.jpg

Mér finnst alltaf jafn áhugavert hvað mér finnst margt gott, eftir að ég varð vegan, sem er innblásið af mat sem mér þótti aldrei góður áður fyrr. Hangikjöt, grænar baunir og uppstúf var eitthvað sem mér fannst hreinlega vont allt mitt líf, en þegar ég gerði fyllinguna í gær sem er gerð með salty & smoky Oumph! kom það mér á óvart hversu ótrúlega gott mér þótti þetta. Það eru mörg fleiri dæmi um þetta hjá mér og kokteilsósa er eitt sem er mér efst í huga. Ég skildi aldrei af hverju fólki þótti kokteilsósa góð, en í dag þykir mér vegan kokteilsósa alveg geggjuð.

IMG_2088-3.jpg

Reyndar þegar ég hugsa um það hefur mér aldrei þótt matur jafn góður og eftir að ég gerðist vegan. Ég var aldrei spennt fyrir matnum yfir jólin. Mér þóttu marengstertur og aspasbrauðréttir góðir, en allt hitt þótti mér óspennandi eða vont. Í dag eru jólin í algjöru uppáhaldi og ég er alltaf jafn spennt að baka smákökur, lagtertu og lakkrístoppa. Jólamaturinn hefur líka aldrei verið jafn veglegur hjá mér og síðan ég varð vegan. Úrvalið er orðið svo gríðarlegt og grænkerar þurfa ekki lengur að borða hnetusteik í öll mál yfir hátíðirnar eins og fyrir sjö árum þegar ég hélt mín fyrstu vegan jól.

IMG_2104-2.jpg

Reykta og saltaða Oumphið er virkilega gott og mjög jólalegt. Þegar ég gerði tartaletturnar í gær gerði ég bara hálfa uppskrift af hvorri tegund, svo ég ákvað að prufa að gera vegan útgáfu af hangikjötsalati úr afgöngunum. Það kom auðvitað sjúklega vel út, en ég steikti á pönnu afganginn af oumphinu, skar það mjög smátt niður og blandaði við afgangs mæjónes ásamt grænum baunum úr dós og örlitlu hlynsírópi. Þetta fékk svo að standa í ísskápnum í smá stund og ég fékk smá sjokk yfir því hvað þetta minnti mikið á hangikjötsalat (sem mér einmitt þótti aldrei gott þegar ég borðaði kjöt, en finnst alveg geggjað svona vegan).

IMG_2105-3.jpg

Það eru örugglega margir sem hafa aldrei borðað tartalettur og finnst þetta kannski hljóma óspennandi, en ég mæli mikið með að gefa þeim séns. Sjálfar tartaletturnar minna á smjördeig og eru rosalega góðar með fyllingunni. Ég var smá viss um að mér myndi þykja aspas fyllingin miklu betri en hin, en ég get eiginlega ekki valið á milli, mér fannst þær báðar svo ótrúlega góðar.

IMG_2126-4.jpg

Ég ætla ekki að deila uppskrift af meðlætinu í þessari færslu, en uppskriftin af rauðrófusalatinu er þó væntanleg núna eftir helgi. Rósakálið gerði ég einfaldlega með því að steikja það á pönnu upp úr smá olíu og salti og svo í lokinn bætti ég örlitlu hlynsírópi á pönnuna ásamt appelsínuberki og leyfði rósakálinu að brúnast örlítið í því.

IMG_2122.jpg

Tartalettur með aspas og sveppum

  • 1 bolli vegan mæjónes - Mér finnst laaang best og einfaldast að búa til mitt eigið. Hér er uppskrift af því

  • 150 g sveppir

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1 sveppateningur - Ég notaði sveppakraft frá Knorr

  • 180 g aspas úr dós plús 2 msk af safanum af aspasinum

  • Paprikuduft eftir smekk

  • Tartalettur

Aðferð:

  1. Hitið ofninn á 180°C

  2. Skerið sveppina niður og steikið á pönnu upp úr smá olíu þar til þeir eru frekar vel steiktir

  3. Bætið út á pönnuna mæjónesi, aspas, safa af aspasinum og sveppakrafti

  4. Skiptið fyllingunni í tartelettuform og toppið með smá paprikudufti

  5. Hitið í ofninum í ca 15 mínútur eða þar til þetta er farið að taka smá gylltan lit.

Tartalettur með Oumph og uppstúf:

Uppstúf:

  • 2 msk smjörlíki

  • 4 msk hveiti

  • 500 ml vegan mjólk

  • 1-2 msk sykur

  • Salt og pipar (hvítur eða svartur)

  1. Hitið smjörið og hveitið í potti og hrærið vel þannig það myndi smjörbollu

  2. Hellið mjólkinni út í hægt þar til úr verður þykk sósa. Ég skrifaði 500 ml að ofan, en það fer svolítið eftir því hvaða mjólk er notuð. Það þarf þó ekki meira en 500 ml en sumir gætu þurft aðeins minna.

  3. Bætið út í sykri, salti og pipar og smakkið til

Tartalettur með Oumphi, uppstúf, kartöflum og baunum:

  • 1 poki salty & smoky Oumph!

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 2-3 meðalstórar soðnar kartöflur - fer svolítið eftir smekk hversu mikið fólk vill af kartöflum, en ég notaði tvær.

  • Grænar baunir í dós eftir smekk

  • Uppstúf eftir smekk - Það mun líklega verða smá afgangur af uppstúf, en ég mæli með því að blanda smá í einu þar til fyllingin hefur þá áferð sem þið kjósið.

Aðferð:

  1. Steikið oumphið upp úr smá olíu á pönnu og skerið svo niður í smærri bita

  2. Afhýðið kartöflurnar og skerið í svipað stóra bita

  3. Blandið saman í skál ásamt grænum baunum og uppstúf. Mér finnst svolítið erfitt að segja nákvæmt magn af t.d baunum eða uppstúf því það er svo misjafn hvað fólk vill, en ég held ég hafi notað sirka 1 dl af baunum og svo hellti ég sósu saman við þar til ég fékk þá áferð sem ég vildi. Þið sjáið á einni af myndunum hérna fyrir ofan hvernig fyllingin mín leit út áður en tartaletturnar fóru í ofninn.

  4. Hitið í ofninum í 15 mínútur eða þar til tartaletturnar hafa fengið á sig gylltan lit.

Takk innilega fyrir að lesa og vona að ykkur líki vel

veganisturundirskrift.jpg

Bláberjasæla

IMG_1739.jpg

Síðan skólinn byrjaði höfum við verið alveg á kafi og hefur bloggið því aðeins setið á hakanum í haust. Ég (Helga) byrjaði í bachelor námi í jazzsöng hérna í Piteå, sem hefur verið stór draumur síðan ég var barn. Það hefur verið æðislegt og ég get sagt að ég hef ekki verið svona hamingjusöm lengi. Á sama tíma hef ég þurft að læra að skipuleggja tímann minn upp á nýtt. Síðustu ár hef ég haft gríðarlega mikinn tíma og hef því getað ráðið því sjálf hvernig ég eyði deginum. Það hefur því orðið mikil breyting hjá mér síðustu mánuði, og ég er enn að læra að nýta tímann vel svo ég nái að koma öllu fyrir sem ég vil gera. Ég hef þó líka þurft að sætta mig við að ég get ekki endilega gert allt sem mig langar á hverjum degi. Ég viðurkenni að ég hef stundum verið svolítið svekkt yfir því og ég fæ oft samviskubit yfir því að geta ekki verið nógu dugleg í öllu sem ég vil. Í hinum fullkomna heimi myndi ég standa mig gríðarlega vel í skólanum, vera alltaf vel undirbúin þegar ég syng með tríóinu mínu, blogga einu sinni í viku, vera dugleg að pósta á Instagram, snappa, hreyfa mig, nota eins lítið plast og ég get, lesa meira… og listinn heldur áfram. Ég hef sem betur fer áttað mig á því að ég er að setja alltof mikla pressu á sjálfa mig, og er að vinna í því að sleppa tökunum aðeins svo ég nái að njóta þess sem ég er að gera. Það gengur svona misvel hjá mér, en ég finn að þetta er allt á réttri leið.

IMG_1709.jpg

Ég hef komist að því að þegar ég blogga ekki lengi missi ég allt sjálfstraust og mikla hlutina gríðarlega fyrir mér. Allt í einu finnst mér ég ekkert kunna að blogga lengur og fresta því endalaust að taka fram myndavélina og skella í einhverja gómsæta uppskrift. Í hvert skipti sem ég upplifi þetta þarf ekki meira til en að byrja á einni færslu og þá byrjar þetta að rúlla. Í gær ákvað ég að setjast niður og gera vikumatseðil og birta á blogginu. Það eitt og sér var nóg til þess að kveikja í mér. Þegar ég vaknaði í morgun komst ekkert annað að en þessi dásamlega bláberjasæla sem ég hef ætlað mér að birta hérna á blogginu í sirka tvær vikur. Ég rauk fram úr og hófst handa. Ég mundi strax af hverju ég blogga, þetta er eitt það skemmtilegasta sem ég geri og ég gleymi stund og stað á meðan. Allar áhyggjur af prófum, tónleikum og verkefnum hurfu á meðan ég bakaði og myndaði og það er akkurat það sem ég þurfti á að halda eftir annasamar vikur.

Uppskriftin af bláberjasælunni er ótrúlega einföld, eins og flest sem við deilum hérna á blogginu. Hún bragðast dásamlega, fyllir húsið guðdómlegum ilmi og gefur fullkominn haustfíling. Sælan minnir vissulega svolítið á hjónabandssælu, en þar sem ég nota bláber er hún ekki alveg eins. Ég leyfði henni að kólna alveg áður en ég bar hana fram, aðallega svo ég gæti auðveldlega skorið hana fyrir myndatökuna. Þó er líka hægt að bera hana fram volga og þá er æðislegt að hafa þeyttan soja- eða kókosrjóma eða vegan ís með.

IMG_1725.jpg

Bláberjablanda:

(ATH: bollin sem ég notaði er 2,5 dl)

  • 680 gr frosin bláber

  • Safi úr einni sítrónu

  • 1/2 bolli sykur

  • 2 msk hveiti

  • 1 msk maíssterkja

Krömbl:

  • 3 bollar hveiti

  • 3 bollar haframjöl

  • 2 bollar púðursykur. Ég pressaði hann lauslega

  • 1 tsk lyftiduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 og 1/2 bolli smjörlíki. Ég bræddi 1 bolla og blandaði saman við deigið og muldi svo niður 1/2 bolla af köldu smjörilíki og hnoðaði saman við með höndunum

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 175°C

  2. Leyfið bláberjunum að þiðna alveg og hellið þeim svo í sigti til að losna við allan auka vökva. Ég kreisti berin einnig örlítið í sigtinu til að taka af smá af safanum, samt bara aðeins.

  3. Blandið berjunum saman við restina af hráefnunum fyrir berjablönduna í blandara, matvinnsluvél eða með töfrasprota. Blandann verður svolítið þunn, en hún mun þykkna í ofninum.

  4. Blandið saman þurrefnunum fyrir krömblið og hellið svo útí bráðna smjörinu og blandið saman með sleif. Brjótið svo út í kalda smjörið og hnoðið saman með höndunum. Ef ykkur finnst deigið mjög þurrt mæli ég með að bæta við örlitlu smjöri.

  5. Hellið tveimur þriðju af deiginu í eldfast mjót og pressið því í botninn. Ég lagði bökunarpappír í formið mitt svo það væri auðveldara að ná sneiðunum upp úr. Eldfasta mótið sem ég notaði er 21x31 cm.

  6. Bakið botninn í 10 mínútur og takið svo út.

  7. Hellið bláberjablöndunni yfir og myljið svo restina af krömblinu yfir.

  8. Bakið í 25-30 mínútur

  9. Hægt er að bera þetta fram volgt, en ef þið viljið ná fallegum sneiðum úr þessu mæli ég með því að leyfa sælunni að kólna.

Vonum að þið njótið :)

veganisturundirskrift.jpg

Ofnbakað vegan nachos

IMG_5518-2.jpg

Nýlega komu á markaðinn ótrúlega gómsætir sojabitar frá Hälsans kök sem við höfum notað mikið í allskonar uppskriftir. Við erum því heldur betur spenntar að deila með ykkur uppskriftinni af þessu fáránlega bragðgóða súpernachosi, í samstarfi við Hälsans kök á Íslandi. Bitarnir eru algjör snilld og koma meðal annars í staðinn fyrir kjúkling í ýmsa rétti. Mér finnst þeir fullkomnir í vefjur, samlokur, matarmiklar súpur og ofnbakaða rétti svo eitthvað sé nefnt. Það er svo æðislegt að sjá hvernig úrvalið af vegan mat verður flottara og fjölbreyttara með tímanum og þar af leiðandi hversu auðvelt það er að vera vegan og halda samt áfram að borða réttina sem við erum vön að borða og okkur þykja góðir.

IMG_5399 (1)-2.jpg

Þegar ég var í menntaskóla var í mikilli tísku að fara með vinunum annað hvort á Hressingarskálann eða Kaffi París og deila matarmiklu súpernachosi. Síðan þá hefur okkur þótt gaman að prufa okkur áfram með eigin uppskriftir af svipuðum rétti, og ég get stollt sagt að þessi uppskrift er mun betri en þeir sem ég fékk á veitingastöðunum. Þetta er einn af mínum uppáhalds föstudagsréttum og bitarnir eru fullkomnir í nachosið.

Það er að sjálfsögðu hægt að leika sér endalaust með svona nachos uppskrift og búa til þær sósur sem manni þykja góðar. Þessi uppskrift er samansett af því sem okkur þykir fullkomið saman á svona nachos:

Guacomole
Sýrðum rjóma
Heimagerðri “ostasósu”
Salsasósu
Fersku mangósalasa
Filébitunum frá Hälsans kök krydduðum með taco kryddblöndu
Fersku kóríander.

IMG_5524.jpg

Nachosið lítur vanalega ekki svona vel út hjá okkur, þetta var gert sérstaklega fallegt fyrir myndatökuna. Vanalega setjum við eitt lag af hverju í eldfast mót og pössum að það sé vel af sósu á hverju lagi. Það lítur því yfirleitt frekar subbulega út, en það er partur af stemningunni að okkar mati.

IMG_5573.jpg

Vegan súpernachos:

  • 1 pakki saltaðar tortillaflögur

  • Hälsans Kök bitar í mexíkóskri kryddblöndu

  • 2-3 dl heimagerð ostasósa

  • 1 dós salsasósa

  • 2-3 dl guacamole

  • ferskt mangósalsa

  • vegan sýrður rjómi

Aðferð:

  1. Setjið í eldfast mót tortilla flögur, bitana, salsasósu og ostasósu í skiptis í þrjú lög.

  2. Hitið í 200°C heitum ofni í 15 til 20 mínútur.

  3. Setjið sýrðan rjóma, mangósalsa og guacamole yfir þegar nachosið er tekið úr ofninum.

  4. Berið fram með restinni af sósunum ef einhverjar verða eftir.




Steiktir Hälsans Kök bitar:

  • 1 pakki hälsans Kök filé bitar

  • 2 msk olía

  • mexíkósk kryddblanda (keypt í bréfi eða heimagerð):

    • 1 msk tómatpúrra

    • 1-2 hvítlauksrif

    • 1 tsk cumin

    • 1 tsk paprika

    • 1 tsk þurrkað oregano

    • 1/2 tsk kóríander

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 cayenne pipar

    • 1 tsk grænmetiskraftur eða 1/2 teningur

    • 1 msk limesafi

    • 1/2 dl vatn

Aðferð:

  1. Steikið bitana upp úr olíu þar til þeir hafa hitnað örlítið

  2. Blandið kryddunum saman í skál og hellið yfir. Leyfið þessu að malla saman í 10-15 mínútur.




Heimagerð ostasósa:

  • 3/4 bolli grasker (eða 1/2 bolli kartöflur og 1/4 bolli gulrætur. við höfum búið til úr hvoru tveggja og það smakkast alltaf jafn vel)

  • 1/2 bolli kasjúhnetur

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 2 sneiðar niðursoðið jalapeno + örlítið af safanum úr krukkunni

  • 3-4 msk næringarger

  • 1/2 til 3/4 haframjólk

  • salt

Aðferð:

  1. Afhýðið graskerið (eða kartöflurnar og gulræturnar) og skerið niður. Gufusjóðið eða sjóðið í vatni í 10 mínútur.

  2. Sigtið grænmetið frá vatninu og hellið í blandara ásamt restinni af hráefnunum og blandið þar til sósan er silkimjúk (Ef ekki er notaður mjög kraftmikill blandari er gott að leggja kasjúhneturnar í bleyti í soðið vatn í sirka klukkustund áður en sósan er blönduð.)




Mangósalsa:

  • 1 dl smátt skorið mangó

  • 1 dl smátt skornir tómatar

  • saxað ferskt kóríander eftir smekk

  • örlítið ferskt lime kreist yfir

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í skál og berið fram með nachosinu.




Við vonum að þið njótið!

Veganistur

Logo_HK CMYK board.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hälsans Kök á Íslandi-

Vegan lasagna með Anamma sojahakki

IMG_0541.jpg

Stuttu eftir að við opnuðum bloggið okkar birtum við uppskrift af gómsætu grænmetislasagna. Sú uppskrift hefur lengi verið í uppáhaldi og er elduð ansi oft á okkar heimili. Eins og mér finnst uppskriftin æðisleg, hef ég svolítið verið að prufa mig áfram með nýja uppskrift sem minnir e.t.v. meira á þetta klassíska lasagna sem margir þekkja. Þessi uppskrift er svolítið öðruvísi en hin og inniheldur meðal annars sojahakk í stað linsubauna. Þetta lasagna er svo ótrúlega gott að ég eldaði það tvo daga í röð í síðustu viku. 

IMG_0462.jpg

Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað mér þykir lasagna gott, því mér þótti það aldrei neitt sérstakt þegar ég var yngri. Ég taldi mér trú um að rétturinn væri bara ekkert fyrir mig, þar til fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að gefa honum annan séns. Ég er gríðarlega fegin að hafa gert það, því í dag er það eitt af því besta sem ég fæ. 

IMG_0468.jpg

Ég hef mikið notað vörurnar frá Anamma síðustu ár og þær valda aldrei vonbrigðum. Anamma er sænskt fyrirtæki sem útbýr einungis vegan matvörur og leggur mikinn metnað og vinnu í vörurnar sínar. Nýlega breyttu þau uppskriftunum á öllum vörunum sínum, og bættu helling við úrvalið hjá sér, og nú bragðast maturinn þeirra enn betur en áður. Í lasagnað fannst mér fullkomið að nota hakkið frá þeim, en ég á alltaf til poka af því í frystinum. Vörurnar frá Anamma fást meðal annars í Bónus, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

Eitt af því besta við að gera lasagna er að hægt er að nota í það allt það grænmeti sem til er í ísskápnum. Í uppskriftina í færslunni nota ég t.d gulrætur, kúrbít og spínat, en það er síður en svo heilagt. Ég nota yfirleitt bara það sem ég á til sem hentar mér mjög vel, því ég elska að breyta til. 

IMG_0522.jpg
IMG_0531.jpg

Lasagna fyrir 4-6

Hakk í tómatsósu:

  • 1 poki hakk frá Anamma (325g)

  • 1 miðlungsstór laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • Grillkrydd eftir smekk

  • Oregano eftir smekk (ég er vön að setja frekar mikið)

  • 1 msk balsamik edik

  • salt og pipar

Grænmeti og lasagnaplötur:

  • 1 lítill kúrbítur eða 1/2 stór skorinn í þunnar lengjur. Ég einfaldlega sneiði hann niður með flysjaranum mínum.

  • Sirka 2 gulrætur (1 bolli) skornar í lengjur. Ég nota sömu aðferð og við kúrbítinn.

  • 2 lúkur spínat. Það má alveg vera meira frekar en lítið af spínati því það hverfur nánast við eldun.

  • 1 pakki lasagnaplötur. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikið af plötum, en ég hafði fjögur lög og notaði þrjár í hvert lag svo það fóru tólf plötur alls í lasagnað hjá mér.

Rjómaostasósa:

  • 1 askja vegan rjómaostur (yfirleitt 150-250g)

  • 2 msk ljóst tahini

  • 1/2 grænmetisteningur

  • 1/2 bolli vatn

  • 1/2 bolli ósæt sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að pressa hvítlauk og saxa laukinn og steikið á pönnu með örlítilli olíu á miðlungshita.

  2. Bætið hakkinu út í þegar laukurinn er orðinn mjúkur og steikið þar til það hefur þiðnað. Athugið að vegan hakk má steikja beint úr frystinum svo það þarf alls ekki að þíða það fyrir.

  3. Kryddið hakkið með grillkryddi að eigin vali og bætið svo tómötunum útá ásamt oregano og balsamik edik og leyfið því að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Mögulega þarf að bæta við meira af kryddunum, salti og pipar.

  4. Leggið blönduna til hliðar og steikið grænmetið örstutt á annarri pönnu með smá olíu. Það þarf ekki að vera neitt rosalega vel steikt en samt alveg búið að mýkjast svolítið. Leggið til hliðar.

  5. Setjið hráefnin í rjómaostasósuna í pott og hrærið vel saman þar til hún er orðin heit og laus við kekki. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

  6. Það er engin regla til um það hvernig setja á lasagna saman og ég held ég geri það aldrei nákvæmlega eins. Ég byrja hinsvegar alltaf á því að setja tómatsósu neðst og passa að hún þekji botninn vel.
    Næst raða ég lasagnaplötum og það passar fullkomlega að setja þrjár í hvert lag í mínu eldfasta móti.
    Næst smyr ég yfir góðu lagi af rjómaostasósunni og þar á eftir raða ég grænmetinu yfir, og endurtek svo leikinn.
    Ég nota ekki vegan ost á lasagnað, heldur passa ég að eiga svolítið eftir af rjómaostasósunni sem ég helli yfir áður en lasagnað fer í ofninn.

  7. Bakið við 190°c í 35-40 mínútur.

Við mælum með því að bera lasagnað fram með góðu salat og hvítlauksbrauði. 

Njótið
Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 

Kartöflugratín

IMG_0196.jpg

Kartöflugratín er eitthvað sem við systurnar ólumst ekki upp við að borða. Það var ekki fyrr en á fullorðinsárunum sem við áttuðum okkur á því hvað gratín er frábært meðlæti. Í dag er það oft á boðstólum hjá okkur við ýmis hátíðleg tilefni. 

IMG_0224-4.jpg

Gratín er einn af þessum réttum sem bragðast rosalega vel og henta fullkomlega sem meðlæti með fínum mat, en er virkilega auðvelt að útbúa. Það er þægilegt þegar maður eldar eitthvað fínt sem þarfnast mikillar vinnu, að geta útbúið gott meðlæti sem hægt er að skella í ofninn án þess að spá mikið í því. Matreiðslurjóminn frá Oatly er í miklu uppáhaldi hjá okkur og hann gerir gratínið rjómakennt og gott. 

IMG_0169-2.jpg

Við höfum prufað okkur áfram með gratínið síðustu ár og hef komist að því að okkur þykir best að sjóða kartöflublönduna í potti og baka hana síðan í ofninum. Við höfum prufað að gera gratínið með vegan osti en komist að því að okkur þykir hann ekki nauðsyn. Við einfaldlega kryddum  blönduna áður hún fer í ofninn og yfirborðið verður svolítið stökkt, líkt og þegar ostur er settur yfir. Í dag bar ég gratínið fram með páskamatnum, en uppskrift af honum er að finna HÉR

IMG_0222.jpg

Kartöflugratín

Fyrir 4
Eldunartími: 40 mín

  • 1 msk vegan smjör

  • Sirka 0,75 kg kartöflur

  • 4 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1/2 laukur, skorinn í strimla

  • 2-3 hvítlauksgeirar - pressaðir

  • 1 grænmetisteningur

  • Pasta rossa krydd eftir smekk

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Krydd til að strá yfir gratínið áður en það fer í ofninn. Mér þykir mjög gott að setja chili flögur, gróft salt og reykta papriku, en það er hægt að nota hvaða krydd sem er. 

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Skerið Kartöflurnar í sneiðar - mér þykir gott að hafa hýðið með

  3. hitið smjör í potti og bætið lauk og hvítlauk út í

  4. Steikið í nokkrar mínútur, eða þar til laukurinn hefur mýkst töluvert. Ef mér finnst laukurinn vera að festast við botninn helli ég örlitlu vatni út í

  5. Bætið kartöflunum í pottinn ásamt Oatly rjómanum og kryddunum og sjóðið við vægan hita í sirka korter

  6. Smyrjið eldfast mjót með örlitlu vegan smjöri, hellið blöndunni í, kryddið með því sem ykkur þykir best (eða dreifið vegan osti yfir) og bakið í 20 mínútur

-Veganistur

innnes2.jpg

-Færslan er unnin í samstarfi við Innnes Heildverslun-