Vegan brauðréttur með vegan beikoni og osti

Ef það er eitthvað sem mér finnst nauðsynlegt í allar veislur og um hátíðir þá er það svo sannarlega heitur brauðréttur! Það er hægt að gera svo ótrúlega margar og skemmtilegar útfærslur af þessum æðislega rétti en við höfum til dæmis deilt með ykkur hefðbundnum heitum brauðrétti sem og heitu rúllubrauði hérna á blogginu áður.

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er síðan þriðja útfærslan á heitum brauðrétti en það er fyllt “baguette” brauð. Það má að sjálfsögðu gera hinar uppskriftirnar líka í þessari útfærslu eða öfugt.

Þessi uppskrift er ólík öðrum heitum brauðréttum sem við höfum deilt með ykkur áður en í þetta skipti erum við með fyllingu sem er stútfull af gómsætum vegan osti, reyktum vegan “beikon” bitum og vorlauk. Hann er því fullkomin til að breyta aðeins út af vananum og lofum við ykkur að þið sláið í gegn í boðum ef þið komið með þetta brauð.

Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að í undirbúningi. Brauðið er fullkomið til að taka með sér þar sem það er mjög auðvelt að pakka því inn í álpappír eða annað slíkt og helst það þá vel heitt í góðan tíma.

Það er einnig fullkomið að gera þennan gómsæta rétt til dæmis á milli jóla og nýárs en við áttum alls ekki í vandræðum með að klára eitt stykki með kaffinu þó við værum ekki nema þrjú saman.

Hráefni:

  • 1 súrdeigsbaguette

  • 2 msk góð steikingarolía

  • 1 tsk salt

  • 2 dl smokey bites

  • 2 vorlaukar

  • 1/2 Smokey mature ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 1/2 Chilli and garlic ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 220 gr vegan rjómaostur

  • 1 dl hafrarjómi

  • Ofan á brauðið fer:

    • Restin af ostunum tveimur, eða eins mikið magn og hver og einn vill

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1/2 tsk paprikuduft

    • 1 msk þurrkuð steinselja

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja reyktu bitana (smokey bites) ásamt niðurskornum vorlauk upp úr olíu og salti í nokkrar mínútur.

  2. Rífið niður ostinn og hrærið saman í skál rifnum ostinum, rjómaosti, hafrarjóma, reyktu bitana og vorlaukinn.

  3. Skerið ofan í brauðið tvær langar rifur (athugið að skera alls ekki alveg í gegnum brauðið) og takið ofan af og aðeins innan úr brauðinu eins og sést á myndunum.

  4. Fyllið brauðið með rjómaostafyllingunni.

  5. Rífið vel af báðunum ostunum yfir fyllinguna og stráið hvítlauksdufti, paprikudufti og steinselju yfir.

  6. Bakið við 210°C í 12-15 mínútur eða þar til osturinn verður fallega gylltur að ofan.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -

 
 

Vegan partýplatti - kryddostur, kex og salat

IMG_0105-3.jpg

Ég elska að halda partý. Í hvert sinn sem ég býð fólki í heimsókn vil ég helst útbúa heilt veisluborð af kræsingum og oftar en ekki þarf Siggi að stoppa mig og draga mig niður á jörðina. Eins finnst mér alveg ómögulegt að koma tómhent í heimsókn til annarra og baka því yfirleitt eitthvað gott. Ég hef ekki alltaf verið svona en þetta byrjaði þegar ég varð vegan. Mér þótti mikilvægt að sýna fólki hversu góður vegan matur getur verið og lengi vel var það svoleiðis að ef mér var boðið í mat eða veislur þá þurfti ég að sjá um minn mat sjálf þar sem flestir héldu að það væri of erfitt að útbúa vegan mat. Þetta var árið 2011, löngu áður en úrvalið af spennandi vegan hráefnum varð svona gott. Ég vandist því að mæta með mat í allskyns heimsóknir og oftar en ekki þótti fólki svakalega spennandi að smakka það sem ég mætti með. Með tímanum hefur þetta svo orðið að vana hjá mér og nú elska ég að bjóða fólki í heimsókn og útbúa skemmtilega partýrétti og allskonar kökur.

Þessi færsla er einmitt ætluð þeim sem vilja bjóða uppá skemmtilega partýrétti um jólin eða áramótin eða jafnvel útbúa góðan veislubakka sem forrétt um hátíðirnar. Sem betur fer hefur hugarfar fólks almennt breyst mikið hvað varðar vegan mat og flestir vita að ekkert mál er að borða gómsætan hátíðarmat án dýraafurða. Þó eru enn sumir sem halda að vegan jól þýði að þeir þurfi að fórna einhverju og er þessi veislubakki tilvalinn til að koma fólki rækilega á óvart.

IMG_0083.jpg

Það var mikil áskorun að gera þessa færslu því á þessum tíma ársins er dagsbirta af skornum skammti hérna í Piteå. Í dag var nánast alveg dimmt í eldhúsinu fyrir utan pínuitla ljósglætu alveg við gluggann og ég gerði mitt besta til að nýta hana. Það er synd að minn uppáhalds tími til að blogga sé akkúrat þegar skilyrðin eru sem verst. Ég læt það þó ekki á mig fá og held ótrauð áfram að útbúa gómsætar uppskriftir.

IMG_0092-3.jpg

Þessar uppskriftir eru báðar virkilega einfaldar og fljótlegar en þó skiptir máli að þær séu gerðar svolítið fyrirfram. Osturinn þarf helst að fá að sitja í ísskáp í nokkrar klukkustundir og salatið er einnig betra þegar það fær að sitja í ísskápnum og draga í sig bragðið frá kryddunum. Allt annað á disknum er svo bara smekksatriði og hægt er að leika sér endalaust með það. Ég t.d. held að laufabrauðið úr bókinni okkar væri fullkomið á partýbakkann og dásamlegt með bæði salatinu og ostinum.

Ég var fyrst svolítið á báðum áttum með að birta færslu sem inniheldur svona mikið af tilbúnum vegan vörum. En eftir því sem ég hugsaði meira um það áttaði ég mig á því að það er ekkert að því að birta svoleiðis færslu. Það er oft sett svolítil krafa á okkur sem erum vegan að búa allt til frá grunni og nota ekkert tilbúið. Ég hef stundum rekist á athugasemdir við uppskriftir annarra grænkera þar sem þau eru gagnrýnd fyrir það að nota t.d. tilbúinn rjómaost í stað þess að gera hann sjálf, en ég hef aldrei séð athugasemdir þar sem fólk er beðið um að útbúa sinn eiginn rjómaost úr kúamjólk í stað þess að kaupa tilbúinn. Það er enginn skömm af því að kaupa tilbúnar vörur og þegar það eru jól og við erum öll á fullu í eldhúsinu er svakalega gott að geta útbúið eitthvað einfalt til að bjóða uppá.

IMG_0106-3.jpg

Ég vona innilega að þið prófið að útbúa þennan dásamlega partýbakka og látið okkur endilega vita hvernig ykkur og öðrum líkar við uppskriftirnar.

IMG_0107-3.jpg
IMG_0118-2.jpg

Vegan kryddostur (2 stk)

  • 3 öskjur (samtals 450 gr) hreinn vegan rjómaostur (ég notaði Oatly)

  • 2 dl rifinn vegan ostur (ég notaði Violife)

  • 2 msk vegan majónes. Ég nota heimagert því það er virkilega einfalt og mér finnst það langbest. Það þarf líka majónes í salatið hér að neðan svo ég geri tvöfalda uppskrift af þessu hér

  • 2 msk smjörlíki frá Naturli - vegan block

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1,5 dl saxaður vorlaukur (bara græni parturinn)

  • 2-3 tsk tabasco sósa (mæli með að byrja á því að setja 2 og bæta svo við eftir þörf)

  • 1 tsk sojasósa

  • salt eftir smekk

Utan um ostinn

  • 2 dl saxaðar hnetur (ég notaði möndlur því Siggi er með ofnæmi fyrir öðrum hnetum. Pekanhnetur og valhnetur passa örugglega mjög vel líka)

  • svartur pipar eftir smekk

  • gróft salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Bætið restinni ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  3. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  4. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  5. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr söxuðu möndlunum og kryddunum.

Vegan kjúklingasalat með karrý

Þetta salat gerði ég upprunalega fyrir skonsubrauðtertu. Það er ekkert smá gott og karrýið gerir salatið enn betra að mínu mati. Það má þó sleppa því. Ég gerði þetta salat fyrir partý um daginn og það sló bókstaflega í gegn.

  • 1 pakki vegan filébitar frá Hälsans Kök

  • Sirka 5-6 dl vegan majónes. Eins og ég sagði hér að ofan finnst mér langbest að útbúa mitt eigið majónes og ef þið ætlið að gera bæði salatið og ostana mæli ég með því að tvöfalda þessa uppskrift. Ef þið ætlið aðeins að útbúa salatið myndi ég gera eina og hálfa uppskrift

  • 1-2 dl saxaður vorlaukur. Ég setti um 1,5 dl

  • 1 msk gróft sinnep

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 msk karrý

  • salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Takið bitana úr frysti og steikið aðeins á pönnu uppúr smá olíu og salti. Bitarnir þurfa í raun ekkert að eldast mikið, bara í nokkrar mínútur þannig þeir séu orðnir mjúkir.

  2. Hellið þeim á stórt skurðarbretti og rífið í sundur með tveimur göfflum. Mér finnst þetta skipta miklu máli uppá áferðina á salatinu. Ég ríf þá ekkert alveg niður en ríf þá í sundur í þá stærð sem ég vil hafa bitana í stað þess að skera þá niður.

  3. Setjið bitana í stóra skál og bætið restinni af hráefnunum út í og hrærið saman.

  4. Leyfið salatinu að standa í ísskáp í allavega klukkustund. Þetta gerir það að verkum að salatið verður bragðmeira og betra. Eins og ég sagði hér að ofan er mjög gott að gera þetta snemma sama dag og þið ætlið að bera salatið fram eða jafnvel kvöldið áður.

Ég vona innilega að þið njótið. Eins og þið sjáið kannski þá hef ég bætt við linkum á margar vörur í færslunni svo auðvelt sé að sjá hvernig þær líta út. Ég mæli með að opna hvern link í nýjum glugga svo það sé sem þægilegast þegar þið skoðið færsluna.

-Veganistur

Hemp-parmesan

IMG_9105.jpg

Ég geri oft parmesan úr kasjúhnetum og næringargeri sem er fullkominn á pastarétti. Þar sem kærastinn minn er með ofnæmi fyrir hnetum byrjaði ég að prufa mig áfram og útbúa parmesan úr t.d sólblómafræjum og hempfræjum. Það bragðast virkilega vel og í dag ætla ég að deila með ykkur þessari einföldu uppskrift.

Hemp-parmesan:

  • 1/2 bolli hempfræ

  • 3 msk næringarger

  • Örlítið hvítlauksduft

  • Örlítið laukduft

  • 1/2 tsk salt

Skellið öllu í blandara og púlsið nokkrum sinnum. Það þarf ekki að mylja hann alveg niður í duft heldur er betra að hafa hann smá "chunky"

Veganistur