Grillspjót með grænmeti og tófú, og köld piparsósa

IMG_9424.jpg

Við erum loksins farin að finna fyrir smá sumri hérna í höfuðborginni og sjá smá sól en það er fátt sem mér finnst betra þegar það sést í sól en að grilla. Grillmatur er bara eitthvað svo einstaklega góður og stemmingin við að grilla er engu lík. Ég hef alltaf verið mjög dugleg að prófa nýja rétti á grillið á sumrin og er það svo sannarlega ekkert mál að gera góðan vegan grillmat. Það er hægt að finna fullt af góðum hamborgurum og pylsum eða öðrum vegan “kjöt” vörum í búðum í dag og er alls konar grænmeti einnig einstaklega gott á grillinu.

Í þetta skiptið ætla ég hins vegar að deila með ykkur, í samstarfi við Krónuna, ótrúlega góðum grillpinnum með alls konar grænmeti og tófú. Tófú er snilldar hráefni sem passar í alls konar rétti þar sem það er tiltölulega bragðlítið eitt og sér en ef það er marinerað dregur það í sér bragðið af marineringunni. Það passar því alveg ótrúelga vel á grillið þar sem grillmarinergingar er algjört lykilatriði oft í grillmat. Ég notaðist við gómsæta sítrónu og kryddjurta marinerignu en hún passar fullkomlega með grænmeti og tófu. Það má nota allt það grænmeti sem manni dettur í hug í þessari uppskrift.

IMG_9426.jpg

Það sem er svo þægilegt við þennan rétt er að auðvelt er að græja marineringuna í box, skera grænmetið og tófúið út í og taka þetta með sér hvort sem það er í útileguna, sumarbústað eða í grillveisluna. Þá þarf einfaldlega að þræða pinnana, skella þeim á grillið og maturinn er tilbúin. Það finnst mér alveg æði því þá þarf ekki að fara í einhverja sérstaka “eldamennsku” í útilegunni en mér finnst lang þægilegast að fara í útilegur með matinn nánast tilbúin og að þurfa ekki að undirbúa hann mikið á staðnum.

IMG_9419.jpg

Grillpinnana ber ég fram með því meðlæti sem ég á til hverju sinni. Grillaðar kartöflur finnst mér vera algjörlega ómissandi og köld piparsósa einnig. Í þetta skiptið var ég einnig með grillaðan aspas sem ég velti aðeins upp úr ólífuolíu og salti áður en ég setti hann á grillið. Grillaður maís passað einnig mjög vel með en ef ég grilla maís þá sýð ég hann fyrst í um 10 mínútur því þá verður hann extra safaríkur. Það geri ég einnig við kartöflurnar áður en ég grilla þær.

IMG_9432.jpg

Grillpinnar (sirka 10 spjót, fyrir 4)

  • Marinering

    • 3/4 dl góð ólífuolía

    • 3/4 dl sítrónusafi (safi úr sirka 2 sítrónum)

    • börkur af 1 sítrónu

    • 3-4 hvítlauksgeirar

    • 1 msk oreganó

    • 1 msk rótargrænmetiskrydd frá pottagöldrum (eða einhvers konar blandaðar jurtir)

    • 1-2 msk ferskt timían

    • 1 tsk papríkuduft

    • 1 tsk laukduft

    • 1/2 tsk chilli duft eða chilli flögur (má sleppa)

    • 1 msk sesamfræ

  • 1/2 rauð paprika

  • 1/2 gul eða appelsínugul papríka

  • 1 rauðlaukur

  • 1 pakki kastaníusveppir

  • 1 pakki tófú

Aðferð:

  1. Blandið öllum hráefnunum fyrir marineringuna í stóra skál eða stórt box.

  2. Skerið grænmeti og tófúið í mjög grófa bita, bitarnir eiga að vera frekar stórir svo þeir tolli vel á grillpinnunum.

  3. Setjið grænmetið og tófúið út í marineringuna og veltið því vel um þar til allir bitar eru vel þakknir af kryddolíunni.

  4. Leyfið þessu að liggja í marineringunni í að minnsta kosti 30 mínútur, en því meiri tíma sem þetta fær að hvíla því betra.

  5. Byrjið að huga að meðlætinu en ég var með grillaðar kartöflur, aspas, blandað ferskt salat og kalda sósu með. Uppskrift af sósunni er hér fyrir neðan.

  6. Takið um 10 grillpinna og leyfið þeim að liggja í vatni í 10 til 15 mínútur. Takið pinnana úr vatninu og þræðið grænmeti og tófú á þá í þeirri röð sem þið viljið.

  7. Grillið í nokkrar mínútur á hverri hlið eða þar til grænmetið og tófúið fær fallegar “bruna” rákir. Við mælum með að hafa grill álbakka undir svo maturinn brenni ekki of mikið að utan.

Köld piparsósa

  • 1 dl oatly sýrður rjómi eða hreint sykurlaust vegan jógúrt

  • 1 dl vegan Krónu majónes

  • 2 tsk grófmalaður svartur pipar

  • 1/2 tsk laukduft

  • 1/2 tsk salt

  • 1 tsk sítrónusafi

  • 1-2 msk vatn (eftir því hversu þunna þið viljið sósuna)

Aðferð:

  1. Hrærið öllu saman í skál.

-Njótið vel og endilega verið dugleg að tagga okkur og krónuna ef þið hendið í vegan grillveislu með uppskriftinni þar sem okkur finnst svo ótrúlega gaman að sjá myndir frá ykkur <3

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Krónuna.

 
KRONAN-merki.png