Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú, hrásalati og bjórsteiktum lauk

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að hinni fullkomnu vegan steikarsamloku með grilluðu tófú, piparmajó, hrásalati og bjórsteiktum lauk. Samlokan er tilvalin að gera fyrir sumargrillveisluna eða taka með sér í lautarferð. Þetta er samloka sem allir elska, hvort sem viðkomandi er vegan eða ekki. Ég mæli með því að bera hana fram með góðum frönskum og þessa dagana er ég með æði fyrir vöfflufrönskum.

Uppskrift dagsins er í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin í hana þar. Í Krónunni er mikið úrval af vegan mat og hægt að fá allt sem þarf fyrir vegan grillveisluna þar, hvort sem það er fyrir forrétt, aðalrétt, meðlæti eða eftirrétt.

Grillaða tófúið er aðalpersónan í þessari uppskrift. Það er einstaklega gott og hægt að bera fram með nánast hverju sem er. Ef ég er ekki í stuði til að gera samloku finnst mér gott að borða það með grilluðum kartöflum, hrásalati, góðri sósu og salati. Leyndarmálið er að leyfa tófúinu að marínerast í allavega klukkutíma. Ég reyni að pressa það í viskastykki í sirka klukkutíma og hafa það svo í maríneringunni í 3-4 tíma svo það dragi í sig sem mest bragð.

Þetta hljómar kannski tímafrekt en í raun krefst þetta ekki mikillar fyrirhafnar. það tekur enga stund að hræra saman maríneringunni en það er tíminn á milli sem er lengri. Og trúið mér, það er þess virði að gera þetta tímanlega því tófúið verður svo ótrúlega gott.

Á samlokunni er:

Grillað tófú
piparmajó
hrásalat
klettasalat
tómatur
bjórsteiktur laukur.

Þetta er guðdómlega gott og djúsí. Ekta steikarsamloka sem sannar fyrir öllum að vegan grillmatur sé alls ekki síðri öðrum grillmat. Viljiði uppskriftir af góðu grillmeðlæti? Þá mæli ég með þessari færslu sem er stútfull af góðum hugmyndum.

Takk fyrir að lesa og vonandi smakkast vel!

-Helga María

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú

Vegan steikarsamloka með grilluðu tófú
Fyrir: 3-4
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Grillað tófú
  • 1 stk tófú, ca 400-500 gr. (passið að kaupa ekki silken tófú vegna þess að það virkar alls ekki fyrir svona uppskrift)
  • 2 dl sojasósa
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 msk ólífuolía
  • 1 msk hlynsíróp
  • Safi úr 1/2 sítrónu
  • 1 tsk timían
  • Smá chiliflögur (má sleppa)
  • Brauð fyrir samlokurnar
Köld piparsósa:
  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt
  • 1 dl vegan Krónu majónes
  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar
  • 1/2 tsk laukduft
  • 1/2 tsk salt
Hrásalat
  • 300 gr rifið hvítkál
  • 200 gr rifnar gulrætur
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 dl vegan krónumajónes
  • 1 dl oatly sýrður rjómi
  • 1 tsk dijonsinnep
  • 1 tsk eplaedik
  • 1/2 tsk salt
  • Svartur pipar eftir smekk
Bjórsteiktur laukur
  • 3 stórir laukar
  • Olía að steikja upp úr
  • 2 msk sykur
  • 2 msk soyasósa
  • salt og pipar
  • 1/2 dl bjór (ég mæli með peroni libero áfengislausa bjórnum sem er til í Krónunni)

Aðferð:

Grillað tófú:
  1. Takið tófúið úr umbúðunum og kreistið létt svo þið fáið út aðeins af vökvanum. Vefjið tófústykkinu inn í eldhúspappír eða viskastykki og leggið eitthvað þungt yfir, t.d. stóra bók eða pönnu. Leyfið að standa í sirka klukkutíma.
  2. Hrærið saman maríneringunni og hellið í box eða stóra skál. Skerið tófúið í 4 sneiðar og leggið í maríneringuna og leyfið að marínerast í minnst klukkustund. Ég reyni að leyfa því að sitja í maríneringunni í 3-4 tíma svo tófúið dragi í sig sem mest bragð.
  3. Græjið restina af hráefnunum á meðan þið bíðið svo að ekki þurfi að gera meira þegar kemur að því að grilla tófúið.
Köld piparsósa
  1. Hrærið öllu saman í skál.
Hrásalat:
  1. Rífið hvítkálið með ostaskerara.
  2. Rífið gulræturnar.
  3. Skerið laukinn í þunna strimla.
  4. Setjið í skál og hrærið restinni af hráefnunum saman við.
Bjórsteiktur laukur
  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.
  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.
  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.
  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Færslan er unnin í samstarfi við Krónunna-

 
 

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti

Í dag deilum við með ykkur uppskrift af gómsætu grilluðu pönnubrauði með fetaostasósu og grilluðu grænmeti. Hin fullkomna sumaruppskrift. Þetta er matur sem bæði er hægt að undirbúa fyrir fram og taka með sér út að grilla eða útbúa og grilla á staðnum.

Þessi færsla er í samstarfi við Krónuna og þar fáiði allt sem þarf í uppskriftina. Í Krónunni er virkilega gott úrval af góðum vegan grillmat og við erum alltaf jafn stoltar af því að fá að vinna með þeim.

Grillað grænmeti er að mínu mati eitt það besta við sumarið. Ég gæti glöð borðað það eitt og sér eða með góðri sósu, en í dag vil ég sýna ykkur hvernig er hægt að gera það ennþá betra. Grænmetið sem ég valdi í dag er í raun bara það sem ég átti til heima. Leyfið endilega hugmyndafluginu að ráða. Ég elska t.d. grillaðan aspas, grillað kál, kartöflur, eggaldin.

Ef þú hefur ekki prófað að grilla pönnubrauð þá mæli ég eindregið með því. Það er ekkert smá gott. Þar sem ég vildi hafa þetta uppskrift sem auðvelt er að gera á staðnum, t.d. ef þú ert í útilegu eða bara vilt elda góðan mat úti með vinum eða fjölskyldu, ákvað ég að gera einfalda uppskrift af brauði sem inniheldur lyftiduft í stað þurrgers. Þetta brauð þarf því ekki að hefast heldur er hægt að fletja út og grilla beint.

Fetaostasósan er mitt uppáhalds meðlæti með grillmat þessa dagana. Virkilega virkilega góð. Fyrir stuttu deildi ég með ykkur uppskrift af vegan fetaostasósu sem ég bar fram með steiktum kartöflubátum, en í dag mun ég sýna ykkur hvernig auðveldlega er hægt að útbúa hana án þess að þurfa að nota matvinnsluvél eða önnur raftæki. Þessi sósa er æðisleg með grillaða brauðinu og grænmetinu en passar einnig með öllum grillmat að mínu mati.

Takk kærlega fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin. Ef þú prófar hana eða aðrar uppskriftir af blogginu þykir okkur alltaf jafn vænt um það ef þú taggar okkur á Instagram! <3

-Helga María

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grilluðu grænmeti
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Grillað pönnubrauð með vegan fetaostasósu og grænmeti:
  • 5 dl hveiti
  • 1 tsk lyftiduft
  • 1/2 tsk salt
  • 6 msk ólífuolía (plús meira til að pennsla yfir)
  • 2-3 dl vatn (byrjið á 2 dl og bætið við ef ykkur finnst þurfa)
  • Fetaostasósa (uppskrift hér að neðan)
  • Grænmeti eftir smekk
  • Vegan grænt pestó til að toppa með (má sleppa en er svakalega gott)
  • Salt og pipar
Einföld vegan fetaostasósa:
  • 1 stykki vegan fetaostur frá Violife (greek white heitir hann)
  • 1 dós vegan sýrður rjómi (ég notaði Oatly imat fraiche 200ml)
  • ca 2 tsk rifinn sítrónubörkur og 1 tsk safi frá sítrónunni.
  • 2 msk ólífuolía
  • Salt og pipar
Grillað grænmeti:
  • Grænmeti eftir smekk. Ég notaði: Vorlauk, rauðlauk, rauða og gula papriku, sveppi og kúrbít.
  • Olía og krydd eftir smekk. Ég notaði bara olíu, salt og pipar en það er hægt að krydda með öllu því sem mann lystir.

Aðferð:

Grillað pönnubrauð
  1. Blandið saman hráefnunum.
  2. Bætið olíunni og vatninu út í og hnoðið létt
  3. Skerið í 6 bita og mótið kúlur. Leyfið þeim að standa undir viskastykki í 10 mínútur.
  4. Fletjið út, pennslið með ólífuolíu og grillið þar til hvor hlið fyrir sig fær gylltan lit. Það fer eftir grilli og hversu heitt það er en það ætti ekki að taka margar mínútur að grilla hvora hlið fyrir sig.
  5. Setjið undir viskastykki þar til þið berið fram.
  6. Smyrjið á brauðið fetaostasósunni, skerið grænmetið niður og raðið yfir og toppið með grænu pestói, ólífuolíu, salti og pipar.
Vegan fetaostasósa:
  1. Stappið fetaostinn með gaffli og setjið í skál.
  2. Bætið restinni af hráefnunum í skálina og hrærið saman.
  3. Smakkið til og bætið við sítrónu, salti og pipar eftir smekk.
Grillað grænmeti:
  1. Skerið grænmetið niður eins og ykkur finnst best.
  2. Grillið þar til ykkur finnst það orðið tilbúið. Athugið að það er oft mismunandi hversu langan tíma grænmetið þarf. Vorlaukurinn þarf bara örfáar mínútur og kúrbítssneiðarnar þurfa ekki langan tíma heldur. Rauðlaukinn skar ég í 4 bita og þeir þurfa lengri tíma svo þeir séu ekki hráir að innan. Ég er dugleg að fylgjast með og passa að ekkert brenni.
  3. Þetta er samt líka mismunandi eftir grillum svo það er erfitt að segja nákvæmlega.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

-Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefni þar-

 
 

Stökkir kartöflubátar með gómsætri vegan fetaostasósu

Í dag deilum við með ykkur uppskrift að stökkum og góðum kartöflubátum bornum fram með vegan fetaostasósu með fersku oregano. Þetta er hinn fullkomni sumarréttur, hvort sem þið berið hann fram sem forrétt, meðlæti, aðalrétt eða smárétt.

Ég elska kartöflur, hvort sem það er kartöflumús, soðnar kartöflur, steiktar eða djúpsteiktar, ég gæti borðað kartöflur í öll mál. Þessir kartöflubátar eru í top 5 sætunum yfir mínar uppáhalds kartöflur. Þeir eru akkúrat eins og ég vil hafa þá, mjúkir að innan og stökkir og góðir að utan. FULLKOMNIR!

Mitt tips til að gera kartöflubátana fullkomlega stökka að utan og mjúka að innan er að sjóða þá fyrst og baka þá svo í ofninum uppúr góðri ólífuolíu og kryddum. Ég veit að þetta er eitt extra skref en mér finnst algjörlega þess virði að sjóða þá fyrst svo ég mæli virkilega með því.

Þá er það fetaostasósan. Þessi sósa er alveg guðdómlega góð og fullkomin með sumargrillmatnum. Ég á eftir að gera hana aftur og aftur í sumar og bera fram með allskonar grilluðu grænmeti eða góðu ristuðu brauði. Hún er fersk og góð og passar fullkomlega með krydduðum kartöflubátunum. Hráefnin sem ég nota í sósuna eru:

  • Vegan fetaostur

  • Vegan sýrður rjómi

  • Ferskt oregano

  • Sítrónubörkur

  • Ólífuolía

  • Chiliflögur

  • Salt og pipar

Það er hægt að leika sér mikið með hráefnin og nota t.d. aðrar jurtir í stað oregano, t.d. kóríander eða basilíku. Eins get ég ímyndað mér að það sé virkilega gott að setja hvítlauk í hana.

Ég get ímyndað mér að sósan sé fullkomin með þessum gómsætu grillspjótum!

Takk kærlega fyrir að lesa og vona innilega að þér líki uppskriftin.

-Helga María

Stökkir kartöflubátar með vegan fetaostasósu

Stökkir kartöflubátar með vegan fetaostasósu
Höfundur: Helga María

Hráefni:

Kartöflubátar:
  • 1 kg kartöflur
  • 1 dl ólífuolía
  • 1 tsk af hverju kryddi: laukdufti, hvítlauksdufti, paprikudufti og salti
  • Smá svartur pipar
  • Ferskur graslaukur að toppa með eftir ofninn
Fetaostasósa:
  • 1 stykki vegan fetaostur
  • 2 dl vegan sýrður rjómi
  • 1/4 dl ólífuolía
  • sirka 1-2 msk ferskt oregano
  • sirka 2 tsk rifinn sítrónubörkur
  • Smá salt og chiliflögur
  • Smá chiliolía til að toppa með (má sleppa en ég átti svoleiðis til heima og fannst hún passa mjög vel með)

Aðferð:

Kartöflubátar:
  1. Skerið kartöflurnar niður í báta og sjóðið í 10 mínútur.
  2. Hitið ofninn í 210°c.
  3. Hellið vatninu af kartöflunum og setjið þær í ofnskúffu.
  4. Hellið ólífuolíu og kryddum yfir og hrærið saman svo það þekji kartöflurnar.
  5. Bakið í ofninum í sirka 30 mínútur eða þar til kartöflurnar eru stökkar og hafa fengið á sig gylltan lit.
Fetaostasósa:
  1. Setjið fetaost, sýrðan rjóma og ólífuolíu í matvinnsluvél og blandið.
  2. Bætið sítrónuberki, oregano, salti og chiliflögum saman við og blandið í nokkrar sekúndur.
  3. Smyrjið á stórt fat og toppið með kartöflubátunum, smá chiliolíu og graslauk.
Prufaðir þú þessa uppskrift?
Taggaðu @veganistur.is á instagram og notaðu hashtaggið # veganistur

Uppáhalds grillmeðlætið okkar

Við systur höldum áfram að deila með ykkur uppáhalds grill uppskriftunum okkar en nú er komið að uppáhalds grill meðlætinu okkar. Okkur systrum finnst svo gaman að grilla og ennþá skemmtilegra að njóta matarins með góðum vinum eða fjölskyldu. Í þessari færslu deilum við með ykkur þremur réttum sem henta sem meðlæti með grillmatnum eða sem geggjaðir forréttir sem munu alltaf slá í gegn.

Við elskum að nota ferskt og gott grænmeti á grillið og er það uppistaðan í öllum smáréttunum sem koma hér á eftir. Það er ekkert smá auðvelt að gera ótrúlega ljúffenga grillrétti með einföldum hráefnum og fær grænmetið í þessum réttum að njóta sín ótrúlega vel.

IMG_9492.jpg

Grillaður chilli maís með vegan parmesan

  • 2 ferskir maísstönglar

  • Chilliolía

    • 1/2 dl góð ólífuolía

    • 1 tsk chillikrydd

    • 1/2 tsk paprikukrydd

    • 2 tsk blandaðar jurtir

    • 1/2 tsk laukduft

    • 1/2 tsk hvítlauksduft

    • 1 tsk salt

  • Heimagerður vega parmesan

    • 1 dl kasjúhnetur

    • 1 tsk laukduft

    • 1 tsk hvítlauksduft

    • 2 tsk salt

    • 2-3 msk næringarger

  • Oatly sýrður rjómi

Aðferð:

  1. Byrjið á því að taka vel utan af maísstönglunum og passið að fjarlæga alla “strengina” vel. Byrjið á því að sjóða maísstönglana í 10 mínútur í stórum potti. Gott er að salta vatnið vel.

  2. Á meðan er gott að undurbúa chilliolíuna, en einungis þarf að blanda öllum hráefnunum fyrir olíuna saman í skál og setjið til hliðar.

  3. Setjið öll hráefnin fyrir parmesan ostinn í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til hráefnin verða að fínu dufti. Setjið til hliðar.

  4. Grillið maísstönglana þar til þeir verða fallega gylltir eða fá smá “brennda” bletti hér og þar.

  5. Penslið olínnu á maísinn um leið og hann kemur af grillinu og veltið þeim síðan upp úr heimagerða parmesan ostinum.

  6. Berið fram með vegan sýrðum rjóma.

Grillaðar kartöflur með chilli majónesi og chorizo pylsum

  • 2 stórar grillkartöflur

  • Vegan smjör

  • Salt

  • Chilli majónes (keypt eða heimagerð)

    • 2 dl vegan majónes

    • 1-2 tsk sambal oelek (chillimauk)

  • 1 vegan Chorizo pylsa

  • Graslaukur

Aðferð:

  1. Mér finnst best að byrja á því að sjóða kartöflurnar í 20 mínútur þar sem það tekur óratíma að grilla stórar kartöflur.

  2. Vefjið hvorri kartöflu inn í álpappír ásamt klípu af vegan smjöri og salti

  3. Grillið kartöflurnar í álpappírnum í 15 mínútur, gott er að snúa þeim af og til.

  4. Hrærið saman majónesinu og chillimaukinu fyrir heimagert chillimajó

  5. Skerið chorizo pylsuna í litla bita og steikið í 2-3 mínútur upp úr olíu á vel heitri pönnu.

  6. Skerið ofan í kartöflurnar, setjið klípu af vegan smjöri og smá salt ofan í og stappið því aðeins saman við kartöfluna. Dreifið chilli majónesinu, chorizo pylsubitunum og niðurskornum graslauk yfir og berið fram.

Vatnsmelónu grillsalat

  • 1/2 stór vatnsmelóna

  • 1 gúrka

  • 1/2 rauðalukur

  • safi úr 1/2 lime

  • örítið salt

  • Niðursöxuð mynta (má sleppa)

Aðferð:

  1. Skerið vatnsmelónuna, gúrkuna og rauðlaukinn niður í þá stærð sem þið kjósið.

  2. Blandið saman í skál og hellið safanum af límónunni yfir. Setjið salt og myntu saman við og blandið vel saman.

  3. Berið fram með öllum grillmat eða sem forréttur fyrir hvaða mat sem er.

-Njótið vel

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna og fást öll hráefnin þar

 
KRONAN-merki (1).png
 


Nektarínu grillbaka á hvolfi

IMG_9450.jpg

Grill eftirréttir finnst mér alltaf jafn skemmtilegir. Ég hugsa að ég noti aldrei jafn mikið af ákvextum í eftirrétti og þegar ég er að gera rétt á grillinu. Grillaðir ávextir eru svo ótrúlega góðir og verða eitthvað svo extra sætir og safaríkir. Ég elska að henda banönum og ananas sneiðum á grillið og borða með góðum ís og kannski súkkulaði en það er svo þægilegur og einfaldur eftirréttur.

IMG_9442.jpg

Þessi baka er ekki síður auðveld og svo er hún svo ótrúlega falleg þegar búið er að hvolfa henni. Mesta snilldin við hana er að það er hægt að nota hvaða ávexti með hugurinn girnist. Mér finnst passa fullkomlega að nota epli, perur eða góð ber en í þetta skipti deili ég með ykkur uppskrift þar sem ég nota nektarínur. Það er hægt að fá nektarínur í öllum búðum akkúrat núna og þær passa svo vel í þennan rétt. Þær verða svo safaríkar og sætar þegar þær bakast á grillinu.

IMG_9445.jpg
IMG_9447.jpg

Þessi baka er einnig svo mikil snilld þar sem notast er við keypt deig og niðurskorna ávexti svo það er auðvelt að skera ávextina niður og setja í box, kaupa deigið og taka þetta með sér hvert sem er. Bakan er bökum í álbakka en það þarf að passa vel að kaupa ekki álbakka með götum því þá mun allur safi leka niður í grillið. Ég ber kökuna fram með góðm vegan ís en akkúrat núna er ísinn frá Jude´s sem fæst í Krónunni í rosalega miklu uppáhaldi hjá mér svo ég notaðist við vanilluísinn frá þeim. Það má alveg vera með bragðmeiri ís með eða bæta jafnvel súkkulaði með í bökuna. Ef það er gert þarf að passa að setja súkkulaðið ekki neðst í bakkan því þá gæti það brunnið. Það er best að strá því yfir ávextina áður en deigið er sett yfir.

IMG_9451.jpg

Hráefni:

  • 5-6 nektarínur

  • 1 askja hindber

  • 1 askja brómber

  • 1/2 dl sykur

  • 1 pakki upprúllað smjördeig úr Krónunni.

Aðferð:

  1. Skolið og skerið niður nektarínurnar.

  2. Setjið alla ávextina í skál og stráið sykrinum yfir og blandið saman (þessu má alveg sleppa þar sem ávextirnir verða mjög sætir á grillinu. Mér finnst bakan þó verða extra gómsæt ef það er settur smá sykur).

  3. Hellið ávextunum í álbakka og dreifið vel úr.

  4. Rúllið út deiginu og stingið í það nokkur göt með gaffli. Leggið deigið yfir álbakkan og skerið meðfram bakkanum. Klemmið deigið aðeins við kanntana á bakkanum.

  5. Setjið grillið á meðallága stillingu og hafið grillið sem mest lokað á meðan bakan er á grillinu. Bakið í 15 til 20 mínútur eða þar til deigið verður fallega gyllt að ofan.

  6. Takið bökuna af grillinu og leyfið henni að standa í 5-10 mínútur áður en henni er hvolft á disk. Best er að setja bakkan á stóran disk og setja annan stóran disk yfir og hvolfa bökunni þannig.

  7. Berið fram með góðum vegan ís eða vegan þeyttum rjóma.

-Njótið vel.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Grillspjót með grænmeti og tófú, og köld piparsósa

IMG_9424.jpg

Við erum loksins farin að finna fyrir smá sumri hérna í höfuðborginni og sjá smá sól en það er fátt sem mér finnst betra þegar það sést í sól en að grilla. Grillmatur er bara eitthvað svo einstaklega góður og stemmingin við að grilla er engu lík. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að prófa nýja rétti á grillið á sumrin og er það svo sannarlega ekkert mál að gera góðan vegan grillmat. Það er hægt að finna fullt af góðum hamborgurum og pylsum eða öðrum vegan “kjöt” vörum í búðum í dag og er alls konar grænmeti einnig einstaklega gott á grillinu.

Í þetta skiptið ætla ég hins vegar að deila með ykkur, í samstarfi við Krónuna, ótrúlega góðum grillpinnum með alls konar grænmeti og tófú. Tófú er snilldar hráefni sem passar í alls konar rétti þar sem það er tiltölulega bragðlítið eitt og sér en ef það er marinerað dregur það í sér bragðið af marineringunni. Það passar því alveg ótrúelga vel á grillið þar sem grillmarinergingar er algjört lykilatriði oft í grillmat. Ég notaðist við gómsæta sítrónu og kryddjurta marinerignu en hún passar fullkomlega með grænmeti og tófu. Það má nota allt það grænmeti sem manni dettur í hug í þessari uppskrift.

IMG_9426.jpg

Það sem er svo þægilegt við þennan rétt er að auðvelt er að græja marineringuna í box, skera grænmetið og tófúið út í og taka þetta með sér hvort sem það er í útileguna, sumarbústað eða í grillveisluna. Þá þarf einfaldlega að þræða pinnana, skella þeim á grillið og maturinn er tilbúin. Það finnst mér alveg æði því þá þarf ekki að fara í einhverja sérstaka “eldamennsku” í útilegunni en mér finnst lang þægilegast að fara í útilegur með matinn nánast tilbúin og að þurfa ekki að undirbúa hann mikið á staðnum.

IMG_9419.jpg

Grillpinnana ber ég fram með því meðlæti sem ég á til hverju sinni. Grillaðar kartöflur finnst mér vera algjörlega ómissandi og köld piparsósa einnig. Í þetta skiptið var ég einnig með grillaðan aspas sem ég velti aðeins upp úr ólífuolíu og salti áður en ég setti hann á grillið. Grillaður maís passað einnig mjög vel með en ef ég grilla maís þá sýð ég hann fyrst í um 10 mínútur því þá verður hann extra safaríkur. Það geri ég einnig við kartöflurnar áður en ég grilla þær.

IMG_9432.jpg

Grillpinnar (sirka 10 spjót, fyrir 4)

  • Marinering

    • 3/4 dl góð ólífuolía

    • 3/4 dl sítrónusafi (safi úr sirka 2 sítrónum)

    • börkur af 1 sítrónu

    • 3-4 hvítlauksgeirar

    • 1 msk oreganó

    • 1 msk rótargrænmetiskrydd frá pottagöldrum (eða einhvers konar blandaðar jurtir)

    • 1-2 msk ferskt timían

    • 1 tsk papríkuduft

    • 1 tsk laukduft

    • 1/2 tsk chilli duft eða chilli flögur (má sleppa)

    • 1 msk sesamfræ

  • 1/2 rauð paprika

  • 1/2 gul eða appelsínugul papríka

  • 1 rauðlaukur

  • 1 pakki kastaníusveppir

  • 1 pakki tófú

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum fyrir marineringuna í stóra skál eða stórt box.

  2. Skerið grænmeti og tófúið í mjög grófa bita, bitarnir eiga að vera frekar stórir svo þeir tolli vel á grillpinnunum.

  3. Setjið grænmetið og tófúið út í marineringuna og veltið því vel um þar til allir bitar eru vel þakknir af kryddolíunni.

  4. Leyfið þessu að liggja í marineringunni í að minnsta kosti 30 mínútur, en því meiri tíma sem þetta fær að hvíla því betra.

  5. Byrjið að huga að meðlætinu en ég var með grillaðar kartöflur, aspas, blandað ferskt salat og kalda sósu með. Uppskrift af sósunni er hér fyrir neðan.

  6. Takið um 10 grillpinna og leyfið þeim að liggja í vatni í 10 til 15 mínútur. Takið pinnana úr vatninu og þræðið grænmeti og tófú á þá í þeirri röð sem þið viljið.

  7. Grillið í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til grænmetið og tófúið fær fallegar “bruna” rákir. Við mælum með að hafa grill álbakka undir svo maturinn brenni ekki of mikið að utan.

Köld piparsósa

  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt

  • 1 dl vegan Krónu majónes

  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1-2 msk vatn (eftir því hversu þunna þið viljið sósuna)

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman í skál.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur og krónuna ef þið hendið í vegan grillveislu með uppskriftinni þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að sjá myndir frá ykkur <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png
 

Vegan hamborgari með bjórsteiktum lauk og hamborgarasósu

IMG_6520-5.jpg

Þá er komið að seinni færslunni í samstarfi okkar við Anamma í júní. Eins og við nefndum síðast þá erum við að vinna með nýja hakkið frá þeim sem mótast sérstaklega vel og hentar fullkomlega til að útbúa góða borgara eins og þennan. Í síðustu færslu deildum við með ykkur uppskrift af geggjuðum vegan bollum með ritz kexi og döðlum og við höfum fengið virkilega góð viðbrögð við þeim. Í dag er komið að þessum djúsí borgara sem er geggjaður á grillið eða pönnuna. Þetta nýja hakk er alger “game changer” og við erum ekkert smá ánægðar með að fá að vinna með svona góðar vandaðar vörur. Vörurnar frá Anamma fást í Hagkaup og Bónus og svo í ýmsum minni verslunum eins og Melabúðinni og Fjarðarkaup.

IMG_6494-5.jpg

Það er æðislegt að sjá úrvalið af vegan vörum aukast svona gríðarlega eins og gerst hefur síðustu ár. Það er ekkert svo langt síðan vegan borgarar voru alltaf gerðir úr hefðbundnu grænmetisbuffi með tómatsósu. Í dag er hinsvegar hægt að velja á milli allskonar borgara, en þar til fyrir stuttu var svolítið vesen að útbúa heimagerða borgara úr sojahakki. Það breyttist þó algerlega þegar Anamma byrjaði að framleiða nýja hakkið sitt og í dag er ekkert mál að útbúa djúsí heimagerða borgara.

IMG_6497-6.jpg

Við ákváðum að byrja á því að gera svolítið klassíska uppskrift. Uppskrift sem er geggggjuð eins og hún er en býður uppá það að setja hana í eigin búning ef maður vill. Þessa borgara er ekkert mál að grilla og við getum eiginlega lofað ykkur að jafnvel hörðustu kjötætur eiga eftir að elska þá.

IMG_6500-5.jpg

Í þetta skipti útbjuggum við gómsæta hamborgarasósu með borgurum og toppuðum þá einnig með bjórsteiktum lauk sem er ekkert smá góður. Hamborgarasósuna gerum við í hvert skipti sem við gerum okkur borgara. Það tekur enga stund að útbúa hana og hún er dásamleg. Við settum svo hvítlauksmæjónes á borgarann líka, en það var mest til að fá fallega mynd hehe.

IMG_6518-4.jpg

Eins og ég skrifaði að ofan er þessi uppskrift alveg svakalega góð, en það er auðvelt að prufa sig áfram og gera eitthvað aðeins öðruvísi úr henni. Ég hef t.d. stundum sett smá estragon út í og það gefur mjög skemmtilegt bragð. Eins er rosalega gott að blanda út í borgarann vegan fetaosti. Við erum mjög spenntar að heyra hvað ykkur finnst um borgarann og eins hvað ykkur þykir skemmtilegast að útbúa úr þessu frábæra nýja hakki frá Anamma.

IMG_6523-7.jpg

Hamborgarar 4 stykki

  • 440 gr formbar hakkið frá Anamma

  • 1 msk laukduft

  • 1 msk hvítlauksduft

  • 1-2 tsk sojasósa

  • 1 tsk gróft sinnep eða dijon sinnep

  • 2 tsk kjöt og grillkrydd

  • salt og pipar

  • BBQ sósa til að pennsla yfir (má sleppa)

Aðferð:

  1. Takið hakkið úr frysti um það bil klukkutíma áður en matreiða á borgarana.

  2. Setjið öll kryddin út í þegar hakkið hefur aðeins fengið að þiðna.

  3. Mótið 4 buff út hakkinu (sirka 110 gr hvert buff) og steikið eða grillið í nokkrar mínútur á hvorri hlið.

  4. Pennslið með BBQ sósu áður en borgararnir eru matreiddir ef þið kjósið. Það er alls engin nauðsyn en okkur þykir það svakalega gott.

Hamborgarasósa

  • 1-1 1/2 dl vegan majónes (keypt eða eftir uppskrift hérna af blogginu)

  • 1/2 dl tómatsósa

  • 1/2 dl mjög smátt saxaðar súrar gúrkur

  • 1 tsk paprikuduft

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1 tsk laukduft

  • salt

Aðferð:

  1. Saxið súru gúrkurnar mjög smátt.

  2. Hrærið öllum hráefnunum saman í skál

Bjórsteiktur laukur

  • 2 stórir laukar

  • 1 msk sykur

  • 1 msk soyasósa

  • salt og pipar

  • 2-3 msk bjór

Aðferð:

  1. Skerið laukana í frekar þunnar sneiðar.

  2. steikið laukinn upp úr smá olíu þar til hann fer að brúnast vel.

  3. Bætið salt og pipar, sykri og soyasósu og steikið í nokkrar mínútur í viðbót.

  4. Bætið bjórnum útí og steikið í góðar 5 til 10 mínútur.




anamma.png

-Þessi færsla er unnin í samstarfi við Anamma á Íslandi-

Auðveldir grill borgarar

Það er nauðsynlegt að eiga alla vegana eina skothelda hamborgara uppskrift á sumrin. Ég ákvað þar sem að það fer að styttast í vorið og sumarið og margir farnir að grilla að henda í eina slíka núna í páskafríinu. Það er ekkert mál að fá vegan borgara út í búð nú til dags en það er samt eitthvað við það að bera fram ljúfenga, heimagerða borgara.

Ég man þegar ég var yngri gerði ég stundum heimagerða borgara úr hakki sem voru ekki svo flóknir og þar sem mikið er til að vegan hakki nú til dags ákvað ég að útbúa borgara úr slíku, þar sem það er alveg ótrúlega einfalt og fljótlegt. Ég valdi nýjasta hakkið á markaðnum en það er hakk frá merkinu Linda McCartney og fæst í Bónus og Hagkaup. Ástæðan fyrir því að ég valdi það hakk er að það kemur í kílóa pakkningum og er fyrir vikið ódýrara en annað sem ég hef fundið.

Þegar ég geri heimagerð buff og bollur finnst mér lang best að gera mikið í einu og frysta frekar en að gera bara akkúrat það sem verður borðað. Úr þessari uppskrift koma 10 stórir borgarar en ég geri oftast eins marga borgara og ég þarf og rúlla svo litlar kjötbollur úr restinni og frysti. Þá get ég skellt þeim í ofnin einhvern tíman þegar tími til að undirbúa kvöldmat er takmarkaður.

Það er tilvalið að skella þessum á grillið í sumar en þeir eru ótrúlega vinsælir hjá mér hvort sem það er hjá grænkerum eða öðrum. Karamellaður laukur og bbq sósa gera þá virkilega bragðgóða og hakkið gerir mjög góða áferð. Ég hef hvern hamborgara stóran eða allt að 130gr en sú stærð hefur mér fundist best, en ég reikna oftast ekki með meira en einum á mann þar sem flestir virðast mátulega saddir eftir þessa stærð.

Mér finnst ofnbakaðar kartöflur vera algjör nauðsyn með góðum borgara en það er ótrúlega einfalt að útbúa svoleiðis. Ég einfaldlega sker kartöflurnar í þá stærð sem að mér finnst best, hvort sem það eru litlar franskar eða bátar. Svo helli ég örlítilli olíu og kryddblöndu yfir, og baka í ofninum við 210°C í u.þ.b. hálftíma. Þau krydd sem ég nota oftast eru: salt, pipar, laukduft, hvítlauksduft og paprikuduft.

Write here...

Write here...

Hráefni (10 stórir borgarar):

  • 600 gr Linda McCartney hakk + 300 ml vatn

  • 2 dósir svartar baunir

  • 1 laukur, smátt skorin

  • 3 hvítlauksrif, pressuð

  • 1 tsk tímían

  • salt og pipar

  • 75 ml bbq sósa

  • 1/2-1 tsk cayenne pipar

  • 1 - 1 1/2  dl malað haframjöl

  • Valfrjálst: góð kryddblanda að eigin vali en ég setti 2 msk af best á allt kryddi frá pottagöldrum.

Aðferð:

  1. Steikið hakkið á pönnu með vatninu þar til það er heitt og farið að mýkjast vel. Tekur ekki mikið meira en 5 mínútur. Setjið hakkið í blandara eða matvinnsluvél og blandið í smá stund í einu þar til hakkið verður aðeins fínna, en þetta hakk er frekar gróft. Þegar búið er að blanda þetta lítur þetta út eins og frekar þurrt kjörfarst. Setjið hakkið í skál og til hliðar.

  2. Skerið laukinn smátt og pressið hvílaukinn á pönnu og steikið með tímíani þar til laukurinn mýkist vel. Ég steiki upp úr smá vatni en það má alveg nota olíu.

  3. Setjið í blandarann eða matvinnsluvélina baunirnar, bbq sósuna og kryddinn, og blandið þar til alveg maukað. Bætið því ásamt lauknum og haframjölinu út í hakkið og hrærið saman. Ég byrja á að setja 1 dl af haframjöli og ef degið er of blautt til að móta buff með höndunum bæti ég 1/2 dl við.

  4. Mótið buff úr deiginu en það koma 10, 130 gr borgarar úr einni uppskrift. Eins og ég sagði fyrir ofan er hægt að gera rúmlega af buffum eða litlar bollur úr afganginum og frysta.

  5. Bakið í ofni við 180°C í 25-30 mínútur ef það á að bera þá fram strax, en mér finnst það koma betur út þegar þeir eru eldaðir beint en að steikja þá. Ég hins vegar geri deigið oftast fyrirfram og set borgarana þá í 15 mínútur í ofninn, tek þá út og leyfi þeim að kólna alveg. Ef ég ætla að bera þá fram á næstu dögum set ég þá bara í ísskápin og steiki svo á pönnu eða set þá á grillið, þegar þar að kemur. Annars skelli ég þeim bara í frystin og tek út sirka tveimur tímum áður en ég steiki þá. Ég mæli ekki með að setja deigið beint á grill þar sem það er soldið mjúkt og blautt.

Ég bar borgarana að þessu sinni fram með ofnbökuðum kartöflum, fersku grænmeti, steiktum sveppum, bbq sósu og hvítlauksósu, en það er hægt að leika sér á óteljandi vegu með sósur og meðlæti. Ég ætla að láta uppskriftina af hvítlaukssósunni fylgja með.

Hvílaukssósa:

  • 200 ml vegan majónes (uppskrift af heimagerðu er hér)

  • 1/2 hvílauksgeiri

  • 1 tsk hvítlauksduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1-2 tsk þurrkuð steinselja 

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman og leyfið að standa í ísskáp í 20-30 mín áður en borið fram.