Fljótlegt kartöflusalat með rauðu pestói

Uppskrift dagsins er af kartöflusalati með rauðu pestói, radísum, vorlauk, ristuðum furuhnetum, sítrónusafa og sítrónuberki. Kartöflusalatið er einstaklega fljótlegt og passar bæði sem aðalréttur eða sem meðlæti með t.d. góðum grillmat.

Færsla dagsins er í samstarfi við Sacla á Íslandi og við notuðum rauða tómatpestóið þeirra í kartöflusalatið. Þessi uppskrift er jafn góð með rauðu og grænu pestói en við vorum í stuði fyrir það rauða í þetta sinn. Við elskum pestóin og sósurnar frá Sacla og erum alltaf jafn spenntar fyrirn því að fá að vinna með þeim.

Oft eru kartöflusalöt gerð úr soðnum kartöflum og majónesi, en við vildum breyta út af vananum og bökuðum kartöflurnar í ofni upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Eins slepptum við því alfarið að setja majónes í salatið og vildum hafa það aðeins léttara.

Í salatið settum við þunnt skornar radísur, vorlauk og ferska basiliku. Planið var að hafa klettasalat líka, en við gleymdum því. Ég get ímyndað mér að það komi mjög vel út í salatinu. Sítrónusafinn og börkurinn gefa salatinu mjög ferskt og gott bragð.

Ristuðu furuhneturnar gefa salatinu svo þetta extra “krisp.” Það má að sjálfsögðu skipta þeim út fyrir t.d. kasjúhnetur, valhnetur, graskers- eða sólblómafræ. Ég mæli þó mikið með að hafa eitthvað stökkt í salatinu.

Takk innilega fyrir að lesa og við vonum að ykkur líki uppskriftin. Endilega skellið kommenti undir færsluna ef þið prófið.

-Veganistur

Kartöflusalat með rauðu pestói

Kartöflusalat með rauðu pestói
Höfundur: Helga María
Fljótlegt kartöflusalat með rauðu pestói, radísum, vorlauk, ristuðum furuhnetum, sítrónusafa og sítrónuberki. Kartöflusalatið er einstaklega fljótlegt og passar bæði sem aðalréttur eða sem meðlæti með t.d. góðum grillmat.

Hráefni:

  • 1 kg af íslenskum kartöflum
  • Olía að steikja upp úr
  • Salt og pipar
  • 3/4 krukka af rauðu eða grænu vegan pestó frá Sacla
  • 1 poki af radísum (ca 125 gr)
  • 1-2 vorlaukar
  • Fersk basilika eftir smekk
  • 1 msk sítrónusafi
  • Börkur af hálfri sítrónu
  • Ristaðar furuhnetur eftir smekk
  • Ólífuolía
  • Salt og pipar

Aðferð:

  1. Hitið ofninn i 220°c.
  2. Skerið kartöflurnar í tvennt, stráið olíu, salti og pipar yfir og bakið á ofnplötu í 30 mínútur eða þar til þær hafa fengið gylltan lit og eru mjúkar í gegn.
  3. Skerið niður vorlauk og basiliku og sneiðið radísurnar.
  4. Leyfið kartöflunum að kólna aðeins og setjið þær svo í stóra skál ásamt pestói, grænmetinu, sítrónusafa og rifnum sítrónuberki.
  5. Ristið furuhneturnar í nokkrar mínútur á pönnu og passið að þær brenni ekki.
  6. Toppið salatið með ólífuolíu, furuhnetum, salti og pipar. Smakkið til hvort þið viljið bæta einhverju við.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur

-Þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Sacla á Íslandi-

 
 

Mexíkóskt maískornasalat

Í dag deilum við með ykkur gómsætu og einföldu maískornasalati sem inniheldur papríku, chilli, rauðlauk, kóríander og lime. Þetta bragðmikla salat passar fullkomlega með mexíkóskum mat og grillmat til dæmis.

Salatið er ótrúlega einfalt og tekur aðeins nokkrar mínútur að græja, en það gerir hvaða máltíð sem er ótrúlega góða. Það er einnig einfalt að skipta út grænmetinu fyrir það grænmeti sem hver og einn á til hverju sinni en sú blanda sem er hér, er að okkar mati sú fullkomna.

Uppskriftin er í samstarfi við ORA en það vörumerki þekkja lang flestir íslendingar mjög vel. Maískornin frá ORA má alls ekki vanta í allan mexíkóskan mat að okkar mati og er þetta salat mjög einföld og fljótleg leið til að gera maískorn einstök og spennandi.

Ein af mínúm uppáhalds leiðum til að bera fram salatið er í litlum tacos með til dæmis vegan hakki og guacamole. Það er virkilega einföld en góð máltíð sem lítur út fyrir að vera mjjög “fancy” og er einstaklega gaman að bjóða upp á.

Mexíkóskt maísbaunasalat

Mexíkóskt maísbaunasalat
Höfundur: Júlía Sif
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 5 Min: 15 Min
Einfalt og gott maískornasalat sem hentar til dæmis með mexíkóskum mat eða alls konar grillmat.

Hráefni:

  • 1 dós ORA Maískorn
  • 1/2 msk vegan smjör eða smjörlíki til steikingar
  • 1/4 rauð papríka
  • 1/4 rauðlaukur
  • 1/2 rautt chilli (takið fræin úr)
  • 1/2 dl ferskt kóríander (má sleppa)
  • safi úr hálfri lime
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • 1 kúfull msk majónes
  • 1 kúfull msk vegan sýrður rjómi
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Steikið maísbaunirnar á pönnu uppúr vegan smjöri eða smjörlíki og salti í nokkrar mínútur eða þar til kornin byrja að verða fallega gyllt hér og þar
  2. Setið maískornin í skál og leyfið að kólna aðeins á meðan þið undirbúið restina af grænmetinu
  3. Saxið niður grænmetið og blandið saman við maískornin ásamt restinni af hráefnunum.
  4. Hrærið saman og smakkið til með salti og pipar.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við ORA -

Vegan brún sósa

Brún sósa er eitthvað sem er algjörlega nauðsynlegt að kunna að gera að okkar mati. Þessi uppskrift er ótrúlega einföld, fljótleg og klikkar aldrei. Innihaldsefnin eru fá og tekur innan við 10 mínútur að útbúa sósuna alveg frá grunni. Sósan hentar fullkomlega með vegan kjötbollum, grænmetisbollum og hrísgrjónaréttum til dæmis eða nánast hverju sem er.

Þessi uppskrift er ein af svona grunn uppskriftunum sem ég gríp til nánast í hverri viku. Það er svo ótrúlega auðvelt að gera einfaldan, fljótlegan kvöldmat, eins og vegan kjötbollur til dæmis, að máltíð með þessari góðu sósu. Þetta er líka uppskrift sem ég á alltaf allt til í og er erfitt að trúa því hversu góð hún er miðað við hversu einfalt og fljótlegt það er að matreiða hana.

Vegan brún sósa

Vegan brún sósa
Höfundur: Júlía Sif
( 0 reviews )

Hráefni:

  • 1/2 lítri vatn
  • 2 grænmetisteningar
  • 1/4 dl næringarger
  • 1/4 dl hveiti
  • 1 msk soyjasósa
  • 1 tsk laukduft
  • 2-3 dropar sósulitur

Aðferð:

  1. Byrjið á því að hrista saman vatnið og hveiti í hristibrúsa eða krukku.
  2. Hellið hveitiblöndunni í pott og bætið öllu nema sósulitnum út í.
  3. Hitið að suðu og hrærið vel í á meðan. Sjóðið í 4-5 mínútur.
  4. Bætið sósulitnum út í, einum dropa í einu þar til sá litur sem þið kjósið kemur fram.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Gómsætt vegan hvítlauksbrauð með bökuðum hvítlauk og jurtum

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að virkilega góðu ofnbökuðu hvítlauksbrauði með vegan smjöri, parmesanosti, bökuðum hvítlauk og ferskum jurtum. Einfalt og bragðgott sem meðlæti eða snarl. Hvítlauksbrauðið passar fullkomlega með góðu pasta eða súpu og mun slá í gegn í matarboðinu.

Færsla dagsins er í samstarfi við Violife á Íslandi og ég notaði nýja smjörið og prosociano ostinn frá þeim í hvítlauksbrauðið. Við erum alltaf jafn spenntar fyrir því að vinna með Violife því vörurnar þeirra eru í miklu uppáhaldi hjá okkur!

Í hvítlauksbrauðinu er bakaður hvítlaukur. Allir sem fylgjast með TikTok og Instagram reels hafa líklega séð ótal myndbönd þar sem fólk bakar hvítlauk í ofni, pressar geirana út með fingrunum og notar í allskonar rétti. Ég hef vanalega gert hvítlauksbrauð með því að pressa hvítlaukinn beint út í smjörið en ég bara varð að prófa að baka hann í ofninum fyrst og sjá hvernig það kæmi út.

Útkoman var virkilega góð og hvítlaukurinn fær örlítið mildara og sætara bragð sem gerir hvítlaukssmjörið einstaklega gott. Ég notaði tvo heila hvítlauka og fannst það mjög passlegt í þessa uppskrift.

Ég setti ferskar jurtir í hvítlaukssmjörið og ákvað að nota basíliku og blaðsteinselju sem passa báðar virkilega vel við hvítlaukinn. Það má skipta jurtunum út fyrir sínar uppáhalds. Timían er örugglega mjög gott í hvítlauksbrauð t.d.

Það er auðvitað hægt að gera hvítlauksbrauð á mismunandi vegu en mér finnst alltaf best að skera rákir í brauðið og passa að skera ekki alveg niður. Með því helst brauðið saman og ég treð hvítlaukssmjörinu og prosociano ostinum á milli sem gerir brauðið svo ótrúlega mjúkt og “djúsí” að innan en stökkt og gott að utan. Fullkomið!

Eins og ég sagði hér að ofan finnst mér gott hvítlauksbrauð passa virkilega vel með góðum pastarétti eða súpu. Ég mæli með að gera brauðið með t.d. þessu gómsæta pestópasta eða uppáhalds tómatsúpunni minni.

Takk innilega fyrir að lesa og ég vona að þér líki uppskriftin vel! <3

-Helga María

Gómsætt vegan hvítlauksbrauð

Gómsætt vegan hvítlauksbrauð
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María
( 0 reviews )
Undirbúningstími: 10 MinEldunartími: 1 Hour: 1 H & 10 M
Virkilega gott ofnbakað hvítlauksbrauð með vegan smjöri, parmesanosti, bökuðum hvítlauk og ferskum jurtum. Einfalt og bragðgott sem meðlæti eða snarl.

Hráefni:

  • 1 stórt baguette
  • 150 gr vegan smjör frá Violife við stofuhita
  • 2 heilir hvítlaukar
  • 1/2 dl fersk blaðsteinselja
  • 1/2 dl fersk basílika
  • 1 msk ólífuolía (plús örlítið til að setja á hvítlaukinn fyrir ofninn)
  • 1/2 tsk salt
  • 2 msk rifinn vegan prosociano ostur frá Violife plús aðeins meira að toppa með (má sleppa eða hafa annan rifinn vegan ost í staðinn)
  • Chiliflögur eftir smekk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 200°c.
  2. Skerið toppinn af hvítlauknum, setjið á hann örlítið af salti og pipar og ólífuolíu og vefjið inn í álpappír. Bakið í 40-50 mínútur eða þar til hann hefur fengið fallegan lit.
  3. Setjið smjörið í skál ásamt restinni af hráefnunum og kreistið bakaða hvítlaukinn út í. Hrærið vel og passið að hvítlaukurinn blandist vel. Það er hægt að stappa hann aðeins fyrir svo hann maukist alveg örugglega.
  4. Skerið brauðið í sneiðar en skerið samt ekki alveg niður. Við viljum að brauðið haldist saman. Deilið hvítlaukssmjörinu í rifurnar og troðið aðeins meira af ostinum á milli. Smyrjið svo smjörinu sem safnast saman á köntunum ofan á brauðið.
  5. Bakið í 10-15 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið #veganistur veganistur

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Violife-

 
 

Einfalt vegan kartöflugratín

Kartöflugratín. Eitt af mínu uppáhalds meðlæti. Kartöflur, vegan rjómi, vegan ostur, góð krydd. Dásamlega gott!

Ég elska gott meðlæti. Mér þykir stundum meðlætið mikilvægara en aðalrétturinn. Ég myndi t.d. frekar panta mér franskar og vegan kokteilsósu án hamborgara en einungis hamborgara með engum frönskum. Eins myndi ég auðveldlega getað borðað eintómt kartöflugratín. Kartöflugratín, grænar baunir og sveppasósa, dýrindis kvöldmatur. Nei nú er ég kannski farin að ganga aðeins of langt, en þið skiljið hvert ég er að fara. Meðlæti er gríðarlega mikilvægt.

Kartöflugratín er eitt af þessu meðlæti sem passar með öllu. Það getur bæði verið hversdagslegt og hátíðlegt og ég borða það bæði með þriðjudagskvöldmatnum og á aðfangadagskvöld.

Ég gerði þetta gratín sem meðlæti með þessu vegan hakkabuffi um daginn og það var fullkomið saman!

Kartöflugratín

Hráefni:

  • 25 gr. smjörlíki að smyrja í eldfasta mótið

  • 750 gr kartöflur

  • 300 ml vegan matreiðslurjómi

  • 200 ml vegan mjólk (mæli með haframjólk eða ósætri sojamjólk)

  • 2-3 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk þurrkað timían

  • Örlítið af hvítum pipar

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Rifinn ostur eftir smekk til að dreyfa yfir. Ég notaði u.þ.b. 70 gr.

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 180°c

  2. Smyrjið eldfast mót með smjörlíki

  3. Skerið kartöflurnar niður í mjög þunnar sneiðar. Ég notaði mandólin. Ég leyfði hýðinu að vera á.

  4. Raðið kartöflunum í formið og hellið út á rjómanum, mjólkinni, kryddið og stráið yfir ostinum

  5. Setjið álpappír yfir og leyfið kartöflunum að bakast í 60 mínútur. Mér finnst best að baka þær hægt. Stingið í og sjáið hvort kartöflurnar eru orðnar mjúkar. Ef ekki, leyfið þeim að bakast aðeins lengur.

  6. Takið þær út, hækkið hitann í 200°c og setjið þær örlítið hærra í ofninn í 10 mínútur svo ofninn fái fínan lit.

Takk fyrir að lesa og vona að þið njótið

-Helga María

Haustlegt kartöflusalat með Ceasar dressingu

IMG_9761.jpg

Ég held að það sé óhætt að segja að það sé komið haust og þar af leiðandi er fullt af fersku og góðu grænmeti í búðum akkúrat núna. Ég elska að gera góða rétti úr rótargrænmeti á haustinn og finnst það alltaf fylgjast haustinu á mínu heimili. Kartöflur eru eitt af þeim hráefnum sem er sérstaklega gott á haustinn að mínu mati og ef það er einhver matur sem ég held að ég gæti lifað alfarið á, þá eru það kartöflur. Ég bókstaflega elska kartöflur, hvort sem þær eru soðnar, ofnbakaðar, maukaðar í kartfölumús eða bara hvernig sem er.

IMG_9756.jpg

Einn af mínum uppáhalds réttum með kartöflum er kartöflusalat. Ég elska að hafa eitthvað í matinn sem passar með kartöflusalat til að geta haft það sem meðlætii. Þetta salat er engu líkt og það er svo gott að það er nánast hægt að borða það eitt og sér. Það má einnig bæta út í það t.d. linsubaunum og meira af salati og þá er það orðið máltíð út af fyrir sig. Ég hins vegar elska að hafa sem mest af kartöflum og sem minnst af einhverju öðru og ef ég á að segja alveg eins og er stelst ég oft í að setja afgang af salatinu ofan á brauð og borða það þannig.

IMG_9777.jpg

Salatið er einstaklega einfalt í undirbúningi, þar sem ég notast við Ceasar dressinguna frá Sacla Italia og þarf þar með ekki að krydda neitt aukalega nema mögulega setja smá salt. Það er þó best að smakka salatið til fyrst þar sem “reyktu bitarnir” eru einnig saltir.

IMG_9757.jpg

Hráefni

  • 500 gr kartöflur

  • Klettasalat, sirka 2 bollar

  • 2-3 litlir vorlaukar

  • 1 dl smokey bites frá Oumph

  • 1/2 dl ristaðar furuhnetur

  • salt ef þarf

  • 1/2 flaska vegan Ceasar sósa frá Sacla Italia

Aðferð:

  1. Skerið kartöflurnar í bita, stærðin má vera eftir smekk, og sjóðið í um 10 mínútur eða þar til þær eru mjúkar í gegn. Ég hef hýðið á kartöflunum en það má að sjálfsgöðu taka það af.

  2. Saxið niður vorlaukinn og klettasalatið.

  3. Steikið reyktu bitana í nokkrar mínútur á pönnu, takið til hliðar og ristið síðan furuhneturnar á sömu pönnu þar til þær verða fallega gylltar.

  4. Leyfið öllum hráefnum að kólna aðeins.

  5. Blandið öllu saman í skál og hellið dressingunni yfir. Hrærið vel saman og smakkið til hvort að þurfi að salta aukalega.

-Njótið vel og takk fyrir að lesa.

- Þessi færsla er unnin í samstarfi við Sacla Italia á Íslandi -

 
logo Sacla.jpg
 

Uppáhalds grillmeðlætið okkar

Við systur höldum áfram að deila með ykkur uppáhalds grill uppskriftunum okkar en nú er komið að uppáhalds grill meðlætinu okkar. Okkur systrum finnst svo gaman að grilla og ennþá skemmtilegra að njóta matarins með góðum vinum eða fjölskyldu. Í þessari færslu deilum við með ykkur þremur réttum sem henta sem meðlæti með grillmatnum eða sem geggjaðir forréttir sem munu alltaf slá í gegn.

Við elskum að nota ferskt og gott grænmeti á grillið og er það uppistaðan í öllum smáréttunum sem koma hér á eftir. Það er ekkert smá auðvelt að gera ótrúlega ljúffenga grillrétti með einföldum hráefnum og fær grænmetið í þessum réttum að njóta sín ótrúlega vel.

IMG_9492.jpg

Grillaður chilli maís með vegan parmesan

  • 2 ferskir maísstönglar

  • Chilliolía

    • 1/2 dl góð ólífuolía

    • 1 tsk chillikrydd

    • 1/2 tsk paprikukrydd

    • 2 tsk blandaðar jurtir

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk salt

  • Heimagerður vega parmesan

    • 1 dl kasjúhnetur

    • 1 tsk laukduft

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 2 tsk salt

    • 2-3 msk næringarger

  • Oatly sýrður rjómi

Aðferð:

  1. Byrjið á því að taka vel utan af maísstönglunum og passið að fjarlæga alla “strengina” vel. Byrjið á því að sjóða maísstönglana í 10 mínútur í stórum potti. Gott er að salta vatnið vel.

  2. Á meðan er gott að undurbúa chilliolíuna, en einungis þarf að blanda öllum hráefnunum fyrir olíuna saman í skál og setjið til hliðar.

  3. Setjið öll hráefnin fyrir parmesan ostinn í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til hráefnin verða að fínu dufti. Setjið til hliðar.

  4. Grillið maísstönglana þar til þeir verða fallega gylltir eða fá smá “brennda” bletti hér og þar.

  5. Penslið olínnu á maísinn um leið og hann kemur af grillinu og veltið þeim síðan upp úr heimagerða parmesan ostinum.

  6. Berið fram með vegan sýrðum rjóma.

Grillaðar kartöflur með chilli majónesi og chorizo pylsum

  • 2 stórar grillkartöflur

  • Vegan smjör

  • Salt

  • Chilli majónes (keypt eða heimagerð)

    • 2 dl vegan majónes

    • 1-2 tsk sambal oelek (chillimauk)

  • 1 vegan Chorizo pylsa

  • Graslaukur

Aðferð:

  1. Mér finnst best að byrja á því að sjóða kartöflurnar í 20 mínútur þar sem það tekur óratíma að grilla stórar kartöflur.

  2. Vefjið hvorri kartöflu inn í álpappír ásamt klípu af vegan smjöri og salti

  3. Grillið kartöflurnar í álpappírnum í 15 mínútur, gott er að snúa þeim af og til.

  4. Hrærið saman majónesinu og chillimaukinu fyrir heimagert chillimajó

  5. Skerið chorizo pylsuna í litla bita og steikið í 2-3 mínútur upp úr olíu á vel heitri pönnu.

  6. Skerið ofan í kartöflurnar, setjið klípu af vegan smjöri og smá salt ofan í og stappið því aðeins saman við kartöfluna. Dreifið chilli majónesinu, chorizo pylsubitunum og niðurskornum graslauk yfir og berið fram.

Vatnsmelónu grillsalat

  • 1/2 stór vatnsmelóna

  • 1 gúrka

  • 1/2 rauðalukur

  • safi úr 1/2 lime

  • örítið salt

  • Niðursöxuð mynta (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið vatnsmelónuna, gúrkuna og rauðlaukinn niður í þá stærð sem þið kjósið.

  2. Blandið saman í skál og hellið safanum af límónunni yfir. Setjið salt og myntu saman við og blandið vel saman.

  3. Berið fram með öllum grillmat eða sem forréttur fyrir hvaða mat sem er.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

 
KRONAN-merki (1).png
 


Aspassúpa og hátíðar meðlætið │ Veganistur TV │ 7. þáttur

Aspassúpa

  • 75 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 1 dl hveiti

  • 2 dósir niðursoðinn aspas (soðið og aspasinn)

  • 2 lítrar Oatly Barista mjólkin

  • 4 msk grænmetiskraftur (2 grænmetisteningar)

  • 2 tsk salt

  • 1/2 lítri Oatly iMat matreiðslurjómi

Aðferð:

  1. Bryjið á því að bræða smjörlíki í stórum potti. Þegar smjörlíkið er bráðið setjið hitan á hellunni niður á miðlungs eða lágan hita.

  2. Stráið hveitinu út í smjörið og hrærið það saman í hveitibolli, Bollan á að vera frekar þurr.

  3. Hellið soðinu af tveimur aspadósum í könnu og bætið út í pottinn í nokkrum skömmtum og hrærið vel saman við hveitibollunna. Ekki setja of mikið vökva út í pottinn í einu því þá er líklegra að kekkir myndist í súpunni.

  4. Þegar allt soðið er komið saman við bætið hálfum lítra af mjólkinni saman við og hrærið vel og síðan restinni af mjólkinni.

  5. Bætið grænmetiskrafti og saltinu saman við og leyfið því að hitna þar til suðan kemur upp.

  6. Þegar suðan er komin upp bætið matreiðslurjómanum og aspasinum saman við og hitið í nokkrar mínútur í viðbót.

  7. Berið fram með hvítu hveitibrauði.

Pipar sveppasósa

  • 25 gr vegan smjör eða smjörlíki

  • 2 hvítlauksgeirar

  • 200 gr sveppir

  • 2 tímían stilkar (ferkst)

  • salt og pipar

  • 1 bréf piparsósa

  • 250 ml vatn

  • 2 msk grænmetiskraftur (1 grænmetisteningur)

  • 250 ml Oatly iMat matreiðslurjómi

  • 1 tsk rifsberjahlaup eða rifsberjasulta

Aðferð:

  1. Skerið sveppina í þunnar sneiðar, kremjið hvítlaukinn og setjið út á heita pönnu mðe vegan smjörinu og tímían stilkunum.

  2. Steikið í nokkrar mínútur þar til að vökvi fer að myndast úr sveppunum.

  3. bætið vatninu, piparsósunni og grænmetiskraftinum út á pönnuna og hrærið saman þar til duftið er alveg komið saman við vatnið.

  4. Bætið rjómanum og rifsberjasultunni saman við og leyfið suðunni að koma upp. Sjóðið í sirka 5 mínútur.

Brúnaðar kartöflur (10 meðalstórar kartöflur)

  • 10-12 soðnar litlar kartöflur

  • 50 gr vegan smjör

  • 100 gr sykur

  • 1/2 dl Oatly-hafrarjómi

Aðferð:

  1. Bræðið sykurinn á meðalhita á pönnu og passið að fylgjast vel með.

  2. Setjið smjörið útí um leið og sykurinn er bráðinn svo hann brenni ekki.

  3. Þegar smjörið er bráðið er slökkt undir, rjómanum hellt útí og hrært standslaust í hálfa mínútu áður en kartöflunum er helt út í.

Eplasalat

  • 2 meðalstór græn epli

  • 1 bolli græn vínber

  • 1 dl Oatly sýrður rjómi

  • 1/2 dl þeyttur vegan rjómi

Aðferð:

  1. Takið hýðið af eplunum og skerið niður í litla kúbba

  2. Skerið vínberin í tvennt

  3. hrærið sýrða rjómanum og þeytta rjómanum saman við ávextina í stórri skál.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og Oatly á Íslandi

 
 
KRONAN-merki.png
Oatly_logo_svart.png
 

Vegan síld í sinnepssósu

IMG_2228.jpg

Síld er ekki eitthvað sem að við systur getum sagt að hafi verið hluti af okkar jólum í æsku. Það var þó oft keypt síld á heimilið og hún til yfir jólin en við systkinin borðuðum hana svo sannarlega ekki. Þegar Helga síðan flutti til svíþjóðar og kynntist þeim æðislega vegan jólahefðum sem þar ríkja fór hún að vera forvitin um vegan síld. Við ákváðum því fyrir nokkrum árum að slá til.

IMG_2205.jpg

Við gerðum uppskrift fyrir jólablað fréttablaðsins sem heppnaðist ekkert smá vel. En einhverra hluta vegna gleymdist þessi uppskrift hjá okkur og við komumst aldrei í að setja hana á bloggið. Það er því sannarlega komin tími á að hún fái loksins að koma hérna inn en það verður engin svikin af þessari “síld”.

Síldin er gerð úr eggaldin sem mörgum finnst örugglega skrítin tilhugsun. Okkur þótti það sjálfum fyrst þegar við heyrðum af þessu, en þetta kom okkur ekkert smá mikið á óvart. Eggaldin er fullkomið í þennan rétt þar sem áferðin verðum ótrúlega skemmtileg og það dregur ótrúlega vel í sig allt bragð. Að öðru leiti er uppskriftin hefðbundin og bragðið eitthvað sem að margir kannast örugglega við. En síldin verður einnig svo ótrúlega girnileg í fallegri krukku.

IMG_2227.jpg

Það er mjög sniðugt að gera eina eða tvær uppskriftir af réttinum og eiga í ísskápnum yfir hátíðrnar til að henda á brauð þegar gestir kíkja við eða bara þegar maður verður svangur í öllu jólastússinu. En einnig má gera stóra uppskrift og setja í litlar krukkur og gefa fólkinu í kringum sig, en okkur systur finnst fátt skemmtilegra en jólagjafir sem hægt er að borða. Þær svíkja enganm og fjölskylda eða vinir geta notið saman.

IMG_2238.jpg

Vegan jóla “síld”

  • 1 eggaldin

  • ½ rauðlaukur

  • ½ dl sætt sinnep

  • 1 tsk gróft sinnep

  • 3 msk matarolía

  • 1 msk rauðvínsedik

  • 1 msk sykur

  • 1 dl oatly-rjómi

  • ½ dl dill

Aðgerð

  1. Setjið vatn í pott ásamt einni matsekið af salti og látið suðuna koma upp. Setið niðurskorið eggaldin út í þegar suðan er komin upp og sjóðið í 5 mínútur.

  2. Hellið vatninu af og leyfið eggaldininu að kólna.

  3. Pískið saman sinnep, sykrur, olíu og edik þar til sykurinn leysist upp. Pískið rjómann og dillið saman við og bætið síðast köldu eggaldininu og niðurskornum rauðlauknum út í.

  4. Leyfið síldinni að standa í ísskáp í um einn sólarhring áður en hennar er notið

Síldin passar fullkomlega á gróft rúgbrauð eða venjulegt ristað brauð og er ómissandi á jólaborðið

-Veganistur

Rósakál með ristuðum möndlum og appelsínuberki

IMG_2168.jpg

Ég uppgvötaði rósakál fyrir nokkrum árum. Mér hefði eiginega aldrei dottið í hug að mér myndi þykja það gott, því ég hafði oft heyrt frá öðrum að það væri hrikalega vont. Því er ég algjörlega ósammála, og í dag borða ég rósakál í hverri viku. Yftirleitt kaupi ég það frosið og borða sem meðlæti með mat, en um jólin kaupi ég það ferskt og útbý það á aðeins hátíðlegri máta.

IMG_2163-2.jpg

Ég hef smakkað margar skemmtilegar og gómsætar uppskriftir sem innihalda rósakál, eins og gratín og fleira gúrmé. Yfir hátíðirnar er ég þó vanalega með kartöflugratín, sósu og fleira sem inniheldur rjóma eða mæjónes, svo ég vil hafa rósakálið aðeins meira ferskt.

IMG_2166.jpg

Þar sem jólamaturinn getur tekið langan tíma er svo gott að gera meðlæti sem þarfnast ekki mikillar fyrirhafnar. Þetta rósakál er einmitt dæmi um svoleiðis meðlæti en smakkast á sama tíma ótrúlega vel og passar fullkomlega yfir hátíðirnar.

IMG_2174-2.jpg

Rósakál með appelsínuberki og möndlum

  • 400 g ferskt rósakál

  • Smá olía til að steikja upp úr

  • 1-2 tsk hlynsíróp

  • 1 dl möndlur

  • 2 msk appelsínusafi

  • börkur af einni appelsínu

  • salt og pipar

Aðferð:

  1. Skerið rósakálið í tvennt og takið botninn af ef hann er mjög stór og harður

  2. Saxið niður möndlurnar og þurrristið á pönnu. Takið frá þegar þær eru orðnar ristaðar

  3. Hitið olíu á pönnu og bætið rósakálinu út á

  4. Steikið það í smá stund þar til það er orðið svolítið gyllt á litinn

  5. Bætið út á pönnuna appelsínusafanum og sírópinu og steikið þar til rósakálið er orðið svolítið dökkt

  6. Bætið þá út á möndlunum, berkinum, salti og pipar og steikið örlítið í viðbót.

  7. Berið fram heitt eða kalt

Njótið

Veganistur

Rauðrófu- og eplasalat

IMG_2189-3.jpg

Þetta salat er alveg rosalega einfalt og þarf varla sér færslu. Ég ákvað þó að skella því hérna inn því þetta er mitt uppáhalds meðlæti yfir jólin. Það er svolítið erfitt að segja hversu mikið þarf af hverju, því það fer algjörlega eftir því hversu margir ætla að borða. Ég sker niður epli eins og ég vil og sker svo niður rauðbeður úr krukku þannig jafn mikið verði af þeim og af eplunum. Svo bæti ég vegan mæjónesi út í eins og mér finnst passlegt. Ég ætla að skrifa hér að neðan hversu mikið ég gerði, en ég gerði einfaldlega það sem mér fannst þurfa svo ég ætti nóg í færsluna, en það myndi þó passa fyrir 3-4 held ég.

Rauðrófu- og eplasalat

  • 1 og ½ afhýtt epli

  • Rauðbeður úr krukku þannig jafn mikið sé af þeim og af eplunum

  • Nokkrar msk heimagert mæjónes,eða eins og mér fannst passlegt. Uppskrift af mæjónesinu er að finna HÉR

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Skerið niður eplin

  2. Skerið niður rauðbeðurnar

  3. Bætið mæjónesinu saman við ásamt salti og pipar

Njótið

Veganistur

Vegan snitsel á tvo vegu

IMG_0755.jpg

Þessi færsla er sú þriðja í samstarfi okkar með Anamma, og í þetta sinn ákvað ég að útbúa snitselið frá þeim, sem mér þykir gríðarlega gott. Ég gat þó með engu móti ákveðið hvernig ég vildi matreiða snitselið fyrir færsluna, og eftir miklar vangaveltur fram og til baka ákvað ég að útbúa tvo mismunandi rétti úr því. Mér fannst nauðsynlegt að gera eina hefðbundna snitsel máltíð, og útbjó ég með því gómsæta sveppasósu, steiktan aspas og einar þær bestu ofnbökuðu kartöflur sem ég hef gert. Auk þess ákvað ég að gera aðeins öðruvísi máltíð og bjó til snitsel grillsamloku með grænmeti og tarragon-kapers mæjónessósu. Ég er fegin að hafa ákveðið að gera bæði því ég get ekki gert upp á milli. 

Snitselið er eina varan frá Anamma sem ekki er glúteinlaus, en nýlega breyttu þau öllum uppskriftunum sínum og snitselið, sem var glúteinlaust, er það ekki lengur. Að mínu mati eru allar vörunar mun betri eftir breytingarnar og mér finnst snitselið alveg ótrúlega gott, bæði í áferð og bragði. 

IMG_0698.jpg

Kartöflurnar sem ég gerði með voru virkilega góðar, en galdurinn var að sjóða þær fyrst og setja þær svo í ofninn. Við það urðu þær mjúkar og góðar að innan, en dásamlega stökkar að utan. Þær voru fullkomnar með báðum réttunum sem ég gerði. 

IMG_0758.jpg

Þar sem það tekur enga stund að elda snitselið langaði mig að gera með því flott meðlæti sem tekur kannski aðeins meiri tíma, en er samt virkilega einfalt og þægilegt að búa til. Ef tíminn er naumur, eða maður nennir ekki mikilli eldamennsku er auðvitað hægt að skella frönskum í ofninn og útbúa einhverja góða vegan pakkasósu, en ég mæli auðvitað mjög mikið með að búa til eigið meðlæti ef tök eru á.
Eins með samlokuna hér að neðan. Það er ekkert mál að kaupa vegan mæjónes og blanda því saman við hvítlauk og góðar jurtir, en mér fannst heimatilbúna mæjónessósan passa ótrúlega vel með samlokunni. 

IMG_0715-2.jpg
IMG_0780-3.jpg

Snitsel frá Anamma fyrir 4

  • 2 pakkar Anamma snitsel (hver pakki inniheldur 4 stk svo það er fínt að gera ráð fyrir a.m.k 2 á mann)

1. Eldið snitselið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Ég steikti það á pönnu upp úr vegan smjöri þar til það var gyllt á báðum hliðum.

Sveppasósa:

  • 1 askja sveppir (250g)

  • Olía til steikingar

  • 500 ml vegan matreiðslurjómi

  • 1 sveppateningur 

  • 1/2 tsk dökk sojasósa (má sleppa - hún gefur sósunni mjög gott bragð en er alls ekki nauðsynleg)

  • Vatn og hveiti til að þykkja (ég mæli það aldrei neitt sérstaklega heldur hristi ég bara saman smávegis af hveiti og smá vatni, það þarf alls ekki mikið).

  1. Sneiðið niður sveppina og setjið í pott. 

  2. Steikið þá uppúr smá olíu í pottinum. Ef mér finnst sveppirnir byrja að festast við botninn finnst mér best að bæta við örlitlu vatni og endurtek það ef mér finnst þurfa. Við það myndast líka smá sveppasoð sem mér finnst gefa sósunni gott bragð. 

  3. Bætið sveppakraftinum út í pottinn þegar sveppirnir eru orðnir mjúkir og hafa rýrnað svolítið, og látið hann leysast upp í soðinu sem hefur myndast í pottinum.

  4. Hellið rjómanum út í og leyfið suðunni að koma upp.

  5. Hristið saman svolítið af hveiti og vatni og hellið út í pottinn í mjórri bunu og meðan þið hrærið hratt í sósunni þar til hún hefur náð þeirri þykkt sem þið kjósið. 

  6. Bætið sojasósunni út í ásamt salti og pipar og smakkið til. 

Ristaðar kartöflur í ofni

  • 2 kg kartöflur

  • 6 msk olía til steikingar

  • 3 hvítlauksgeirar

  • 1 tsk paprikuduft

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Byrjið á því að skræla kartöflurnar

  2. Hitið ofninn í 200 gráður

  3. Skerið kartöflurnar í meðalstóra bita og leggið í bleyti í kalt vatn í sirka korter

  4. Sjóðið vatn í stórum potti á meðan

  5. Sjóðið kartöflurnar þar til þær eru svona nálægt því að verða tilbúnar. Þær eiga ekki að vera orðnar alveg mjúkar í gegn (mínar voru samt mjög nálægt því)

  6. Á meðan kartöflurnar sjóða hitiði olíuna á pönnu og pressið hvítlauksgeirana útí. Þegar þeir eru orðnir brúnir helliði olíunni í skál, sigtið hvítlaukinn úr og leggið til hliðar. Passið að hvítlaukurinn brenni ekki því hann verður notaður seinna 

  7. Takið kartöflurnar úr pottinum og hellið þeim í stóra skál og veltið þeim upp úr olíunni sem þið hituðuð, ásamt paprikudufti, salti og pipar. Passið að þekja kartöflurnar vel. Á þessum tímapunkti líta þær út fyrir að vera svolítið maukaðar og þannig eiga þær að vera

  8. Hellið kartöflunum á hreina ofnplötu og dreifið úr þeim svo þær séu sem minnst klestar saman

  9. Ristið þær í ofninum í 20 mínútur, takið plötuna svo út, snúið kartöflunum og ristið í aðrar 20 mínútur

  10. Þegar þær eru tilbúnar er gott að velta þeim upp úr hvítlauknum sem þið hituðuð í olíunni. Ástæðan fyrir því að ég geri það ekki áður en kartöflurnar fara í ofninn er sú að hann gæti brunnið og þá gefur hann frá sér beiskt bragð sem skemmir svolítið fyrir. 

  11. Bætið við grófu salti ef ykkur finnst þurfa

Með þessu steikti ég svo frosinn aspas á pönnu upp úr sítrónupipar, hvítlauk og salti

 

Grill samloka með snitseli og tarragon- kapersmæjó:

  • Anamma snitsel

  • Gott brauð (mæli með að kaupa heilt brauð og skera í frekar þykkar sneiðar)

  • Grænmeti eftir smekk (ég notaði romain kál, tómata og rauðlauk)

  • 1,5 dl vegan mæjónes (uppskrift okkar af vegan mæjónesi má finna HÉR)

  • 3 tsk kapers

  • 1 tsk tarragon

  • 1/2 tsk rifinn sítrónubörkur

  • Örlítil ólífuolía

  • Salt og pipar eftir smekk

  1. Steikið snitselið á pönnu upp úr olíu eða vegan smjöri þar til það er gyllt báðum megin

  2. Ristið brauðið á pönnu upp úr örlitlu vegan smjöri 

  3. Saxið niður kapers og bætið út í mæjónesið ásamt tarragon, rifnum sítrónuberki, ólífuolíu, salti og pipar

  4. Smyrjið báðar brauðsneiðarnar með mæjónessósunni og setjið snitselið á ásamt því grænmeti sem ykkur þykir best 

  5. Berið fram með gómsætu kartöflunum hér að ofan eða ofnbökuðum frönskum

Vonum að þið njótið!+
- Veganistur

 

anamma.png

- Þessi færlsa er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Kartöflugratín

IMG_0196.jpg

Kartöflugratín er eitthvað sem við systurnar ólumst ekki upp við að borða. Það var ekki fyrr en á fullorðinsárunum sem við áttuðum okkur á því hvað gratín er frábært meðlæti. Í dag er það oft á boðstólum hjá okkur við ýmis hátíðleg tilefni. 

IMG_0224-4.jpg

Gratín er einn af þessum réttum sem bragðast rosalega vel og henta fullkomlega sem meðlæti með fínum mat, en er virkilega auðvelt að útbúa. Það er þægilegt þegar maður eldar eitthvað fínt sem þarfnast mikillar vinnu, að geta útbúið gott meðlæti sem hægt er að skella í ofninn án þess að spá mikið í því. Matreiðslurjóminn frá Oatly er í miklu uppáhaldi hjá okkur og hann gerir gratínið rjómakennt og gott. 

IMG_0169-2.jpg

Við höfum prufað okkur áfram með gratínið síðustu ár og hef komist að því að okkur þykir best að sjóða kartöflublönduna í potti og baka hana síðan í ofninum. Við höfum prufað að gera gratínið með vegan osti en komist að því að okkur þykir hann ekki nauðsyn. Við einfaldlega kryddum  blönduna áður hún fer í ofninn og yfirborðið verður svolítið stökkt, líkt og þegar ostur er settur yfir. Í dag bar ég gratínið fram með páskamatnum, en uppskrift af honum er að finna HÉR

IMG_0222.jpg

Kartöflugratín

Fyrir 4
Eldunartími: 40 mín

  • 1 msk vegan smjör

  • Sirka 0,75 kg kartöflur

  • 4 dl Oatly matreiðslurjómi

  • 1/2 laukur, skorinn í strimla

  • 2-3 hvítlauksgeirar - pressaðir

  • 1 grænmetisteningur

  • Pasta rossa krydd eftir smekk

  • Salt og pipar eftir smekk

  • Krydd til að strá yfir gratínið áður en það fer í ofninn. Mér þykir mjög gott að setja chili flögur, gróft salt og reykta papriku, en það er hægt að nota hvaða krydd sem er. 

  1. Hitið ofninn í 200°c

  2. Skerið Kartöflurnar í sneiðar - mér þykir gott að hafa hýðið með

  3. hitið smjör í potti og bætið lauk og hvítlauk út í

  4. Steikið í nokkrar mínútur, eða þar til laukurinn hefur mýkst töluvert. Ef mér finnst laukurinn vera að festast við botninn helli ég örlitlu vatni út í

  5. Bætið kartöflunum í pottinn ásamt Oatly rjómanum og kryddunum og sjóðið við vægan hita í sirka korter

  6. Smyrjið eldfast mjót með örlitlu vegan smjöri, hellið blöndunni í, kryddið með því sem ykkur þykir best (eða dreifið vegan osti yfir) og bakið í 20 mínútur

-Veganistur

innnes2.jpg

-Færslan er unnin í samstarfi við Innnes Heildverslun-

Pönnubrauð

IMG_1978.jpg
IMG_1985.jpg

Heimabakað brauð getur sett punktinn yfir i-ið þegar kemur að ýmsum máltíðum. Það er því virkilega hentugt að kunna að gera einfalt og fljótlegt brauð til að hafa með matnum. Ég komst fyrir nokkru upp á lagið með að gera pönnubrauð en það er einstaklega þægilegt þar sem þarf hvorki að hefa það né baka í ofni.  Hráefnunum er einfaldlega skellt saman og brauðið steikt í nokkrar mínútur á pönnu. Þetta brauð passar fullkomlega með alls konar pottréttum og súpum.

IMG_2011.jpg

Hráefni:

  • 4 dl spelt hveiti

  • 2 dl vatn

  • örlítið salt

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum saman og bætið við meiru hveiti ef deigið er blautt.

  2. Skiptið deiginu í 6 litlar kúlur.

  3. Fletjið kúlurnar út og steikið í nokkrar mínútur á heitri þurri pönnu.

  4. Gott er að pensla brauðið með vegan hvítlaukssmjöri um leið og það kemur af pönnunni en það er alls ekki nauðsynlegt.

-Veganistur

 

Hemp-parmesan

IMG_9105.jpg

Ég geri oft parmesan úr kasjúhnetum og næringargeri sem er fullkominn á pastarétti. Þar sem kærastinn minn er með ofnæmi fyrir hnetum byrjaði ég að prufa mig áfram og útbúa parmesan úr t.d sólblómafræjum og hempfræjum. Það bragðast virkilega vel og í dag ætla ég að deila með ykkur þessari einföldu uppskrift.

Hemp-parmesan:

  • 1/2 bolli hempfræ

  • 3 msk næringarger

  • Örlítið hvítlauksduft

  • Örlítið laukduft

  • 1/2 tsk salt

Skellið öllu í blandara og púlsið nokkrum sinnum. Það þarf ekki að mylja hann alveg niður í duft heldur er betra að hafa hann smá "chunky"

Veganistur

Einfalt hvítlauksbrauð

IMG_9107.jpg

Þessi uppskrift er svo einföld að hún telst varla sem uppskrift. Þó langaði okkur að deila henni með ykkur því þetta hvítlauksbrauð er ómissandi með góðum pastaréttum. Þegar við vorum yngri keypti mamma okkar stundum tilbúið hvítlauksbrauð til að setja í ofninn og við héldum mikið uppá það. Þetta brauð bragðast nákvæmlega eins, ef ekki betra.

IMG_9050.jpg

Hvítlauksbrauð:

  • Baguette

  • Vegan smör eftir smekk

  • 1-2 hvítlauksgeirar (fer eftir því hversu mikið smjör notað er)

  • Örlítið salt

Aðferð:

  1. Skerið baguette í sneiðar. Ekki skera alveg niður samt heldur búið til svona djúpar rákir en passið að brauðið haldist ennþá saman

  2. Blandið saman smöri, pressuðum hvítlauk og salti. Það fer alfarið eftir smekk hversu mikið hvítlaukssmjör fólk vill hafa. Ég vil hafa mitt vel safaríkt að innan svo ég notaði 2 kúfullar msk af smjöri og svo 2 frekar litla hvítlauksgeira

  3. Skiptið smjörinu niður í rákirnar og troðið því vel á milli. það má alveg verða smá eftir ofan á brauðinu, það er bara betra

  4. Setjið í ofninn á 200°c í nokkrar mínútur eða þar til brauðið er orðið smá gullið að ofan og smjörið alveg bráðið innan í

  5. Berið fram heitt með því sem ykkur lystir

-Veganistur