Gómsætur heitur brauðréttur

IMG_9975-2.jpg

Ein af okkar fyrstu uppskriftum hérna á blogginu er af heitu rúllubrauði með aspas og sveppum. Uppskriftin hefur verið ein af þeim vinsælustu á blogginu síðan. Við höfum fengið ótal margar skemmtilegar myndir af því þegar fólk útbýr brauðið við ýmis hátíðleg tilefni og það virðist slá í gegn í hvert skipti. Við höfum þó fengið margar spurningar um það hvernig hægt sé að breyta réttinum úr rúllubrauði yfir í hefðbundinn aspasbrauðrétt í eldföstu móti. Eftir að hafa í þónokkurn tíma svarað öllum persónulega þegar ég er spurð, ákvað ég að búa til nýja uppskrift svo fólk geti bæði notast við uppskriftina af rúllubrauðinu og uppskrift af réttinum í eldföstu móti. 

IMG_9894-2.jpg

Ég ákvað að nota reykta og saltaða Oumph!-ið, og vá! Það passaði fullkomlega í réttinn. Ef þið eruð ókunnug Oumph!-inu mæli ég með því að þið lesið þessa grein. Ég nota Oumph! mikið í allskonar rétti og þið finnið ýmsar uppskriftir hérna á blogginu þar sem það er notað, við erum miklir aðdáendur. 

Í réttinn nota ég heimagert vegan mæjónes. Það er vissulega hægt að kaupa tilbúið vegan mæjónes úti í búð en þegar maður hefur prófað að búa til sitt eigið er eiginlega ekki aftur snúið. Það tekur innan við 5 mínútur, er virkilega ódýrt og stenst algjörlega allan samanburð. Síðan ég lærði að gera mæjónes sjálf hefur það reynst mér mun auðveldara að gera allskonar sósur sem ég var vön að elska áður en ég gerðist vegan, eins og pítusósu, kokteilsósu, hamborgarasósu og sæta sinnepssósu. Í mæjóið þarf einungis 5 hráefni og er uppskriftin af því hér að neðan. 

Í réttinum er einnig heimagerð sveppasósa sem er algört lykilatriði. Þegar ég var yngri var mamma vön að gera brauðrétt þar sem hún notaði sveppasúpu í dós frá Campbell og ég vildi búa til svipaðan "fíling." Heimagerða sósan er miklu betri að mínu mati og gefur réttinum svo ótrúlega gott bragð. 

Webp.net-gifmaker (5).gif

Þó það sé bæði heimagert mæjónes og heimagerð sveppasósa í réttinum, tekur enga stund að búa hann til. Ég get líka lofað ykkur því að þetta er allt þessi virði þegar hann er tilbúinn. Mér þætti virkilega gaman að heyra hvort ykkur líkar og ég skora á ykkur til að búa hann til fyrir næstu veislu og segja engum að hann sé vegan fyrr en eftir á. Mér finnst mjög hæpið að fólki myndi detta það í hug!

IMG_9928.jpg

Vegan mæjónes:

  • 1 bolli ósæt sojamjólk (helst við stofuhita.) Ég nota þessa í rauðu fernunni frá Alpro, en svo er einnig til mjög góð frá Provamel, einnig í rauðri fernu

  • 2 tsk eplaedik

  • Bragðlaus olía eftir þörf. Ég nota sólblómaolíu eða rapsolíu

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 1/2 tsk salt

  1. Hellið sojamjólkinni í blandara eða matvinnsluvél ásamt eplaedikinu og hrærið á miklum hraða í nokkrar sekúndur

  2. Hellið mjórri bunu af olíu ofan í á meðan blandarinn vinnur. Ég hefði átt að mæla fyrir ykkur hvað ég notaði mikla olíu, en ég gleymdi því. Ég nefnilega helli henni beint úr flöskunni í mjórri bunu þar til mæjónesið er orðið eins þykkt og ég vil hafa það. Það er mikilvægt að hella henni hægt svo þetta tekur alveg mínútu.

  3. Þegar mæjóið er orðið þykkt bæti ég sinnepinu og saltinu útí og hræri í nokkrar sekúndur í viðbót.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 1 peli Oatly matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur frá Knorr

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (Má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg. Ég nota hana bara þegar ég á hana til en myndi ekki kaupa hana sérstaklega fyrir sósuna)

  • Vatn og hveiti til að þykkja. (Ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið)

  1. Skerið sveppina niður eftir smekk (fyrir þennan rétt finnst mér gott að skera þá mjög smátt) og setjið í pott. Ekki láta ykkur bregða þó potturinn sé nánast fullur af sveppum, þeir rýrna mikið við eldun.

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta örlitlu vatni saman við og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð.

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni. Mér þykir best að hafa sósuna mjög þykka (mun þykkari en ef ég væri að bera hana fram með mat. Að öðru leyti væri þessi sósa fullkomin sem meðlæti með ýmsum mat)

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið. Sósan má vera svolítið bragðsterk.

Aspas brauðréttur:

  • 1/2 poki Salty & Smoky Oumph!

  • 1 dós aspas ásamt safanum (Ég var með aspas í krukku sem var 330g með vatninu og 185g þegar einungis aspasinn er veginn)

  • 2 dl vegan mæjónes + meira til að smyrja ofan á réttinn áður en hann fer í ofninn

  • Sveppasósan hér að ofan

  • Sirka 12 sneiðar af hvítu samlokubrauði. Ég fyllti svona 2/3 af eldfasta mótinu af brauði

  • Paprikuduft (eða annað krydd eftir smekk. Mamma notaði oft sítrónupipar ofan á svona brauðrétt en mér finnst paprikuduft og örlítið af grófu salti best. Ég hef líka notað Chilli explosion kryddið frá Santa Maria og það var virkilega gott)

  1. Hitið ofninn á 200°c

  2. Gerið mæjóið og sveppasósuna og leggið til hliðar

  3. Skerið Oumph!-ið niður í smáa bita og steikið í nokkrar mínútur á pönnu

  4. Bætið mæjónesinu, sósunni, aspasnum og safanum frá aspasnum á pönnuna og hrærið vel saman

  5. Skerið skorpuna af brauðinu og skerið sneiðarnar í teninga og setjið í eldfast mót. Það er alveg hægt að setja sneiðarnar heilar í formið en mér þykir betra að skera þær niður í sirka 6 teninga.

  6. Hellið fyllingunni ofan í formið og jafnið hana út svo hún nái yfir allt formið.

  7. Smyrjið mæjónesi yfir blönduna og kryddið með paprikudufti og gófu salti, eða bara því kryddi sem ykkur þykir best.

  8. Bakið réttinn þar till yfirborðið er orðið gyllt, eða í kringum 20 mínútur.

Vegan Kransakaka

Litla systir okkar mun fermast núna í maí og er fermingarundirbúningurinn því í fullum gangi. Hún líkt og restin af fjölskyldu okkar systra er ekki vegan og verður fermingin því ekki vegan. Ég hef þó verið aðeins að troða vegan mat og þá sérstaklega eftirréttum inn í planið með því að bjóðast til að baka og þess háttar fyrir mömmu. Fermingarbarnið og mamma eru alveg til í að hafa vegan kökur og eftirrétti, þar sem þær vita báðar að munurinn á vegan bakkelsi og því sem er ekki vegan er engin og ólíklegt er að einhver muni kippa sér upp við þetta í veislunni.

Mamma spurði mig fyr á þessu ári hvort að ég gæti farið með systur okkar á kransakökunámskeið til þess að gera kransaköku fyrir ferminguna. Ég fór á slíkt námskeið fyrir mína fermingu sem var auðvitað mjög þægilegt. Það var alls ekki svo dýrt og eftir kvöldið áttum við heila kransaköku í frystinum tilbúna fyrir fermingardaginn. Kakan var og yrði núna auðvitað ekki vegan en mér fannst það ekki alveg nógu heillandi. Ég fór aðeins að kynna mér kransakökur og það hráefni sem notað er í þær og sá strax að það yrði ótrúlega lítið mál að gera vegan útgáfu að þessari ómissandi köku. 

Ég bauð systur minni því í staðin að koma bara í systrahelgi til mín og við myndum gera kökuna saman hérna heima í staðin fyrir að fara á námskeiðið og ó guð hvað það var góð hugmynd. Ég hafði aldrei getað ímyndað mér hversu einfalt var að gera svona köku og í þokkabót hversu ódýrt hráefnið í hana væri. Eftir góðan morgun af bakstri eða sirka fjóra klukkutíma stóðum við uppi með fallega köku fyrir innan við fjögurþúsund krónur.

Kakan kom ótrúlega fallega út og bragðast ennþá betur, en okkur fannst bara ennþá fallegra að það sæjist á henni að hún væri heimagerð. Við skreyttum hana á mjög hefðbundin hátt með smá glassúr og súkkulaðiskrauti. Það eru óteljandi falleg munstur og skrautmyndir á netinu sem hægt er að prenta út og sprauta súkkulaðinu eftir til að fá fallegt skraut en það er einmitt það sem við gerðum. Hægt að finna myndirnar sem við notuðum hérna fyrir neðan.

Best er að "tempra" súkkulaðið, en þá eru 2/3 af því súkkulaði sem nota á, brætt yfir vatnsbaði eg restinni svo hrært saman við þegar skálin hefur verið tekin af hitanum. Síðan er það sett í sprautupoka og leyft að kólna svolítið áður skrautið er búið til. Ef að súkkulaðið er of heitt rennur það út um allt og skrautið verður ekki jafn fallegt. Ég leyfði skrautin að vera í frysti í allavega 30 mínútur áður en ég festi það á kökuna.

Hráefni (fyrir meðalstóra köku (ca. 12-15 hringir)):

  • 1 1/2 kg marsipan

  • 600 gr flórsykur

  • 8-9 msk aquafaba (kjúklingabaunasoð)

Aðferð:

  1. Vinnið marsipanið í hrærivél eitt og sér þar til það hefur blandast vel saman.

  2. Bætið útí flórsykrinum 100 gr í einu og vinnið saman á milli.

  3. Setjið Síðast kjúklingabaunasoðið saman við 2 msk í einu, það þarf þó ekki að líða mjög langur tími á milli, einungis um 1 mínúta.

  4. Best er að gera deigið kvöldið áður en það er bakað og leyfa því að sitja í ísskápnum yfir nótt. Það er þó ekki nauðsynlegt en ég mæli með að leyfa deiginu að vera í ísskáp í allavega 1 klst áður en bakað er úr því.

  5. Skiptið deiginu í nokkra hluti og rúllið út lengjur um 1 cm á þykkt. Notið lófan til að pressa rúlluna ská niður öðrumegin svo hún verði að einskonar þríhyrning. Ef notuð eru kransakökuform er lítið mál að mæli fyrir hverjum hring en ef þau eru ekki til staðar en fyrsti hringurinn hafður 8 cm og svo bætt 3 cm við hverja lengju. Mótið hring úr lengjunum, annað hvort í formin eða á bökunarplötu og festið endana vel saman. Passa skal að smyrja formin með olíu eða öðru þess háttar ef þau eru notuð. Þrístið aðeins ofan á hringina með flatri plötu eða stórum flötum disk svo þeir verði sléttir og fallegir að ofan.

  6. Bakið hringina í 220°C heitum ofni í 8-9 mínútur eða þar til gullinbrúnir. Leyfið hringjunum að kólna aðeins í fominu eða á plötunni áður en þeir eru losaðir frá. 

  7. Sprautið fram og til baka eftir hringjunum með glassúrnum og raðir þeim svo saman eftir stærð. Gott er að festa hringina saman með því að setja smá bræddan sykur á milli.

Snjóhvítt glassúr

  • 4 msk aquafaba (kjúklingabaunasoð)

  • 300 gr flórsykur

Aðferð:

  1. Þeytið kjúklingabaunasoðið í hrærivél þar til það verður að stífri froðu.

  2. Bætið flórsykrinum út í 2 msk í einu og þeytið vel á hæstu stillingu á milli.

  3. Þeytið í góða stund þegar allur flórsykurinn er komin út í eða þar til myndast hefur skjannahvítt krem.

  4. Setjið í sprautupoka með litlu gati og sprautin fram og til baka eftir hringjunum.

 

Vonandi njótið þið vel
-Júlía Sif