Brauðterta með baunasalati

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af klassískri brauðtertu með vegan útgáfu af hangikjöts- og baunasalati í samstarfi við ORA. Þessa brauðtertu má ekki vanta á hvaða veisluborð sem er sem og á hátíðisdögum.

Ég notast við blandað grænmeti frá ORA sem er lykilatriði í baunasalatinu og “bacon bites” til að fá smá reykt bragð í salatið. Þetta salat er virkilega einfalt og má vel bera fram eitt og sér með kexi eða brauði.

Ég elska að bera fram klassíska íslenska rétti sem eru hefðir fyrir í veislum og á hátíðisdögum og eru veisluréttir líkt og brauðtertur iðulega það sem slær mest í gegn. Eins og flestir sem hafa fylgt okkur lengi vita elskum við að deila með ykkur alls konar uppskriftum af veislumat og mæli ég með að þið kíkið einnig á þessa brauðtertuuppskrift sem er virkilega góð.

Brauðterta með baunasalati

Brauðterta með baunasalati
Höfundur: Veganistur
Undirbúningstími: 15 Min: 15 Min
Vegan útgáfu af klassískri brauðtertu og "hangikjöts" og baunasalati

Hráefni:

  • 1 dós blandað grænmeti frá ORA
  • 1 dl bacon bites frá Oumph
  • 100 gr vegan majónes (+ 2 msk til að smyrja tertuna)
  • 1/2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/2 tsk salt
  • 3 sneiðar brauðtertubrauð
  • Grænmeti eftir smekk til að skreyta

Aðferð:

  1. Blandið saman í skál majónesinu og sýrða rjómanum
  2. Bætið út í blandaða grænmetinu, beikon bitunum og salti og hrærið saman
  3. Smyrjið helmingnum af salatinu á brauðtertu brauðsneið og setjið aðra ofan á. Smyrjið restinni af salatinu og lokið síðan með þriðju sneiðinni
  4. Smyrjið vegan majónesi ofan á og á allar hliðar tertunnar
  5. Skreytið með fersku grænmeti og kryddjurtum eftir smekk
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við ORA -

Vegan brauðréttur með vegan beikoni og osti

Ef það er eitthvað sem mér finnst nauðsynlegt í allar veislur og um hátíðir þá er það svo sannarlega heitur brauðréttur! Það er hægt að gera svo ótrúlega margar og skemmtilegar útfærslur af þessum æðislega rétti en við höfum til dæmis deilt með ykkur hefðbundnum heitum brauðrétti sem og heitu rúllubrauði hérna á blogginu áður.

Uppskriftin sem við deilum með ykkur í dag er síðan þriðja útfærslan á heitum brauðrétti en það er fyllt “baguette” brauð. Það má að sjálfsögðu gera hinar uppskriftirnar líka í þessari útfærslu eða öfugt.

Þessi uppskrift er ólík öðrum heitum brauðréttum sem við höfum deilt með ykkur áður en í þetta skipti erum við með fyllingu sem er stútfull af gómsætum vegan osti, reyktum vegan “beikon” bitum og vorlauk. Hann er því fullkomin til að breyta aðeins út af vananum og lofum við ykkur að þið sláið í gegn í boðum ef þið komið með þetta brauð.

Uppskriftin er mjög einföld og tekur enga stund að í undirbúningi. Brauðið er fullkomið til að taka með sér þar sem það er mjög auðvelt að pakka því inn í álpappír eða annað slíkt og helst það þá vel heitt í góðan tíma.

Það er einnig fullkomið að gera þennan gómsæta rétt til dæmis á milli jóla og nýárs en við áttum alls ekki í vandræðum með að klára eitt stykki með kaffinu þó við værum ekki nema þrjú saman.

Hráefni:

  • 1 súrdeigsbaguette

  • 2 msk góð steikingarolía

  • 1 tsk salt

  • 2 dl smokey bites

  • 2 vorlaukar

  • 1/2 Smokey mature ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 1/2 Chilli and garlic ostur úr Violife hátíðarostabakkanum

  • 220 gr vegan rjómaostur

  • 1 dl hafrarjómi

  • Ofan á brauðið fer:

    • Restin af ostunum tveimur, eða eins mikið magn og hver og einn vill

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1/2 tsk paprikuduft

    • 1 msk þurrkuð steinselja

Aðferð:

  1. Byrjið á því að steikja reyktu bitana (smokey bites) ásamt niðurskornum vorlauk upp úr olíu og salti í nokkrar mínútur.

  2. Rífið niður ostinn og hrærið saman í skál rifnum ostinum, rjómaosti, hafrarjóma, reyktu bitana og vorlaukinn.

  3. Skerið ofan í brauðið tvær langar rifur (athugið að skera alls ekki alveg í gegnum brauðið) og takið ofan af og aðeins innan úr brauðinu eins og sést á myndunum.

  4. Fyllið brauðið með rjómaostafyllingunni.

  5. Rífið vel af báðunum ostunum yfir fyllinguna og stráið hvítlauksdufti, paprikudufti og steinselju yfir.

  6. Bakið við 210°C í 12-15 mínútur eða þar til osturinn verður fallega gylltur að ofan.

-Njótið vel

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Violife á Íslandi -

 
 

Vegan réttir í áramótaveisluna

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að vegan partýréttum fyrir áramótaveisluna. Við vitum öll að gamlárskvöld einkennist að miklu leyti af mat og drykk. Við grænkerarnir erum að sjálfsögðu engin undantekning þar. Við systur höfum því sett saman gómsætan partýmat sem mun stela senunni í áramótapartýinu og sanna fyrir ÖLLUM að vegan partý eru bestu partýin! Færsla dagsins er í samstarfi við Krónuna og allt sem þarf í þessa dásamlegu áramótaveislu fáiði þar.

Það fyrsta sem við bjóðum uppá er krydduð ostakúla sem er fullkomin með góðu kexi. Ostakúlan er innblásin frá mexíkóosti og er svolítið spæsí en samt alls ekki of. Hún var ekki lengi að hverfa ofan í okkur eftir að við kláruðum að taka myndir af henni.

Það er alltaf jafn gaman að bjóða fólki uppá ostakúlur því það er skemmtilega öðruvísi og alveg svakalega bragðgott. Það er líka svo gaman að prófa sig áfram með mismunandi brögð og samsetningar.

Utan um kúluna gerðum við kasjúhnetukryddblöndu og hún setti punktinn yfir i-ið að okkar mati. Ekkert smá góð!

Mexíkó ostakúla

  • 1 askja (250 gr) hreinn Sheese rjómaostur eða annar góður vegan rjómaostur

  • 2 msk vegan smjör

  • 2 msk vegan majónes

  • 1 Chilli og hvítlauksostur úr ostabakkanum frá Violife

  • 1/2 epic mature úr ostabakkanum frá violife

  • 1 dl niðursaxaður vorlaukur

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk paprikuduft

  • 2-3 tsk hot sauce eða tabasco sósa

  • 1 tsk sojasósa

Mexíkó kryddblanda utan um ostinn:

  • 3-4 msk mexíkaninn krydd frá Kryddhúsinu

  • 1 tsk chilli og lime krydd frá Bowl&Basket

  • Heimagerður kasjúhnetuparmesan

    • 1 dl kasjúhnetur

    • 2 msk næringarger

    • 1 tsk laukduft

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk salt

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Saxið niður vorlaukinn.

  3. Bætið restinni af hráefnunum ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  4. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  5. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  6. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr kryddblöndunni.

Aðferð fyrir kryddblöndu:

  1. Setjið hráefni fyrir heimagerða kasjúhnetuostinn í blandari eða matvinnsluvél og vinnið í nokkrar sekúndur þar til það verður að mjög grófu “mjöli”.

  2. Blandið saman við restina af kryddunum.

  3. Dreifið á disk og veltið ostinum upp úr.

Næst á boðstólnum er önnur gómsæt ostakúla sem er aðeins meira í þessum hefðbundna hátíðlega búning, mjög jólaleg og góð. Hún inniheldur meðal annars timían og þurrkuð trönuber og utan um kúluna eru saxaðar pekanhnetur. Virkilega gómsætt og eins og hin kúlan er hún fullkomin með góðu kexi. Pssst.. Við erum með fleiri færslur á blogginu með dásamlegum partýréttum ef þið viljið kíkja!

Ostakúla með trönuberjum, timían og pekanhnetum:

  • 1 askja (250 gr) hreinn Sheese rjómaostur eða annar góður vegan rjómaostur

  • 2 msk vegan smjör

  • 2 msk vegan majónes

  • 1 smoked mature úr hátíðarostabakkanum frá Violife

  • 1/2 epic mature úr hátíðarostabakkanum frá Violife

  • 1 dl niðursaxaður vorlaukur

  • 1/2 dl niðursöxuð þurrkuð trönuber

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk timían

  • 1 tsk sojasósa

Utan um ostinn :

  • Pekanhnetur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hræra saman rjómaostinn, smjörið og mæjónesið.

  2. Saxið niður vorlaukinn og trönuberin.

  3. Bætið restinni af hráefnunum ofan í skálina og blandið vel saman með sleif.

  4. Skiptið ostinum í tvennt og útbúið tvær kúlur sem þið vefjið inn í plastfilmu (sjá mynd að ofan).

  5. Setjið ostinn í ísskáp í minnst tvo tíma svo hann harðni svolítið og auðveldara sé að velta honum uppúr möndlunum. Ef þið ætlið að bjóða uppá ostinn í partýi eða sem forrétt mæli ég með því að gera hann snemma sama dags eða jafnvel kvöldið áður. Hann er nefnilega betri ef hann fær aðeins að standa í ísskápnum.

  6. Takið hann út þegar þið ætlið að bera hann fram og veltið uppúr pekanhnetunum.

  7. Saxið niður pekan hnetur og dreifið á stóran disk. Veltið ostinum upp úr þeim.

Snakk og ídýfa er að okkar mati möst í gott partý. Við útbjuggum því einfalda og gómsæta ídýfu sem er innblásin af Holiday ídýfuduftinu frá Maarud sem fæst því miður ekki á Íslandi en er virkilega gott. Ídýfan kom ekkert smá vel út og tók snakkið á næsta level!

Gómsæt vegan ídýfa

  • 4 dl vegan sýrður rjómi

  • 3 msk vegan mæjónes

  • 1,5 tsk laukduft

  • 1,5 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 tsk túrmerík

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1/2 tsk þurrkað dill

  • 1/2 tsk þurrkuð steinselja

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1/2-1 tsk hlynsíróp

  • 1 tsk tabasco sósa

  • Salt og pipar eftir smekk. Ég notaði 1 tsk salt og smá pipar

Aðferð:

  1. Blandið öllu saman í skál og leyfið að standa í ísskáp í sirka klukkustund til að leyfa brögðunum að blandast vel saman.

Nammi er svo sannarlega mikilvægt líka í góðum gleðskap og við ákváðum að búa til skemmtilegt súkkulaðibark með allskyns sælgæti í. Ef þið hafið ekki prófað súkkulaði með saltstöngum mælum við með því að gera það ASAP! Svo gott!!

Súkkulaði bark með nammi:

  • Saltkringlur

  • Fazer marianne brjóstsykur

  • Tutti Frutti nammi frá Fazer

  • 2 plötur reint hafrasúkkulaði frá HAPPI

Aðferð:

  1. Byrjið á því að bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði eða í örbylgju. Passið að hræra í því á 20-30 sekúndna fresti ef það er gert í örbylgjunni

  2. Saxið niður það nammið í mjög grófa bita og bætið út í súkkulaðið.

  3. Hellið á bökunarpappír, dreifið vel úr og leyfið því að harðna í kæli í allavega eina klukkustund.

  4. Brjótið eða skerið niður í bita og berið fram.

Auk þessarra rétta eru á plattanum:

  • Ólífur

  • Vínber

  • Ostarnir úr Holiday bakkanum frá Violife

  • Vegan chorizo frá Veggyness

  • Brauðstangir

  • Snakk

  • Baguettebrauð

  • Hrökkbrauð

  • Sulta

  • Jarðarber húðuð í hvítt súkkulaði og haframjólkusúkkulaði frá Happi

  • Pestó

  • Möndlur

  • Saltkringlur dýfðar í bráðið súkkulaði

Takk fyrir að lesa og vonandi líkar ykkur vel!

-Veganistur

-Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni í uppskriftirnar þar-