Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af ótrúlega sumarlegu pastasalati. Þetta salat er virkilega bragðmikið og hentar fullkomlega á sumardegi, hvort sem það er í hádeginu, kvöldmat eða sem millimál. Salatið geymist einnig vel í kæli og er því tilvalið að eiga það til að grípa með sér.

Í salatinu eru alls konar hráefni sem saman gera það einstaklega bragðgott. Ég ákvað að nota stökka bacon bita en þeir eru bragðmiklir og innihalda vel af próteini. Síðan setti ég fetaost til að fá smá “creamy” áferð og milt bragð á móti beikon bitunum. Ferskjurnar bæta síðan við sætu og toppaði ég það síðan með ótrúlega bragðgóðri salat dressingu frá hagkaup sem er slgjört must.

Ég elska svona rétti sem hægt er að gera mikið af í einu og eiga afgang í nesti daginn eftir en þetta salat er einnig alveg fullkomið til að eiga í ísskápnum til að grípa í. Það geymist mjög vel og er gott í tvo daga í ísskáp eftir að það er búið til. Þetta er hinn fullkomni sumarréttur sem tekur enga stund að græja.

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu

Sumarlegt pastasalat með hvítlauks vinagrette dressingu
Fyrir: 4
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 HourEldunartími: 12 Hour: 22 Hour
Virkilega sumarlegt og einfalt pastasalat með stökkum "beikon" bitum, ferskjum, vegan fetaosti, fersku grænmeti og hvítlauks vinagrette dressingu.

Hráefni:

  • 300 gr pastaslaufur
  • 150 gr vegan bac*n bits frá oumph
  • sirka 15 gr af vegan smjöri
  • 1 pakki vaxa salatblanda
  • 1 lítill kassi kirsuberjatómatar
  • 1/3 gúrka
  • 1/3 violife fetaosta kubbur
  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 þroskaðar ferskjur
  • 1 flaska hvítlauks vinagrette dressing frá stonewall kitchen

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða pastað eftir leiðbeiningunum á pakkningunum. Kælið pastað vel með köldu vatni þegar það er alveg soðið.
  2. Steikið bac*n bitana upp úr vegan smjöri þar til þeir verða smá stökkir. Setjið til hliðar.
  3. Saxið salatið niður. Skerið gúrkuna, ferskjurnar og fetaostin í kubba. Skerið tómatana og tvennt og saxið rauðlaukinn í mjög þunnar sneiðar.
  4. Blandið öllum hráefnunum saman í skál og hrærið. Hellið sósunni yfir og hrærið vel saman við.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Hagkaup og fást öll hráefnin þar -

 
 

Tómat og ostapasta með Violife "feta"osti.

Fyrir um það bil ári síðan, þegar Covid var ný byrjað og ég lá heima í nokkrar vikur eftir aðgerð, “downloadaði” ég í fyrsta skipti Tik Tok forritinu. Ég var MJÖG fljót að þefa uppi alls konar matar og baksturs “aðganga” en ég get legið yfir skemmtilegum matarmyndböndunum á Tik Tok oft tímunum saman. Það hafa ótal matar “trend” sprottið upp á forritinu sem ég elska að fylgja og prófa að gera sjálf heima hjá mér.

Fyrir ekki svo löngu fór ég, og líklegast flestir sem eru á samfélagsmiðlum, að sjá endalaust af mjög auðveldri pastauppskrift á netinu sem samanstóð af tómötum, hvítlauk og fetaosti. Ég vissi strax að ég yrði að gera þessa uppskrift vegan með violife greek white block ostinum þar sem ég hef mjög góða reynslu af honum. Ég prófaði að gera vegan útgáfu af pastanu fyir u.þ.b. mánuði síðan og er þetta ein sú auðveldasta uppskrift sem ég veit um.

Pastað kom ótrúlega vel út með vegan ostinum og eftir að ég deildi með ykkur myndbandi af því á Instagram fékk ég fullt af spurningum út í uppskriftina svo ég ákvað að koma henni hérna inn fyrir ykkur. Ég hef eldað þennan rétt margoft síðustu vikurnar og mér finnst þetta vera fullkomin réttur þegar ég veit ekki hvað ég á að hafa í matinn eða nenni ekki að elda. Ég einfaldlega hendi pasta í pott, restinni af hráefnunum inn í ofn og blanda þessu síðan saman hálftíma seinna. Alveg fullkomið þegar það er mikið að gera.

IMG_0183.jpg

Hréfni (fyrir 4):

  • 300 gr pasta

  • 4 msk olífuolía

  • u.þ.b. 300 gr af kirsuberjatómötum eða öðrum litlum tómötum

  • 1 pakki violife greek white block

  • 3 hvítlauksrif

  • 1 msk óregano eða aðrar ítalskar jurtir

  • Smá fersk basilíka (má sleppa)

  • Vel af salti

Aðferð:

  1. Setjið ólífuolíu, tómatana í hvítlauksrifin í eldfast mót eða pönnu sem má fara í ofn. Ég hef hvítlauksrifin heil með hýðinu á. Hrærið tómatana saman við olíuna og myndið síðan gat í miðju mótinu fyrir ostin. Leggið heilan ost í mitt formið og hellið örlítið af olíu yfir hann. Stráið saltinu og óreganóinu yfir ostinn og tómatana.

  2. Bakið í 200°C heitum ofni í 25-30 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og tómatarnir orðnir vel grillaðir að ofan.

  3. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum á meðan að tómatarnir og osturinn eru í ofninum.

  4. Takið ostinn úr ofninum, pressið hvílauksrifin úr hýðinu og takið það frá. Stappið tómatana og hvítlaukinn vel saman við gríska ostinn og hellið síðan pastanum út í og blandið vel saman. Rífið nokkur basilíkulauf yfir og bætið við smá salti ef ykkur finnst það þurfa.

IMG_0179.jpg

-Njótið vel og takk fyrir að lesa. <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á íslandi

 
violife-logo-1.png
 

Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu

IMG_0022-2.jpg

Hæ kæru vinir. Vona að þið hafið það gott!

Í dag deili ég með ykkur uppskrift af ofnbökuðu gnocchi med grænkáli í gómsætri pestórjómasósu. Þetta er einn af þeim réttum sem er einfalt að útbúa en smakkast eins og á veitingastað. Hversu fullkomið?!

IMG_0001_1-4.jpg

Síðustu vikur hef ég fundið ástríðuna mína fyrir matargerð og bakstri koma aftur. Eftir nokkra mánuði þar sem ég nennti ekki einu sinni að hugsa um mat, og borðaði einungis til að næra mig, var ég orðin svolítið áhyggjufull. Ég var farin að velta því fyrir mér hvort ég myndi nokkurn tíman fá góða hugmynd aftur í eldhúsinu og hvort ég væri kannski alveg búin að missa áhugann á því að elda mat. Eftir áramótin hefur mér þó liðið mun betur og hef fundið hvernig hugmyndirnar byrja að koma til mín aftur. Það hefur verið yndisleg tilfinning að finna hvernig ég sprett fram úr rúminu til að skrifa niður hugmynd af réttium sem mig langar að prófa.

Þessi réttur var einmitt dæmi um það. Ég lá í rúminu eitthvað kvöldið og þegar ég var í þann mund að sofna sá ég fyrir mér pönnu fulla af gnocchi í rjómakenndri pestósósu. Ég hljóp framúr og skrifaði niður á blað; “Gnocchi, pestó - heimagert, rjómi, hvítvín, sítrónusafi, grænkál eða spínat eða eitthvað svoleiðis”. Daginn eftir keypti ég svo hráefnin í réttinn og prófaði, og útkoman var dásamlega góð.

IMG_0012-4.jpg

Ég komst að því fyrir ekki svo löngu að hægt er að kaupa vegan ferskt gnocchi og ég hoppaði hæð mína af gleði. Á sama tíma og ég elska að útbúa mitt eigið (uppskrift HÉR) þá er það tilbúna alveg ótrúlega gott og einfaldar eldamennskuna til muna. Ég kaupi gnocchi frá Rana og það er 100% vegan. Mörg önnur merki innihalda egg og mjólk svo það er mikilvægt að lesa á pakkninguna til að vera viss. Gnocchi frá Rana fæst í Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Melabúðinni!

IMG_0016-4.jpg

Ofnbakað gnocchi í pestórjómasósu

Hráefni:

  • 500 gr gnocchi, heimagert eða keypt tilbúið

  • olía til að steikja upp úr

  • 1 meðalstór gulur laukur

  • 1 hvítlauksgeiri

  • 150 gr grænkál eða spínat

  • 1.5 tsk oregano

  • 250 ml vegan matreiðslurjómi. Oatly er minn uppáhalds

  • 1.5 dl þurrt hvítvín

  • 1 dl vatn

  • safi og börkur af hálfri sítrónu

  • 1/2 dl heimagert grænt pestó - uppskrift hér að neðan (Hægt að nota tilbúið úr búð líka og við mælum mikið með pestóinu frá Sacla)

  • chiliflögur eftir smekk

  • rifinn vegan ostur til að toppa með

  • gott brauð að bera fram með. Ég bar réttinn fram með baguettebrauði

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.

  2. Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita.

  3. Skerið niður laukinn og pressið hvítlaukinn og steikið þar til hann fær smá lit.

  4. Bætið gnocchi út á pönnuna og steikið í nokkrar mínútur.

  5. Bætið oregano og grænkáli út á og steikið þar til grænkálið hefur mýkst og minnkað aðeins.

  6. Hækkið hitann og bætið hvítvíninu útí og eldið í sirka 3-5 mínútur.

  7. Bætið pestó, rjóma, vatni, sítrónusafa, sítrónuberki og chiliflögum út á og lækkið hitann aftur niður í miðlungshita. Blandið saman og takið af hellunni.

  8. Færið yfir í eldfastmót, nema þið notið pönnu sem hægt er að setja beint inní ofn. Stráið rifnum vegan osti yfir og setjið í ofninn þar til osturinn hefur bráðnað og fengið gylltan lit.

Pestó

Hráefni:

  • 50 gr fersk basilika

  • 1/2 dl furuhnetur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1/2 dl ólífuolía

  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Blandið öllu fyrir utan olíunni saman með töfrasprota eða í matvinnsluvél.

  2. Hrærið olíunni saman við.

Takk fyrir að lesa og njótið!

-Helga María

Rjómapasta með grænu pestói og hvítlauksbrauði

IMG_8090 copy.jpg

Þeir sem hafa fylgt okkur systur í einhvern tíma ættu að vita að rjómapasta er einn af okkar uppáhalds réttum. Það er eitthvað við pasta og góða rjómasósu sem gerir þennan rétt ómótstæðilegan. Að okkar mati er nauðsynlegt að bera hann fram með góðu hvítlauksbrauði. Ég hef verið að prófa mig áfram með nýjar uppskriftir síðustu vikur og ákvað að prófa að nota æðislega græna pestóið sem kemur í nýju vegan vörulínunni frá Sacla Italia og tók það venjulega rjómapastað á nýjar hæðir.

Ég ákvað að nota fá og góð hráefni þar sem að sósan er ótrúlega bragðmikil og góð og vildi ég ekki eitthvað bragðmikið grænmeti á móti. Að mínu mati er nauðsynlegt að hafa mikið af hvítlauk í sósunni. Annað hráefni má alveg leika sér með og nota það sem til er í ísskápnum hverju sinni. Ég ákvað að setja lauk, soyjakjöt og spínat.

Ég geri þetta pasta við öll tækifæri, hvort sem það er bara kósýkvöld heima eða þegar ég er fá vini eða fjölskyldu í mat og ég get lofað ykkur að þessi réttur slær í gegn hjá öllum. Fólk biður yfirleitt um uppskriftina eftir að hafa borðað þennan rétt og því fannst mér tilvalið að deila henni með ykkur hérna.

Það sem er þó best við þennan rétt er hvað hann er auðveldur og tekur stuttan tíma að útbúa, öll hráefnin fara saman á pönnu og svo soðið pasta sett út í. Það geta því allir eldað þennan rétt og er mjög auðvelt að elda mikið magn af honum í einu.

IMG_8078.jpg

Hráefni (fyrir fjóra):

  • Tagliatelle fyrir 4 ( sirka 400 gr) (passa að kaupa eggjalaust)

  • 2-3 hvítlauksrif

  • 1 lítill laukur eða 1/2 stór

  • lúkka af spínati

  • 200 gr soyjakjöt

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk laukduft

  • salt og pipar

  • 2-3 msk næringarger

  • 1/2 teningur eða 1 msk grænmetiskraftur

  • 250-350 ml vegan rjómi ( ég notaði Aito en hann er svolítið þykkur svo ég set um 1 dl af vatni með) ( má alveg setja meiri rjóma ef fólk við meirra creamy pasta)

  • 1 dl Sacla vegan grænt pestó

  • Fersk basilíka ef vill (má sleppa)

Aðferð:

  1. Byrjið á því að setja vatn í stóran pott ásamt smá olíu og salti og leyfa suðunni að koma upp.

  2. Þegar suðan er komin upp sjóðið það tagliatelle eftir leiðbeiningum á pakkanum (passa að kaupa eggjalaust tagliatelle)

  3. Skerið hvítlaukinn, laukinn og soyjakjötið niður og steikið upp úr olíu í nokkrar mínútur eða þar til það fer að mýkjast og verða fallega gyllt.

  4. Kryddið grænemtið og soyjakjötið með paprikuduftinu, laukduftinu og salti og pipar eftir smekk.

  5. Bætið rjómanum, pestóinu, næringargerinu og kraftinum út í ásamt spínatinu og hrærið vel saman við kjötið og grænmetið.

  6. Leyfið þessu að sjóða í nokkrar mínútur og bætið síðan soðnu pastanu út í og berið fram ásamt ferskum basil og hvítlauksbrauði.

Njótið vel og takk fyrir að lesa <3

IMG_8090.jpg

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia

 
logo Sacla.jpg
 

Kósý laugardagur og einföld Oreo-ostaköku uppskrift

Við systur erum að spá í að fara að sýna ykkur meira af okkar daglega lífi hérna inná, hvað við erum að gera á daginn, hvað við erum að borða, vörur og flíkur sem við erum að nota og bara allt sem okkur langar að deila með ykkur. Ég ákvað því að taka nokkrar myndir yfir daginn minn til að prófa að deila með ykkur.

Ég byrja alla morgna á að fá mér vatnsglas en þennan morguninn gerði ég mér smoothie með vegan próteini, banana, klökum og vatni en það var eiginlega bara því að ég átti ekkert annað til. Smoothie’inn var þó alveg ótrúlega góður! En ég er með Vegan cookies and creme prótein sem er sjúklega gott. Ég drakk smoothie’inn á meðan ég horfði á youtube en ég hef elskað að horfa á VLOGS hjá fólki síðan ég var svona 14 ára. Ég ætla því að deila með ykkur mínum uppáhalds VLOG rásum sem ég er að elska akkúrat núna.

Uppáhalds VLOG channels akkúrat núna:

- THE MICHALACKS (all time uppáhalds)
- ELSA’S WHOLESOME LIFE (þessi er sú eina sem er vegan)
- SARAH’S DAY
- ASPYN AND PARKER
- ARNA PETRA (nýtt fave)

Í hádegismatinn gerði ég mér einfalt pastasalat með sólþurrkuðum tómötum, avocadó, ólífum og gúrku. Sjúklega fljótlegt og gott og ég geri þetta salat mjög oft þegar ég hef lítinn tíma eða nenni ekki að gera einhverja svaka máltíð. Ég er líka með æði fyrir sykurlausu appelsínu akkúrat núna svo ég var að sjálfsögðu með eina slíka með!

Ég fór í afmæli hjá elsku Dóru, bestu vinkonu minni og ákvað að henda í mjög einfalda oreo ostaköku, það besta við þessa uppskrift er að það er hægt að gera hana samdægurs en ég set uppskriftina hér neðst í færslunni. Hún sló algjörlega í gegn en Dóra gerði einnig svampkökuna okkar með jarðaberjarjómanum en uppskriftina af henni má finna hér.

image00015.jpeg

Hún var svo með heimabakaðar bollur (sem ég þarf nauðsynlega að stela uppskriftinni af) og allskonar álegg, pizzasnúða og grænmeti með ídýfu úr vegan sýrðum rjóma. Allt ótrúlega einfalt og gott og svo sannarlega ekkert mál að gera ALL VEGAN veisluborð!

Ótrúlega “vel heppnuð” myndataka með þessum bestu stelpum eins og venjulega. En ég var einnig að kaupa mér þessa ótrúlega fallegu vegan tösku frá HVISK sem ég er ekkert smá ánægð með! (já ég skipti um föt svona 7 sinnum þennan dag…). En þetta var ótrúlega kósý dagur og svo skemmtilegt að fá að njóta afmælisins hennar Dóru saman en hún býr í Danmörku og fór heim tveimur dögum seinna. Ég vona að ykkur hafi fundist þetta skemmtilegt og við munum vera duglegar að setja inn svona persónulegri færslur héðan í frá. Hér kemur síðan uppskritin af kökunni. Njótið vel.

OREO ostakaka sem hægt er að njóta samdægurs

Hráefni:

  • 2-3 pakkar oreo

  • 50 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 1 pakki hreinn SHEESE rjómaostur

  • 1 ferna AITO þeytirjómi

  • 1/2 dl flórsykur

  • 1 plata hvítt súkkulaði frá ICHOC

  • Ber og súkkulaði eða það sem hver og einn vill til að skreyta

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skilja kremið frá oreo kexinu á tveimur pökkum af kexi (geymið þriðja pakkan til að skreyta).

  2. Bræðið smjörið og blandið saman við kexið. Setjið kexið í eldfastmót og þrýstið því vel ofan í botninn á mótinu. Setjið kexið í blandars eða poka og myljið það þar til það verður að frekar fínnu mylsnu. Setjið mótið í ísskáp á meðan þið útbúið fyllinguna.

  3. Þyetið rjóman í hrærivél eða með handþeytara og setjið til hliðar.

  4. Takið kremið sem þið skildum frá kexinu og bræðið í örbylgju eða yfir vatnsbaði ásamt hvíta súkkulaðinu. Ef súkkulaðið er brætt í örbylgju er best að setja það inn í 30 sekúndur í einu og hræra vel í á milli.

  5. Setjið rjómaostin og flórsykurinn í hrærivél eða þeytið saman með handþeytara og bætið brædda súkkulaðinu hægt út í. Þeytið þetta á háum styrk þar til blandan verður alveg köld.

  6. Hrærið rjómanum varlega saman við sem sleikju og hellið síðan yfir kexið.

  7. Leyfið kökunni að vera í ísskáp í allavega klukkustund áður en hún er skreytt með því sem hugurinn girnist og borin fram. Ég skreytti mína með oreo kexi, berjum, hvítu súkkulaði og suðursukkulaði.

Project - Drawing 11350016114151990018.png

Mac and cheese ofnréttur.

Í þessum rétti blöndum við saman Mac and cheese uppskriftinni okkar og hakksósu úr lasagna. Þessi blanda kom okkur heldur betur á óvart og erum við ótrúlega ánægðar með útkomuna. Rétturinn er einfaldur og og þetta er hinn fullkomni heimilsmatur.

1/2 uppskrift Mac and cheese

Hakksósa:

  • 2 pakkar anamma hakk

  • 1 laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 1 lítill haus brokkolí (eða annað grænmeti sem hentar hverjum og einum)

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • 2-3 msk tómatpúrra

  • 2 msk eða 1 teningur grænmetiskraftur

  • 1 msk oregano

  • 1 msk basilíka

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Steikið hvítlauk og lauk upp úr smá olíu.

  2. Bætið brokkolíinu og hakkinu út á pönnuna og steikið í 5 til 10 mínútur.

  3. Bætið restinni af hráefnunum saman við og leyfið suðunni að koma upp.

  4. Smakkið til með kryddum og salti og pipar.

Aðferð og eldun:

  1. Útbúið Mac and cheese og hellið í botnin á eldföstu móti.

  2. Útbúið hakksósuna og setjið yfir pastað.

  3. Stráið vegan osti yfir.

  4. Bakið við 200°C í 20-25 mínútur eða þar til osturinn er orðin fallega gylltur að ofan.

Við bárum réttinn fram með hvítlauksbrauðinu okkar en það er alveg ómissandi að okkar mati.

IMG_2219-3.jpg
hagkaup_orange_sv_meirasvona.png
10159%2B%25281%2529.jpg

-Þessi færsla er í samstarfi við Hagkaup og þar fást öll hráefnin sem í hana þarf.-

-Færslan er einnig í samstarfi við Bitz á Íslandi.-

Vegan lasagna með Anamma sojahakki

IMG_0541.jpg

Stuttu eftir að við opnuðum bloggið okkar birtum við uppskrift af gómsætu grænmetislasagna. Sú uppskrift hefur lengi verið í uppáhaldi og er elduð ansi oft á okkar heimili. Eins og mér finnst uppskriftin æðisleg, hef ég svolítið verið að prufa mig áfram með nýja uppskrift sem minnir e.t.v. meira á þetta klassíska lasagna sem margir þekkja. Þessi uppskrift er svolítið öðruvísi en hin og inniheldur meðal annars sojahakk í stað linsubauna. Þetta lasagna er svo ótrúlega gott að ég eldaði það tvo daga í röð í síðustu viku. 

IMG_0462.jpg

Það hefur komið mér svolítið á óvart hvað mér þykir lasagna gott, því mér þótti það aldrei neitt sérstakt þegar ég var yngri. Ég taldi mér trú um að rétturinn væri bara ekkert fyrir mig, þar til fyrir nokkrum árum þegar ég ákvað að gefa honum annan séns. Ég er gríðarlega fegin að hafa gert það, því í dag er það eitt af því besta sem ég fæ. 

IMG_0468.jpg

Ég hef mikið notað vörurnar frá Anamma síðustu ár og þær valda aldrei vonbrigðum. Anamma er sænskt fyrirtæki sem útbýr einungis vegan matvörur og leggur mikinn metnað og vinnu í vörurnar sínar. Nýlega breyttu þau uppskriftunum á öllum vörunum sínum, og bættu helling við úrvalið hjá sér, og nú bragðast maturinn þeirra enn betur en áður. Í lasagnað fannst mér fullkomið að nota hakkið frá þeim, en ég á alltaf til poka af því í frystinum. Vörurnar frá Anamma fást meðal annars í Bónus, Melabúðinni og Fjarðarkaupum. 

Eitt af því besta við að gera lasagna er að hægt er að nota í það allt það grænmeti sem til er í ísskápnum. Í uppskriftina í færslunni nota ég t.d gulrætur, kúrbít og spínat, en það er síður en svo heilagt. Ég nota yfirleitt bara það sem ég á til sem hentar mér mjög vel, því ég elska að breyta til. 

IMG_0522.jpg
IMG_0531.jpg

Lasagna fyrir 4-6

Hakk í tómatsósu:

  • 1 poki hakk frá Anamma (325g)

  • 1 miðlungsstór laukur

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 2 dósir niðursoðnir tómatar

  • Grillkrydd eftir smekk

  • Oregano eftir smekk (ég er vön að setja frekar mikið)

  • 1 msk balsamik edik

  • salt og pipar

Grænmeti og lasagnaplötur:

  • 1 lítill kúrbítur eða 1/2 stór skorinn í þunnar lengjur. Ég einfaldlega sneiði hann niður með flysjaranum mínum.

  • Sirka 2 gulrætur (1 bolli) skornar í lengjur. Ég nota sömu aðferð og við kúrbítinn.

  • 2 lúkur spínat. Það má alveg vera meira frekar en lítið af spínati því það hverfur nánast við eldun.

  • 1 pakki lasagnaplötur. Það er misjafnt hvað fólk vill hafa mikið af plötum, en ég hafði fjögur lög og notaði þrjár í hvert lag svo það fóru tólf plötur alls í lasagnað hjá mér.

Rjómaostasósa:

  • 1 askja vegan rjómaostur (yfirleitt 150-250g)

  • 2 msk ljóst tahini

  • 1/2 grænmetisteningur

  • 1/2 bolli vatn

  • 1/2 bolli ósæt sojamjólk

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að pressa hvítlauk og saxa laukinn og steikið á pönnu með örlítilli olíu á miðlungshita.

  2. Bætið hakkinu út í þegar laukurinn er orðinn mjúkur og steikið þar til það hefur þiðnað. Athugið að vegan hakk má steikja beint úr frystinum svo það þarf alls ekki að þíða það fyrir.

  3. Kryddið hakkið með grillkryddi að eigin vali og bætið svo tómötunum útá ásamt oregano og balsamik edik og leyfið því að malla í nokkrar mínútur og smakkið til. Mögulega þarf að bæta við meira af kryddunum, salti og pipar.

  4. Leggið blönduna til hliðar og steikið grænmetið örstutt á annarri pönnu með smá olíu. Það þarf ekki að vera neitt rosalega vel steikt en samt alveg búið að mýkjast svolítið. Leggið til hliðar.

  5. Setjið hráefnin í rjómaostasósuna í pott og hrærið vel saman þar til hún er orðin heit og laus við kekki. Smakkið til og bætið við salti og pipar ef þarf.

  6. Það er engin regla til um það hvernig setja á lasagna saman og ég held ég geri það aldrei nákvæmlega eins. Ég byrja hinsvegar alltaf á því að setja tómatsósu neðst og passa að hún þekji botninn vel.
    Næst raða ég lasagnaplötum og það passar fullkomlega að setja þrjár í hvert lag í mínu eldfasta móti.
    Næst smyr ég yfir góðu lagi af rjómaostasósunni og þar á eftir raða ég grænmetinu yfir, og endurtek svo leikinn.
    Ég nota ekki vegan ost á lasagnað, heldur passa ég að eiga svolítið eftir af rjómaostasósunni sem ég helli yfir áður en lasagnað fer í ofninn.

  7. Bakið við 190°c í 35-40 mínútur.

Við mælum með því að bera lasagnað fram með góðu salat og hvítlauksbrauði. 

Njótið
Veganistur

anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

 

Vegan hakk og spaghettí

IMG_9011-2.jpg

Í janúar ætlum við, í samstarfi við Krónuna, að útbúa fjóra gríðarlega einfalda rétti sem tekur einungis nokkrar mínútur að elda. Réttirnir munu henta öllum, hvort sem þeir eru að taka sín fyrstu skref í lífsstílnum eða löngu orðnir sjóaðir. Réttirnir eru fullkomnir fyrir þá sem eru á síðasta snúningi með að kaupa í matinn eða einfaldlega nenna ekki að hafa mikið fyrir kvöldmatnum eftir langan vinnu- eða skóladag. Þó eru þeir líka tilvaldir fyrir þá sem elska að elda og munu réttirnir allir bjóða upp á að hægt sé að bæta við því sem manni þykir gott ef maður er í stuði til að eyða meiri tíma í eldamennskuna. Réttirnir munu passa fyrir alla fjölskylduna og líka fyrir þá sem eru svolítið efins varðandi vegan mat. 

Mér fannst viðeigandi að byrja á þeirri máltíð sem ég geri hvað oftast þegar ég vil elda eitthvað sem er fljótlegt en á sama tíma bragðgott og saðsamt. Hakk og spaghettí hefur alla tíð verið í uppáhaldi hjá mér og enn frekar eftir að ég varð vegan. Sojahakkið frá Hälsans Kök er ótrúlega gott og hentar mjög vel í þennan rétt. Ég er ekki viss um að margir myndu taka eftir því að um vegan hakk sé að ræða þegar þeir borða það í réttum eins og þessum. 

IMG_9094-2.jpg

Það er að sjálfsögðu misjafnt hvaða grænmeti fólk notar í hakk og spaghettí en í þetta skiptið vildi ég hafa þetta virkilega einfalt og notaði frosnar grænar baunir og svartar ólífur. Mér finnst ólífurnar eiginlega þarfar í réttinn en vissulega þykja ekki öllum ólífur góðar og vilja því nota eitthvað annað. Ég myndi þá mæla með sveppum og gulrótum. 

IMG_9078-3.jpg
IMG_9090.jpg

Ég útbjó hvítlauksbrauð og hemp-parmesan sem meðlæti en fyrir þá sem hafa ekki tíma eða nenna ekki að útbúa meðlæti er t.d mjög gott að hafa bara baguette og vegan smjör. Þó er alls ekki þörf á því að hafa meðlæti þar sem rétturinn er saðsamur og bragðgóður einn og sér. 

IMG_9103-2.jpg

Hakk og spaghettí - fyrir 4

  • 400g Spaghettí frá Gestus

  • 1 poki hakk frá Hälsans Kök

  • Olía til steikingar

  • 1 krukka pastasósa frá Gestus

  • 1 dl frosnar grænar baunir (má sleppa)

  • 1 dl svartar ólívur skornar í sneiðar (má sleppa)

Aðferð

1. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningunum á pakkanum. Gott er að setja örlítið salt í pottinn og nokkra dropa af olíu

2. Hitið olíu á pönnu og steikið hakkið í sirka fjórar mínútur

3. Bætið grænu baununum, ólívunum og pastasósunni á pönnuna og leyfið því að malla í sirka sjö mínútur

4. Smakkið til með salti og pipar

Hérna eru svo uppskriftir af:
Hvítlauksbrauði
Hemp-parmesan

-Veganistur

krónan.png

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar-

Hemp-parmesan

IMG_9105.jpg

Ég geri oft parmesan úr kasjúhnetum og næringargeri sem er fullkominn á pastarétti. Þar sem kærastinn minn er með ofnæmi fyrir hnetum byrjaði ég að prufa mig áfram og útbúa parmesan úr t.d sólblómafræjum og hempfræjum. Það bragðast virkilega vel og í dag ætla ég að deila með ykkur þessari einföldu uppskrift.

Hemp-parmesan:

  • 1/2 bolli hempfræ

  • 3 msk næringarger

  • Örlítið hvítlauksduft

  • Örlítið laukduft

  • 1/2 tsk salt

Skellið öllu í blandara og púlsið nokkrum sinnum. Það þarf ekki að mylja hann alveg niður í duft heldur er betra að hafa hann smá "chunky"

Veganistur

Einfalt hvítlauksbrauð

IMG_9107.jpg

Þessi uppskrift er svo einföld að hún telst varla sem uppskrift. Þó langaði okkur að deila henni með ykkur því þetta hvítlauksbrauð er ómissandi með góðum pastaréttum. Þegar við vorum yngri keypti mamma okkar stundum tilbúið hvítlauksbrauð til að setja í ofninn og við héldum mikið uppá það. Þetta brauð bragðast nákvæmlega eins, ef ekki betra.

IMG_9050.jpg

Hvítlauksbrauð:

  • Baguette

  • Vegan smör eftir smekk

  • 1-2 hvítlauksgeirar (fer eftir því hversu mikið smjör notað er)

  • Örlítið salt

Aðferð:

  1. Skerið baguette í sneiðar. Ekki skera alveg niður samt heldur búið til svona djúpar rákir en passið að brauðið haldist ennþá saman

  2. Blandið saman smöri, pressuðum hvítlauk og salti. Það fer alfarið eftir smekk hversu mikið hvítlaukssmjör fólk vill hafa. Ég vil hafa mitt vel safaríkt að innan svo ég notaði 2 kúfullar msk af smjöri og svo 2 frekar litla hvítlauksgeira

  3. Skiptið smjörinu niður í rákirnar og troðið því vel á milli. það má alveg verða smá eftir ofan á brauðinu, það er bara betra

  4. Setjið í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til brauðið er orðið smá gullið að ofan og smjörið alveg bráðið innan í

  5. Berið fram heitt með því sem ykkur lystir

-Veganistur

Vikumatseðill 22.okt til 27.okt

IMG_1398.JPG

Matseðill 22-27 október

Sunnudagur:
Pasta með rjómasósu, grænmeti og Oumph!

Mánudagur:
Kókoskarrýpottréttur borin fram með tamaritofu, hrísgrjónum, salati og soyjajógúrt tzaziki sósu.

Þriðjudagur:
Ikeagrænmetisbollur, kartöflur, salat og hvítlauksjógúrtsósa

Miðvikudagur:
Shepert´s pie: pottréttur með grænmeti og linsum borin fram með kartöflumús

Fimmtudagur:
Taco, með blómkálshakki, sætum kartöflum, fersku grænmeti, ostasósu, salsasósu, guacamole og hrásalati.

Föstudagur:
Pizzakvöld: Heimagerð pizza með Oumph!, sveppum, lauk, ólífum og vorlauksrjómaosti.

22710108_10155093561382525_553341027_n.jpg

 

 



 

Glútenlaust rjómapasta

IMG_1390.JPG

Ég hef aðeins verið að prófa mig áfram við að elda glútenlausan mat, en ég elska pasta og er mjög oft með það í matinn. Þegar reyna á að gera hina ýmsu pastarétti glútenlausa þarf að finna staðgengil fyrir aðal hráefnið, pastað sjálft. Það eru til alls kyns glútenlaus pasta í flestum búðum í dag en ég hef ekki smakkað mörg þeirra ennþá. Þó hefur mig lengi langað að prófa að elda baunapasta, en ég hef séð svoleiðis í mörgum búðum í soldin tíma. Ég ákvað að láta verða af því og keypti svartbauna-pasta, en ásamt því er hægt að fæ bæði soyjabauna-pasta og edamame-pasta. Pakkinn af pastanu er frekar dýr en 200gr pakki var nóg fyrir fjórar fullorðnar manneskjur í kvöldmat þar sem pastað stækkar alveg rosalega mikið við suðu. 

Einhvernveginn fannst mér líklegra að rjómasósa myndi passa með svartbaunapastanu frekar en sósa með tómatgrunn. Rjómapasta hefur alltaf verið smá spariréttur hjá mér en það geri ég alltaf þegar mig langar í eitthvað extra gott. Ég átti kebab Oumph í frystinum og datt í hug að það myndi passa vel í þennan rétt. Ég notaði svo það grænmeti sem ég átti til í ísskápnum, en mér finnst sveppir og laukur allavega vera nauðsyn í rjómapasta. Uppskriftin passar fyrir fjóra.

Hráefni:

  • 1 pakki svartbaunapasta

  • 1 bolli niðurskorið Oumph að eigin vali (ég notaði Kebab Oumph)

  • u.þ.b. 4 sveppir

  • hálfur rauðlaukur

  • u.þ.b. 1 bolli brokkolíblóm

  • tveir hvítlauksgeirar/1/4 lítill kínverskur hvítlaukur

  • rjómasósugrunnur (uppskrift neðar í færslunni)

  • salt og pipar eftir smekk

  • 2 msk Pasta Rossa krydd frá Santa Maria

  • 2 msk maísmjöl

Aðferð:

  1.  Byrjið á því setja vatn í pott, kveikja undir og leyfa suðunni að koma upp. Á meðan er sniðugt að undribúa grænmetið. Þegar suðan kemur upp er pastað sett út í og látið sjóða í 4-6 mínútur, en ég sauð mitt pasta í 6 mínútur. Aðskiljið pastað nokkrum sinnum með gaffli á meðan það síður.

  2. Skerið grænmetið eins og þið viljið hafa það, en ég reyni að skera það ekki of smátt, og steikið ásamt Oumph'inu upp úr örlítilli olíu og pressuðum hvítlauknum í nokkrar mínútur.

  3. Þegar grænmetið hefur mýkst er rjómasósunni hellt út í ásamt kryddunum og suðan látinn koma upp. Stráið maísmjölinu yfir, hrærið vel í og leyfið sósunni svo að sjóða í 4-5 mínútur.

  4. Pastanu er síðan hrært saman við þegar slökkt hefur verið undir pönnunni.

Rjómasósugrunnur:

  • 1 dós kókosmjólk

  • 1/4 dl næringarger

  • 1/2 grænmetisteningur

Aðferð:

  1. Öllu er blandað saman í skál og notað eftir aðferðinni hér að ofan. 

Það sem ég elska mest við þennan rétt er hversu einfaldur hann er þó svo að hann sé í fínni kanntinum og passi æðislega vel í matarboðið. Ég bar mitt pasta fram með ristuðu grófu brauði með vegan smjöri og vegan parmesan ostinum frá Follow Your Heart, en hann fæst í Gló Fákafeni og Hagkaup.

-Júlía Sif

Gómsætt rjómapasta

Pasta er líklega eitthvað sem öllum þykir gott. Uppáhalds pastaréttirnir mínir eru lasagna, kalt pastasalat, pasta með grænu pestó og að sjálfsögðu rjómapasta. Síðan ég var barn hef ég haldið uppá pasta í rjómasósu og þá sérstaklega það sem mamma var vön að gera fyrir mig. Þegar ég gerðist vegan útbjó ég mína eigin uppskrift af rjómapasta sem minnti á það sem ég var vön að borða. 

Það eru til nokkrar tegundir af vegan matreiðslurjóma. Persónulega finnst mér sojarjóminn frá Naturli bestur, hann fæst í Nettó. Ég hef gert pastað með kókosrjóma og mér finnst það einnig mjög gott. Ég á enn eftir að prufa möndlurjóma en hrísrjóminn finnst mér sístur, aðallega vegna þess hversu sætur hann er. 
Galdra-hráefnið er svo næringarger sem gerir ótrúlega mikið fyrir sósuna. Næringarger er óvirkt ger sem er stútfullt af vítamínum, þar á meðal b12. Næringarger er eitt af mínum uppáahalds hráefnum. Það gefur svolítið ostalegt bragð svo það er oft notað í stað osts í allskonar uppskriftir. Ég strái næringargeri nánast út á allt og mæli með því að fólk kaupi sér dollu. Ég mæli með gerinu frá Engevita sem fæst meðal annars í Bónus og Hagkaup.

Neikvæða hliðin á svona gómsætum rjómapastaréttum er sú að þeir geta verið þungir í magann. Ég man að mér leið stundum eins og ég væri með stein í maganum þegar ég hafði borðað mig sadda af svona pasta. Mér finnst vegan rjómapasta samt fara mun betur í magann. Jurtarjóminn er einhvernveginn léttari en hinn. Um nokkurt skeið hef ég líka borðað eins lítið af glúteini og ég mögulega get og ég verð að segja að glúteinlaust pasta fer miklu betur í mig. Það er til fullt af góðu glúteinlausu pasta hvort sem það er úr baunum, kínóa eða maís. Það sem ég notaði í þetta sinn er úr maís og það er ómögulegt að finna bragðmun á því og hveitipasta.

Hráefni

1/2 askja sveppir
1/2 rauð paprika
1/2 haus brokkólí 
1/2 grænmetisteningur
1-2 fernur jurta-matreiðslurjómi (mæli með Oatly sem fæst í krónunni)
1/2 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk paprikuduft
Örlítið af olíu til steikingar
200 g pasta
3 msk næringarger
salt og pipar eftir smekk


Aðferð:

1. Steikið grænmetið á pönnunni uppúr örlítilli olíu

2. Sjóðið pasta í potti á meðan grænmetið steikist á pönnunni

3. Hellið rjómanum út á pönnuna þegar grænmetið er vel steikt. Bætið grænmetiskrafti, næringargeri og kryddum út á og látið malla í nokkrar mínútur á lágum hita. 

4. Hellið pastanu út á pönnuna þegar það er soðið í gegn. Bætið næringargeri, salti og pipar við ef ykkur finnst vanta. Ég á það til að bæta næringargeri útá því ég fæ einfaldlega ekki nóg af því!

Þegar ég er í stuði útbý ég hvítlauksbrauð og ber fram með pastanu en yfirleitt borða ég það bara eitt og sér. Ég vona að þið njótið vel.

Helga María